Séð hef ég skrautleg suðræn blóm / sólvermd í hlýjum garði; / áburð og ljós og aðra virkt / enginn til þeirra sparði; / mér var þó löngum meir í hug / melgrasskúfurinn harði, / runninn upp þar sem Kaldakvísl / kemur úr Vonarskarði. Svo orkti Jón Helgason um melgrasið í Vonarskarði, þótt óvíst sé að sá gróður hafi nokkurn tíma átt þar rætur. Það er skáldskapur sem höfundi er að sjálfsögðu leyfilegt að grípa til. Hitt er ekki skáldskapur að landsvæðið sem orkt er um er hluti af Ásahreppi, sem að öðru leyti liggur nærri suðurströnd landsins og er sýndur með litlum rauðum bletti á kortinu. Í Ásahreppi á Miðhálendinu býr enginn og hefur aldrei gert nema etv. útilegumenn samanber ljóð Gríms Thomsen um Sprengisand. Í Ásahreppi hið neðra búa um 250 manns, vafalaust gott og velmeinandi fólk. Ég naut þess heiðurs fyrir margt löngu að kynnast og starfa með fyrrum oddvita hreppsins þá bónda í Þjórsártúni, miklum öðlingi.
Því nefni ég hrepp þennan að hann hefur blandað sér í umræðu um Hálendisþjóðgarð sem er að sjálfsögðu hans réttur. Það sem vakti einkum athygli mína í umsögn hreppsins var sú gagnrýni að með þjóðgarðinum færi skipulagsvald úr höndum sveitarfélaga og nefnt sem dæmi að við ákvarðanir um umferð um Vonarskarð sem er innan Vatnajökulsþjóðgarðs hafi álit Ásahrepps og skipulagsákvarðanir hans verið höfð að engu. Nú þekki ég ekki til þessa máls en það sló mig að það virtist sjálfsagt mál að fulltrúar 250 manna byggðarlags við Suðurströndina, um það bil 0,07% þjóðarinnar, fari með skipulagsvald yfir stóru óbyggðu landsvæði í yfir 100 kílómetra fjarlægð en um það liggur þjóðleið milli landsfjórðunga.
Athygli mína vakti líka hvað þessi afstaða Ásahrepps stakk í stúf við afstöðu fyrrum sýslunga minna í Skaftárhreppi sem þekkja samstarf við Vatnajökulsþjóðgarð af góðri reynd. Stuðningur þeirra við tillöguna um Hálendisþjóðgarð var byggður á rökum sem tekin voru fram yfir flokksbönd.
Þetta er kjarni málsins. Takk fyrir Indriði.
Líkar viðLíkar við