Indriði H. Þorláksson

Forsíða » 2015 » mars

Mánaðarleg afrit: mars 2015

Veiðigjöld 2015

Von mun á nýju frumvarpi um veiðigjöld. Má búast við að það verði framhald á þeim ferli að lækka veiðigjöldin og afnema þau sem tæki til að tryggja þjóðinni arð af fiskveiðiauðlindinni. Til stendur að afnema sérstaka veiðigjaldið sem byggt var á umframarði í greininni. Öll tengsl við auðlindaarðinn yrðu þannig afnumin og eftir stæði gjald til að jafna á greinina opinberum kostnaði við fiskveiðistjórnunarkerfið og öðrum kostnaði sem tengjast sjávarútvegi. Löng reynsla er fyrir því að slíkt gjald verður lágt enda ákveðið í samkomulagi við útgerðaraðalinn. Full ástæða er til þess að fylgjast vel með þessu máli. Talsmenn stjórnarflokkanna (eða að minnsta kosti annars þeirra) hafa haft uppi stór orð um að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar.  Nú reynir á það hvort slík orð eru innantómur frasi í munni þeirra eða hvort þau hafa raunverulegt inntak þess efnis að eign á auðlindum fylgi réttur til arðs af eigninni. Umframarður í sjávarútvegi, þ.e. hagnaður umfram allan tilkostnað að meðtöldum stofn- og fjármagnskostnaði hefur verið margir tugir milljarða á ári í mörg undanfarin ár. Þessi arður er eign þjóðarinnar. Greinar sem ég skrifaði á árunum 2013 og 2014 um fyrri skref á þessum ferli er að finna á vefsíðu minni indridih.com undir síðunni Auðlindir.

Skattagrið og glæpahagfræði

Það tók tíma að ákveða viðbrögð við tilboði uppljóstrara um kaup á upplýsingum um hugsanleg skattsvik íslenskra skattborgara. Þegar ljóst var að ekki yrði undan kaupunum vikist varð að ráði  að undirbúa löggjöf að fyrirmynd annarra landa sem linað gæti kárínur þeirra sem upp kemst um og þeir um leið hvattir til iðrunar. Hópur var settur til starfa 3. desember sl. skilaði hann tillögum 6. mars. Má telja það vel að verki staðið.

Tillögur hópsins virðast við fyrstu sýn ekki slæm lagatæknileg lausn. Skattsvikarar taka fé ófrjálsri hendi og það er ekki einfalt að uppfylla kröfu um jafnræði gagnvart þeim sem uppvísir hafa orðið að fjárdrætti eða þjófnaði með öðrum hætti. Markmiðið er um leið að bæta almannahag með betri skatthlítni og auknu jafnræði í skattframkvæmd í framtíðinni. Tillögur hópsins eru líklega hugsaðar sem leið að því marki í umhverfi þar sem viðurlög við ólíkum tegundum fjársvika eru þegar með mismunandi hætti. Þess þarf þó að gæta að hjá skattyfirvöldum og úrskurðaraðilum um skattamál hafa verið, eru og verða til úrlausnar mál þar sem beitt er viðurlagaákvæðum skattalaganna án tilslakana. Skattagrið til handa þeim sem iðrast eða óttast refsingu geta sett þá framkvæmd í uppnám ef ekki er farið fram af gát. (meira…)

Dyrhólaey og Gísli B. Björnsson

Dyrhólaey, móbergsstapi með dröngum úti fyrir, er glæsilegur útvörður landsins í suðri. Eyjan er vinsælt viðfang ljósmyndara hvort sem myndað er úr austri eða vestri og hefur verið fyrirsæta myndlistamanna. Mynd sem ég tók af Dyrhólaey úr Reynisfjöru á miðnætti 30 júní 2011 hef ég í nokkur ár notað sem kennimynd á vefsíðu minni sem og á fésbók minni https://www.facebook.com/inhauth.

Fyrir nokkrum vikum leit ég við á vinnustofu Gísla B. Björnssonar og sá þar lítið málverk sem hann hafði gert fyrir nokkrum árum af Dyrhólaey séðri úr Reynisfjöru. Ég get ekki neitað því að ég fylltist nokkru stolti yfir að hafa fest á filmu sömu sýn og mikill meistari forms og lita hafði hrifist af og túlkað á myndfleti sínum.

Hér að neðan má sjá ljósmynd mína og mynd af málverki Gísla B. og er ég ábyrgur fyrir ófullnægjandi litgæðum.

IMG_0335

p63012002.jpg