Að hafa tungur tvær

Fyrir nokkru lögðu stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi fram sameiginlegar tillögur til breytinga á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016. Að sjálfsögðu var þeim ekki vel tekið af stjórnaflokkunum og reynt að stimpla þær sem ábyrgðarlaust yfirboð. Slíkt er vitaskuld ekki óþekkt við afgreiðslu fjárlaga. En var verið að yfirbjóða og í hverju fólgst ábyrgðarleysið?

Þó það sé ekki sjálfgefið gætu aukin útgjöld við núverandi aðstæður verið varhugaverð ef halli á ríkissjóði yrði aukinn með þeim. Því er hins vegar ekki að skipta því tillögur stjórnarandstöðunnar fela einnig í sér raunhæfa tekjuöflun sem dugar fyrir auknum útgjöldum og vel það. Frá sjónarhóli ríkisfjármálpólitíkur eru tillögurnar ekki ábyrgðarlausar.

En ábyrgð ríkisins er ekki bundin við ríkisfjármálapólitík eina saman. Þeir sem við stjórnvölinn eru þurfa líka að axla ábyrgð á þeim samfélagslegu kvöðum sem á ríkinu hvílir samkvæmt stjórnarskrá, öðrum lögum svo og siðferðilegum og pólitískum skyldum. Meðal þessara verkefna er heilbrigðisþjónusta, framfærsla aldraðra og öryrkja, uppeldis- og fræðslumál, löggæsla og öryggismál, menningarmál og listir og margt fleira auk þess að byggja upp innviði samfélagsins, samgöngur o.fl. Pólitískar skyldur valdhafanna eru ekki takmarkaðar við það eitt að stemma kassann af í lok dags.

Það er velþekkt, m.a. af skýrslum OECD, hvað ríki sem við berum okkur gjarnan saman við, svo sem Norðurlöndin, Þýskaland, Benelúx-löndin og önnur lönd í V-Evrópu, leggja í opinbera þjónustu til að uppfylla þær kvaðir sem á ríkinu hvíla í siðuðu samfélagi. Á flestum sviðum velferðar eru við eftirbátar þessara landa og ef eitthvað er hefur það bil verið að aukast á síðustu árum. Það vill þó gleymast þegar ráðamenn okkar guma á erlendri grund af ágæti okkar og afrekum svo sem arftekinni fjármálasnilld og umhverfisvænum orkubúskap í boði hnattstöðu landsins.

Í átökum á Alþingi og í fjölmiðlum um fjárlög næsta árs gagnrýnir stjórnarandstaðan, talsmenn opinberra þjónustustofnana og hagsmunaaðilar niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum. Aðrir, sem illa una niðurníðslu velferðar, hafa einnig látið í sér heyra svo að undan hefur sviðið. Tillögur stjórnarandstöðunnar eru tilraun til að stöðva aðför að velferðarkerfinu. Þær eru ekki óábyrgt yfirboð en bera vott um skilning og ábyrgð á grundvallarverkefnum ríkisins

Talsmenn stjórnarinnar reyna að verjast gagnrýni með talnaflóði, sem á að sýna stóraukningu á fjárveitingum til heilbrigðismála, almannatrygginga o.fl. Engum að óvörum hefur það talnaflóð reynst samhengislítið og villandi. Það sem kemur þó mest á óvart er að með fullyrðingum sínum um aukin framlög er ríkisstjórnin að sverja af sér eigin stefnu, stefnu sem boðuð er og skjalfest í því frumvarpi sem verið er að fjalla um, fjárlagafrumvarpinu.Í þeim hluta greinargerðar með fjárlagafrumvarpi sem ber heitið Stefna og horfur, í undirlið 3, Fjögurra ára áætlun í ríkisfjármálum eru birt tvö línurit sem sýna þróun ríkisútgjalda frá árinu 2002 til 2015 og áætlun (í greinargerðinni ranglega nefnd spá) um þróun ríkisfjármála á árunum 2016 til 2019. Til ársins 2015 eru línurit þessi byggð á talnalegum staðreyndum en fyrir árin á eftir, þ.m.t. árið 2016, er um að ræða markmið sem ríkisstjórnin stefnir að.

Frumgjöld a

Fyrra línuritið sýnir frumgjöld (gjöld án vaxta) án óreglulegra liða. Samkvæmt því voru þessi frumgjöld 26 – 27% af VLF fyrir hrun. Lækkunin 2005 til 2007 var að mestu vegna froðubólgu VLF. Eftir hrun lækkaði hlutfallið og var komið niður undir 25% á árinu 2013, sem jafngildir því að hafa lækkað um ca 30 milljarða króna miðað við núverandi aðstæður. Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að hlutfall frumútgjalda verði um 24% á árinu 2016 og til 2019 lækki hlutfallið í 23% af VLF. Þannig er stefnt að því að til 2016 hafi þessi frumútgjöld lækkað um ca 20 milljarða króna frá 2013 til 2016 og lækki síðan enn um aðra 20 milljarða til ársins 2019.

Frumgjöld b

Síðari myndin sýnir þróun þessara sömu frumútgjalda þegar þau eru brotin niður í nokkra undirliði. Þeir stærstu eru rekstur stofnana og tilfærslur. Í fyrrnefnda liðnum eru heilbrigðismál afgerandi stærð og framlög til öryrkja og aldraðra í hinum síðarnefnda. Samtals eru þessir tveir þættir nærri helmingur ríkisútgjalda. Línuritið sýnir að rekstur stofnana ríkisins hafði farið lækkandi sem hlutfall af VLF allar götur frá því fyrir hrun og til 2011 en breytist síðan lítið til 2013. Frá 2013 hefur hlutfallið lækkað og stefnt er að því að það lækki enn frekar eða alls um ca 1% til 2019. Það jafngildir um 20 milljörðum króna. Svipaða sögu er um tilfærslur að segja. Áformuð lækkun er um 1% af VLF eða um 20 milljarðar frá 2013 til 2019.  Samtals eru þetta um 40 milljarðar króna.

Síðasta ríkisstjórn skar ríkisútgjöld niður, þar með útgjöld til velferðarmála, um ca 1,5% af VLF frá því sem var fyrir hrun, nú ígildi um 30 milljarða króna, til að bjarga ríkissjóði úr vonlítilli stöðu eftir hrun bankakerfisins. Það ásamt lagfæringu á niðurníddu skattkerfi o.fl. dugði til þess að á fimmta ári eftir hrun, árið 2013, má segja að hvað ríkisfjármál varðar hafi hruninu verið lokið og jafnvægi náð í ríkisbúskapnum. Núverandi stjórnvöld ætla sér að bæta um betur og skera ríkisútgjöld niður til viðbótar um 2% af VLF, nú ígildi um 40 milljarða króna. Ekki til að bjarga ríkissjóði frá aðsteðjandi vanda heldur bjarga tekjuhæstu  og eignamestu þjóðfélagsþegnum frá því að borga eðlilegan hlut til samfélagsins og tryggja að þeir sem fénýta náttúruauðlindir landsins í eigin þágu geti gert það áfram án verulegs endurgjalds til eigandans.

Vel má vera að þeir, sem nú ráða för, telji af hugmyndafræðilegum ástæðum rétt að draga úr samneyslunni, sem er fyrst og fremst velferðarmál, um 60 til 70 milljarða frá því sem þau voru fyrir hrun miðað við núverandi verðlag og landsframleiðslu. Til slíkrar afstöðu eru þeir í fullum rétti. Það jaðrar hins vegar við heimsku að halda að það sé hægt að gera slíkt og hækka um leið útgjöld til allra helstu útgjaldsflokka, heilbrigðismála, mála aldraðara og öryrkja, skólamála o.s.fr eins og reynt er að halda fram að verið sé að gera í þeirri umræðum um fjárlög sem stendur yfir. Hugsanlega þekkja hinar háværu málpípur stjórnarinnar í ríkisfjármálum ekki hina raunverulegu stefnu í þeim efnum. Mættu húsbændurnir uppfræða þá betur um hana en e.t.v. þykir þeim bara gott að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.