Óvissuferð án fyrirheits

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Á fundi í Félagi íslenskra leiðsögumanna fyrir skömmu voru Vegvísir ferðaþjónustu og Stjórnstöð ferðamála til kynningar. Vegvísirinn er glæsilegur álitum. Hann var í takmörkuðu upplagi, 4 eintök fyrir 50 – 60 manna fund. Efnið, sem rúmast getur á 4 -6 bls., er fagurlega teygt yfir 24 síður á þykkan glanspappír þar sem sexhyrndir verkefnakassar minna á íslenska stuðlabergið. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sem annaðist kynninguna, hafði litlu við efnið að bæta öðru en því að allir fundir í aðdraganda verksins hefðu verið miklar hallelújasamkomur. Nokkur tími fór í að margítreka að Stjórnstöð ferðamála væri ekki stofnun og að ekki hafi þurft að auglýsa starf forstöðumanns því borist hefði töframeðal frá Actavis sem uppfyllti það meginskilyrði að hafa ekki reynslu af ferðamálum.
Vegvísirinn segir fátt nýtt. Upphafsstaða mála sé flókin í margþættu stjórnkerfi þar sem enginn veit hvað annar aðhefst og skortur sé á alþjóðlega samanburðarhæfum upplýsingum (hvað svo sem á að gera við þær). Markmiðin í Vegvísinum eru líka þokukennd en felast helst í jákvæðri upplifun ferðamanna af landinu og jákvæðri upplifun landsmanna af ferðamennsku, dreifingu ferðamanna um allt land og svo auðvitað meiri gróða af ferðamönnum. Helstu slagorð, sem litað hafa umræðu um ferðamál síðustu misseri, eru í Vegvísinum puntuð með tæknislangri en engin tilraun er gerð til að skilgreina verkefni hins opinbera á þessum vettvangi. Vegvísirinn er ágætt dæmi um hvað fæst þegar ráðgjöf er sótt til einhverra sem lítið vita um málefnið en ráða yfir nokkurri sölutækni.
Rúsínan í Vegvísinum er Samkomulag um eflingu íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2020 gert af ríkisstjórn Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga við Samtök ferðaþjónustunnar, sem sögð eru stærstu hagsmunaaðilarnir. (Ekki er minnst á aðra svo sem náttúrverndarsamtök, starfsfólk í ferðaþjónustu osfr.). Að fordæmi alþjóðasamninga fer rífur helmingur samkomulagsins í að rekja innihaldslitlar forsendur en restin í að útlista Stjórnstöðvar ferðamála, stjórn hennar og verkefni.
Í stjórninni sitja 10 manns, þar af 4 ráðherrar, enda er gert ráð fyrir heilum starfsmanni í ekki-stofnuninni og að hún hafi nokkurt fé til útdeilingar í ráðgjöf og sérverkefni. Undir þessari styrku handleiðslu er nægilegt að lýsa hlutverki Stjórnstöðvarinnar með einni setningu: “..að byggja traustan grunn fyrir farsæla og sjálfbæra þróun ferðaþjónustu á Íslandi.” Í samræmi við hlutverkið eru bæði verkefni ekki-stofnunarinnar glöggt afmörkuð. 1) “(Hún) getur gert tillögur til ríkisstjórnar og einstakra ráherra um samhæfingu og framkvæmd verkefna…” og 2) “(Hún) getur jafnframt gert tillögur til sveitarfélaga og rekstraraðila ferðaþjónustu um samhæfingu og framkvæmd verkefna …”
Sé litið framhjá spurningum eins og þeirri hvort það að stjórnvöld veiti “hagsmunaaðilum” aðgang að stjórnsýsluverkefnum með samningum við þá sé eðlileg stjórnsýsla eða flokkist undir ríkisrekið “lobby” eða þeirri hvort víkja megi til hliðar verkaskiptingu ráðuneyta skv. lögum um Stjórnaráð með slíkum hætti, verður ekki hjá því komist að dást að þeirri stjórnvisku að gera sérstakan samning um það að stofna ekki-stofnun, sem hefur þau verkefni ein að geta lagt tillögur um verkefni fyrir þá sem sitja í hátimbraðri stjórn ekki-stofnunarinnar.