Ofsóttur sjávarútvegur

(Birt í Fréttablaðinu 22. júní 2022)

Í Fréttablaðinu 16. júní sl. kvartar framkvæmdastjóri “Rannsóknarmiðatöðvar um samfélags- og efnahagsmál” sáran yfir því að æruverðugur sjávarútvegur landsins þurfi að þola rangfærslur og illmælgi og nefnir því til áréttingar stutt viðtöl við undirritaðan og Þórólf Matthíasson prófessor í sama blaði 3. og 4. júní sl. Ekki tilgreinir framkvæmdastjórinn þó meintar rangfærslur og illmælgi. 

Aðspurður í símtali 2. júní sl. lét ég í ljós þá skoðun að veruleg auðlindarenta félli til í sjávarútvegi á Íslandi. Með vísan til fréttar í blaðinu fáum dögum áður um 100 milljarða hækkun á hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja var ég inntur eftir því hversu há veiðigjöldin gætu verið. Svaraði ég því til að auðlindarentan væri að mínu mati 40 – 60 milljarðar króna á ári sem sækja mætti með veiðigjöldum, hún væri eign þjóðarinnar. Mat þetta byggi ég m.a. á athugunum mínum, sbr. greinar á heimasíðu minni sem flestar hafa birst í fjölmiðlum svo sem “ Er þetta fiskveiðiauðlind þjóðarinnar?“ sem ég byggi á skýrslum Hagstofu Íslands um afkomu sjávarútvegs en hafði einnig hliðsjón af rannsóknum málsmetandi fræðimanna sem birt hafa greinar um þetta efni í virtum vísindaritum svo sem Þórólfur Matthíasson og fleiri (Flaaten, Heen and Matthiasson, 2017) og Daði Már Kristofersson, Hörður Sævaldsson, Stefán B. Gunnlaugsson og Sveinn Agnarsson (2020) sem komast að mjög sambærilegum niðurstöðum í þessum efnum.

Eins og Þórólfur Matthíasson hefur bent á er ekkert tilefni til stóryrða framkvæmdastjórans að finna í viðtölunum sem í stað þess að rökstyðja staðhæfingar sínar sakar okkur um illan hug til sjávarútvegs, öfund og afbrýði! Þórólfur bendir einnig á augljósar þversagnir í málflutningi hans. Óneitanlega þarf skapandi hugmyndaflug til að lesa það út úr þessum stuttu viðtölum að þar fylgi “hver rangfærslan og rökleysan í kjölfar annarrar” enda tekst framkvæmdastjóranum ekki að benda á neitt staðhæfin sinni til stuðnings en bregður á það ráð að gera okkur upp þá “helstu forsendu í  málflutningi ….. að rekstrarhagnaður í sjávarútvegi sé meiri en gengur og gerist í öðrum” atvinnugreinum. Atriði þetta ber ekki á góma í viðtölunum og hvorugur okkar Þórólfs hefur beitt því í skrifum okkar sem beinst hafa að því að greina raunverulegan hagnað í sjávarútvegi, eðli hans og uppruna, hvort svo sem hann er minni eða meiri. 

Framkvæmdastjórinn eyðir grein sinni í að afsanna eigin tilbúning en tekst það hörmulega. Hann notar gagnrýnislaust kennitölur um skattalegan rekstrarhagnað atvinnugreina sem Hagstofan hefur unnið úr framtölum. Þeir sem til þekkja vita að skattalegur hagnaður segir almennt lítið til um raunverulegan rekstarhagnað og þá einkum í sjávarútvegi m.a. vegna ívilnandi afskriftarreglna en einnig vegna bókfærslu á gengistapi eða hagnaði o.fl. Eins er að nefna að reikningar margra sjávarútvegsfyrirtækja sýna mikla skuldsetningu. Vextir af þeim skuldum eru dregir frá skattskyldum tekjum en á sama tíma eiga þau miklar peningalegar eignir m.a. eignarhluti í öðrum félögum svo sem sölufélögum sínum en yfirleitt koma engar tekjur af þessum eignum fram í reikningum þeirra og skattskilum.

Af þessum ástæðum sækja þeir, sem vilja kynnast raunverulegri afkomu sjávarútvegs, upplýsingar sínar í árlegar skýrslur Hagstofunnar um afkomu fiskiveiða og fiskvinnslu en þar kemur fram sundurliðun tekna og gjalda sem gerir kleift að sleppa fjármálafærslum og losna að mestu við skattalegar tilhliðranir og aðrar skapandi bókhaldsbrellur. Greining afkomu á þessum grunni gefur allt aðra mynd af rekstri sjávarútvegs en gerfimynd framkvæmdastjórans. Í grein Daða Más og fleiri sem vísað er til hér að framan kemur fram að hreinn hagnaður sjávarútvegs og ávöxtun eigin fjárs í honum er langt umfram það sem er í öðrum atvinnugreinum. Varpar það eitt öllum málflutningi framkvæmdastjórans fyrir róða.

Ég hef ekki lagt í vana minn að elta ólar við skrif sem einkennast af persónulegu skítkasti og hjáfræðahjali en skortir efnisleg rök. Í þessu tilviki gerði ég undantekningu þar sem óvenju ósvífið staðreyndarugl og dæmafátt þekkingaleysi er borið fram undir starfstitli og stofnunarheiti sem vakið gæti hjá lesanda þá ranghugmynd að um sé að ræða afrakstur alvöru fræðastarfsemi.