Íspistlar (Icesave)

Á vormánuðum 2010 skrifaði ég og birti á vefmiðlinum smugan.is þrjá pistla um ICESAVE málið með nöfnunum Íspistill 1 til 3. Núna á vormánuðum 2015 er rykið, sem þyrlað var upp farið að setjast og staðreyndir málsins koma æ betur í ljós. Afhjúpa þær betur en annað þá múgsefjun sem kveikt var í pólitískum hráskinnaleik og kynnt var undir með þjóðernishroka og hverjum þeim bábiljum sem hentuðu hverju sinni. Í stuttu máli má segja að komið er í ljós að hin svokallaða ICESAVE skuld er þegar greidd að 85/100 úr þrotabúi LÍ og mun verða að fullu greidd af því innan tveggja ára. Er það nákvæmlega sú leið sem samið var um að farin yrði. Eftir stendur það hvernig bilið á milli útborgunar af sparireikningunum og endurheimtu eigna búsins er brúað. Er því máli enn ólokið og ekki útséð um hvort því lýkur með hagfelldari hætti en samningarnir gerðu ráð fyrir.

Franangreindir pistlar hafa hér verið felldir saman og birtir hér að breyttu breytanda með ábendingum um nokkur atriði sem tekið hafa breytingum frá því að þeir voru skrifaðir.

I Baráttan við stórkapitalismann eða hverjum er verið að borga Icesave skuldina?

Umræðu um Icesave málið á opinberum vettvangi og í fjölmiðum verður líklega helst minnst fyrir það að hún snérist ekki um efnisatriði málsins. Í umræðunni fundu flestir mola við sitt hæfi sem nýttust þeim til að gera sjálfmynd sína að söluvöru á markaðstorgi lýðskrumsins. Þjóðernishroki, heimsfrelsun, minnimáttarkennd, kveinstafir og vesældarþráhyggja fundu sér samastað í henni. Unnt var að fræðast mikið um þátttakendur en lítið um málið. Hér verður fjallað um nokkur þeirra atriða sem uppi voru í umræðunni á vormánuðum 2010, sem teygð voru og snúið upp í andhverfu sína til að þóknast málflytjanda en ekki málstað. Fyrst er það baráttan við stórkapítalismann.

Í huga þeirra, sem alteknir eru heimsfrelsunaráráttu, er ICESAVE málið uppgjör almennings við fjármagnseigendur og stórkapitalista. Ekki skal dregið úr þörf á andófi við því að auðhringir og fjársterkir einstaklingar vaði uppi og valdi almenningi skaða með græðgi sinni. En hverjir skyldu þeir vera þessir stóru fjármagnseigendur sem nú skal klekkt á?

Þrjúhundruðogfimmtíuþúsund – 350.000 – Hollendingar og Bretar tóku gylliboði íslensks banka um ávöxtun og lögðu fé inn á netreikninga í góðri trú enda var þeim sagt að spariféð væri tryggt eins og gull. Var það staðfest af íslenskum yfirvöldum, sem studdu sína menn, genetíska afreksmenn og kristalstæra snillinga. Fáum mánuðum síðar komu eigendurnir sparifjárins að lokuðum heimasíðum netbankans góða. Peningarnir voru horfnir, farnir til Ísland til að borga raunverulegum kapítalistum arð og vexti, stjórnendum kaupauka, starfsmönnum laun og íslenska ríkinu skatta.

Obbinn af ICESAVE sparendum var venjulegt almúgafólk í þessum löndum. Fólk með lítið milli handanna, sem það reyndi að drýgja með góðri og öruggri ávöxtun. Lífeyrisþegar, sem vildu auka framfærslufé sitt, ungt fólk sem var að nurla saman fyrir útborgun í íbúð, námsmenn að safna fyrir framhaldsnámi og verkafólk að spara fyrir sumarleyfisferðina 2009. Kannast einhverjir við svona fólk? Eru þessir “fjármagnseigendur”, stórkapitalistar?

Hver var auðlegð þessa fólks? Þegar frá eru taldir nokkur hundruð sjóðir og fjársterkir aðilar, sem fá litlar bætur, standa eftir um 350.000 einstaklingar sem áttu samtals um 700 milljarða króna á reikningum sínum. Um það bil 2 milljónir króna að meðaltali. Meðalsparifjáreign Íslendinga er um 3 milljónir króna á mann. Þurfa íslenskir skattgreiðendur að borga allt þetta til baka? Nei, sem betur fór tókst að ná bankanum af fjárglæframönnunum þótt seint væri og miklum verðmætum var bjargað. Þau voru fyrst notuð til að greiða íslenskum sparifjáreigenda hjá bankanum allar þeirra innstæður. Eftir það er enn til fé sem nægir til að greiða allt að 90% af innstæðum erlendu sparifjáreigendanna. Eftir standa þá að jafnaði um 200.000 kr. óbættar á hverjum reikningi. Um greiðslu þeirra snýst Icesave málið. (Síðar kom í ljós að eign þrotabúsins nægði til að greiða höfuðstól innistæðnanna að fullu.)

Um þetta snýst hið meinta uppgjör við stórkapitalismann.

II Að borga ekki skuldir einkaaðila og hver er tilgangur innstæðutrygginga?

Vinsæl röksemd gegn því að Íslandi beri skylda til að greiða breskum og hollenskum sparifjáreigendum lágmarkstryggingu vegna Icesave reikninganna hefur verið að þar sem um sé að ræða skuldir einkaaðila, þ.e. bankanna, beri ekki að greiða neitt. Hver skyldi þá vera tilgangurinn með innstæðutryggingum sem samkvæmt lögum ber að greiða sparifjáreigndum tiltekna lágmarksfjárhæð sé bankinn ekki í færum til þess?

Í mörgum tilvikum hefur samfélagið ákveðið með löggjöf að tryggja þegnana gegn vá og skaða. Stundum vegna þess að óviðráðanalegar aðstæður geta valdið tjóni sem ekki þykir rétt að einstaklingurinn beri einn eða að ekki sé eðlilegt að tjónþolinn eigi rétt sinn undir því að geta dregið tjónvaldinn til ábyrgðar og fengið tjón sitt þannig bætt. Dæmi um það er skyldutrygging ökutækja. Í henni felst viðurkenning á því að ökutæki sé hugsanlegur skaðvaldur og að ekki sé réttmætt að hugsanlegur tjónþoli eigi sitt undir því að tjónvaldurinn geti og vilji borga það tjon sem hann olli.

Bankar eru hugsanlegir skaðvaldar og sagan geymir mörg dæmi þess að þeir hafa ekki getað greitt til baka það fé sem þeim hefur verið trúað fyrir. Vitneskja um þetta er ekkert nútímafyrirbæri. Á árinu 1802 skrifaði Thomas Jefferson, einn svokallaðra stofnfeðra Bandaríkjanna og þá forseti þeirra, eftirfarandi: ‘I believe that banking institutions are more dangerous to our liberties than standing armies. If the American people ever allow private banks to control the issue of their currency, first by inflation, then by deflation, the banks and corporations that will grow up around the banks will deprive the people of all property until their children wake up homeless on the continent their fathers conquered.’

Starfsemi banka er nauðsyn hverju hagkerfi og vitneskja um þessa hættu bankastarfsemi leiddi til viðbragða af tvennum toga. Annars vegar er bönkum settur þrengri starfsrammi en fyrirtækjum almennt og hins vegar voru teknar upp tryggingar fyrir þá sem fela bönkunum fé til varðveislu. Fyrra atriðið kemur fram í lögum um starfsemi fjármálastofnana, stofnun seðlabanka og því valdi sem honum er falið og eftirliti með því að starfsemin fari fram með réttum hætti. Þessa þætti má rekja aftur til starfsemi Bank of England á 18. og 19. öld. Hið síðara er trygging sem eigendum sparifjár er heitið um að þeir fái fé sitt eða a.m.k. hluta þess til baka hvernig sem fer með rekstur bankans. Fyrstu tryggingar af þessum tagi komu fram í Bandaríkjunum í kreppunni miklu en hafa síðan breiðst út um allan heim.

Hlutverk innstæðutryggingar er að greiða innstæðueigendum út sparifé þeirra að hluta eða öllu fari svo að banki þeirra sé ekki fær um það. Skiptir þá yfirleitt einu hvort um er að ræða tímabundna greiðslufall eða að eignir bankans séu uppurnar. Af þessu má sjá að sú röksemd sem nefnd er í upphafi að ekki eigi að að greiða skuldir einkaaðila fær ekki staðist fremur en það að tryggingafélag geti vísað tjónþola á tjónvald og sagt honum að rukka hann. Þvert á móti er það svo að tryggingasjóði innstæðna er beinlínis ætlað að greiða sparifjáreigendum innstæður þeirra þegar einkaaðilinn, þ.e. bankinn bregst. Það er eini tilgangur sjóðanna og ef svo er ekki eru þeir þarflausir og menn hafa vaðið í villu um tilgang þeirra vítt um lönd síðan í kreppunni miklu.

Nú kunna einhverjir að halda því fram að ábyrgð viðkomandi ríkis takmarkist við það fé sem sjóðurinn á þegar á reynir. Sú röksemdafærsla er hliðstæð því að segja að ábyrgð ríkis á lélegu fjármálaeftirliti og lélegri bankalöggjöf sé engin. Sé svo eiga borgararnir að fá að vita það og hinu gagnstæða á ekki að halda fram. Myndi þá líklega fara lítið fyrir sparifé landsmanna nema undir kodda þeirra eða í erlendum bönkum sem bjóða alvörutryggingu á innstæðum.

Sé litið til þess hvernig staðið hefur verið að þessu í reynd sést að á Vesturlöndum eru varla þess dæmi að sparifjáreigendur hafi verið látnir sitja uppi með tap á sparifjáreign sinni. Þekkasta dæmið um björgun er líklega “Savings and loan crisis” í Bandaríkjunum 1989 og 1990 þegar alríkisstjórnin kom nærri 750 innlánsstofnunum til bjargar með 160 milljarða dollara framlagi úr vösum skattgreiðenda. Fjöldi annarra dæma frá síðustu árum eru um inngrip tryggingasjóða og ríkisins ef fjárþörfin var umfram getu þeirra. Segja má að íslensk stjórnvöld hafi lifað samkvæmt þessu. Þegar hrun bankanna blasti við í október 2008 var ákveðið að tryggja allt sparifé landmanna í þeim. Var það gert með því að ríkið tók eignir gömlu bankanna af þeim og setti þær til tryggingar innstæðum landsmanna sem færðar voru í nýja banka. Með þessu viðurkenndi ríkið de facto skyldu sína til að tryggja innstæður þegar eignir tryggingasjóðsins dugðu ekki til. Af einhverjum óskýrðum ástæðum var hluti sparifjáreigenda skilinn eftir í þessari aðgerð, þ.e sparifjáreigendur sem notað höfðu netbanka Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi.

III Allsherjar bankahrun og ábyrgð Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Reynt hefur verið að halda því fram að innstæðutryggingakerfinu sé ekki ætlað að virka í svokölluðu allsherjarbankahruni. Eru það aðalrök talsmanna svokallaðrar dómstólaleiðar.

Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, …, en leysi vandræði sín með þvi að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls. (HKL)

„Það er ekki hlutverk instæðutryggingakerfa að takast á við allsherjar bankahrun“. Þessi staðhæfing hefur verið notuð sem helstu rökin gegn því að á íslenska tryggingasjóðnum (TIF) eða Íslandi beri lagaleg skylda til að greiða lágmarkstryggingu (20.887 evrur) vegna bankainnstæðna. Engan stafkrók um þetta ætlaða frávik er að finna í lögunum nr. 98/99 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta fjárfesta(http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999098.html). Þau lög kveða á um ótakmarkaða tryggingu þessarar fjárhæðar eins og sjá má í 10. gr. þeirra laga:

Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr er bætt að fullu (fjárhæðin breytist með gengi evru)).

Þessi íslensku lög eru sjaldan nefnd í þessu sambandi, en stuðningur fyrir meintu fráviki sótt í aðfararorð Evróputilskipunar nr. 19, 1994. Í þessum aðfararorðum, sem ekki tilheyra eiginlegu efni tilskipunarinnar, er vikið að því að fjármögnun tryggingakerfisins megi ekki stefna stöðugleika bankakerfisins í hættu. Ekki hefur verið sýnt fram á rökleg tengsl milli þeirra orða og allsherjar bankahruns.

Margir hafa þegar hengt hatt sinn á þessa veiku grein og ætla ég ekki að fara í lögfræðilegt orðaskak um þetta efni en spyrja heldur hvort skilyrðið fyrir meintu fráviki hafi verið til staðar. Var TIF að takast á við allsherjar bankahrun?

Hvað er að takast á við allsherjar bankahrun?

Vissulega má kalla gjaldþrot stóru viðskiptabankanna þriggja allsherjar bankahrun en var TIF að takast á við það. Allar innstæður í tveimur af bönkum voru tryggðar án aðildar TIF. Aðeins einn þeirra gat ekki greitt út eða tryggt öll innlán sín. (Síðar átti eftir að koma í ljós að LI átti eignir sem dugðu til að greiða innistæður að fullu) TIF þurfti einungis að sinna þessum eina banka og var ekki að glíma við allsherjar bankahrun. Varla er það ætlunin að innstæðutryggingakerfi eigi að tryggja innstæður í færri bönkum en einum.

Þær innistæður, sem ekki voru tryggðar að fullu með neyðarlögunum, þ.e. innstæður Breta og Hollendinga, voru u.þ.b. 1.300 milljarðar króna. Þar af voru um 700 milljarðar undir 20.887 evrum á innstæðu og það er sú krafa sem beint er að TIF. Hinn hlutinn um 600 milljarðar króna er borinn af Bretum og Hollendingum eða ekki bættur. Eignir þrotabúsins, sem renna til kröfuhafanna þ.m.t. TIF eru taldar um 1.180 milljarðar eða nálægt 90% af innstæðunum. Samkvæmt því falla um 10% af lágmarkstryggingunni eða um 70 milljarðar króna á TIF. Sjóðurinn er sem sagt að takast á við hrun eins banka og mætir kröfum sem svara til um 3,5% af innstæðum í honum og um 2,5% af innstæðum í íslenskum bönkum í heild. Er það að takast á við allherjar bankahrun. (Síðar kom í ljós að eignir þrotabúsins verða líklega um 1.570 milljarðar króna og eignir því nægar til að greiða innistæður út að fullu.)

Í lagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum um innstæðutryggingar er gert ráð fyrir að eignir sjóðsins verði á hverjum tíma sem svara 4% af tryggðum innstæðum. Það er nokkru meira en það sem á hann fellur sbr. framangreint. Einnig er gert ráð fyrir því, eins og er nú þegar, að sjóðurinn geti tekið lán til að standa undir greiðslu lágmarksskuldbindinga. Er með þessum lagabreytingum verið að ganga lengra en felst í Evróputilskipuninni og tryggja fyrir afleiðingum af allherjar bankahruni? Auðvitað ekki. Með þessu er aðeins verið að verið er að laga það sem skorti á að skýrt væri að fyrri lög uppfylli kröfur tilskipunarinnar og að íslensk stjórnvöld hafi staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt henni.

Annar kostnaður, sem lenda mun á TIF er vegna þess að sjóðurinn hefur ekki fé til að standa undir útborgunum og fjármagna þær þar til greiðslur fást úr búi þeirrar fjármálastofnunar sem er í þroti. Í tilviki Icesave er þessi kostnaður að núvirði um 115 milljarðar króna. Ekki er óeðlilegt að það fé til að það sé tekið að láni þar sem gera má ráð fyrir að eignir þrotabúsins beri vexti til mótvægis.

Eiga rökin þá við?

Sem fyrr segir eru meginrök þeirra sem telja að ábyrgð á lágmarkstryggingu innstæðna hvíli ekki á TIF og íslenska ríkinu þau að innstæðutryggingum sé ekki ætlað að takast á við allsherjar bankahrun. Hvort sem þau rök eru lagatæknilega rétt eða röng eiga þau einfaldlega ekki við í Icesave málinu. TIF er að takast á við tap á litlum hluta innstæðna í einum banka, 2-3% af innstæðum í bankakerfinu í heild. Hann er ekki að takast á við allsherjar bankahrun. Ætlar einhver að sannfæra alþjóðlegan dómstól um það?

Nú verða eflaust einhverjir sem segja að þrátt fyrir þetta hafi orðið hér allsherjar bankahrun og það hafi lent á landinu. Það er vissulega rétt og tjónið var mikið. Einum þætti, bankainnstæðum var hins vegar bjargað fyrir horn. Þeim var forðað með því að leggja hald á eignir annarra í bönkunum og tryggja þannig hag sparifjáreigenda. Það var stórmannlega gert gagnvart íslenskum sparifjáreigendum og færði þeim mörg hundruð milljarða króna sem ella hefðu tapast. Þegar eignir annarra þrutu hvarf einnig örlætið eins og það sé óþarfi ef það er ekki á kostnað annarra.

Tjónið af hruninu kemur víða fram og lendir á borgurum landsins. Lánatöp Seðlabankans eru þreföld Icesaveskuldin og önnur neikvæð áhrif á efnahagslífið og afkomu ríkissjóðs eru enn meiri að ekki sé talað um álitshnekki þjóðarinnar og félagslegar afleiðingar. Icesaveskuldin er smá í fjárhagslegum skilningi í samanburði við annað sem hruninu fylgdi og smámál í öllum skilningi í samanburði við það tjón, sem leiðir af því að forsetinn og þjóðin hefur nú staðfest orð nóbelsskáldsins, sem vitnað er til hér að framan.

Færðu inn athugasemd