Leiðin út úr kreppunni og hækkun skatta 

Grein þessi birtist upphaflega á blog.is 16. desember 2008.

Meira en tveir mánuðir eru síðan heiminum var ljóst að kreppa er framundan, ekki aðeins fjármálakreppa heldur djúp efnahagslægð þar sem hagvöxtur mun stöðvast og landsframleiðsla dragast saman, atvinnuleysi aukast o.s.fr. Dýpt þessarar lægðar er ekki enn komin í ljós en áætlanir alþjóðlegra efnahagsstofnana gera ráð fyrir að á í mörgum vestrænum löndum muni verg landsframleiðsla dragast saman um allt að 2% á árinu 2009. Á Íslandi er gert ráð fyrir að samdrátturinn verði meiri eða um 10%.

Flest ríki heims eru að búa sig undir að mæta þessu efnahagsáfalli. Á meðan núverandi stjórn í BNA reynir að slökkva bálið á fjármálmarkaðinum undirbúa komandi valdhafar framtíðina með áætlunum um ráðstafanir sem hafa það að markmiði að koma efnahagslífinu í gang á nýjan leik með því að auka eftirspurn. Í þeim tilgangi eru áætlaðar miklar framkvæmdir á vegum opinberra aðila í samgöngumálum, menntamálum, heilbrigðismálum o.s.fr. Talið er að þessi efnahagspakki muni kosta 500 – 700 milljarða dollara. Hann munu vissulega auka skuldir ríkisins verulega en unnið verður á móti því með því að draga úr óþörfum útgjöldum svo sem stríðsrekstri í Írak og afla fjár með hærri sköttum á hina velstæðu sem notið hafa velvildar í skattamálum á tíma Bush stjórnarinnar.

Bretland er það ríki V-Evrópu sem brugðist hefur hvað skilvirkast við fjármálakreppunni og efnahagsafleiðingum hennar. Ákvörðun og aðferðafræði bresku ríkisstjórnarinnar um stuðning við fjármálakerfið markaði tímamót og varð m.a. til þess að bandarísk stórnvöld hurfu frá því að kaupa bara lélega pappíra fyrir fé skattborgaranna og gripu til eitthvað skárri aðgerða. Nú hafa bresk stjórnvöld einnig ýtt úr vör umfangsmiklum efnahagsaðgerðum sem hafa það að markmiði að auka eftirspurn í hagkerfinu. Er aðgerðirnar taldar muni kosta 20 milljarða punda. Meðal aðgerðanna í Bretlandi er tímabundin lækkun virðisaukaskatts, hækkun skatts á hæstu tekjur frá 2010, lækkun greiðslubyrði húsnæðislána og aukið fé til nýbygginga og viðhalds á íbúðarhúsnæði, hækkun lífeyrisgreiðslna, fé til starfsþjálfunar og fjölgun starfa, lækkun orkukostnaðar og hækkun bílaskatta, frestun skattahækkunar á lítil og meðalstór fyrirtæki, hvati til að taka heim hagnað erlendra dótturfyrirtækja og hertar CFC-reglur, hækkuð framlög til vegagerðar, endurbætur skóla og orkusparandi aðgerða.

Í Þýskalandi hafa stjórnvöld lagt fram áætlun um fjárfestingar að fjárhæð 50 milljarðar evra, sem kosta mun ríkin og sveitarfélögin um 12 miljarða evra. Er m.a annars ætlað að veita auknu fé í viðhald byggingar og samgöngur. Er sú áætlun gagnrýnd fyrir að ganga alltof skammt og eru gerðar kröfur um frekari ráðstafanir. Kínverjar hafa tilkynnt 460 milljarða útgjaldaauka til að styrkja efnahagslífið og Svíar ætla að leggja fram yfir 8 milljarða sænskra króna til að örva atvinnuuppbyggingu. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til að aðildarríkin verji a.m.k. 200 milljörðum evra til að örva atvinulífið og hafa lýst því yfir að litið yrði mildum augum á það að halli á ríkisbúskap aðildarríkjanna fari yfir viðmiðun Maastricht samningsins.

Þegar litið er til Íslands blasir við nokkuð önnur mynd. Í viljayfirlýsingu stjórnvalda vegna fyrirgreiðslu hjá AGS er flest sem lýtur að ríkisfjármálum þokukennt. Viðurkennt er að úrlausn bankakreppunnar leggi þungar byrðar á ríkissjóð vegna innistæðutrygginga og endurfjármögnunar bankanna. Geti sá kostnaður numið allt að 80% VLF og við það bætist væntanlega 13,5% af VLF vegna hallarekstur ríkissjóða og skuldir ríkisins muni hækka í 109% af VLF. Að öðru leyti er stefnan í ríkisfjármálum hulin þoku. Það á að hrinda í framkvæmd metnaðarfullri en ótilgreindri áætlun um ríkisfjármáli og treysta ramma ríkisfjármála. Ekkert er látið uppi um hvaða aðgerðir séu í vændum, hvort reiknað sé með samdrætti útgjalda eða hækkun tekna og þá með hvað hætti. Sérstaklega stingur í augu að látið er sem árið 2009 sé ekki til og það afgreitt með því að þá eigi að láta “sjálfvirka sveiflujöfnun ríkisfjármála virka til fulls”. Í viðmiðunum áætlunar AGS kemur fram að halli ríkissjóðs megi nema 55 milljörðum króna á ársfjórðungi fram á mitt ár 2009. Þar sem ekkert kemur fram um viðsnúning í ríkisfjármálum á því ári má því gera ráð fyrir að áætlun AGS miðist við u.þ.b. 220 milljarða krónu halla á árinu 2009 sem er nálægt þeim 13,5% halla sem drepið er á í viljayfirlýsingunni. Annað athyglisvert í áætlun AGS er að þar er ekki lagt á ráð með hvernig ríkisfjármálum verði stýrt í þær skorður sem settar eru, þ.e. hvorki er lagt á ráð um niðurskurð útgjalda eða hækkun skatta. Ætla má að þessi mál séu of viðkvæm til þess að fjalla um þau þar.

Mikill samdráttur verður í efnahagslífinu á næstu misserum, gjaldþrot hjá sumum fyrirtækjum og samdráttur hjá öðrum, tekjur almennings dragast saman og neysla minnkar. Það leiðir til tekjufalls hjá ríki og sveitarfélögum sem auk þess verða fyrir auknum útgjöldum vegna atvinnuleysis og félagslegrar aðstoðar af ýmsum toga. Að þessu leyti er staðan ekki ósvipuð og hjá þeim þjóðum sem hafa nú gripið til ráðstafana í ríkisfjármálum til að spyrna við fótum. Sá er þó munurinn að niðursveiflan hér er áætluð margfalt meiri en í þessum löndum. Þau hafa á þeim 2-3 mánuðum sem liðnir eru frá því að kreppan var meðvituð gert áætlanir um viðbrögð með ríkisfjármálum og hrint þeim í framkvæmd að hluta. Hér þar sem þörfin er mest heyrist lítið frá stjórnvöldum. Engar hugmyndir eru ræddar, engar tillögur lagðar fram.

Eins og ráðstafanir í ríkisfjármálum hjá öðrum þjóðum sýna er þar talið ráðlegt að beita ríkisfjármálum með einhverjum hætti, þótt það hafi í för með sér aukinn tímabundinn halla.  Færa má að því veigamikil rök að hér eigi einnig strax að grípa til ráðstafana í ríkisfjármálum í stað þess að sitja með hendur í skauti allt árið 2009 og horfa á “sveiflujöfnun ríkisfjármála virka”. Heyrst hafa raddir hér sem þar, sem gagnrýna aukinn halla á ríkissjóði og telja að með auknum halla sé verið að leggja frekari byrðar á komandi kynslóðir. Vafasamt er hvort slík gaganrýni á rétt á sér við núverandi aðstæður.

Sú skoðun að halli á ríkisfjármálum dragi úr hagvexti til lengri tíma litið byggir á því að lántökur ríkisins ryðji öðrum fjárfestingum úr vegi, útgáfu ríkisverðbréfa hækki vaxtastigið og dragi þannig úr fjárfestingum fyrirtækja. Þessi skoðun á við rök að styðjast við eðlilegar aðstæður en tæpast við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Reikna má með að þótt raunvextir á skammtímapappírum verði lágir verði eftirspurn fyritækja eftir lánsfé lítil vegna samdráttar í sölu og dökkum framtíðarhorfum. Samdráttur ríkisútgjalda og minnkandi eftirspurn ríkisins gæti því dregið úr fjárfestingu einkaaðila en ekki aukið hana.

Slæm reynsla af aðhaldsömum ríkisfjármálum í niðursveiflu finnast í hagsögunni svo sem í BNA í upphafi annars forsetatímabils F. D. Roosevelt þegar opinber útgjöld voru skorin verulega niður og skattar hækkaðir og í Japan á síðari hluta tíunda áratugarins þegar reynt var að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum með sömu aðferðum. Í báðum tilvikum var afleiðingin samdráttur í fjárfestingum fyrirtækja og kreppa. Eins má finna dæmi um jákvæð áhrif af aðhaldsemi í ríkisfjármálum þegar það á við. Það ræðst einfaldlega af aðstæðum ekki síst af stöðuni á fjármálamarkaðnum hvaða áhrif afkoma ríkissjóðs hefur á efnahagsþróunina.

Hinn þáttur hefðbundinna andmæla gegn halla á ríkissjóði, þ.e. að hann leggi auknar skuldir á komandi kynslóðir er ekki alls kostar réttmætur eða algildur. Það ræðst m.a. af því hvernig lánsfénu er varið. Sé því varið í neyslu eru þessi rök haldbær en í öðrum tilvikum er svo ekki. Séu framkvæmdir t.d. í samgöngumannvirkjum, sem skila arði með notkun í framtíðinni, fjármagnaðar með lánum er hæpið að tala um að það séu skuldir komandi kynslóða því þær eiga mannvirkin og njóta þeirra. Framkvæmdir sem þessar eru nauðsynlegar fyrir framtíðina og það sem byggt er nú þarf ekki að byggja síðar þannig að auðveldara er að draga úr framkvæmdum síðar þegar minni þörf er á að örva atvinnulífið. Hið sama á við um aðra uppbyggingu innviða samfélagsins. Lán ríkissjóðs, sem tekin eru innanlands til slíkra framkvæmda, fela það í sér að þjóðin tekur lán hjá sjálfri sér og eignast í staðinn verðmæti sem koma að notum á komandi árum og gera henni kleyft að spara síðar og gefa einkaaðilum rými þegar þeir eru í stakk búnir til að fjárfesta.

Afstaða AGS og svigrúm fyrir aukningu ríkisútgjalda í áætlun sjóðsins gefur stjórnvöldum færi á að móta framvinduna að einhverju leyti og nota ríkisfjármálin til aðgerða sem haft geta áhrif á það hversu djúp og langvinn kerppan verður og hverjir það eru sem bera munu byrðar af henni. Þótt liðnir séu meira en tveir mánuðir frá bankahruninu örlaði lengi vel ekki á stefnumótun stjórnvalda í ríkisfjármálum eða notkun þeirra sem stjórntækis ef frá er talið niðurskurðarbréfið afneitaða. Það renndi stoðum undir þá grunsemd að viðbrögð stjórnvalda yrðu hinn hefðbundni niðurskurður sem virðist eina hugsanlega lausnin hvort sem úrlausnarefnið er þennsla eða samdráttur. Þessi grunsemd fékkst svo staðfest þegar fram komu tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umræðu fjárlaga. Það og þær aðgerðir sem með því voru kynntar valda vonbrigðum.

Vissulega er aðhald í opinberum fjármálum alltaf nauðsynlegt og niðurskurður að einhverju verulegu marki óhjákvæmilegur við núverandi aðstæður. Engar ljósar forsendur liggja fyrir um hvað réði ferðinni við niðurskurðinn og engin haldbær stefna til lengri tíma er sjáanleg. Sérstaklega verður þó að benda á að niðurskurðurinn er mikið meiri en hann hefði þurft að vera ef strax er gripið til skattahækkana sem hvort sem er eru óumflýjanlegar innan tíðar. Þær hækkanir sem gerðar hafa verið og boðaðar eru nægja hvergi nærri. Engar sjánlegar ástæður eru fyrir að fresta slíkum aðgerðum aðrar en ráðleysi og engin ástæða er til að láta árið 2009 líða án þess að aðhafast.

Einhverjir munu segja að nú sé ekki rétti tíminn til skattahækkana. Ekki megi íþyngja heimilunum sem séu þegar í erfiðri stöðu og að með skattahækkunum verði þrengt að fyrirtækjunum. Hvort tveggja er rangt. Að því er fyrst að gæta að hin raunverulega skattlagning hefur þegar farið fram. Með þeim skuldbindingum sem ríkissjóður tók á sig við hrun bankanna er búið að skattleggja heimilin. Formleg skattahækkun er aðeins viðurkenning á þeirri staðreynd, skipulagning á því hvernig og hvenær þær skuldbindingar verði greiddar og ákvörðun um hverjir muni greiða þær. Ekkert er unnið með því að bíða og láta reka á reiðanum. Því fyrr sem gripið er í taumana því betra. Hvað fyrirtækin varðar er það líklega versti kosturinn að gera ekki neitt og láta eftirspurn hrynja og atvinnuleysi vaxa án viðspyrnu. Hækkun skatta og notkun ríkisútgjalda til aukinna framkvæmda skapar fyrirtækjunum verkefni, fólki tekjur og eykur eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Það er þekkt úr hagfræðikenningum og reynd að aukin ríkisútgjöld fjármögnuð með skattheimtu eru virkari í þessu efni en skattalækkun.

Fyrir utan þetta eru önnur ærin rök til skattahækkana. Ljóst er að kominn var kerfislægur halli á ríkisfjármálin áður en kreppan skall á. Um það vitnar m.a. það fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram áður en ósköpin dundu yfir. Áhrif efnahagssveiflu á tekjur ríkissjóðs hér á landi eru mikil. Hin ýkta sveifla síðustu ára leiddi til tekjubólu hjá ríkinu. Innistæðulaus tekjuaukning almennings leiddi til hækkunar á tekjusköttum einstaklinga og gengdarlaus innflutningur út í reikning jók tekjur ríkissjóðs af óbeinum sköttum og gjöldum. Í stað þess að með skattahækkunum og myndarlegum tekjuafgangi héldu stjórnvöld að þau væru sest að óþrjótandi veisluborði og útdeildu hluta af verðbólutekjunum til þeirra sem síst þurftu auk þess að vöxtur ríkisútgjalda var meiri enn áður hefur þekkst. Árangurinn er sá að þegar upp er staðið og ró færist yfir efnahagslífið verða tekjur ríkissjóðs að óbreyttu ekki nægar til að standa undir sameiginlegum útgjöldum jafnvel þótt að af verði skorið það sem ekki er talið nauðsynlegt til að halda hér uppi sæmilega siðuðu samfélagi.

Hinar svokölluðu “skattalækkanir” síðustu ára eru einar út af fyrir sig næg ástæða til að breyta skattalögum róttækt eins fljótt og við verður komið í þeim tilgangi að sú byrðaaukning sem yfir er dunin lendi ekki að óheyrlega miklu leyti á burðarminni bökum í þjóðfélaginu. Staðreynd er að skattabreytingar síðustu ára voru ekki skattalækkanir til allra heldur tilfærslur skatta af hinum breiðari bökum á þau veigaminni. Það er staðreynd að nær allar skattabreytingar síðustu 10 – 15 ára eru þessi marki brendar. Kemur þetta gleggst fram í breytingum á skattbyrði af tekjuskatti sem hefur hækkað um yfir 10% hjá lægstu tekjuhópunum á meðan hún hefur lækkað hjá þeim tekjuhæstu eins og staðfest hefur verið í nýlegri skýrslu fjármálaráðuneytisins um skattkerfið:

http://www.fjarmalaraduneyti.is/media/adrarskyrslur/Islenska-skattkerfid-samkeppnishaefni-og-skilvirkni.pdf, sjá töflu 7.2 bls. 90 í þeirri skýrslu. Auk þess að hækka og breyta skattbyrðinni hinum tekjulágu í óhag hafa skattabreytingar síðustu ára leikið skattkerfið illa að öðru leyti, dregið úr hlutleysi þess og innleitt ójafnræði í stórum stíl.

Þótt óáran sé framundan, samdráttur í tekjum og aukið atvinnuleysi er sem betur fer svo að stór hluti þjóðarinnar stendur vel, hefur góðar tekjur og er aflögufær. Má þar benda á þá sem eru í vellaunuðum störfum hjá hinu opinbera og á einkamarkaði og halda vinnu sinni og launum. Einnig er allnokkur hluti þeirra sem komnir eru á lífeyri með góðar tekjur frá lífeyrissjóðum. Þessi hópur hefur notið skattabreytinganna í góðærinu og ætti að vera reiðubúinn til að axla meiri byrðar en aðrir nú þegar á bjátar. Það er engin ástæða til að bíða með það að sækja til hans auknar skatttekjur auk þess sem það er árangursríkara, sanngjarnara og mennilegra en það sjónarspil sem nú fer fram með launalækkanir ráðamanna og meintra topplaunamanna, sem aðeins getur leitt til lítils árangurs, handahófskenndrar niðurstöðu og ójafnræðis. Skilvirkari leið er hressilegt viðbótarskattþrep.

Af framangreindu má sjá að brýn þörf er á að hefjast þegar handa við að hækka skatta og breyta skattkerfinu. Það þarf að auka skatttekjur til að draga sem mest úr ójafnvægi ríkisfjármála og skapa svigrúm til aukinna framkvæmda og það þarf að endurreisa skattkerfið undir merkjum sanngirni og jafnræðis. Það er skaðlegt og ósanngjarnt að bíða með það í ár. Talsmenn sérhagsmuna og úrtölumenn þeim hliðhollir munu vafalaust reyna að halda því fram að ekki sé tími til neinna breytinga en sýna má fram á að flestar af þeim breytingum sem gera þarf eru tæknilega auðleystar og gætu komið til framkvæmda í byrjun næsta árs.

Meðal þeirra breytinga á sköttum sem koma þarf í framkvæmd er tveggja eða þriggja þrepa tekjuskattur, afnám ívilnandi sérköttunar á (sumar) fjármagnstekjur, samræming á sköttum af atvinnurekstrartekjum og launatekjum, eignarskattur á stóreignir, skattur á vaxtagreiðslur úr landi, skattur á tekjur erlendra eignarhaldsfélaga íslenskra aðila. Fleira mætti tína til auk þess sem að brýnt er að tryggja það að þjóðin öll fái hlutdeild í arði af þeim auðlindum hennar sem fénýttar eru. Verður nánar fjallað um þessar leiðir í pistli eða pistlum á næstu dögum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s