Skattaspor sjávarútvegs

Prédikun framkvæmdastjóra SFS var sérkennileg byrjun umræðufundar RÚV um auðlindamál en sýndi þó að unnt er að bera moðsuðu á borð með ýmsum hætti. Eftir tugmilljarða hagnað sjávarútvegs á síðustu árum er gráthljóð ekki lengur söluvænt en í staðinn kom söngur um þá dásemd sem kvótakóngarnir færa þjóðinni.

Þessi lofsöngur kom einnig fram í málflutningi talsmanns þeirra í umræðum á Hringbraut 12. október s.l., sem sýndi takmarkaða þekkingu á grundvallaratriðum auðlindamála og reyndar skattamála almennt þegar reynt var að halda því fram að hægt væri að hækka ríkisútgjöld og lækka skatta í sama mund. Til varnar arðráni af fiskveiðiauðlindinni voru dregin fram svokölluð skattaspor sjávarútvegs, sem vera áttu mikil og djúp og færa almenningi velsæld.

Hugtak eins og skattaspor hentar vel til að beina athygli frá meginatriðum máls og drepa umræðu á dreif. Látið er í veðri vaka að skattaspor sýni tekjur hins opinbera sem rekja megi til starfsemi tiltekins fyrirtækis eða atvinnugreinar. Inn í skattaspor eru teknir beinir skattar fyrirtækja, tryggingargjald og að auki tekjuskattar af starfsmönnum. Stundum eru fleiri skattar meðtaldir svo sem virðisaukaskattur sem oftast skilar sér aðeins að hluta til ríkissjóðs þar sem hann kemur til frádráttar hjá kaupanda vörunnar eða er endurgreiddur, t.d. við útflutning sjávarfangs.

Skattar starfsmanna af launum sínum eru stærsti hluti skattaspora sjávarútvegs en samt er dæminu stillt þannig upp að allt sé það atvinnugreininni að þakka. Það felur í sér að án þessarar tilteknu starfsemi myndu starfsmennirnir ganga atvinnulausir og auk þess er látið sem að gjafakvótinn sé forsenda þess að þessi störf séu til þ.e. að án hans myndi ekki veiðast fiskur og enginn starfa við veiðar og vinnslu. Skattaspor er enginn mælikvarði á framlag sjávarútvegs til þjóðarbúsins og enn síður á hag almennings af gjafakvótakerfinu.

Þótt litið sé fram hjá haldleysi hugtaksins og skattaspor notað eins og gert var styður talnaleg niðurstaða ekki málflutning sægreifanna. Skattaspor beinna skatta í sjávarútvegi má áætla. Tekjuskattar og tryggingagjöld eru fengin úr Tíund, blaði RSK, des. 2015 og tekjuskattar af launum eru reiknaðir af launafjárhæð í útgerð og fiskvinnslu skv. Hagstofu Íslands og meðaltalshlutfalli tekjuskatta árið 2014.

  • Tekjuskattur útgerðar og fiskvinnslu                         8 milljarður kr.
  • Tryggingargjald útgerðar og fiskvinnslu                   6 milljarðar kr.
  • Tekjuskattar starfsfólks í útgerð og fiskvinnslu       17 milljarðar kr.
  • Samtals                    31 milljarður kr.

Á árinu 2014 var virðisauki í fiskveiðum og vinnslu að meðtöldum veiðigjöldum um 150 milljarðar kr. Skattasporið sem hlutfall af virðisaukanum var því tæp 21%.

Sambærilegar tala fyrir þjóðarbúskapinn í heild er tekjuskattur félaga og einstaklinga og tryggingagjald sem hlutfall af VLF. Heimildir fyrir tölum ársins 2014 eru fjárlagafrumvarp fyrir 2016 og heimasíða RSK.

  • Tekjuskattur félaga                                                   73 milljarður kr.
  • Tryggingargjald og skattar á launagreiðslur             80 milljarðar kr.
  • Tekjuskattar og útsvar einstaklinga                        296 milljarðar kr.
    •                                             Samtals             449 milljarðar kr.

Verg landsframleiðsla 2014 var um 2.000 milljarðar og skattaspor þessara skatta því um 22,5%.

Skattaspor sjávarútvegs eru hvorki mikil né djúp. Þau eru grynnri en í þjóðarbúskapnum almennt þrátt fyrir að atvinnugreinin njóti nær ókeypis aðgangs að auðlind í eigu þjóðarinnar. Það að þjóðin njóti arðs af auðlindinni í gegnum skatta á sjávarútveg er bábilja og stangast að auki á við þær talnalegu forsendur sem fyrir liggja.

Auðlindamál í sjávarútvegi snúast ekki um það hvort fyrirtæki þar greiði skatta eins og hver önnur fyrirtæki. Það er sjálfsagt. Málið snýst um það að þau greiði verð fyrir það að fá einkaleyfi til að nýta náttúruauðlindir sér til tekjuöflunar. Þjóðin er eigandi fiskveiðiauðlindarinnar og hún ein á tilkall til arðsins af henni.