Indriði H. Þorláksson

Efnisyfirlit, greinar

Staðhæfingar fjármálaráðherra og staðreyndir um skatta

Fjármálaráðherra virðist hafa komist að því við lestur greinar minnar Skattapólitík 1993 til 2015 um samanburð á skattlagninu tekna á árunum 1993 til 2015 að skattbyrði hefði vaxið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Athugasemdir ráðherra benda þó til þess að hann hafi ekki kynnt sér greinina nægilega vel. Með því hefði hann komist hjá að setja fram í þeim staðleysur einar.

Ráðherra heldur því fyrst fram að tekjuskattur hafi lækkað en viðurkennir í næsta orði að skatthlutfall (skattbyrði) hafi hækkað hjá flestum en fer ranglega með að þess hafi ekki verið getið í grein minni að það megi rekja til breytinga á tekjum. Því næst kemur sú staðhæfing að skattar hafi fyrir flesta lækkað um 3,3 prósentustig. Slík hefði þýtt að skattar hjá samköttuðum hefðu lækkað um ca 22 milljarða króna.

Staðreyndirnar eru að frá 2012 til 2015 hafa álagðir beinir skattar hækkað hjá flestum, m.a. vegna breytinga á tekjum. Afgerandi staðreynd er að hjá flestum (ca 80% samskattaðra) hafa þeir hækkað hlutfallslega meira en tekjur og það hefur leitt til hækkunar á skattbyrði sem nemur um 1,2  prósentum af tekjum að jafnaði. Hjá tekjuhæstu 20% samskattaðra hafa beinir skattar hins vegar hækkað hlutfallslega minna en tekjur þeirra og hefur það leitt til lækkunar á skattbyrði sem nemur um 8,5 prósentum af tekjum. Að hluta er það vegna brottfalls auðlegðarskatts og aukinna fjármagnstekna.

Hækkun skattbyrði hjá 80% samskattaðra svarar til þess að þeir greiði 7 milljörðum króna meira í skatt en verið hefði að óbreyttri skattbyrði en ekki 22 milljörðum króna minna eins og staðhæfing ráðherra felur í sér. Tekjuhæstu 20% samskattaðra greiða um 8 milljörðum króna minna í skatt en verið hefði að óbreyttri skattbyrði.

Skattapólitík 1993 til 2015

Ég birti í Stundinni sl. fimmtudag (20.10.2016) grein með þessu nafni þar sem ég rek það hvernig skattbyrði af beinum sköttum hefur breyst á síðustu áratugum og hvernig þær breytingar tengjast því hvaða flokkar fóru með landsstjórnina. Þar kemur fram að stjórnvöld geta rekið virka skattapólitík og náð markmiðum sem þau setja. Veldur hver á heldur.

Grein þessi er nú einnig að finna á heimasíðu minni indridih.com með tenglinum: Skattapólitík 1993 til 2015

“Úttekt á íslensku skattkerfi” – tillögur verkefnisstjórnar um skatta –

Út er komin skýrsla að nafni “Úttekt á íslensku skattkerfi”, rúmlega 100 litríkar blaðsíður, en spör á orð, upplýsingar og rök. Ég setti á heimasíðu mína nokkur orð um hvernig þessi „skýrsla“ kemur mér fyrir sjónir.

 

https://indridih.com/skattar-almennt/uttekt-a-islensku-skattkerfi-tillogur-verkefnisstjornar-um-skatta/

Skattaspor sjávarútvegs

Prédikun framkvæmdastjóra SFS var sérkennileg byrjun umræðufundar RÚV um auðlindamál en sýndi þó að unnt er að bera moðsuðu á borð með ýmsum hætti. Eftir tugmilljarða hagnað sjávarútvegs á síðustu árum er gráthljóð ekki lengur söluvænt en í staðinn kom söngur um þá dásemd sem kvótakóngarnir færa þjóðinni.

Þessi lofsöngur kom einnig fram í málflutningi talsmanns þeirra í umræðum á Hringbraut 12. október s.l.  …….. Skattaspor sjávarútvegs

Af hverju að lækka ekki skatta?

 

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Í þann mund að við nokkrir félagar komum að sumarbústað í Borgarfirði í síðustu viku til þess að hefja spilamennsku vetrarins með hefðbundnum hætti fékk ég símtal frá mér ókunnum manni. Kristján kvaðst hann heita, föðurnafninu náði ég ekki. Eftir að hafa fullvissað sig um að hafa náð sambandi við fyrrverandi ríkisskattstjóra lagði hann fyrir mig spurningu: “Af hverju lýsir enginn stjórnmálamaður yfir því að það sé ekki hægt að lækka skatta?”

Ég átti von á rausi um varanleika skatta og þar sem ég hirði ekki um að svara möntrum hikaði ég við. Hann hélt þá áfram, sagðist lengi hafa fylgst með pólitík og þjóðfélagsþróun og hverjum manni ætti að vera ljóst að ekki væri hægt að lækka skatta á meðan fé vantaði til að halda uppi heilbrigðiskerfi og menntakerfi og velferð aldraðra og öryrkja væri í hættu. Samgöngukerfi landsins væri að grotna niður á sama tíma og álag á það eykst. Hann sagðist ekki geta ímyndað sér að nokkur stjórnmálamaður væri svo vitlaus að hann tryði því að á meðan svo er sé hægt að lækka skatta. Hann sagðist vilja sjá stjórnmálamenn stíga fram og viðurkenna þessa einföldu staðreynd og lýsa yfir því að þeir vilji breyta sköttum eins og til þarf til að byggja upp sómasamlegt samfélag.

Orð viðmælanda míns, sem rökstuddi mál sitt vel og ítarlegar en hér var rakið, bregður ljósi á hræsni og lýðskrum þeirra, sem nú boða lækkun skatta með annarri tungunni en lofa úrbótum og auknu fé á öllum sviðum með hinni. Við þurfum ekki loddara og fagurgala á Alþingi heldur raunsætt fólk sem veit að góð opinber þjónusta, velferð og uppbygging efnislegra og félagslegra innviða samfélagsins kostar mikið og veit einnig og er óhrætt við að segja það að skattar eru það verð sem við þurfum að greiða fyrir að lifa í siðuðu samfélagi.

Sem betur fer er landið ríkt og íslensk þjóð í færum til að greiða þetta verð ef auðlindir landsins eru nýttar í almannaþágu og samfélagslegum kostnaði er dreift á sanngjarnan hátt.

Ársreikningar Panama-félaga

 

Haustið er milt og snjór sést varla á fjöllum en fljótt virðist fenna yfir sporin sem Panamaskjölin afhjúpuðu á vormánuðum. Kannski er um að kenna vanmætti fjölmiðla til að fylgja málum eftir eða e.t.v. skorti á vitneskju um hvernig framvinda mála er þegar upp kemur efi um hvort rétt hafi verið staðið að málum. …

Ársreikningar Panama-félaga

Innanlandsflug og ferðaþjónusta

Á vormánuðum þegar ég var að undirbúa leiðsöguferð sumarsins, sem vel að merkja er ein best skipulagða ferð sem völ er á, gerði ég drög að grein um ferðamál og innanlandsflug, sem byggðist á ýmsu sem komið hafði upp í samtölum við kollega mín á þeim vettvangi. Á síðustu dögum hefur þau sjónarmið sem ég hafði í huga komið fram hjá nokkrum þeirra sem tjáð sig hafa um innanlandsflug í fjölmiðlum á síðustu dögum. Sjáandi að ég var ekki einn á báti lét ég verða af því að fullskrifa greinina og birta hana á heimasíðu minni indridih.com undir nafninu: Innanlandsflug og ferðaþjónusta

 

Follow Indriði H. Þorláksson on WordPress.com

Blog Stats

  • 26,551 hits