Það er mörgum óljóst hvað átt er við með hugtakinu auðlindarenta í sjávarútvegi og kröfunni um að almenningur fái notið hennar í stað þess að hún renni til fárra útvaldra. Oft er rentu ruglað saman við hagnað af starfsemi, sem getur verið birtingarmynd hennar í bland við annað.
Tekjur af atvinnustarfsemi má rekja til þriggja þátta. Tekjur af vinnu, þ.e. laun og annað sem þeim tengjast, tekjur af fjármagni svo sem rekstrarhagnaður og vextir, þ.e. ávöxtun eigin fjárs og lánsfjárs, sem notað er í starfseminni og tekjur af landi eða öðrum auðlindum sem nýttar eru í framleiðslunni. Framleiðsluþættirnir eru vinna, fjármagn og auðlindir og tekjurnar af þeim laun, fjármagnstekjur og renta. Samtala þessara tekna er virðisauki af starfseminni og samtala hans af allri starfsemi í landinu er verg landsframleiðsla.
Sé aðgangur að starfsemi og nýtingu auðlindar óheftur er talið að samkeppni á markaði sjái til þess að auðlindarentan myndist ekki og eftir standi einungis laun og tekjur af fjármagni. Sé aðgangur að auðlind takmarkaður annað hvort af náttúrulegum ástæðum, t.d. aðgangur að orkulindum, eða vegna pólitískra ákvarðans, t.d. takmarkaðar veiðiheimildir, má gera ráð fyrir að renta myndist í starfseminni, þ.e. að virðisaukinn verði meiri en vinnulaun og eðlilegur hagnaður. Þessi mismunur, stundum kallaður umframhagnaður, er rentan af auðlindinni.
Auðlindarentan er réttmæt eign þess sem á auðlindina. Enginn annar getur gert tilkall til hennar. Hins vegar kann svo að vera að af einhverjum ástæðum sé ekki vilji eða geta fyrir hendi að nýta auðlind nema hlutdeild í rentunni komi til viðbótar við eðlilega ávöxtun. Ástæðan getur t.d. verið að áhætta af starfseminni sé metin það mikil að ekki sé vilji til að leggja í fjárfestingu hennar vegna nema gegn aukinni ávöxtun og/eða löngum nýtingartíma.
Eigandi auðlindar getur brugðist við þessu með ýmsum hætti, hann getur ákveðið að nýta auðlindina sjálfur eins og gert er með orkufyrirtækjum í almenningseign eða hann getur ákveðið árlegt leiguverð á nýtingarrétti eins og oft er gert í námavinnslu eða selt afmarkan nýtingarrétt til lengri eða skemmri tíma. Gera má ráð fyrir að eigandi auðlindar leiti í því efni þeirra leiða sem gefur honum mest í aðra hönd. Þegar auðlind er í almannaeign verður að líta svo á að stjórnvöld séu skyldug til að ráðstafa nýtingu á auðlindinni með almannahag í huga, þ.e. að fá sem mest fyrir nýtingu hennar að teknu tilliti til allra lögmætra sjónarmiða svo sem staðbundinna hagsmuna og áunninna réttinda.
Réttur til að stunda fiskveiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu er líklega verðmætasta náttúruauðlind þjóðarinnar og um hana gilda þau sjónarmið sem rakin eru hér að framan.
Fyrirliggjandi upplýsingar gera það auðvelt að átta sig verðmæti þessarar auðlindar, þeirri þýðingu sem hún hefur fyriir þjóðarbúið og hvort og hvernig nýting hennar skilar sér til eigandans. Upplýsingar um þetta hafa árum saman verið teknar saman af Hagstofu Íslands og er einnig að finna í gögnum Ríkisskattstjóra. Umfang sjávarútvegs spannar bæði veiðar og vinnslu, sem ekki verða aðskilin með góðum móti vegna blandaðrar starfsemi margra fyrirtækja og eignatengsla annarra. Kemur það ekki að sök við mat á auðlindarentunni.
Rentan er afgangurinn af heildartekjum þegar tekið hefur verið tillit til rekstrarkostnaðar þ.m.t. launa og fjármagnskostnaðar. Ferillinn frá heildartekjum til rentu er rakinn hér á eftir. Þær stærðir sem skipta máli eru þessar:
- Tekjur fyrirtækja í fiskveiðumog vinnslu af sölu fiskjar og fiskafurða án tekna af sölu hráefnis til annarra fyrirtækja í greinunum.
- Rekstrarkostnaður (aðföng), annar en laun, sömu fyrirtækja án kaupa á hráefni frá öðrum fyrirtækjum í greinunum. Greidd veiðigjöld eru ekki meðtalin í rekstrarkostnaði hér að neðan.
- Laun fyrirtækjanna með launatengdum gjöldum og sköttum.
- Eignir fyrirtækjanna í rekstrarfjármunum, skip, hús, tæki o.s.frv. Peningalegar eignir og skuldir ekki meðtaldar. Árgreiðsla (annuitet) er reiknuð árleg verðrýrnun fastafjármuna og reiknaðir vextir af fjárfestingunni hvort sem er um að ræða eigið fé eða lánsfé.
Hagstofa Íslands gefur árlega út ritið Hagur veiða og vinnslu og eru tölur í meðfylgjandi töflu sóttar í það.
2013 | 2014 | |
Sölutekjur | 271 | 241 |
Rekstrarkostnaður (aðföng) | 103 | 92 |
Virðisauki | 168 | 149 |
Laun og tengd gjöld og skattar | 87 | 83 |
Fjármagnstekjur og renta | 81 | 66 |
Árgreiðsla | 23 | 22 |
Renta | 58 | 44 |
Renta til eiganda auðlindar | 9 | 8 |
Renta til útgerðar | 49 | 36 |
Samkvæmt þessu er virðisauki í sjávarútvegi 168 milljarðar króna á árinu 2013 en fellur niður í 149 milljarða árið 2014 aðallega vegna samdráttar á uppsjávarafla það ár.
Virðisaukinn er einnig mælikvarði á efnahagslegan þátt sjávarútvegs og er hann um tæp 9% af VLF fyrra árið og tæp 8% hið síðara.
Virðisaukinn er samtala tekna þeirra sem að starfseminni koma, launa þeirra sem þar starfa, vaxta af eigin fé og lánsfé og endurgjalds eða rentu fyrir nýtingu auðlindarinnar. Virðisaukinn skiptist þannig árið 2014 að 83 milljarðar króna eða tæp 56% hans fara í laun og tengd gjöld þ.m.t. tryggingagjald. Rentan er 44 milljarðar króna eða tæp 30% virðisaukans en þar af renna einungis um 8 milljarðar króna eða um 5% hans til eiganda auðlindarinnar. Afgangur rentunnar 36 milljarðar króna renna til eigenda fjármagns í útgerð og bætast við 22 milljarða króna árgreiðslu sem þeir hafa fengið. Hlutur fjármagnseigenda í virðisaukanum verður því alls 58 milljarðar króna eða um 39%.
Auðlindarentan, 58 milljarðar króna fyrra árið og 44 milljarðar króna seinna árið, skiptist á milli ríkissjóðs og útgerðar. Hluti ríkissjóðs eru veiðigjöldin sem voru um 9 milljarðar króna árið 1913 og um 8 milljarðar króna árið 2014. Hluti útgerðar var 49 milljarðar króna fyrra árið en 36 milljarðar króna seinna árið. Það ár runnu því um 85% af auðlindarentunni til útgerðarinnar en einungis um 15% hennar til eiganda auðlindarinnar.
Framangreindar tölur sýna glöggt þau verðmæti, sem fólgin eru í eignarhaldi á fiskveiðiauðlindinni. Þær sýna einnig að í núverandi kerfi er þessum verðmætum að mestu haldið frá eiganda auðlindarinnar og renna að stærstum hluta til útgerðarinnar. Hluti hennar í auðlindarenntunni hefur á síðustu árum eða allt frá hruni verið a.m.k. 40 til 50 milljarðar króna á ári sem hún hefur fengið til viðbótar við hagnað sem nægir til að standa undir endurnýjun rekstrarfjármuna og greiða eðlilega ávöxtun af því fé sem er bundið í þeim.
Tilraunir til að halda því fram að þessi ofurhagnaður sé nauðsynlegur til að viðhalda framleiðslugetu og samkeppnishæfni eru blekkingar. Renta útgerðarinnar í formi umframhagnaðar nægir til að endurgreiða allar fjárfestingar hennar á átta til tíu árum og á síðustu misserum hefur verið að koma í ljós hvernig handhafar hans eru að kaupa eignir í öðrum atvinnurekstri, hótelrekstri, fasteignafélögum o.s.frv. auk þess sem hluta hans er haldið utan landsteinanna af skjölum um aflandsfélög að dæma.
Það er einnig fjarri sanni að samfélagið hafi notið arðs af þessum tekjum í gegnum aðrar skattgreiðslur útgerðar. Skattgreiðslur, m.a. svokallað skattaspor útgerðar sem innifelur einnig skatta starfsmanna, eru ekki hærri en gengur og gerist í atvinnustarfsemi, sjá grein mína Skattaspor sjávarútvegs, (https://indridih.com/audlindir-fiskveidar-2/skattaspor-sjavarutvegs/) og hagnaðinn sem eftir situr geta eigendur nýtt til fjárfestinga í öðrum óskyldum rekstri með því að rúlla honum í gegnum eignarhaldsfélög og nýta ívilnandi ákvæði skattalaga til að komast hjá skattlagningu.
Það er ekki aðeins að þjóðin sé hlunnfarin og svipt rentunni af eigin auðlind. Náttúruauðlind þjóðarinnar er notuð til samþjöppunar á eignarhaldi í samfélaginu og er tæki til þess að þeir fáu aðilar, sem notið hafa þeirra velvildar stjórnvalda að sitja einir að mestum hluta hennar, eru að sölsa undir sig lungann úr annarri atvinnustarfsemi í landinu og m.a. stóran hluta í fasteignum til íbúðar fyrir þá sem ekki eiga eigið húsnæði. Því verður varla trúa að ný ríkisstjórn, gæslumaður almannahagsmuna, hvernig svo sem hún verður samsett taki ekki á þessu máli og sjái til þess að auðlindarentan af fiskveiðum falli í hendur þess eina aðila sem á lögmætt tilkall til hennar, þjóðarinnar.