Vöxtur til velsældar eða velferð og réttlæti

(birt í Kjarninn.is 2.1.’22)

Á síðustu árum hefur heimsbyggðin tekist á við tvö verkefni sem sýna nauðsyn á samstarfi þjóða. Loftlagsvána, sem er manngerð afleiðing af skammsýni og græðgi og Covid-19 eina af mörgum plágum sem herjað hafa á mannkynið. Þær virðir engin landamæri og ekkert eitt land eða álfa getur tekist á við þær með árangri. Samstarf þjóða og samvinna ólíkra menningarheima er nauðsyn.

Loftlagsváin er angi af stærri umhverfisvanda sem kemur til af því að maðurinn kann ekki fótum sínum forráð í kapphlaupi eftir meintum lífsgæðum. Forði jarðar af ýmsu því sem þarf til þess að viðhalda núverandi lífsháttum er á þrotum og annað er ofnotað með þeim afleiðingum að lífsgæði spillast. Samstaða er um hluta af þessum vanda, ofhitnun jarðar og ráðstafanir til að draga úr losun á koltvísýringi. Hún lítur þó fram hjá mikilvægum þáttum hans, mannfjölgun, ofneyslu, misskiptingu gæða og vígbúnaði. Þótt áhrif þessara þátta séu augljós er þá ekki að finna í því vopnabúri sem beita á gegn loftlagsvánni. Ef til vill eru stjórnmálamenn enn of gegnsýrðir af hagvaxtartrú síðustu áratuga og háðir öflum sem byggja stöðu sína og völd á hagvexti og neyslu. 

Þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að ná tökum á loftlagsþróun munu líklega leiða til minni hagvaxtar og neyslu. Verðbólga í hagkerfunum beggja vegna Atlanshafsins hefur verið mikil síðustu misseri vegna áhrifa Covid-19 og ekki er ólíklegt að raunhagvöxtur þar verði neikvæður um skeið. Tilraunir til að örva efnahagslífið skila minni árangri en vonast var til og þótt atvinnuleysi í BNA nálgist það sem var fyrir Covid-19 er atvinnustigið lægra og framboð á vinnuafli minna. Það kann að vera merki um breytt viðhorf til vinnu sem gæti haft áhrif á efnahagsþróun til lengri tíma.

Athyglisvert verður að fylgjast með þróun í þessum málum og því hvernig ráðamenn búa þjóðir sínar undir komandi breytingar ekki síst því hvort áfram verði stefnt að óraunhæfum hagvexti eða athygli beint að betri lausnum. Í Þýskalandi, líkt og hérlendis, fóru fram kosningar undir lok septembermánaðar. Sömuleiðis tóku við langar stjórnarmyndunarviðræður þar, en ný ríkisstjórn landsins var kynnt samhliða nýjum stjórnarsáttmála í síðasta mánuði.. Samanburður á ferli og inntaki sáttmálans við sáttmálann sem kynntur var samhliða nýrri ríkisstjórn hér á landi er um margt fróðlegur. 

Að mynda ríkisstjórn, tvö dæmi

Stjórnarmyndunarviðræður nýrrar ríkisstjórnar í Þýskalandi tóku svipað langan tíma og viðræðurnar hérlendis, eða um tvo mánuði. Í  báðum löndunum komst einnig  á samstarf á milli þriggja flokka; eins hægri flokks, eins miðjuflokks og eins vinstri flokks.

Í öðru ríkinu var málefnasamningur undirbúinn af fulltrúum flokkanna og sérfræðingum á þeirra vegum. Stefnumálin voru rædd í flokkunum og opinberlega á meðan á viðræðum stóð og samkomulagið og skipan ríkisstjórnar var kynnt nokkrum dögum áður en stofnanir flokkanna fjölluðu um það. Í hinu ríkinu gerðu formenn flokkanna með ónefndum trúnaðarmönnum samning um samstarf með leynd og hann síðan lagður fyrir flokksstofnanir og afgreiddur á einum fundi.

Í öðru ríkinu er samstarfsamningurinn um 170 blaðsíður þar sem lýst er markmiðum og  aðgerðum til að ná þeim. Má sem dæmi nefna að byggðar verði 400.000 íbúðir á ári og þar af 100.000 í félagslegu íbúðakerfi, tekinn verði upp framfærslutrygging barna, lögbundin lágmarkslaun hækkuð, kolavinnslu verði hætt á tilteknum tíma, borgaralaun komi í stað grunnlífeyris, fjölgun rafhleðslustöðva og margt fleira á flestum sviðum samfélagsins. Stjórnarsáttmálinn sem hefst á orðunum: „Breytingar eru framfarir ef þær bæta líf manna“ og ber nafnið „Mehr Fortschritt wagen“. Nafnið vísar til Willy Brandt, fyrsta kanslara sósialdemókrata í Þýskalandi, sem í kynningu á stjórnaryfirlýsingu sinni árið 1969 sagði: „mehr Demokratie wagen.“

Í hinu ríkinu var fyrri stjórnarsáttmáli flokkanna endursaminn. Um 17 bls af ritmáli fylla með listrænni uppsetningu og myndskreytingu nærri 60 prentsíður. Markmið eru flest almennt orðuð og víða dregið í land frá því sem áður var. Í anda frjálshyggju er áhersla á vöxt til velsældar og markmiðin á köflum lituð af „Ísland er stórast í heimi“-heilkenninu þar sem landið „á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu“ og við „fremstir í baráttunni gegn loftlagsvánni“. Það á að fjárfesta í fólki, stuðla að heilbrigðu samfélagi og efla menningu og ferðaþjónustu. Allt eru þetta góð og göfug markmið en ekkert er sagt um hvernig þeim skuli náð þótt þessir flokkar hafa setið að völdum í fjögur ár og því haft tíma til að undirbyggja burðugri framtíðarsýn. Í yfirliti yfir einstök verkefnasvið koma þó fram einstaka nokkuð skýrar aðgerðir en að mestu er þessi hluti einnig almennar viljayfirlýsingar um að hverju skuli stefnt, hvað skuli undirbúið, að hverju verði hlúð að o.sfrv. án skilgreindra aðgerða eða tímasettra áætlana.

Ferli stjórnarmyndunar í Þýskalandi og á Íslandi og inntak samninga stjórnarflokkanna segir sitt um stjórnmál og stjórnmálaumræðu í þessum löndum. Annars vegar er opið, málefnalegt og lýðræðislegt ferli með þátttöku margra aðila innan flokkanna og almennri kynningu og umræðu áður en formleg ákvörðun er tekin. Hins vegar er foringjaræði þar sem valdsmenn flokkanna ganga frá málum sín á milli og leggja þau svo fram til samþykktar án raunverulegs svigrúms til áhrifa.

Einnig er fróðlegt að bera nýja stjórnarsáttmálann saman við hinn fyrri og leita örlöga stórra mála sem verið hafa í umræðu síðust áratugi og baráttumál í kosningum allt frá hruni. Mál af þeim toga eru stjórnarskráin, auðlindir og fiskveiðistjórnun, samstarf við umheiminn, gjaldmiðillinn, ríkisfjármál m.a. vegna Covid-19, jafnrétti og sanngirni í fjármögnun ríkisútgjalda og skattframkvæmd.

Stjórnarskráin 

Mikill meirihluta þjóðarinnar er einhuga um að endurskoða þurfi stjórnarskrána og er sáttur við öll helstu efnisatriði þess frumvarps að stjórnarskrá sem samið var af stjórnlagaráði. Samstöðuleysis þeirra flokka sem vildu framfylgja þjóðarviljanum gerði gæslumönnum sérhagsmuna kleift að stöðva málið á Alþingi og halda því í gíslingu allt síðan. Stjórnarsáttmálinn 2017 boðaði heildarendurskoðun á stjórnarskránni með þverpólitísku samstarfi. Það brást og lagði forsætisráðherra fram eigin tillögur að breytingum á tilteknum atriðum hennar. Þær tillögur gengu svo skammt varðandi auðlindir að talsmenn þjóðareignar gátu ekki sætt sig við þær og þar sem samstarfsflokkar forsætisráðherra studdu tillögurnar ekki heldur dóu þær drottni sínum.

Í stjórnarsáttmálanum nú er lýst yfir uppgjöf í stjórnarskrármálinu. Berja á í brestina á kosningafyrirkomulagi sem varð Alþingi til aðhláturs eftir síðustu kosningar og kíkja á úrbætur í mannréttindamálum. Annað er ekki nefnt. Verður það ekki skilið á annan veg en þann að allir stjórnarflokkarnir leggi nú blessun sína yfir sjálftöku eigenda stórútgerða á fiskveiðiauðlindinni.

Í grein í Kjarnanum fyrir ári síðan; Ár veirunnar og áratugur g(l)eymdra verkefna benti ég á að þýska stjórnarskráin sem talin er ein hin besta í heimi hafi verið samin á sjö mánuðum árið 1949 og fleiri dæmi eru um að stjórnarskrár hafi verið samdar á stuttum tíma. Hér má hins vegar ekki hreyfa stafkrók í því plaggi sem danakóngur gaf okkur fyrir hartnær 150 árum nema með sérstökum serímoníum á Alþingi en vilji almennings virtur að vettugi. Síðasta skrautblóm andstæðinga stjórnarskrárbreytinga er grein löglærðs stjórnarmanns í einu af stærstu útgerðarfélögum landsins sem telur tillögugerð stjórnlagaráðs vera stjórnarskrárbrot. Rökleysur þessar hrakti Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður fullkomlega í Kjarnanum í ágúst sl. Þrátt fyrir falleinkunn hjá einum virtasta lögfræðingi landsins er grein stjórnarmannsins nú að finna í jólabókaflóðinu með nafninu “Landfesti lýðræðis”.

Ég get ekki neinu bætt við lögfræði Ragnars en vegna nafns bókarinnar verður ekki hjá því komist að benda á þá þversögn að telja að “landfesti lýðræðis” geti falist í því að koma í veg fyrir breytingar sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hefur lýst sig samþykkan. Það er sérkennileg túlkun að þau lagaskilyrði sem torvelda breytingar á stjórnarskrá sé sett til að tryggja lýðræði. Þau kunna að hafa verið hugsuð til að tryggja rétt minnihluta en hafa fyrst og fremst tryggt völd sérhagsmunaafla eins og sjá má af reynslu hér á landi og annars staðar.

Auðlindir

Í fyrrnefndri grein benti ég á að andstaða sérhagsmunaaðila við auðlindaákvæðið sé meginástæða þess að ekki hafi reynst unnt að afgreiða stjórnarskrármálið. Stjórnarsáttmálinn nú styður þá ályktun því allar raunverulegar breytingar á stjórarskránni eru afskrifaðar auk þess sem að breytingar á gjaldtöku í sjávarútvegi eru ekki á dagskrá og eins má ætla að í fiskeldi sé stefnt að hliðstæðu gjafakvótakerfi og því sem notað er í sjávarútvegi. Þessi afstaða veldur því að ekki er unnt að móta heildstæða stefnu um náttúruauðlindir landsins og nýtingu þeirra í almannaþágu. Á meðan svo er rennur arðurinn af þeim að stórum hluta til fáeinna stórútgerða, norskra fiskeldiskónga, erlendra stóriðjuvera og rafmyntagrafara.

Veiðigjöld hafa á síðasta stjórnartímabili lækkaðar svo að þau nægja varla til að greiða kostnað ríkisins við sjávarútveg. Engin eiginleg renta af fiskveiðiauðlindinni skilar sér því til þjóðarinnar. En það er ekki nóg. Í stjórnarsáttmálanum er boðuð framkvæmd á tillögum starfshóps um græn skref í sjávarútvegi þar sem efst á blaði er að kostnaði við orkuskipti í skipaútgerð verði velt yfir á almenning í landinu með skattaívilnunum og styrkjum af skattfé á meðan eigendur útgerða stinga í vasann umframarði af fiskveiðum sem ætla má að sé 30 til 40 milljarðar á ári.

„Við viljum skapa sátt um nýtingu auðlinda“ segir í stjórnarsáttmálanum en ekki orð um hver sú sátt geti verið en setja á nefnd til að meta ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Ágreiningurinn er ekki um ávinninginn heldur það hvernig honum er skipt og óánægjan er með það hvernig eignarréttur þjóðarinnar er sniðgenginn. Á sáttin að felast í því að almenningur sætti sig við að fáeinir útvaldir hirði allan arð af sameign þjóðarinnar eða er einhver önnur sátt möguleg? Það er þekkt í sögunni að einokun á nýtingu auðlinda er ekki sleppt svo lengi sem þeir sem hana hafa njóta velvildar yfirvalda. 

Það er ekki aðeins að stjórnin heykist á að tryggja almenningi réttmætan arð af eign sinni og vanvirði afstöðu yfir 80% landsmanna sem hafa lýst sig fylgjandi meiri gjaldtöku fyrir fiskveiðiheimildir. Sáttmáli stjórnarflokkanna sýnir heldur engin merki þess að til standi að breyta arfavitlausu ákvæðum laga um veiðigjald þess efnis að kaupverð nýrra veiðiskipa dregst að fullu frá stofni veiðigjalda á 4-5 árum vegna flýtifyrninga og reiknaðra vaxta og eins hljómar fyrirheit um aukið gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi ekki vel úr munni þeirra sem hindrað hafa upplýsinsgjöf um eignarhald útgerðarfyrirtækja.

Þjónkun ríkisvaldsins við stórútgerðir sem boðuð er í stjónarsáttmálanum mun skila eigendum útgerða andvirði bygginga tveggja Landspítala á stjórnartímabilinu.

Ríkisfjármál

Umfjöllin stjórnarsáttmálans um ríkisfjármál er í véfréttarstíl. Ekki er lengur minnst á „afkomubætandi aðgerðir“ sem voru í umræðu fyrir skömmu en lesa verður á milli línanna til að finna hvers er að vænta. “Ríkisstjórnin mun stuðla að því að skattkerfið standi undir samneyslu.” Ef ekki kæmi annað til mætti túlka þetta sem svo að verið sé að boða hækkun skatta til að skjóta fótum undir vanfjármögnuð velferðarkerfi. En svo er ekki. Strax í næstu setningu er lesandanum kippt niður í raunveruleika forneskjunnar. „Horft verður til frekari eflingar almannaþjónustu og skattalækkana í samræmi við þróun ríkisfjármála.“

Hafi einhver haldið að tilgangur stjórnarstefnu til næstu 4 ára væri m.a. að móta þróun ríkisfjármála fer hann villur vegar. Þessi stjórn telur sig ekki þess umkomna að leggja mat á hvað þarf til að halda uppi siðuðu samfélagi og gera breytingar til samræmis við það. Hún ætlar bara að bíða og sjá til hvort guð lofar að svo mikið komi í kassan að óbreyttu að efla megi ófullnægjandi almannaþjónustu það er að segja ef ekki verður fremur ákveðið að nota aurana til að lækka skatta á einhverja sem eiga það skilið.

Þetta stefnuleysi væri etv. skiljanlegt ef allt væri lagi og smjör drypi af hverju strái í ríkisfjármálum en svo er ekki. Gildandi fjármálaáætlun og fjárlög ársins 2020, samþykkt áður en Covid-19 kom til, bera það með sér að fjármál ríkisins voru þá þegar ósjálfbær í þeim skilningi að reglulegar tekjur stóðu ekki undir þeim útgjöldum sem ákveðin höfðu verið með lögum og fjárlögum og vantaði þó stórar fjárhæðir í heilbrigðismál og framfærslumál m.a. vegna breytinga á aldursdreifingu þjóðarinnar, í uppbyggingu innviða og umhverfismál. Ríkisfjármálaáætlunin fól  ekki í sér neina stefnu um hvernig bilið skyldi brúa.

Ástæður þessarar stöðu eru fyrirhyggjuleysi og auðmannadekur. Endurreisn Jóhönnustjórnarinnar eftir Hrunið leiddi til langrar uppsveiflu en henni fylgja jafnan miklar tekjur fyrir ríkissjóð og útgjaldavilji ríkisstjórna og Alþingis er þá meiri en ella. Í stöðnun eða samdrætti í efnahagslífinu dragast tekjur ríkissjóðs hins vegar saman og að því var komið á árinu 2018.

Þessa  þróun má glöggt sjá á myndritunum sem sýna annars vegar tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af VLF á árunum 2007 til 2020 og hins vegar tekjur og gjöld ríkissjóðs á verðlagi ársins 2020 á sama tímabili. Gögnin eru sótt á heimasíðu Hagstofu Íslands. (Háa súlan og tekjutoppurinn 2016 stafar af bókfærslu svokallaðs stöðugleikaframlags þrotabúa bankanna á því ári) Þróun þessi var fyrirsjáanleg þegar í upphafi síðasta kjörtímabils að öðru leyti en áhrif Covid-19 sem koma fram í tölum ársins 2020. Það er því fyrirséð að ekki verður svigrúm til “eflingar almannaþjónustu” nema með aukinni tekjuöflun ríkissjóðs og fyrirheit sáttmálans um það eru því marklaus.

Sjálfskaparvíti

Ríkisstjórnin sem tók við góðu búi eftir stjórnina 2009 – 2013 hafði þá stefnu eina í tekjuöflunarmálum að afnema sem flestar breytingar sem fyrri stjórn hafði gert og með þeim undirbyggt endurreisn efnahagslífs og ríkisfjármála. Auðlegðarskattur á stóreigna- og hátekjufólk var felldur niður, orkugjaldið sem nær allt var greitt af álverum erlendra fjölþjóðafyrirtækja afnumið og veiðigjöldin sem að mestu voru greidd af stórútgerðum voru afskræmd og lækkuð stórlega. Dregið var úr stíganda tekjuskattlagningar og stefnt að frekari breytingum í þá átt sem þó var stöðvuð af verkalýðshreyfingunni á árinu 2019.

Breytingar þessar höfðu stórfelld áhrif á stöðu og þróun ríkisfjármála. Hefðu þær ekki verið gerðar væru tekjur ríkissjóðs á verðlagi ársins 2020 líklega einum 70 milljörðum króna hærri en þær eru nú. Svara það til rúmleg 2% af VLF. Heildarskattbyrðin væri með þá svipuð og 2014 og lægri en hún var á árunum fyrir Hrun. Fyrir utan fjárhæðina er það einkennandi að hennar var ekki aflað með hækkun skatta á almenning í landinu en hún greidd af stóreigna- og hátekjufólki, erlendum stórfyrirtækjum og að hluta var hún endurgjald fyrir nýtingu á fiskimiðum í sameign þjóðarinnar.

Þessar breytingar og aðrar svo sem lækkun gjalda á fjármálafyrirtæki hafa haft þær alvarlegu afleiðingar að tekjuöflun ríkisins byggist um of á launatekjum einum. Stofn allra helstu tekjustrauma ríkisreiknings, tekjuskatts einstaklinga, virðisaukaskatts og tryggingagjalds er í reynd að mestu hinn sami, þ.e. launatekjur einstaklinga. Það á einnig við um aðra neysluskatta svo sem eldsneytisgjöld og bifreiðagjöld. Samþjöppun fjármagns og rekstrareigna á fáar hendur leiðir til aukins tekjuójöfnuður og lækkunar á hlutdeild launatekna í VLF. Tekjuöflun sem fyrst og fremst byggist á launatekjum mun ekki nægja til að sinna aðkallandi samfélagsmálum. Það og sá ásetningur að slá skjaldborg um forréttindi og þá sem best mega sín í samfélaginu setur ríkissjóð í þá stöðu að valkostir til að komast úr hallarekstri ríkissjóðs verða einungis tveir, að hækka skatta á þá sem lifa af launum og lífeyri eða að skera niður almannaþjónustu.

„Við ætlum að vaxa til meiri velsældar“ er yfirskrift fyrsta kafla stjórnarsáttmálans. Það vekur athygli að orðið velferð er ekki að finna í skjalinu. Á orðunum velsæld og velferð er nokkur munurinn ekki síst í skírskotum þeirra og huglægum tengslum. Velsæld vísar til alsnægta einstaklinga en velferð til samhyggðar og samábyrgðar í skiptingu gæða. Orðavali sáttmálans er etv. ætlað að skera á huglæg tengsl við velferðarstefnu eins og hún þekkist á Norðurlöndum og sést einnig í sáttmála nýrrar stjórnar í Þýskaland. Sé tilgangurinn sá er orðanotkunin rökrétt því sáttmálinn skapar ekki forsendur fyrir aukinni almennri velferð. Hún næst ekki nema með tekjujöfnun og réttlátari dreifingu skattbyrði. Án þess mun vöxtur til velsældar einungis falla þeim í skaut sem praktuglegast lifa.

  Covid-19 

Útgjöld ríkissjóðs vegna Covid-19 hafa verið veruleg en eru þó minni en áætlað hafði verið. Stór hluti þeirra er vegna vinnumarkaðsaðgerða til að halda uppi ráðningum og greiða laun en fé hefur einnig farið í að styrkja fyrirtæki sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli. Flest eru þau skuldsett og hafa átt erfitt með að standa í skilum þrátt fyrir að greiðslufrestir hafi verið lengdir. Athygli vekur er erfiðleikar þessir virðast ekki hafa komið niður á afkomu bankanna. Af því má ætla að þeir hafi ekki gefið skuldugum viðskiptavinum mikið eftir en ætli ríkinu að taka áfallið og tryggja þeim fulla greiðslu afborgana og vaxta af lánum sem þeir hafa veitt og tryggt með veðum í eignum fyrirtækjanna.

Atvinnurekstri fylgir jafnan áhætta, sem talin er réttlæta kröfu um góða ávöxtun á því fé sem lagt hefur verið í reksturinn. Eigendur fyrirtækja geta að vísu losnað undan þessari áhættu með því að setja reksturinn í einkahlutafélög og eignarhaldið í eignarhaldsfélög en áhætta þessi hvílir einnig á þeim sem lánað hafa fé til rekstursins. Eðlilegt er því að þeir sem eiga fé í rekstri, bæði eigendur og lánveitendur, taki á sig tjón þegar áföll verða eins og nú. Í mörgum tilvikum hafa eigendur rekstrar þegar fengið góða ávöxtun af fjárfestingum sínum með arðgreiðslum og uppsöfnun rekstrareigna. Afkoma bankanna síðustu ár sýnir einnig góða ávöxtun af lánsfé. Þrátt fyrir það hafa stöndug stórfyrirtæki þegið styrki úr ríkissjóði þótt þau hefðu fullt bolmagn til að standa undir skuldbindingum við starfsmenn og lánastofnanir.

Það orkar því tvímælis hvort réttmætt sé að nota almannafé til að mæta rekstraráföllum og greiða rekstraraðilum styrki vegna tekjufalls. Hlutverk ríkisins í svona tilvikum er fyrst og fremst að tryggja afkomu borgaranna og taka ábyrgð á velferð þeirra. Óendurkræf framlög úr ríkissjóði til fyrirtækja hefði átt að takmarka við það sem fór í launagreiðslur umfram það sem þeim bar samkvæmt lögum og samningum en styrki umfram það hefði átt að tryggja með kröfu í framtíðarhagnaði.  Ríkissjóður á ekki að ábyrgjast hagnað af rekstri eða ávöxtun lánsfjár með skattfé almennings. Verði það notað til að jafna halla ríkissjóðs af þessum ástæðum jafngildir það eignatilfærslu frá almenningi til fjármagnseigenda.

Heilbrigðiskerfið

Auk umhverfismála var heilbrigðiskerfið áherslumál í stjórnarsáttmálanum frá 2017. Verulegur árangur náðist á báðum sviðum þótt hann yrði endasleppur vegna samstarfstregðu og þess að sáttmálinn tryggði ekki fjármuni til standa við fögur fyrirheit. Ekkert er í hinum endurnýjaða sáttmála sem gefur tilefni til að ætla að breytinga sé að vænta. Öll „efling almannaþjónustu“ er háð því skilyrði að það sé mögulegt innan ríkisfjármáætlunar sem ekki gerir ráð fyrir aukinni tekjuöflun hvorki til bóta á almannaþjónustu, innviðauppbyggingar né til að mæta kostnaði vegna Covid-19 þrátt fyrir að ríkissjóður sé þegar ósjálfbær.

Fátt sýnir þörf aukinnar opinberrar tekjuöflunar jafn augljóslega og heilbrigðiskerfið. Vöxtur þess stafar af auknum kröfum sem til þess eru gerðar og lýðfræðilegri þróun. Geta þess til aukinnar þjónustu byggist fyrst og fremst á starfsfólki, fjölda þess og kunnáttu.Það getur ekki sinnt auknum kröfum án fjölgunar á læknum, hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Kostnaður við heilbrigðiskerfið þar sem laun eru stærsti hlutinn verður því óhjákvæmilega hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en áður. Því verður aðeins mætt með lækkun einkaneyslu með skattlagningu eða niðurskurð á annarri opinberri þjónustu.

Þróun í þessa veru má sjá í flestum löndum. Ábendingum um nauðsyn á hækkun framlaga til heilbrigðismála sem studdar hafa verið með tölum frá öðrum löndum hefur verið svarað með því að hlutfall útgjalda af VLF geti ekki verið markmið. Það má satt heita en breytir því ekki að hækkun hlutfallsins er bein afleiðing af því sem til þarf til að bæta þjónustuna.

Jafnræði og sanngirni í sköttum

Í sáttmálanum segir að ríkisstjórnin muni stuðla að því að “reglur skattkerfisins séu skýrar og réttlátarog framkvæmd þeirra sé skilvirk og gagnsæ”. Hvað ætli þetta boði? Er þetta staðhæfing um að skattkerfið sé réttlátt eða viðurkenning á því að reglur þess séu ranglátar og þarfnist breytinga? Ef svo er af hverju er þá ekki sagt hreint út hvað sé að og hverju eigi að breyta?

Skattkerfið er ranglátt og leggur hlutfallslega meiri skatta á laun lág- og millitekjufólks en tekjur af atvinnurekstri og fjármagnseign hjá þeim eigna- og tekjuhæstu. Fyrrnefndi hópurinn greiðir allt að 50% tekna sinna í tekjuskatt, útsvar og neysluskatta en hinn hópurinn er ekki nema hálfdrættingur á við þá. Þetta hefur lengi legið ljóst fyrir. Í Stundinni var sl. haust greint frá sköttum 1% tekjuhæsta fólks þjóðarinnar sem leiddi m.a. í ljós að hópur þessi greiddi að meðaltali aðeins lítið eitt hærra hlutfall tekna sinna í beina skatta en landsmenn almennt að meðtöldum lífeyrisþegum, öryrkjum og námsmönnum. Sá hluti þeirra, sem fyrst og fremst hafði tekjur af eignum sínum greiddu þó um fimmtungi lægra hlutfall í skatta og er þá ekki tekið tillit til þeirra eigna og tekna sem leynast að mestu skattlausar í eignarhaldsfélögum.

Aðgerðaakafli um tekjuöflun o.fl. tilgreinir aðeins tvennt. Koma á í veg fyrir óeðlilega hvata til að stofna einkahlutafélg með endurskoðun á skattmatsreglum (þær fjalla um mat á hlunnindum eins og fríu fæði, afnot af rekstrareignum o.fl.) eins og þær séu meinið en ekki skattareglurnar sjálfar. Hitt er að tryggja að þau sem eingöngu hafa fjármagnstekjur greiði einnig útsvar. Verði það gert án hækkunar á skatthlutfalli fjármagnstekna mun það ekki breyta neinu nema því að flytja skatttekjur frá ríki til sveitarfélaga einkum þeirra þar sem efnafólk er margt að tiltölu. Útsvarstekjur eru þegar mestar og umsvif í félags- og framfærslumálum eru minnst svo sem í flestum svefnbæjunum umhverfis höfuðborgina.

Eftir að þrengt hefur verið að skatteftirliti og skattrannsóknum árum saman eru nú boðaðar aðgerðir á vinnumarkaði. Væntanlega á þá að beina sjónum að svartri atvinnustarfsemi. Það er hið besta mál en má þó ekki verða til þess að það gleymist að stórfelld skattsvik eru hvítflibbaglæpir og skattasniðganga er handverk sérfræðinga sem fyrirfinnast ekki í bílskúrum.

Úr fremur ruglingslegum texta um tekjuöflun í sáttmálanum verður ekki lesið annað en stöðnun. Til að stuðlað að réttlátri skattframkvæmd með marktækum hætti þarf meira til en stagbætur. Greiðslugeta borgaranna sem á að vera grunnur tekju- og eignarskattlagningar endurspeglast ekki í kerfi þar sem hver króna sem lífeyrisþegi eða láglaunamaður fær umfram nauðþurftir er álitin verðmeiri og skattlögð meira en ágóði milljarðamærings af fjármálavafstri að ekki sé talað um eignaauka af verðbréfum í eignarhaldsfélagi hans. Án vilja til að taka á því er allt tal um réttlæti í skattkerfinu hjómið eitt.

Alþjóðasamvinna

Í þeim stóru verkefnum sem við er að etja hefur reynt á samvinnu þjóða. Án þeirrar samvinnu væri heimurinn illa staddur. Íslendingar eiga mikið undir í umhverfismálum ekki síst vegna lífríkis sjávar umhverfis landið og í baráttunni gegn Covid-19 hefðum við verið ofurseldir veirunni án samvinnu annarra ríkja. En hvaða lærdóm hefur verið dreginn af þessu í stefnumótun fyrir framtíðina.

Í þýska stjórnarsáttmálanum er lýst yfir að samvinna innan lýðræðislegs og öflugs Evrópusambands sé grundvöllur friðar, velferðar og frelsis í Þýskalandi og innan vébanda þess verði tekist á við áskoranir eins og loftlagsbreytingar, rafræna þróun og vernd lýðræðis. Evrópusambandið sé skuldbundið regluföstu fjölþjóðasamstarfi og það virði sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þýskaland beiti sér fyrir Evrópusambandi sem verji gildi sín og réttarríkið innanlands sem utan. Sem stærsta aðildarríkið þess beri því að starfa í þjónustu fyrir alla aðila að sambandsinu. Markmið Þýskalands eru þannig ekki skilgreind á grundvelli sérhagsmuna þess heldur hagsmuna sambandsins alls og enn víðtækari þjóðaheilda.

Norski stjórnarsáttmálinn, sem var einnig undirritaður nýlega, mótast af því að landið er eins og Ísland utan ESB en í samstarfi við það á grundvelli EES samningsins. Samt er þar lögð mikil áhersla á samstarf við ESB og aðrar þjóðir á fjölda sviða m.a. um Norðurheimskautssvæðið, loftlagsmál, mannréttindi, þróunaraðstoð, virka baráttu gegn skattundanskotum o.fl. Áhersla Noregs i samstarf Norðurlanda er á utanríkis- og öryggispólitík.

Íslenski stjórnarsáttmálinn er fámáll og óljós á þessum vettvangi en tvennt vekur þó athygli. Annars vegar er það staðhæfingin að Norðurlandasamstarfið sé grundvallarþáttur í alþjóðlegu samstarfi Íslands sem er sérkennilegt þar sem það samstarf er í reynd samnorrænt menningarverkefni sem opnar engar leiðir til samstarfs við aðrar þjóðir. Hins vegar er það staðhæfingin að Íslandi sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sú staðhæfing er þvert á allar kannanir og vanvirða á þeim rétti þjóðarinnar að um það efni sé fjallað málefnalega og að almenningur taki ákvörðun um það en ekki talsmenn sérhagsmuna fárra.

Þessi kafli sáttmálans er í raun myndbirting á sinnuleysis um alþjóðasamstarf og innsiglar þann virðingarhnekk sem embætti utanríkisráðherra hefur sætt á síðustu árum. Hann innsiglar einnig sjálfskipaða einangrun lands sem með fullveldisþráhyggju hafnar samstarfi og samvinnu við aðrar þjóðir um sameiginlega hagsmuni og tekur á sig þungar byrðar til að viðhalda örmynt og ímynduðu sjálfstæði í peningamálum. Þeir hagsmunaaðilar sem að baki þessari afstöðu standa hafa reyndar fyrir löngu flutt viðskipti sín í skjól evrunnar.

Lokaorð

Grein minni í Kjarnanum fyrir ári síðan lauk á ótímabærum eftirmælum. Ólokið var nærri fjórðungi af starfstíma stjórnarinnar og síðastaliðna árið markað af glímu við Covid-19, sem háð hafði verið með ágætum. Þrátt fyrir lítil tilþrif í mörgum stórmálum stjórnarsáttmálans var ekki útséð um að Eyjólfur kynni að hressast með vaxandi sól og bólusetningu við Covid-19. Í eftirmælunum sagði: „Ekkert hefur verið hreyft við auðlindamálum nema það að lækka veiðigjöldin, ekkert skref tekið til aukins jöfnuðar í skattamálum nema það litla sem verkalýðshreyfingin fékk áorkað, engar umbætur í skattframkvæmd þrátt fyrir að vísbendingar um skattasniðgöngu hrúgist upp, stöðnun er í gjaldeyrismálum og unað við 2-3 prósentustiga vaxtamun og að sjálfsögðu komst engin hreyfing á stjórnarskrármálin sem enn eru í gíslingu kvótaaðalsins.“ 

Að fullloknu því stjórnarskeiði má nú segja að ekkert markvert hafi gerst í þessum efnum á síðasta hluta þess annað en að tilraun forsætisráðherra í stjórnarskrármálinu varð sjálfdauð og Miðhálendisþjóðgarðurinn brotinn niður. Stjórnarflokkarnir hafa nú með nýjum sáttmála skrifað sín eigin eftirmæli.