Um höfund

 OLYMPUS DIGITAL CAMERAIndriði H. Þorláksson

hagfræðingur

Ég er fæddur í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu og ólst þar upp til fermingaraldurs í hóp 8 systkina. Að loknu 3ja ára námi í Miðbæjarskólanum í Reykjavík og Barnaskólanum á Sólheimum í Mýrdal og fullnaðarprófi úr þeim skóla tók við skólaganga fyrst í Héraðsskólanum í Skógum undir Eyjafjöllum og síðan í Menntaskólanum á Akureyri sem lauk með stúdentsprófi vorið 1960. Sumur og skólahlé voru notuð til vinnu og tekjuöflunar. Vegavinna hjá Vatna-Brandi, brúarvinna hjá Valmundi í Vík, mjólkurbrúsaþvottur og ostagerð í Mjólkurbúi Flóamanna, skurðgröftur í bæjarvinnunni á Akureyri og holsteinagerð hjá Jóni Loftssyni í Reykjavík voru þau verkefni sem stóðu undir skólagöngu ásamt framlagi foreldra og ætttingja.

Að loknu stúdentsprófi var ég kennari við Barna – og unglingaskóla Bolungarvíkur veturinn 1960 til 1961 og sumarið eftir vann ég hjá Einari Guðfinnssyni máttarstólpa plássins aðallega við að gera upp við trillukarla sem lögðu upp afla hjá frystihúsi hans. Ég innritaðist í viðskiptafræði í Háskóla Íslands  en sótti jafnframt um inntöku í hagfræðinám í  háskólum í Englandi og Þýskalandi. Í biðtímanum lauk ég  ýmsum forfögum í HÍ en vann með náminu sem forfallakennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar og starfaði á Orkumálaskrifstofunni og síðar við jarðboranir á Ólafsfirði, Húsavík, í Mývatrnssveit, á Akureyri og í Vestmannaeyjum.

Ég lagði stund á hagfræði við Freie Universität í Vestur Berlín og lauk þaðan Dipl. rer. prófi haustið 1969 og var aðstoðarkennari og doktorsnemi hjá aðalkennara mínum til vorsins 1970 að mér bauðst starf í Menntamálaráðuneytinu og flutti til Íslands.

Ég starfaði í Menntamálaráðuneytinu við fjármál og áætlanagerð í skólakerfinu og síðar sem deildarstjóri skólabyggingadeildar. Ég starfaði á þeim tíma með nefnd sem samdi fyrstu lögin um grunnskóla og sat í vinnuhópi sem undirbjó síðar lög um framhaldsskóla.

Í fjármálaráðuneytinu var ég deildarstjóri launadeildar frá 1981 og skrifstofustjóri starfsmannamála frá 1985 og skrifstofustjóri skatta- og lagaskrifstofu og staðgengill ráðuneytisstjóra frá 1987. Þennan tíma var ég framkvæmdastjóri og síðar formaður samninganefndar ríkisins í launamálum  Ég gegndi starfi hagsýslustjóra fjárlaga- og hagsýslustofnunar 1988 til 1989.

Á árunum 2000 og 2001 starfaði ég á skrifstofu Norðurlandanna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington sem varafulltrúi landanna í stjórn sjóðsins en tók svo við fyrra starfi sem skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu sem ég gegndi til ársloka 1998. Á þeim tíma hafði skrifstofan umsjón með innleiðingu EES samningsins, sá um samstarf innan OECD um skattamál og gerð tvísköttunarsamninga við erlend ríki auk þess að hafa yfirumsjón með framkvæmd skattalaga og undirbúning breytinga á þeim. Sat ég m.a. í nefnd um skattlagningu fjármagnstekna 1996 en var vikið úr henni vegna málefnaágreinings.

Ég tók við embætti ríkisskattsrtjóra í ársbyrjun 1999 og gegndi því starfi til 1. október 2006. Rafræn framtöl einstaklinga undirbúin á þessum tíma og tekin upp á árinu 2000 og þróuð frekar í framhaldi af því. Auk flókinnar tölvutækni þurfti að glíma við tregðu bankastofnana að skila fjárhagsupplýsingum. Skatteftirlit og tilraunir til að stemma stigu við skattasniðgöngu voru einnig málefni sem settu svip á starf skattsins á þessum árum

Í byrjun febrúar 2009 tók ég að beiðni þáverandi fjármálaráðherra að mér starf ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og gegndi því til haustsins en gerðist þá aðstoðarmaður ráðherrans og síðan ráðgjafi hans sem sjávarútvegsráðherra til ársins 2013. Á þessu tímabili vann ég að undirbúningi veigamikilla breytinga á skattalögum, sem voru liður í að endurreisa ríkisfjármálin eftir Hrunið, breytingum á lögum sem styrktu skatteftirlit svo og að sameiningu skattstofanna í eina stofnun. Þá voru lög um veiðigjöld undirbúin og komið í framkvæmd.

10 athugasemdir á “Um höfund

  1. Sæll, ert þú afkomandi Björns Þorlákssonar hreppstjóra í Mosfellssveit? EF svo er þá langar mig til þess að gefa þér smá gersemar sem tengjast honum, en ég hefi ekkert við að gera. Lát mig heyra. Bkv Friðrik Brekkan

    Líkar við

    1. Sæll Friðrik Brekkan

      Björn Einar Þorláksson hagleiksmaður og hreppstjóri á Varmá var afi minn. Ég hef reynt að komast yfir tiltækt efni um hann og hans merku en stuttu ævi. Því miður er það ekki mikið og því er það mér fagnaðarefni ef þú hefur eitthvað í þínum fórum sem akkur er í að sjá.

      Kv. Indriði H. Þorláksson

      Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s