Kunnátta í tekjuskattslögum virðist ekki hátt skrifuð á Alþingi nú til dags. Þar er rifist er um hvað hugtakið „full og ótakmörkuð skattskylda“ þýðir og hvort hún feli í sér að félag sé í færum til að ástunda skattasniðgöngu með notkun skattaskjóla. Stutta svarið við því er að „full og ótakmörkuð skattskylda“ kemur ekki í veg fyrir skattasniðgöngu en er forsenda hennar. Félag sem ekki hefur hér „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ hefur enga tekjur af atvinnurekstri hér á landi og þar af leiðandi engar tekjur til að flytja óskattlagðar úr landi.
Öll félög, sem afla sér tekna með starfsemi hér á landi, ber að skrá hér á landi (í félagaskrá og hjá Skattinu) og þau bera hér fulla og ótakmarkaða skattskyldu nema um sé að ræða sameignarfélög sem eru ósjálfstæður skattaðili en þá er eigandinn skattskyldur. Þetta felur m.a. í sér að félög í eigu erlendra aðila hvort sem þau eru dótturfélög eða útibú, sem stunda hér atvinnustarfsemi, hafa hér „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“. Full og ótakmörkuð skattskylda felur í sér það eitt að félagið er skattskylt hér af öllum tekjum sínum hvar svo sem þeirra er aflað í heiminum. Það er ekki til í dæminu að félag sem er með atvinnurekstur hér á landi sé ekki með „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“. Rekstrarfélag, þ.e. félag sem stundar atvinnurekstur og aflar sér tekna með starfsemi sinni annars vegar og eiganda þess hins vegar eru aðskildar lögpersónur og eru ekki endilega með „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ í sama landinu. Eigandi félags hér á landi getur verið íslenskur eða erlendur, íslendingur búsettur erlendis, félag skrásett á Íslandi eða erlendis og þá etv. í eigu íslenskra aðila.
Takmörkuð skattskylda er það að aðili sem ekki hefur ekki skattalega heimilisfesti hér á landi og þar með ekki með „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ hér en fær héðan tekjur, aðrar en atvinnurekstrartekjur, svo sem arð, vexti, þóknanir fyrir þjónustu eða afnot af réttindum o.fl. Þessi aðili getur verið eigandi rekstrarfélags hér á landi, lánveitandi þess, seljandi vöru og þjónustu til þess eða það allt í einu.
Skattundanskot og skattasniðganga með aðstoð aflandssvæða felst í því að skattaðili með „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ hér á landi flytur tekjur sem hér er aflað til félags utan skattalögsögu Íslands, oftast skúffufyrirtækis á lágskattasvæði. „Full og ótakmörkuð skattskylda“ kemur ekki í veg fyrir það. Hún er þvert á móti nauðsynleg forsenda því annars er ekki um neinar tekjur að ræða. Þessar ráðstafanir sem slíkar eru yfirleitt ekki ólöglegar en þær kunna að fela í sér að með þeim sé verið að sniðganga skattalögin, að láta líta svo út að tekjur íslenska rekstararaðilans séu tekur einhvers annars.
Skattasniðgangan felst oft í því að sá sem á eða ræður íslenska félaginu sem aflar teknanna setur á stofn á aflandssvæði eða öðru lágskattasvæði félag sem tekur á móti greiðslum frá íslenska félaginu án þess að það sé á viðskiptalegum forsendum í samskiptum óháðra aðila. Getur verið um að ræða margs konar greiðslur, arð af hlutafé, vexti af lánum, þóknanir fyrir stjórnunarstörf eða tækniþjónustu, þóknanir fyrir notkun á nafni, einkaleyfi o.fl. Einnig er algengt að slík félög séu milliliður í falskri milliverðlagningu, selji íslenska félaginu vörur á of háu verði eða kaupi vörur af því á of lágu verði. Ef þessi erlendu félög eru tengd hinu íslenska félagi í gegnum eignarhald (annars er ekkert vit í þessum „viðskiptum) er verið að færa tekjur sem sæta áttu skattlagningu hér á landi út fyrir landsteinana.
Það er rétt sem komið hefur óljóst fram að CFC reglurnar, sem lögfestar voru 2010, ná til þess tilviks að það sé íslenskur skattaðili, félag eða einstaklingur sem er hinn raunverulegi eigandi rekstrarfélagsins og aflandsfélaganna. Á þeim reglum eru mörg göt og koma þær t.d. ekki í veg fyrir að erlendur aðili eigi rekstrarfélag hér og aflandsfélag í skattaskjóli sem hann flytur hagnaðinn síðar í. Samherjamálið í Namibíu og Kýpur er dæmi um fléttur sem erfitt er að henda reiður á og ég efa að það hafi verið gerð grein fyrir þeim í CFC skýrslum.
Erlendur aðili í þessu tilviki eru líka íslenskir borgarar sem er í aðstöðu til að flytja skattalega heimilsisfesti til annars lands t.d. Lundúna sem oft eru notaðar vegna sérstakra skattareglna þar í landi. Slíkur aðili getur átt fyrirtæki á Íslandi og t.d. Luxemburg og á Tortola og flutt tekjur á milli þeirra án þess að íslensk yfirvöld fái rönd við reist. Önnur dæmi um göt á þessum reglum eru alþjóðafyrirtækin sem eru stór vandamál víða um heim sem einnig má sjá í starfsemi alþjóðafyrirtækja hér á landi. Engin íslensk lög hvorki skattalög né önnur taka til þeirra sem hafa skattalega heimilisfestu erlendis. Þeir skila engum skattaskýrslum eða CFC skýrslum o.s.frv.
Þarf ekki að skoða að stærsta „skattsskjól“ sem íslendingar nota almennt er innan landssteinanna?
Líkar viðLíkar við