Auðlindin okkar

Auðlindastefna

Þann 28. september 2022 sendu forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti Noregs frá sér sameiginlega  fréttatilkynningu; Overskuddene fra naturressurne skal fordeles bedre og kynntu þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja auðlindaskatt á fiskeldi í sjó og á vindraforku með sama hætti og sá skattur er þegar lagður á vatnsraforku, en hann skyldi einnig hækka nokkuð. Auk eignarhalds almennings á náttúruauðlindunum og réttar hans til arðs af þeim var ákvörðunin rökstudd með því að staða ríkisfjámála væri með þeim hætti að óbreyttri velferð yrði ekki við haldið nema með aukinni tekjuöflun. Ekki stæði til að skerða hana með niðurskurði á lífeyri, þjónustu við aldraða, framlögum til heilbrigðismálua, löggæslu og uppbyggingu innviða og ekki stæði til að hækka skatta á almenning. Efnahagslegur ójöfnuður hefði farið vaxandi og nauðsynlegt væri að þeir sem á síðustu árum hefðu aukið hlut sinn verulega legðu meira að mörkum. Liður í því er að hagnaði af nýtingu náttúruauðlindanna verði skipt með réttlátari hætti en nú er gert.

  • Tillögurnar fela í sér heildstæða stefnu um fjárhagslega nýtingu náttúruauðlinda í Noregi Sú stefna sem fylgt hefur verið varðandi vatnsraforku og jarðefnaeldsneytis er nú látin ná til  annarra auðlinda með hliðsjón af vaxandi arðsemi þeirra á síðustu árum.
  • Tillögurnar byggjast á því að náttúruauðlindir séu í sameign þjóðarinnar, þær skapi mikinn hagnað hjá þeim sem þær nýta og samfélagið eigi rétt á hluta hans.
  • Tillögurnar voru kynntar af forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Þær eru stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í auðlindamálum, ríkisfjármálum og velferðarmálum.

Margt er líkt með aðstæðum á Íslandi og í Noregi, staða ríkisfjármála og þær hættur sem við velferðarmálum blasa, vaxandi tekjuójöfnuður og misskipting eigna og margt fleira. Tvennt er þó gjörólíkt. Annars vegar staða auðlindamála á Íslandi þar sem fiskveiðiauðlindin, vatnsorka og jarðhiti að hluta eru að mestu nýttar af innlendum og erlendum auðfélögum án teljandi endurgjalds. Við það hefur fiskeldi bæst og í uppsiglingu er nýting vindorku með sama hætti. Hins vegar er afstaða og stefna stjórnvalda hér á landi sem einkennist af stefnuleysi í auðlindamálum, ábyrgðaleysi í ríkisfjármálum og kæruleysi um efnahagslegt réttlæti.

Sá ráðherra sem ábyrgur er fyrir almennri stefnumótun, þjóðhagsmálum, mannréttindum og jafnréttismálum hefur ekki haft forgöngu um mótun auðlindastefnu sem virðir rétt þjóðarinnar til arðs af auðlindum sínum. Þess í stað virðist einstökum ráðherrum ætlað að móta auðlindastefnu, hver á sínu sviði og hver í sína áttina. Orkumálaráðherra hefur þegar lýst vilja til að fela  sveitarstjórnum ákvarðanir um vindorkuver og matvælaráðherra hefur lagt upp í ferðalag án fyrirheits með sjávarútvegsstefnuna.

Ráðherrann sem er ábyrgur fyrir fjármálum þjóðarbúsins hefur heldur ekkert aðhafst þótt arðurinn af auðlindunum, margir tugir milljarða ár hvert, líklega milli 2 og 3% VLF, renni til innlendra og erlendra auðmanna sem þakka fyrir sig með því að skríða í gegnum göt á skattalöggjöfinni og fría sig af skattgreiðslum hér á landi á meðan ríkissjóður landsins er vanmáttugur til að halda uppi þeirri þjónustu sem af siðuðu samfélagi er krafist.

Heildstæð auðlindastefna er ekki til og tilraunir til að leggja grundvöll að henni með virku auðlindaákvæði í stjórnarskránni, þ.e. ákvæði sem ekki bara lýsir yfir formlegu eignarhaldi þjóðarinnar á náttúruauðlindunum heldur kveður einnig skýrt á um óskoraðan rétt hennar til arðs af þeim. Þrátt fyrir skýran vilja almennings hefur það verið hindrað með lagarefjum. Pólitísk forysta fyrir stefnumótun í auðlindamálum er ekki til staðar og umræða um þau er stöðnuð í lagaþrasi og orðhengilshætti.

  • Verkefnið Auðlindin okkar

Í kynningu matvælaráðherra í lok maí 2022 á verkefninu Auðlindin okkar og stofnun stórrar nefndar um sjávarútvegsmál með fjölda starfshópa segir að tilefnið sé að í sjávarútvegi ríkir djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti og sú tilfinning stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt. 

Hinar tilgreindu ástæður eru vissulega réttar en hafa þarf í huga að afstaða almennings er ekki einhver óljós tilfinning um óréttlæti heldur upplýst afstaða mikils meirihluta landsmanna til eignarhald á náttúruauðlindum landsins, þar á meðal fiskveiðiauðlindinni, og ósætti við það að arðurinn af þessari eign þess sé að mestu afhentur fámennum hópi eigenda stórútgerða (Fiskveiðiauðlindin og þjóðin). Þótt að tilefnið sé viðurkennt í orði er ljóst verkefnið Auðlindin okkar kemur ekki til móts við kröfur almennings um að horfið verði frá óréttlætinu.

Hvergi í lýsingu á verkefninu er vikið að því með neinum afgerandi hætti að tryggja eigi rétt almenning til arðs af auðlindinni. Ekki er sagt eins og í Noregi: ‘Overskuddene … skal fordeles bedre’ og í fyrirliggjandi ´bráðabirgðatillögum’ er slíks markmiðs að engu getið og engar tillögur fjalla um réttláta skiptingu umframarðsins.

Í kynningu verkefnisins segir einnig að markmiðið með því sé hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Hagkvæmni á hér eingöngu útgerðina. Tekjur vegna aukinnar hagkvæmni, í starfsumhverfi eins og útgerð á Íslandi er í, skilar sér eingöngu til þeirra fyrirtækja sem hafa þar einokunaraðstöðu. Þær skilar sér hvorki til starfsmanna í greininni né til samfélagsins. Sé hluti þjóðarinnar í auðlindaarðinum ekki tengdur honum með beinum hætti er aukin hagkvæmni eingöngu í þágu eigenda útgerða. Sátt við samfélagið er því einungis spurning um hvort hægt sé að sætta almenning við arðránið.

  • Nefndir og starfshópar 

Skortur á skýrum markmiðum er ekki það eina sem kemur í veg fyrir að tekið verði á stórum og mikilvægum málum. Mönnun starfshópanna og val á forystu bendir til hins sama. Allri athygli er beint að fjölda málefna sem vafalaust eru allra góðra gjalda verð og hafa gildi fyrir atvinnustarfsemi almennt en hafa lítið með sjávarútveg sem slíkan að gera. Sú spurning vaknar hvort þeim hefði ekki betur verið sinnt á öðrum vettvangi og án hátimbraðar yfirbyggingar.

Starfshóparnir fjórir eru skipaðir sérfræðingum á ýmsum sviðum en athygli vekur að enginn þeirra hefur sérþekkingu á sviði auðlindahagfræði eða tengdra samfélagsmála. Yfir starfshópunum er verkefnisstjórn skipuð 4 formönnum þeirra og 3 fulltrúum ráðuneytisins sem svo sitja allir í 27 manna samráðsnefnd ásamt ráðherra, 8 þingmönnum og 12 fulltrúum hagsmunaaðila. Þar ef eru 9 frá samtökum í sjávarútvegi, fiskvinnslu og sjómanna, m.a. 2 frá SFS. 

Stærsti hagsmunaaðilinn, almenningur í landinu, á engan talsmann í vinnu að ráðstöfun og nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þingmennirnir, fulltrúar ákveðinna hópa kjósenda, eru þarna fulltrúar þingflokkanna og tala máli þeirra auk þess sem ætla má að sumir þeirra séu fremur í hagsmunagæslu fyrir útgerðina en almenning í landinu. Það sem skiptir meginmáli í reynd er hvort þeir hafi talað fyrir fyrir þeim sjónarmiðum yfirgnæfandi meirihluta almennings að fiskveiðiauðlindin sé eign þjóðarinnar sem og arðurinn af henni. Þegar litið er á bráðabirgðatillögurnar og stöðu verkefnisins er ekki að sjá að slíkir talsmenn hafi komið að málinu. 

Skipan til verka er ekki það eina sem sýnir misvægi hagsmunanna. Af hinum 122 viðmælendum starfshópanna voru amk. 55 fulltrúar útgerðar og fiskvinnslu þar af 11 frá SFS en flestir aðrir frá tæknistofnunum. Þetta kann að vera eðlilegt þegar verið er að fjalla um tæknileg atriði svo sem vigtun afla, kynferði skipsáhafna, öryggismál, menntun, tollamál, notkun ísl. fánans og fleira af þeim toga en sýnir einnig það að ekki var á dagskrá að ræða um stærsta hagsmunamálið og helsta ágreiningsefnið, auðlindarentuna og réttláta skiptingu hagnaðar af sjávarútvegi milli útgerða og almennings í landinu. Í skýrslunni er aðeins tæpt á því með loðnu og villandi orðalagi. Jafnvel arfavitlaus útreikningur veiðigjaldalaganna á fjármagnskostnaði í útgerð þar sem kaup á nýju skipi er látinn lækka stofn til veiðigjalds um 25% kaupverðsins á ári er skýrður með því að heimildir til afskrifta séu ógagnsæjar. Reglur skattalaga þar um hafa verið í framkvæmd áratugum saman.

Þetta vekur i sjálfu sér ekki undrun. Stjórnarsáttmálinn, vegvísir að stofnun nefndarinnar, segir það eins skýrt og sagt verður að á þessum vettvangi verða engar breytingar gerðar í yfirstandandi stjórnartímabili. Því breytir skýrslan með sínum 219 blaðsíðum ekki.