Orð eða efndir — Stéttarfélagsaðild og sniðganga kjarasamninga

(Fyrst birt í Vísbendingu)

Hún er góð skýrslan sem starfshópur undir forystu Jóns Sigurðssonar fyrrum skólastjóra, seðlabankastjóra og ráðherra skilaði félagsmálaráðherra um undirboð og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Meðal kosta hennar eru afdráttarlausar tillögur um aðgerðir og breytingar á lögum og reglum sem snerta vinnumarkaðinn. Þar er að finna atriði sem snerta eða geta snert störf þeirra sem vinna við leiðsögn ferðamanna.

  • Komið verði upp föstum samráðshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem beri ábyrgð á sameiginlegri stefnumótun um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
  • Þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði (Lögreglan, Ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun) geri með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.  …….
  • Komið verði í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi og markaður skýr rammi um hvað skuli heimilað undir þeim formerkjum.
  • Bætt verði verulega upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna, t.a.m. með stofnun ráðgjafarstofu og aukinni upplýsingagjöf á vefnum. Einnig verði skipulögð upplýsingagjöf til atvinnurekenda um starfskjör.

Þessum tillögum ber að fagna. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið mikill á undanförnum árum og honum hafa fylgt vaxtarverkir. Störfum við leiðsögn hefur fjölgað, m.a. við sérleiðsögn þar sem ekki hefur verið til að dreifa í nægilegum mæli innlendum leiðsögumönnum með sérmenntun eða reynslu og hafa því erlendir borgarar verið ráðnir til starfa í miklum mæli. Því miður verður ekki sagt að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafi öll staðið sig í því að hafa starfskjör þessara starfsmanna í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi. Mörg, alltof mörg, mál berast Leiðsögn – stéttarfélagi leiðsögumanna – þar sem starfsmenn við leiðsögn kvarta undan því að njóta ekki kjara skv. kjarasamningum og/eða að vinnuaðstaða og aðbúnaður sé ekki í lagi. Sameiginlegt þessum kvörtunum er eitt. Vinnuveitendur þeirra hafa ekki skráð þessa starfsmenn í Leiðsögn heldur í stéttarfélög sem enga samninga hafa um störf leiðsögumanna.

En það eru ekki bara erlendir leiðsögumenn sem kvarta með réttu yfir stöðu sinni. Mörg dæmi eru þess að innlendir leiðsögumenn, einkum þeir sem hafa takmarkaðan undirbúning og starfsreynslu, eru ráðnir á kjörum sem ekki eða illa samræmast kjarasamningum, eru t.d. á jafnaðarkaupi eða starfa sem verktakar með endurgjald sem ekki nægir til að standa undir samningsbundnum launum og gjöldum auk þess sem að í mörgum tilvikum er um gerviverktöku að ræða.

Þriðji þáttur brotasögu á þessum markaði eru erlend fyrirtæki sem veita ferðaþjónustu hér á landi og koma með starfsfólk í þeim tilgangi eða ráða til þess starfsmenn hér á landi og greiða þeim að því er næst verður komist laun sem eru fjarri því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru hér á landi auk þess að standa ekki skil á sköttum og gjöldum eins og innlend fyrirtæki verða að gera.

Nú er það ekki svo að skortur sé á reglum um starfskjör launþega á innlendum vinnumarkaði sem þær tillögur sem greinir í upphafi eiga að bæta úr heldur er þeim ætlað að bæta úr því sem misfarist hefur í framkvæmd þeirra. Verður að vona að vel takist til þar sem að tillögunum standa þeir aðilar sem mestu valda um framkvæmd og eftirlit m.a. Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins.

Besta trygging fyrir því að starfskjör launþega séu samkvæmt kjarasamningum og lögum er öflugt starf stéttarfélaga til eftirlits með því að samningar séu virtir, til ráðgjafar fyrir starfsmenn og til upplýsinga fyrir vinnuveitendur. Af þeim ástæðum er mikilvægt að vinnuveitendur sinni þeirri lögbundnu og kjarasamningabundnu skyldu að skila félagsgjöldum og öðrum iðgjöldum til viðkomandi stéttarfélags.

Í samskiptum Leiðsagnar við vinnuveitendur leiðsögumanna, m.a. í viðræðum félagsins við samninganefnd SAF/SA, hefur vanræksla vinnuveitenda á að skrá leiðsögumenn í Leiðsögn og skila félagsgjöldum þangað verið til umfjöllunar. Ekki er ágreiningur um það að vinnuveitendum beri að greiða leiðsögumönnum samkvæmt samningum félagsins en þrátt fyrir það hafa vinnuveitendur með stuðningi SA að engu ákvæði kjarasamnings um skil á félagsgjöldum. Bera þeir því við að þeir skili ekki félagsgjöldum til Leiðsagnar nema þess sé óskað af starfsmanni. Með þetta að yfirvarpi og í skjóli af SA iðka margir vinnuveitendur það að skrá leiðsögumenn í önnur stéttarfélög, Eflingu, VR o.fl., sem ekki fara með samningsumboð fyrir leiðsögustörf. Þegar menn þessir leita réttar sín vegna meintra brota á kjarasamningum vísa þessi félög leiðsögumönnunum eðlilega frá sér og kemur þá til kasta Leiðsagnar að veita þeim aðstoð.

Leiðsögn lítur svo á að með þessu framferði séu viðkomandi vinnuveitendur að brjóta gegn samningum og lögum í þeim tilgangi að hindra starfsmenn í að gæta réttar síns og koma í veg fyrir að þeir leiti til stéttarfélags sem veitt geti þeim aðstoð. Auk þess að skaða starfsmenn sína valda þeir félaginu tjóni og draga úr fjárhagslegu bolmagn þess til að veita leiðsögumönnum aðstoð við að ná rétti sínum. Í málum, sem borist hafa Leiðsögn þrátt fyrir þessar hindranir, kemur hvergi fram að viðkomandi leiðsögumenn hafa óskað eftir aðild að öðrum stéttarfélögum eða að þeir hafi verið upplýstir um hvaða stéttarfélag færi með samninga leiðsögumanna heldur eru þeir skráðir í stéttarfélag að þeim forspurðum. Afskipti vinnuveitenda af stéttarfélagsmálum starfsmanna eru lögbrot.

Af þeim málum sem Leiðsögn hefur borist verður að draga þá ályktun að von um fjárhagslegan ávinning búi að baki ákvörðunum vinnuveitenda um að setja starfsmenn skipulega í stéttarfélög sem ekki er í stöðu til að gæta hagsmuna þeirra. Starfsmönnum þessum er oft greidd laun undir taxta, svo sem með svokölluðum jafnaðarlaunum, og ekki eru virtar reglur um vinnutíma o.fl. Aðbúnaður starfsmannanna er oft lélegur. Þá eru dæmi þess að leiðsögumenn segja frá því að þeim hafi verið hótað uppsögn ef þeir ganga í félagið og vilja þeir oft ekki leggja fram gögn vegna ótta um að slíkt verði gert. Auk þess að vera brot á kjarasamningum leikur stundum vafi á um hvort þetta framferði samræmist öðrum lögum svo sem um vinnumarkað og skattalögum.

Með því að SA, og þá m.a. fyrir hönd SAF, hefur með framangreindri skýrslu lýst yfir andstöðu sinni við brotastarfsemi á vinnumarkaði leyfir Leiðsögn sér að mælast til þess að efndir fylgi orðum og að SA, SAF og öll ferðaþjónustufyrirtæki láti af þeirri háttsemi sem lýst er hér að framan og hindri ekki framar aðild leiðsögumanna að stéttarfélagi þeirra. Með því leggja þeir baráttu gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði lið í verki og sýna að skýrslan sé ekki marklaus bókstafur.

Indriði H. Þorláksson

formaður Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna