Veiðigjöld

Í júnímánuði 2013 birti ég á vefmiðlinum eyjan.is pistla með nöfnunum Veiðigjöld 1 til 5, Veiðigjöldin og stjórnarskráin og Hverjir fá lækkun veiðigjaldanna? Í þeim er fjallað um þau veiðigjöld, sem sett voru með lögum nr. 74/2012, og brugðist við fullyrðingum sem haldið var fram sem rökum fyrir lækkun veiðigjaldanna sem síðan var ákveðin. Pistlar þessir hafa hér að breyttu breytanda verið felldir saman í eina samfellu.

I. Veiðigjöldin og stjórnarskráin

Á síðasta kjörtímabili var tekist á um stjórnarskrá lýðveldisins, m.a. um ákvæði sem ætlað var að taka af allan vafa um það að náttúruauðlindir landsins tilheyri þjóðinni.  Þess ákvæðis biðu sömu örlög eins og stjórnarskrárinnar í heild. Á Alþingi var ekki vilji til að taka skrefið til fulls og tilraun til að afgreiða þetta ákvæði eitt og sér tókst ekki heldur þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar styddi efni þess og talsmenn allra stjórnmálaflokka létu sem þeim væri það þóknanlegt.

Skýringin felst e.t.v. í því að í tillögu Stjórnlagaráðs var ekki látið nægja að lýsa yfir formlegu eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindum en því einnig slegið föstu að eignarhaldinu fylgdi réttur þjóðarinnar til arðs af nýtingu auðlindanna. Í tillögum Stjórnlagaráðs er þetta orðað þannig: “Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. “ Þegar reynt var að ná auðlindaákvæðinu einu í gegnum þingið var orðalaginu breytt lítið eitt og sagt “eðlilegu gjaldi “ í stað “fullu gjaldi”.

Stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum er innihaldslítið ef því fylgir ekki tilkall til arðs af auðlindunum. Um þetta fjallaði ég m.a. í greininni Sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla í desember 2011.  (sjá http://skemman.is/stream/get/1946/10408/25911/1/b.2011.7.2.2.pdf eða Þjóðareign á náttúruauðlindum111216 ) Þar er m.a vikið að því hve misvel þjóðum hefur tekist til með auðlindir sínar. Alltof fáar þeirra hafa eins og Noregur tryggt sér raunverulegt eignarhald með eignarhaldi á olíuvinnslu og gjaldtöku af nýtingu vatnsorku. Víðar þekkjast dæmi um gjaldtöku af nýtingu auðlinda svo t.d. í BNA. Í öðrum tilvikum hefur miður tekist til. Þrátt fyrir formlegt eignarhald þjóða á auðlindum hefur nýting þeirra verið seld í hendur annarra án eðlilegs endurgjalds. Arðurinn rennur þá til stórfyrirtækja og spilltra pólitískra leppa þeirra. Lýsandi dæmi um það eru mörg ríki Afríku svo sem Nigería.

Lögin um veiðigjöld eru tilkall þjóðarinnar til arðs af fiskveiðiauðlindinni. Arðs sem hún hefur skapað sér með skilvirkri stjórn á fiskveiðum á stóru hafsvæði sem hún tryggði sér rétt yfir. Þessi arður er réttmæt eign þjóðarinnar. Hann getur og má aldrei verða einkaeign fárra. Veiðigjöldin er ekki skattheimta. Þau eru gjald fyrir afnot af eign þjóðarinnar, fiskveiðiréttinum, innheimt til að tryggja þjóðinni arð af eigin auðlind. Í gildandi lögum (upphafleg lög nr. 74/2012) eru veiðigjöldin tengd arðinum af auðlindinni með hlutlægum og gagnsæum hætti, þau vaxa með auknum arði og lækka dragist hann saman.

Lögin um veiðigjöld voru ekki sett til tekjuöflunar eingöngu. Þau voru hluti af stefnumótun í auðlindamálum, þeirri stefnu sem fram kemur í tillögum að auðlindaákvæði í stjórnarskránni, þeirri stefnu að auðlindir þjóðarinnar eigi raunverulega að vera í eigu þjóðarinnar. Auðlindaarðinn eigi ekki að gefa einhverjum útvöldum.

Með þeim breytingum sem nú eru boðaðar er þessu öllu varpað fyrir róða. Veiðigjöldin á ekki lengur að tengja við auðlindaarðinn. Þau eiga að ráðast af geðþótta valdhafanna og þrýstingi sérhagsmunaafla. Veiðigjöldin missa því gildi sitt sem hluti af raunverulegu eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni. Í orkumálum er boðuð sama stefna. Hagsmunum landsins á að fórna á altari pólitískra stundarhagsmuna og alþjóðlegra stórfyrirtækja. Það er ekki undrunarefni að þessari stefnu er framfylgt af þeim öflum sem lögðust gegn stjórnarskrá með raunverulegu auðlindaákvæði, sem tryggi þjóðinni arð af eign sinni.

Í stað þess að skipa okkur í hóp þeirra landa, sem leggja kapp á og metnað í að vernda auðlindir sínar og tryggja hag þjóðarinnar allrar með arðinum af þeim, á nú að nota réttmæta eign þjóðarinnar sem pólitíska spilapeninga. Rætur íslenskrar þjóðmenningar kunna að vera í Noregi en hið pólitíska siðferði er sótt til Nigeríu.

II. Eru veiðigjöldin sanngjörn?

Boðuð hefur verið lækkun á veiðigjaldi. Það er ekkert við því að segja að nýr meirihluti á þingi breyti lögum enda sé það í samræmi við vilja kjósenda sem komið hefur fram í kjöri til Alþingis og að breytingarnar séu byggðar á haldbærum rökum og kynntar á réttum forsendum. Sé ekki svo er með boðuðum breytingum verið að hverfa aftur til þeirrar fortíðar þegar eigendum fárra stórútgerða var færður arður af fiskveiðiauðlindinni á silfurfati gegn greiðslu sýndarveiðigjalds sem ekki nægði til að greiða kostnað samfélagsins af fiskveiðistjórnun.

Það að fórna hagsmunum almennings með lækkun veiðigjalda má ekki byggja á þjónustu við sérhagsmuni. Til lækkunar á þeim þarf veigamiklar ástæður og gildan rökstuðning. Þær ástæður fyrir lækkun veiðigjaldanna, sem hafa verið tilgreindar eru ekki þess eðlis og fá illa staðist skoðun. Helstar þeirra eru að veiðigjöld séu ósanngjörn skattheimta, að þau séu of há og muni ríða útgerðunum á slig, að þau íþyngi um of litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að þau leggist fyrst og fremst á landsbyggðina, að þau skerði laun sjómanna, að þau mismuni útgerðum eftir því hvaða veiði er stunduð, að þau standi í vegi fyrir nýfjárfestingu og endurnýjun og að þau séu óframkvæmanleg af tæknilegum ástæðum.

Nýju veiðigjöldin (lög 74/2012) eru tvíþætt. Almennt veiðigjald, miða að því að útgerðin greiði þann kostnað sem hið opinbera hefur af fiskveiðistjórnun og umsýslu fyrir sjávarútveg. Varla verður með rökum talið að aðrir eigi að greiða þann kostnað. Sérstakt veiðigjald er svo hlutdeild þjóðarinnar í auðlindarentunni, hluti af þeim arði sem eftir stendur þegar búið er að greiða allan tilkostnað, laun, orku, viðhald og allan annan útgerðarkostnað þ.m.t. kaup á skipum og fjármagnskostnað þ.e. vexti af lánsfé og arð til eigenda. Sérstakt veiðigjald, gjald fyrir afnot af sameign þjóðarinnar, kemur því ekki til fyrr en allir aðrir hafa fengið sitt. Þá er þessum umframarði skipt á milli þjóðarinnar, sem á allt tilkall til arðs af þessari auðlind sinni, og útgerðanna sem fengið hafa heimild til að nýta hana og eru búnar að fá eðlilega arð af fjárfestingu sinni.

Þegar gildandi lög um veiðigjöld eru að fullu komin til framkvæmda er gert ráð fyrir að þjóðin fái í sinn hlut 65% af umframarðinum að meðtöldu almenna veiðigjaldinu sem á að standa undir opinberum kostnaði við sjávarútveg. Útgerðin fær 35% af umframarðinum til viðbótar við að hafa þegar fengið arð af því fé sem hún hefur lagt fram. Þá eru lögin þannig úr garði gerð að ef rekstrarskilyrði versna, t.d. gengi hækkar eða fiskverð lækkar, þá bitnar það fyrst á sérstaka veiðigjaldinu sem lækkar og hverfur ef umframarðurinn dugar ekki til að greiða meira en kostnaðinn þ.e. almenna gjaldið. Því verður ekki haldið fram með réttu að útgerðinni séu settir afarkostir með þessum lögum. Þau fela í sér að þeim sem fengið hafa heimild til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar er gert að greiða samfélaginu þann kostnað sem stafar af því að viðhalda auðlindinni og skapa útgerðinni hagkvæmar rekstrarforsendur og að þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fái eitthvað í arð af henni þegar vel gengur. Er það ósanngjarnt?

Það hefur stundum heyrst að ekki sé sanngjarnt að útgerð sé látinn borga skatt sem önnur atvinnustarfsemi sé laus við. Rökin fyrir því eru að útgerðin hefur þá sérstöðu að hafa fengið einkaleyfi til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Veiðigjaldið er ekki venjulegur skattur heldur er með þeim verið að skila auðlindarentunni til réttmæts eigenda hennar. Önnur almenn atvinnustarfsemi er ekki í þessari stöðu. Hins vegar ættu sömu sjónarmið að vera upp gagnvart þeim sem nýta aðrar sameiginlegar auðlindir svo sem orku og er þar enn verk að vinna.

III. Eru veiðigjöldin of há?

Engin málefnaleg rök hafa verið færð fyrir því að lækka þurfi veiðigjöld en margháttaðar staðhæfingar hafa verið á sveimi. Hér að framan var fjallað um hvort þau væru sanngjörn og sýnt fram á að með þeim er þjóðin að tryggja sér hlutdeild í umframarði af fiskveiðiauðlindinni, þ.e. tekjunum eftir að búið er að greiða allan kostnað og útgerðin hefur tekið arð af fjárfestingu sinni. Eigi sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni að vera annað en innantóm orð er það eðlilegt og sanngjarnt að eigandinn njóti arðs af eign sinni. Í þessum kafla er ætlunin að svara því til hvort veiðigjöldin séu of há í þeim skilningi að þau rýri um of afkomu í sjávarútvegi og muni ríða útgerðunum á slig eins og stundum er haldið fram.

Veiðigjöldin á lögum samkvæmt að ákveða á grundvelli afkomu sjávarútvegs og fiskvinnslufyrirtækja. Hagstofa Íslands hefur árum saman unnið úr skattframtölum og öðrum gögnum og birt yfirlit yfir afkomu veiða og vinnslu. Fiskistofa tekur saman og birtir ítarlegar upplýsingar um aflabrögð. Lítið annað þarf til að ákveða veiðigjöldin. Hér á eftir fer  lauslegur útreikningur á forsendum veiðigjalds byggt á veiðum og afkomu á árinu 2011 og miðað við að lögin væru að fullu komin til framkvæmda, þ.e. veiðigjöldin væru orðin 65% af umframarðinum.

Afli í þorskígildum um 450 þús. tonn

EBIDTA um 72 milljarðar króna

Reiknaður fjármagnskostnaður o.fl um 35 milljarðar króna

Umframarður (auðlindarenta) um 37 milljarðar króna

þar af:

til útgerðar (35%)um 14,5 milljarðar króna

veiðigjöld (65%)um 22,5 milljarðar króna

EBIDTA í veiðum og vinnslu sjávarafla, þ.e. tekjur af sölu afurða eftir að frá hefur verið dregin allur almennur rekstrarkostnaður, laun, olíukostnaður og allur annar greiddur kostnaður annar en vextir og án afskrifta, á árinu 2011 var samtals um 72 milljarðar króna.

Fjármagnskostnaður er reiknaður sem 8% af stofnverði rekstrarfjármuna, þ.e. skipa, húsa, búnaðar og birgða var um 30 milljarðar. Auk þess er meðtalin sérstök lækkun rentu (ca 5 milljarðar) vegna vinnslu þannig að frá EBIDTA koma um 35 milljarðar króna til frádráttar.

Eftir þann frádrátt stendur eftir um 37 milljarða umframarður, þ.e. arður eftir að greiddur hafði verið allur kostnaður og eigendum reiknaður arður af þeirra framlagi. Það er þessi umframarður sem kemur til skipta milli útgerðar og eiganda fiskveiðiauðlindarinnar samkvæmt lögunum. Þegar þau eru komin að fullu til framkvæmda og að teknu tilliti til afsláttar til smærri útgerða hefðu veiðigjöldin orðið um 22,5 milljarðar króna. Þar af er almenna veiðigjaldið, þ.e. kostnaðarhlutinn um 4,5 milljarðar og hin eiginlega hlutdeild í auðlindarentunni um 18 milljarðar króna.

Er gengið of nærri sjávarútvegi með þessu? Eftir að greiddur er allur kostnaður og veiðigjöld hefðu fyrirtæki í sjávarútvegi nærri 50 milljarðar króna til að greiða fyrir það fjármagn sem lagt er fram. Fyrning rekstrarfjármuna gæti verið 12 – 15 milljarðar og vextir af bundnu fé svipuð fjárhæð. Sjávarútvegurinn hefði þannig haft 20 – 25 milljarða til ráðstöfunar umfram allan rekstrarkostnað og  venjulega ávöxtun fjármagns. Árið 2011 var hagstætt sjávarútvegi. Á árinu 2007 var afkoman önnur og verri. Afkoman 2012 var hins vegar enn betri. Um áhrif þess á veiðigjöldin verður fjallað síðar.

Ómögulegt er að halda því fram með rökum að með þessari gjaldtöku sé þrengt óeðlilega hvað þá skaðlega að fyrirtækjum í sjávarútvegi. Enn síður fær staðist að gjaldtakan bitni mest á litlum og meðalstórum fyrirtækjum á landsbyggðinni. Miðað við reikninga ársins 2010 voru um 34 fyrirtæki með veltu yfir 1 milljarður. Þau höfðu yfir 80% heildarkvótans og þau hefðu greitt um 85% af sérstaka veiðigjaldinu eða yfir 15 milljarða af þeim 18 milljörðum sem til greiðslu hefðu verið.

IV. Hverjir greiða veiðigjöldin?

Í fyrri köflum var bent á að veiðigjöldin eru sanngjarnt endurgjald fyrir réttinn til að nýta fiskveiðiauðlindina og að þau eru hófleg þar sem þau taka mið af umframhagnaði rekstrar eftir að útgerðin hefur fengið arð af sínu fjármagni. Eitt af því sem einkennir veiðigjöldin er að þau aðlaga sig að afkomu útgerðar. Afkoman útgerðar ræðst að verulegu leyti af fiskverði sem ræðst síðan af gengi ísl. krónunnar. Styrkist krónan lækkar fiskverð í ísl. krónum og þar með lækkar sérstaka veiðigjaldið.

Á árunum fyrir hrun þegar krónan var óeðlilega sterk hefði gjald eins og sérstaka veiðigjaldið verið lágt og jafnvel ekkert. Þegar gengi krónunnar hrundi skapaði það sjávarútvegi nær einum atvinnuvega miklar tekjur án eigin tilverknaðar. Þessi sveifla á genginu skerti hag heimila í landinu með hækkun vöruverðs og skerti tekjur ríkissjóðs vegna samdráttar í neyslu og sköttum af henni en færði sjávarútveginum stórauknar tekjur. Þannig varð í þjóðfélaginu tekjutilfærsla sem nam tugum milljarða frá almenningi til fárra eigenda stórútgerða og er viðvarandi svo lengi sem gengið helst lágt vegna afleiðinga hrunsins.

Veiðigjald af þeim toga sem nú er í lögum er því ekki einungis sanngjarnt sem endurgjald fyrir notkun sameiginlegrar auðlindar heldur er það einnig vörn gegn því að kostnaðurinn af lækkun á gengi krónunnar lendi á öllum almenningi en ágóðinn hjá fáum útvöldum.

Því hefur verið haldið fram að veiðigjöldin íþyngi einkum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og að þau séu sérstakur landsbyggðarskattur. Staðreyndirnar eru allt aðrar. Við athugun á því hvernig veiðigjöldin dreifast er nauðsynlegt að hafa í huga hvernig úthlutun veiðiheimilda er háttað. Sé miðað við afkomutölur á árinu 2010 voru 34 félög af 402 sem fengu úthlutað aflamarki upphaflega fyrir fiskveiðiárið 2011/12 með söluveltu yfir 1 milljarði kr. Þessi 34 félög fengu úthlutað um 80% alls aflamarks. Þau greiddu vegna þeirrar úthlutunar um 85% af séstaka veiðigjaldinu. Hin félögin 378 fengu um 20% úthlutunarinnar og greiddu um 15 % sérstaka veiðigjaldsins.

Almenna veiðigjaldið er jafnhátt á hvert kíló óháð stærð fyrirtækisins og sérstaka veiðigjaldið er lægra á kíló hjá litlum fyrirtækjum en hjá stórum. Sem dæmi er sérstaka veiðigjaldið 0 kr. hjá fyrirtækjum með minna en 30 tonna afla, rúmar 8 kr/kg. miðað við 100 tonn, tæpar 16 kr/kg miðað við 200 tonn, rúmar 20 kr/kg miðað við 500 tonn og rúma 22 kr/kg miðað við 1500 tonn. Hjá stórútgerðum með 5 til 15 þús tonna afla er sérstaka gjaldið um 23 kr/kg. af botnfiskafla. Þetta leiddi til þess eins og að framan greinir að stórútgerðir með 80% kvótans greiddu um 85% af sérstaka veiðigjaldinu en hinar minni með 20% kvótans greiddu 15% sérstaka veiðigjaldsins.

Auðlindagjald hefur ekki áhrif á innbyrðis rekstrarskilyrði í viðkomandi atvinnugrein og veiðigjöldin hafa það ekki umfram þau ívilnandi áhrif fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem að framan greinir. Frá sjónarmiði hagkvæmni og samkeppni er ekki æskilegt að skattar hafi slík áhrif, t.d. með því að draga úr stærðarhagkvæmni. Þar sem nýtingarréttur er seldur, t.d. námaéttindi er algengast að hann sé bundinn því magni sem nýtt er en taki ekki mið af því hver notandinn er, hvort hann sé stór eða lítill o.s.fr. Veiðigjaldið er litlum fyrirtækjum ekki meiri byrði en stórum heldur þvert á móti og enginn skynsamleg rök standa til þess að tengja veiðigjaldið rekstrarlegum forsendum einstakra fyrirtækja.

Af svipuðu toga er einnig sú ranga fullyrðing að veiðigjöldin séu í eðli sínu landsbyggðarskattur. Veiðigjöld eru skattur á eigendur útgerða. Á þeim og engum öðrum lendir þessi skattur eins og t.d. hækkun á olíu eða öðrum aðföngum. Þeir geta ekki velt honum yfir á aðra. Sé landfræðileg skipting veiðigjalda metin ræðst hún af því hvar eigendur fyrirtækjanna eiga heima. Engu skiptir hvar fyrirtækin eru skráð, hvar heimahöfn skips er eða hvar aflanum er landað. Eins og að framan greinir greiða 34 stærstu fyrirtækin um 85% veiðigjaldanna. Þessi fyrirtæki eru flest skráð á höfuðborgasvæðinu og fáum öðrum stöðum. Eigendahópurinn er yfirleitt fáeinar fjölskyldur, fjármálstofnanir og atvinnufjárfestar. Samþjöppun eigendahópsins er því líklega enn þá meiri. Af þessu má ráða að mestur hluti sérstaka veiðigjaldsins sé greiddur af íbúum á Reykjavíkursvæðinu og á nokkrum stórum stöðum svo sem Akureyri, Vestmannaeyjum, Neskaupstað og Reykjanesi.

V. Sjómannslaun og æskilegar fjárfestingar.

Hér verður vikið að staðhæfingum þess efnis að veiðigjöldin skerði kjör sjómanna, að þau standi í vegi fyrir nýfjárfestingu og endurnýjun fiskiskipaflotans.

Sjómannslaun

Laun sjómanna eru í kjarasamningum yfirleitt ákveðin á grundvelli hlutaskiptareglu, þ.e. sjómenn fá í laun ákveðið hlutfall af söluverðmæti aflans. Veiðigjöldin hafa engin áhrif á það verð sem fæst fyrir afla á markaði og þar af leiðandi ekki á laun sjómanna. Laun sjómanna hafa hækkað með lægra gengi og hækkandi fiskverði. Því hefur verið haldið fram að veiðigjöldin hvetji útgerðir til að reyna að lækka laun sjómanna. Óskir þess efnis voru uppi löngu fyrir tilkomu núverandi veiðigjalda. Ólíklegt er að þau ýti undir þær m.a. af því að ávinningur útgerða af lækkun launahlutfallsins er minni en áður því launakostnaður kemur til frádráttar áður en veiðigjöldin eru reiknuð. Lækkun launanna hækkar veiðigjöldin sem dregur úr ávinning útgerðarinnar af lækkuninni.

Tilhneiging til lækkunar launa með fölskum verðum í viðskiptum tengdra aðila er velþekkt. Með því að veiðigjöldin taka að hluta til rentu í vinnslu er dregið úr hvata til þess að fölsk verðlagning lækki veiðigjöldin og um leið launin. Hagsmunir sjómanna liggja í því að knýja á um að viðskipti með afla fari fram á markaðsverði en ekki í því að lækka veiðigjöldin.

Fjárfestingar

Sú fullyrðing að veiðigjöld muni draga úr æskilegri fjárfestingu er vægast sagt undarleg frá hagfræðlegu og rekstrarlegu sjónarmiði. Með henni virðist höfðað til þeirrar barnslegu trúar sumra stjórnmálamanna og bankahagdeilda að fjárfesting sé alltaf af hinu góða og hún ráðist bara af því hvað marga aura þú ert með í vasanum. Hvorugt er rétt. Fjárfesting er ekki æskileg nema hún auki framleiðslu og verðmæti meira en sem nemur kostnaði við fjárfestinguna. Þegar litið er á fjárfestingarþörf í sjávarútvegi er langt í frá augljóst að svo sé og að mörgu að hyggja öðru en aldri skipa, sem er u.þ.b. það eina sem nefnt hefur verið til rökstuðnings fyrir aukinni fjárfestingu.

Veiðar eru háðar aflamagnstakmörkunum. Stækkun fiskveiðiflotans eða aukning veiðigetu skipa breytir ekki aflamagni eða verðmæti aflans og er ekki rök fyrir aukinni fjárfestingu, Líklega er veiðigeta flotans þegar meiri en þörf er á. (Endurnýjun hans af hagkvæmniástæðum getur hins vegar verið ástæða til fjárfestinga.) Stækkun flotans hefur ekki aukið aflamagn í för með sér og því er augljóst að hún getur ekki leitt til hækkunar á tekjum af veiðigjöldum eins og haldið hefur verið fram.

Krafa um auknar fjárfestingar í sjávarútvegi vekur ýmsar spurningar. Að frátöldum fáum síðustu árum var fjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja mikil. En hún var ekki í rekstrarfjármunum nema að litlu leyti. Hún var í kvótakaupum, hlutabréfum og stofnframlagi í fyrirtæki m.a. erlendis. Hún var ekki fjármögnuð nema að litlu leyti af fé frá rekstri heldur af lánsfé. Lánsfé var þannig notað til að fjármagna útborgun á arði (beint og með sölu á kvóta) og til að taka þátt í spákaupmennsku. Af hverju var ekki fjárfest í skipum og öðrum rekstrarfjármunum, sem nú er talin sár þörf á? Á þjóðin að afsala sér tilkalli til arðs af auðlind sinni nú til að fjármagna þessa gjörninga?

Fjárfestingar í atvinnurekstri er að jafnaði ekki fjármögaðar að fullu með fé úr rekstri heldur með lánsfé að hluta. Til að fá lánsfé þarf fjárfestingin að vera arðbær. Álagning veiðigjalda skv. gildandi lögum breytir því ekki að fjárfestingin í sjávarútvegi sé arðbær. Áður en til sérstaka veiðigjaldsins kemur er búið að gera ráð fyrir góðri ávöxtun á því fé sem lagt er fram. Rekstrarhagnaður umfram það hefur verið mikil síðustu ár og færir útgerðinni drjúga viðbót. Þegar verr árar lækkar sérstaka veiðigjaldið og fellur brott þegar umframarður er ekki til staðar. Þannig er tryggt að veiðigjöldin skerða ekki æskilega fjárfestingu í greininni.

Sala á kvóta á háu verði á undanförnum árum er merki um að umframhagnaður í fiskveiðum hefur verið mikill. Með veiðigjöldunum ætti verð á kvóta að vera lægra en ella og tilflutningur aflaheimilda til nýrra aðila eða í hagræðingarskyni að vera auðveldari, lánsfjárþörf minni og vaxtakostnaður lægri. Minni fjárfesting til kvótakaupa er því æskileg. Fjárfesting, bara af því að nægir fjármunir eru fyrir hendi eða vegna þess að arðsemi er svo mikil að lánsfé verður ódýrt, er ekki æskileg. Afleiðingin verður offjárfesting og röng fjárfesting t.d. í kaupum á kvóta í þeim tilgangi að tryggja valdaðstöðu á markaði.

Fullyrðingar um að veiðigjöldin dragi úr æskilegum fjárfestingum í sjávarútvegi eru í besta falli vafasamar og það að halda því fram að lækkun veiðigjaldanna leiði til aukinna tekna er fullkomin rökleysa.

VI. Hverjir fá lækkun veiðigjaldanna?

Því hefur gjarnan verið haldið fram að lækkun sérstaka veiðigjaldsins sé gerð til að bæta stöðu meðalstórra og lítilla sjávarútvegsfyrirtækja. Ekkert hefur þó verið lagt fram til rökstuðnings þeirri fullyrðingu. Stórfyrirtækin sem birta heilsíðuauglýsingar gegn þessari arðgreiðslu til þjóðarinnar gera það væntanlega af einskærri umhyggju fyrir litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Reyndar er eftirtektarvert hve lélegur málatilbúnaðurinn formælenda lækkunarinnar er, einkum í ljósi þess að fyrirliggjandi eru ítarlegar upplýsingar um afla og skiptingu hans í gögnum Fiskistofu, m.a. á heimasíðu hennar þar sem afli og aflaheimildir hvers skips eru tíundaðar. Eins liggja fjárhagsupplýsingar vel fyrir í gögnum og ritum Hagstofunnar. Það að er eins og rök skipti engu máli. Til að bæta nokkuð úr skal hér vakin athygli á fáeinum staðreyndum í því efni.

Fyrir fiskveiðiárið 2012/13 var úthlutað aflamarki í botnfiski, rúml. 300 þús tonnum mælt í þorskígildum. Úthlutun fengu skip og bátar tæplega 540 aðila allt frá nær engu upp í yfir 35 þús. tonn. Þær tillögur sem nú liggja fyrir um lækkun sérstaka veiðigjaldsins á botnfisk munu lækka veiðigjöldin af þessum afla um rúmlega 4,5 milljarða króna. Þessi lækkun mun skiptast þannig eftir stærð fyrirtækja.

Lækkun  sérstaks veiðigjalds
HB Grandi hf, Samherji hf, Þorbjörn hf, FISK-Seafood ehf, Brim hf,  Rammi hf, Vísir hf. Með 12 – 35 þús tonna botnfiskkvóta hvert, samtals um 128 þús tonn um 2.000 millj. kr.
Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf, Vinnslustöðin hf, Síldarvinnslan hf, Nesfiskur ehf, Eskja hf, Ísfélag Vestmanneyja, Útgerðarfélag Akureyringa ehf, Ögurvík hf, Bergur-Huginn ehf, Stálskip ehf, Skinney-Þinganes, Jakob Valgeir ehf. Með 4 – 10 þús. tonna botnfiskkvóta hvert, samtals um  76 þús. tonn. um 1.200 millj. kr.
28 Félög með 1 – 4 þús. tonna botnfiskkvóta hvert, samtals um 52 þús. tonn um 800 millj. kr.
Um 490 önnur félög með minna en 1 þús tonna kvóta hvert, samt. um 50 þús tonn um 550 millj. kr.

Þau 7 fyrirtæki sem mestan kvóta hafa, hvert um sig yfir 12 þús. þorskígildistonn, munu fá lækkun sem nemur um 2 milljörðum króna. Næstu 12 fyrirtæki með yfir 4 þús tonn hvert munu fá um 1,2 milljarða króna. Næstu 28 fyrirtæki sem hafa yfir 1 þús. tonn hvert fá samtals um 800 milljónir króna. Tæplega 500 fyrirtæki sem þá eru eftir fá um 550 milljónir, en þar af var meira en helmingur þegar gjaldfrjáls þ.e. með minna en 30 tonna afla.

Það þarf brenglað sjónarhorn til að lesa út úr þessu sérstakan stuðning við meðalstór og lítil fyrirtæki. Stærstu 19 fyrirtækin fá 3,2 milljarða í lækkun sem er yfir 70% heildarinnar. Sama er að segja um þá fullyrðingu að þetta sé gert fyrir landsbyggðina. Veiðigjöldin greiðast af eigendum fyrirtækjanna og engum öðrum. Þessi stóru fyrirtæki eru í eigu fárra aðila á Suðvesturhorninu og fáum öðrum stöðum. Meðal stórra eigenda í þeim eru bankar, lífeyrissjóðir, tryggingafélög og eignarhaldsfélög með óþekktu eignarhaldi. Þessum aðilum á að færa arðinn af fiskveiðiauðlindinni. Eiga þeir hann?

VII Framkvæmd

Farið hefur verið yfir flestar þær efislegu staðhæfingar sem beint hefur verið gegn veiðigjöldunum og sýnt fram á haldleysi þeirra. Síðasta haldreipi þeirra, sem hindra vilja álagningu veiðigjalda án þess að viðurkenna þá hagsmunagæslu, sem að baki býr, er að reyna að halda því fram að veiðigjaldslögn séu óframkvæmanleg. Eins og fleira er þetta ekki rökstutt, því bara slegið fram.

Veðigjaldslögin eru þegar í framkvæmd að öllu leyti öðru en því að útreikningi sérstaka gjaldsins fyrir komandi fiskveiðiár hefur ekki verið lokið. Framkvæmd laganna er byggð á áralöngu fyrirkomulagi þar sem Fiskistofa leggur gjöldin á og sér um innheimtu þeirra. Á því varð engin afgerandi breyting.

Ákvörðun gjaldanna fyrir komandi fiskveiðiár er einnig byggð á grunni fyrri framkvæmdar. Veiðigjöldin voru áður kr./þorskígildiskíló sem reiknað var árlega sem ákveðið hlutfall af EBIDTA í fiskveiðum. EBIDTA að mestu var reiknuð á grudvelli gagna frá ríkisskattstjóra og birt árlega af Hagstofu Íslands. Veiðigjald ákveðið með þessum hætti var lagt á allan afla skv. aflamarki og löndun, sama gjald á allan afla botnfisk sem uppsjávarafla, óháð afkomu og öðrum þáttum.

Ákvörðun veiðigjaldanna nú er byggð á sömu aðferðafræði með nokkrum breytingum sem hafa mikla efnislega þýðingu en raska framkvæmd ekki verulega.

Í fyrsta lagi er ekki lengur miðað við EBIDTA eingöngu heldur þá stærð að frádregnum reiknuðum fjármagnskostnaði. Með því ræðst sérstaka veiðigjaldið af meðaltali umframhagnaðar og breytist með honum, lækkar ef hann minnkar og fellur niður ef hann hverfur í slæmu árferði en hækkar þegar vel gengur t.d. vegna lágs gengis.

Í öðru lagi var tekið tillit til hluta af EBIDTA í fiskvinnslu til að ná til umframhagnaðar sem fram kann að koma í vinnslunni vegna sölu undir markaðsverði milli tengdra aðila, sem veruleg brögð virðast að.

Í þriðja lagi var skilið á milli útreiknings á veiðigjaldi fyrir botnfisk og uppsjávarafla en afkoma og verðmyndun í þessum hlutum útgerðar hefur verið afar mismunandi.

Þetta kallaði á nokkrar breytingar á meðferð þeirra gagna sem áður hafði verið stuðst við, flokkun þeirra og smávægilegan útreikning hjá ríkisskattstjóra, sem þegar hefur verið gerður. Allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru liggja fyrir og hafa verið flokkaðar nema umræddar nýjar upplýsingar frá ríkisskattstjóra. Vandamálið virðist af blaðafregnum að dæma liggja í því að Hagstofan sér á því einhverja formlega annmarka að taka við þessum upplýsingum.

Erfitt er að sjá þetta sem rök fyrir lagaframkvæmd sem lengi hefur staðið. Vaxi það stjórnvöldum virkilega í augum að leysa úr því vandamáli, sem talið er að liggi í því að einni stofnun afhendi annarri upplýsingar þar sem báðar eru bundnar sams konar trúnaði og hafa skipst á upplýsingum áratugum saman, má benda á eftirfarandi úrræði:

  • semja við stofnanirnar um afhendinguna með þeim hætti að þeim verði ekki meint af,
  • kveða á um það í lögum að Hagstofan megi taka við nauðsynlegum gögnum,
  • kveða á um það í lögum að ríkisskattstjóri skuli afhenda Hagstofunni upplýsingar sem þörf er á,
  • flytja verkefni á þessu sviði frá Hagstofu til ríkisskattstjóra.

Þetta er allt einfaldar lagabreytingar. Sé ekki vilji til gera einhverra þeirra eru til taks önnur úrræði sem ekki fela í sér afsal þjóðarinnar á mestallri auðlindarentu í fiskveiðum.

  • Að áætla veiðigjöldin skv. lögunum á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir og eru fullnægjandi til þess og lögfesta þau með sama hætti og gert var með veiðigjöldin á yfirstandandi fiskveiðiári eða
  • framlengja núverandi gjöld (fiskveiðiárið 2012/13) með breytingum í samræmi við breytingar á verðvísitölu sjávarafurða milli ára.

Ein athugasemd á “Veiðigjöld

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s