Indriði H. Þorláksson

Forsíða » 2016 (Síða 2)

Árskipt greinasafn fyrir: 2016

“Úttekt á íslensku skattkerfi” – tillögur verkefnisstjórnar um skatta –

Út er komin skýrsla að nafni “Úttekt á íslensku skattkerfi”, rúmlega 100 litríkar blaðsíður, en spör á orð, upplýsingar og rök. Ég setti á heimasíðu mína nokkur orð um hvernig þessi „skýrsla“ kemur mér fyrir sjónir.

 

https://indridih.com/skattar-almennt/uttekt-a-islensku-skattkerfi-tillogur-verkefnisstjornar-um-skatta/

Skattaspor sjávarútvegs

Prédikun framkvæmdastjóra SFS var sérkennileg byrjun umræðufundar RÚV um auðlindamál en sýndi þó að unnt er að bera moðsuðu á borð með ýmsum hætti. Eftir tugmilljarða hagnað sjávarútvegs á síðustu árum er gráthljóð ekki lengur söluvænt en í staðinn kom söngur um þá dásemd sem kvótakóngarnir færa þjóðinni.

Þessi lofsöngur kom einnig fram í málflutningi talsmanns þeirra í umræðum á Hringbraut 12. október s.l.  …….. Skattaspor sjávarútvegs

Af hverju að lækka ekki skatta?

 

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Í þann mund að við nokkrir félagar komum að sumarbústað í Borgarfirði í síðustu viku til þess að hefja spilamennsku vetrarins með hefðbundnum hætti fékk ég símtal frá mér ókunnum manni. Kristján kvaðst hann heita, föðurnafninu náði ég ekki. Eftir að hafa fullvissað sig um að hafa náð sambandi við fyrrverandi ríkisskattstjóra lagði hann fyrir mig spurningu: “Af hverju lýsir enginn stjórnmálamaður yfir því að það sé ekki hægt að lækka skatta?”

Ég átti von á rausi um varanleika skatta og þar sem ég hirði ekki um að svara möntrum hikaði ég við. Hann hélt þá áfram, sagðist lengi hafa fylgst með pólitík og þjóðfélagsþróun og hverjum manni ætti að vera ljóst að ekki væri hægt að lækka skatta á meðan fé vantaði til að halda uppi heilbrigðiskerfi og menntakerfi og velferð aldraðra og öryrkja væri í hættu. Samgöngukerfi landsins væri að grotna niður á sama tíma og álag á það eykst. Hann sagðist ekki geta ímyndað sér að nokkur stjórnmálamaður væri svo vitlaus að hann tryði því að á meðan svo er sé hægt að lækka skatta. Hann sagðist vilja sjá stjórnmálamenn stíga fram og viðurkenna þessa einföldu staðreynd og lýsa yfir því að þeir vilji breyta sköttum eins og til þarf til að byggja upp sómasamlegt samfélag.

Orð viðmælanda míns, sem rökstuddi mál sitt vel og ítarlegar en hér var rakið, bregður ljósi á hræsni og lýðskrum þeirra, sem nú boða lækkun skatta með annarri tungunni en lofa úrbótum og auknu fé á öllum sviðum með hinni. Við þurfum ekki loddara og fagurgala á Alþingi heldur raunsætt fólk sem veit að góð opinber þjónusta, velferð og uppbygging efnislegra og félagslegra innviða samfélagsins kostar mikið og veit einnig og er óhrætt við að segja það að skattar eru það verð sem við þurfum að greiða fyrir að lifa í siðuðu samfélagi.

Sem betur fer er landið ríkt og íslensk þjóð í færum til að greiða þetta verð ef auðlindir landsins eru nýttar í almannaþágu og samfélagslegum kostnaði er dreift á sanngjarnan hátt.

Ársreikningar Panama-félaga

 

Haustið er milt og snjór sést varla á fjöllum en fljótt virðist fenna yfir sporin sem Panamaskjölin afhjúpuðu á vormánuðum. Kannski er um að kenna vanmætti fjölmiðla til að fylgja málum eftir eða e.t.v. skorti á vitneskju um hvernig framvinda mála er þegar upp kemur efi um hvort rétt hafi verið staðið að málum. …

Ársreikningar Panama-félaga

Innanlandsflug og ferðaþjónusta

Á vormánuðum þegar ég var að undirbúa leiðsöguferð sumarsins, sem vel að merkja er ein best skipulagða ferð sem völ er á, gerði ég drög að grein um ferðamál og innanlandsflug, sem byggðist á ýmsu sem komið hafði upp í samtölum við kollega mín á þeim vettvangi. Á síðustu dögum hefur þau sjónarmið sem ég hafði í huga komið fram hjá nokkrum þeirra sem tjáð sig hafa um innanlandsflug í fjölmiðlum á síðustu dögum. Sjáandi að ég var ekki einn á báti lét ég verða af því að fullskrifa greinina og birta hana á heimasíðu minni indridih.com undir nafninu: Innanlandsflug og ferðaþjónusta

 

Þunn eiginfjármögnun – eða þagað þunnu hljóði í 12 ár-

 

tilberi

Setti inn á heimasíðu mína smá grein:

Þunn eiginfjármögnun – eða þagað þunnu hljóði í 12 ár

„……….. Með framangreint í huga er ekki undarlegt að stjórnvöld, sem virðast hafa haft þá afstöðu að skattasniðganga sé hluti eðlilegra viðskipthátta og stuðlað að henni, hafi þagað þunnu hljóði í þau 12 ár sem liðin eru síðan tillögur skattsvikanefndarinnar komu fram. Það væri fróðlegt að sjá hvað sú þögn hefur kostað?“

Auðmannagæska

Ekki er ástæða til að vanþakka vilja Mosfellinga til að lina þjáningar auðugra útlendinga. Líklegt er að bláeygð bæjarstjórn þeirra hafi verið blinduð af því glópagulli sem erlend fjárfesting hefur jafnan verið húðuð og talið að hún væri í leiðinni að efla íslenskt efnahagslíf. En ætli hinum erlendu fjárfestum hafi með staðarvalinu gengið það helst til að líkna þjáðum og efla íslenskan hag?

Efnahagsleg áhrif af atvinnustarfsemi ráðast af þeim virðisauka sem hún skapar og hvert hann fer, ekki síst hvort hann verður eftir í landinu eða fer í vasa erlendra aðila. Virðisaukinn eru allar tekjur af starfseminni, laun, fjármagnstekjur svo sem vextir og og hagnaður og eftir atvikum renta. Skattar af þessum tekjum eru sá þáttur virðisaukans sem rennur til samfélagsins. Í tilviki því sem um ræðir er þessi mynd fremur einföld. Innlend aðföng, önnur en vinnnuafl að hluta, eru óveruleg og rekstrarkostnaður að mestu laun og fjármagnskostnaður vegna húsnæðis og tæjabúnaðar. En hvert renna tekjurnar.

Fjármagnstekjur. Sjúkrahúsið á að byggja fyrir erlent lánsfé og hefur fjárfestum verið lofað góðri ávöxtun. Fjárfestarnir munu vera hollenskir og enginn skattur er lagður á vaxtagreiðslur þangað. Hvorki vaxtatekjur né skattur af þeim verða eftir í landinu.

Hagnaður. Verði hagnaður af starfseminni hér á landi ætti að leggja á hann með 20% skatt, sem er einn lægsti skattur á fyrirtæki, sem fyrirfinnst á Vesturlöndum. Líklegt er þó að skattalegum hagnaði verði eytt á pappírunum með yfirskuldsetningu gagnvart tengdum aðilum en af örlæti leyfum við slíkt fárra þjóða og er m.a. notað ótæpilega af álverum, sem fengu tryggingu fyrir því með samningunum um Reyðarál 2005. Óvarlegt er að reikna með að nokkur tekjuskattur af rekstri heilsuspítalans verði eftir í landinu.

Arður. Þrátt fyrir skattalegt tap á pappírunum kunna forsendur vera til að greiða hluthöfum arð. Arðurinn rennur til hinna erlendu hluthafa og ekki verður tekinn skattur af honum vegna ákvæða í tvísköttunarsamningi við Holland. Hvorki arður né skattur af honum verður eftir í landinu.

Laun innlends starfsfólks. Gera má ráð fyrir að nokkur hluti starfsfólks einkum í lægra launuðum þjónustustörfum og að einhverju leyti í hjúkrunarstörfum verði fólk með fasta búsetu hér á landi. Laun og tekjuskattur af fyrrnefnda hópnum skilar sér að vísu í vasa íslenskra aðila en vafasamt er hvort þar sé um að ræða viðbót við landsframleiðslu. Við hátt atvinnustig eins og nú er og verið hefur lengst af hér á landi hefur ný starfsemi ruðningsáhrif, þ.e. tekur fólk úr öðrum störfum og er þá um óverulega aukningu heildartekna að ræða.

Laun erlends starfsfólks. Líklegt er að læknar og aðrir sérfræðingar og hluti starfsfólks í séhæfðum verkefnum verði erlendir borgarar sem koma til styttri dvalar hér á landi. Hluti þeirra mun líklega dvelja hér minna en 183 daga á ári, hafa takmörkuð efnahagsleg umsvif og ekki greiða skatt hér á landi. Fyrir hinn hlutann myndi frumvarp sem fjármálaráðherra lagði fram á vorþingi 2016 koma að gagni og leiða til þess að að útsvar þeirra og tekjuskattur yrði 30 til 35% lægri en ella. Hætt er við að lítið yrði eftir af tekjum þessum í landinu auk þess ójafnræðis sem þessi reglu felur í sér.

Jákvæð efnahagsleg áhrif af rekstri heilsuspítala með þeim hætti sem lagt er upp með í Mossfellssveit yrðu óveruleg fyrir Ísland. Að vísu myndi sveitarfélagið fá í sinn hluta fasteignagjöld og ríkið fengi tryggingargjald en hafa þarf í huga að fyrirtækið og starfsmenn þess ættu rétt á opinberri þjónustu í sama mæli og aðrir sem hér búa og að komið hefur fram að gert sé ráð fyrir enn frekari ívilnunum sem skerða myndi þær tekjur. Tekjur opinberra aðila yrðu því litlar.

Kann það að vera að auðmannagæskan hafi ekki ein ráðið staðarvalinu heldur hafi Ísland haft betur í samkeppni við Tortóla?