Hinn 16. apríl 2013 birti ég á eyjan.is smágrein þar sem ég fjalla um þjóðhagslega þýðingu sjávarútvegs og áliðnaðar. Tilefnið var m.a. auglýsingaherferð álfyrirtækja sem birtu um þetta leyti heilsíðuauglýsingar í dagblöðum um eigið ágæti. Í niðurstöðum greinarinnar segir:
„Í stað þess að miða efnahagsleg áhrif atvinnustarfsemi í eigu erlendra aðila við hlutdeild hennar í VLF er eðlilegra að miða hana við verga þjóðarframleiðslu þar sem litið væri á áliðjuverin sem erlendan aðila. Hlutdeild sjávarútvegs í þannig reiknaðri VÞF yrði tæp 10 % en hlutdeild álveranna verður aðeins um 1,2%. Sú hlutdeild byggist að mestu á launaþætti starfseminnar sem er þó lítill. Hlutdeild álveranna í íslenskum vinnumarkaði hvort sem litið er á fjölda starfsmanna eða launagreiðslur er innan við 2% og innan við fimmtungur þess sem er í sjávarútvegi.
Þýðing áliðnaðar fyrir íslenskt efnahagslíf er einungis brot af þýðingu sjávarútvegs hvort sem litið er á framlag til þjóðarframleiðslu eða á vinnumarkað. Álverin nota um 75% af þeirri raforku sem framleidd er í landinu en leggja innan við 2% að mörkum hvort sem litið er á þjóðartekjur eða atvinnusköpun. Það er fásinna að halda því fram að unnt sé að byggja upp atvinnustarfsemi í landinu með fleiri álverum.“
Greinina í heild á pdf formi má finna hér: Álver og sjávarútvegur