Indriði H. Þorláksson

Efnisyfirlit, greinar

Samfélagsábyrgð og Covid-19

Samtök atvinnulífsins telja það ekki vera fyrirtækjanna að greiða starfsmönnum laun fyrir að sitja í sóttkví. Spurð um samfélagsábyrgð var henni vísað á almenning í landinu.

Samfélagsábyrgð fyrirtækja er skrítin skepna. Eftir að hún fannst fyrir fáum áratugum hefur henni vaxið fiskur um hrygg og hefur alið af sér ómælt sjálfslofs í ársskýrslum og auglýsingum fyrirtækja, átaksverkefni og ráðstefnur. Á einni slíkri sem haldin var hér fyrir nokkrum árum rómaði forstjóri alþjóðafyrirtækis, sem á stóran hluta allrar gosdrykkja- og sælgætisframleiðslu í heiminum, ábyrgð þess gagnvart samfélaginu, hvort sem er í vanþróuðum ríkjum sem leggja því til hrávöru á spottprís eða ofneysluríkjum vesturlanda þar sem framleiðslan er lifibrauð offeitra barna.

Íslenskar matvöruverslanir sýna samfélagábyrgð með því að ota vörum alþjóðarisans framan í neytendur, ekki síst börn. Hillumetrar fyrir gos og sælgæti eru sumstaðar fleiri en fyrir alla aðra matvöru samtals og kúnnarnir eru eltir fram að að afgreiðslukössunum í von um að pirrað foreldri í biðröðinni þaggi niður í afkvæminu með kaupum á nammi á síðustu stund.

Þessi samfélagsábyrgð birtist einnig í baráttu sprúttsala fyrir því að fá að lofsyngja vínandann opinberlega og öðlast “frelsi” til fylla landann (og eigin buddu) aðeins meira en unnt er með því velvirka og ábyrga sölukerfi sem áfengi er í.

Þegar kemur að Covid-19 er ábyrgðarmælirinn hins vegar fullur og alls konar hliðar á málinu koma í ljós. Þeirra á meðal er ekki sú að fólkið í sóttkvínni er ekki þar til að forða sér frá smiti heldur til að koma í veg fyrir að smita aðra þar á meðal fólk á vinnustað sínum. Góður starfsmaður vill ekki valda vinnuveitanda sínum tjóni og verður að axla sína ábyrgð og sitja launalaus heima. Laun í tvær vikur er nú ekki nema um 4% af árslaunum hans.

Að axla samfélagsábyrgð vegna Covid-19 yrði fyrirtækjunum of dýrkeypt. Fjöldi sóttkvíaðra er nú um 300 og má áætla að um 200 þeirra séu vinnandi fólk. Það eru um 0,1% vinnumarkaðarins. Sé reiknað með því að sú tala haldist þá tvo mánuði, sem áætlað er að fárið standi, myndu laun í sóttkví verða um 0,017% af árslaunasummu í landinu. Sú fjárhæð er miðuð við meðallaun og kann að vera vanáætluð því líklega eru félagsmenn í Eflingu ekki að skíðlysta sig í Lombardí á meðan allt er á kafi í snjó á landinu bláa.

Orðuskaup

Ef skrif leiðarahöfundar Fréttablaðsins 3. jan. 2020 um orðuveitingu ársins væru úr öðrum penna runnin hefði mátt ætla að þau væru kurteisleg ábending um að rökstuðningur orðunefndar með einni orðuveitingunni væri framlag hennar til áramótaskaupsins. Í honum virðist byggt á sögu orðuþegans í tímaritinu Þjóðmál um framgöngu sína sem liðsmanns svokallaðs Indefense hóps þar sem hann þakkar sér flest þau gæfuspor sem stigin hafa verið frá hruni til endurreisnar, lausn Icesave-málsins, skuldaúrlausn heimilanna, viðsnúning efnahagslífsins og að lokum stórgróða af hruninu. Sá eini sem eitthvað lagði að mörkum auk hans sjálfs hafi verið seðlabankastjóri kreppunnar, sem þvertekið hafi fyrir það, sem engum hafði reyndar hugkvæmst, að greiða skuldir óreiðumanna enda ljóst að þjóðin hafði nóg að gera með þær óreiðuskuldir sem gjaldþrota seðlabanki sat uppi með eftir aðgerðir og aðgerðaleysi hans. Reyndar sótti þessi orðuþegi það fast að verða einnig Seðlabankastjóri.

Í afrekaskránni er hins vegar litið fram hjá ýmsum atriðum, staðreyndum hnikað eða snúið við og nýr sannleikur búinn til. Ekki er minnst á að Icesave skuldin greiddist að fullu af þrotabúin rétt eins og allir samningar ráðgerðu og að Bretar og Hollendingar fengu um 54 milljarða í sinn hlut umfram það sem þeir höfðu lagt út og þar af 20 milljarða króna samkvæmt sérstökum samningi sem leiðtogi hans, Sigmundur Davíð, undirritaði. Þess er heldur ekki getið að “gróðinn” af stöðugleikaframlögum gömlu bankanna var einungis greiðsla á hluta af því tapi ríkissjóðs og samfélagsins sem þeir höfðu valdið og ekki fékkst bætt af þrotabúum þeirra. Leiðréttingin mikla var hvorki greidd af slitabúunum né olli þeim straumhvörfum í efnahagslífinuu sem fram er haldið. Hún var greidd af ríkissjóði, þ.e. skattgreiðendum, en rann fyrst og fremst til þeirra sem betur voru settir og fengu einnig sína “leiðréttingu” með hækkun fasteignaverðs. Viðsnúningur í efnahagslífinu hófst þegar á árinu 2010 en ekki eftir 2013 eins og látið er að liggja og þakkað dáðum orðuþegans. Fleiri villur af þessum toga mætti tiltaka.

Orðuþeginn er vel að upphefð sinni kominn og orðan hefði vart talist ámælisverð þótt hún hefði verið án þeirra fölsku fjaðra sem orðunefnd hengdi á hana. Hann gegnir trúnaðarstörfum fyrir sérhagsmunasamtök, sem jafnan hefur þótt lofsvert, og er að auki vel ættaður og hefur eflaust hlotið kristilegt uppeldi sem að öðru jöfnu er talin trygging fyrir sannleiksást og hógværð.

Drög að frumvarpi um erfðafjárskatt, umsögn

Hjá stjórnvöldum er í vinnslu frumvarp að lögum um breytingu á lögum um erfðafjárskatt. Frumvarpið eins og það birtist í drögunum er lítt rökstutt og engin greining á áhrifum þess. Virðist það vera afturhvarf til þeirrar skattastefnu sem ríkti fyrir hrun að ívilna tekju- og eignafólki en hirða lítt um aðra. Ég setti umsögn um málið í Samráðsgáttina þar sem drögin voru kynnt og hana má jafnframt finna á heimasíðu minni: Umsögn um drög að frumvarpi um erfðafjárskatt

Hugrakkir riddarar og orrustur þeirra

Forseta Ísland er nú boðið að leika hlutverk hins hugprúða riddara af la Mancha í orrustu gegn vindmyllu. Er vitnað til framgöngu forvera hans í því hlutverki fyrir tæpum áratug sem lengdi lífdaga hans í embætti og sló um tíma bjarma á hnignandi frægðarsól.

Með framgöngu sinni lagði hann að velli illa Icesave samninga. Samkvæmt þeim átti þrotabú Landsbanka Íslands að greiða enskum og hollenskum sparifjareigendum allar tryggðar innstæður auk þess að greiða vexti til þeirra sem lögðu til fjármagnið.

Þökk sé hetjulegri framgöngu voru samnigar ekki gerðir en engu að síður greiddi þrotabú Landsbanka Íslands enskum og hollenskum sparifjareigendum allar tryggðar innstæður þeirra. Auk þess greiddi þrotabúið og fjármálaráðuneytið 53,5 milljarða til þeirra sem lögðu til fjármagnið.

Glæstur árangur af orrustu við vindmyllu. Er hlutverk hins hugprúða riddara í þeirri sem yfir stendur ekki nægilega vel skipað?

Skattapólitík og kjarasamningar

Kynnt hafa verið viðbrögð ríkisstjórnarinnar við óskum verkalýðshreyfingarinnar um réttlátara skattkerfi. Enginn átti von á að orðið yrði að fullu við óskum hreyfingarinnar en fáir hafa líklega gert ráð fyrir jafn snautlegu svari og raun varð á. Það dapurlegasta er að stjórnvöld virðist hafa misskilið óskir verkalýðshreyfingarinnar. Hún var ekki að biðja um ölmusu, uppbót á það sem falla kann af samningsborðinu, heldur endurdreifingu kostnaðarins af því að reka hér sæmilega siðað samfélag, óskir um skattkerfi sem byggt yrði á sanngirni og réttlæti.

sjá hér:

https://indridih.com/skattar-almennt/skattapolitik-og-kjarasamningar/

 

Kjarasamnngar, skattar og velferð

Það er ekki nýtt að breytingar á sköttum séu gerðar að umræðuefni og eftir atvikum hluti af kjarasamningum með svokölluðu þríhliða samkomulagi ríkisvaldsins, stéttarfélaga og vinnuveitenda. Yfirleitt eru þessir samningar gerðir undir því yfirskyni að þeir eigi að jafna kjörin, færa hinum verst settu mestar bætur og treysta stöðu þeirra sem standa höllum fæti. Það er hins vegar aldrei spurt að leikslokum og því hverju slíkir samningar hafa skilað einkum þegar litið er til langs tíma. Þróun kjara og skatta síðustu áratugi bendir ekki til þess að þessi vinnubrögð hafi skilað miklum árangri fyrir láglaunafólk þann markhóp sem átti að hagnast mest. Launamunur í samfélaginu hefur vaxið og kjaraleg staða láglaunafólks hefur síst farið batnandi. Skattbyrði láglaunafólks hefur vaxið meira en hjá öðrum á sama tíma og hún hefur verið lækkuð hjá hinum best settu bæði með beinum aðgerðum og auknum möguleikum til skattahliðrunar. …

….

Viðræður fulltrúa launþegahreyfingarinnar við stjórnvöld um þessi atriði og önnur hagsmunamál eins og húsnæðismál eru af hinu góða og eru tækifæri til að koma sjónarmiðum og kröfum hennar á framfæri. Þær eiga hins vegar ekki að hafa að markmiði að gera samkomulag um tilteknar breytingar eða aðgerðir. Slíkt er hvorki í samræmi við lýðræðislega stöðu samtakanna né hagsmuni félagsmanna. Þau eiga hins vegar að krefjast þess að afstaða stjórnvalda í þessum málum liggi skýrt fyrir áður en gengið er til samninga við vinnuveitendur um meginefni kjarasamninga þannig að þau geti hagað kröfugerð sinni og aðgerðum í samræmi við þekktar og fyrirliggjandi forsendur í þessum málum.

Greinin í heild: Kjarasamningar, skattar og velferð

Leiðsögumaður – Tímabær lögverndun starfsheitis

Sjá pistil hér: Leiðsögumaður

Follow Indriði H. Þorláksson on WordPress.com

Blog Stats

  • 45.211 hits