Allt orkar tvímælis þá gert er

Fyrst birt í Kjarninn.is 24. maí 2022

“Allt orkar tvímælis þá gert er” sagði Njáll þegar hann lagði á ráð um vélabrögð í deilum sona sinna við Þráin Sigfússon. Á það einnig við um glímu Seðlabankans við afleiðingar af COVID-19 og verðbólgu með stýrivexti að vopni, hraða lækkun þeirra úr 3,75% niður í 0,75% á 17 mánuðum frá miðju ári 2019 og síðan hækkun til hins sama á 16 mánuðum eftir 2ja mánaða dvöl á botninum. Markmið SÍ er að stuðla að stöðugu verðlagi, skilgreint sem að hækkun vísitölu neysluverðs sé ekki meiri en 2,5% á ári. 

Fram hefur komið að ákvörðun um vaxtalækkanir hafi að einhverju leyti verið  til að styðja við aðgerðir stjórnvalda til að draga úr efnahaglegum afleiðingum COVID-19. Þótt slíkur stuðningur sé ekki meðal meginmarkmiða Seðlabankans segja lög um hann að hann skuli: “stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn markmiðum bankans”. Verður því að telja að ákvarðanir bankans um lækkun stýrivaxta hafi að mati hans bæði samrýmst markmiðum bankans og verið til stuðnings við stefnu ríkisstjórnarinnar í öðrum málum.

Í Kastljósi 9. febrúar sl. kom fram að Seðlabankastjóri telur að þessar aðgerðir hafi náð tilgangi sínum, örvað hagkerfið og dregið úr atvinnuleysi og ekki síst að stuðlað að auknum umsvifum á húsnæðismarkaði og einkum því að auðvelda ungu fólki að kaupa sér þak yfir höfuðið. Vel má vera að fyrri tvö atriðin séu rétt, þótt ekki sé ljóst á hverju þær staðhæfingar eru byggðar þar sem vísbendingar eru um að útlán bankakerfisins til fyrirtækja hafi dregist saman eða vaxið lítið á tímabili vaxtalækkana sem kemur m.a. fram í fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í desember sl. Útlán vegna íbúðakaupa uxu hins vegar verulega og fjöldi þeirra sem keypti sína fyrstu íbúð jókst einnig nokkuð. Ekki skal það dregið í efa að lækkun vaxta hafi létt mörgum að taka ákvörðun um kaup á fasteign og minni greiðslubyrði lána auðveldað þeim að komast í gegnum greiðslumat. En tvímælis orkar hvort það hefur gert íbúðakaupin auðveldari og hagkvæmari til lengri tíma þegar litið er til afleiðinga af vaxtalækkuninni. 

Línuritið rennir stoðum undir þá ályktun Seðlabankastjóra að vaxtalækkunin hafi aukið eftirspurn en sýnir einnig að byggingamarkaðurinn gat ekki brugðist við aukinni eftirspurn með auknu framboði og leiddi það til hækkunar á fasteignaverði. Hækkun þess á höfuðborgarsvæðinu er talin vera um 17% á tólf mánuðum. 

Önnur fyrirsjánleg afleiðing aukinnar eftirspurnar og verðhækkunar var þurrð á íbúðarmarkaði. Kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu sem verið höfðu 600 til 700 á mánuði á árunum frá 2017 til miðs árs 2020 fjölgaði í 900 til 1000 á mánuði til miðs árs 2021 að þeim fór fækkandi og eru nú aftur komnir í fyrra horf. Ungum íbúðarkaupendum fjölgað eitthvað en sú fjölgun virðist ekki varanleg. Það orkar tvímælis hvort þessar breytingar hafi í reynd auðveldað ungu fólki að kaupa sér þak yfir höfuðið.

Hækkun húsnæðisverðs hefur að verulegu leyti étið upp ávinning kaupenda af lækkun vaxta, einkum hjá þeim sem keyptu á síðari hluta COVID-19 tímabilsins. Vegna hærri höfuðstóls lána er greiðslubyrði engu minni en hún hefði verið af lægra láni með hærri vöxtum. Kaupendurnir njóta því ekki lækkunar vaxta heldur seljendur eignanna hvort sem það voru einstaklingar, sem voru t.d. að minnka við sig húsnæði, eða byggingaraðilar og þeir sem fjármögnuðu byggingar þeirra.

Hækkun fasteignaverðs leiddi til hækkunar á vísitölu neysluvöru og hækkunar á verðbótum verðtryggðra lána. Seðlabankinn álítur hækkunina vera ógnun við stöðugt verðlag og hækkar vexti í það sama og þeir voru áður. Þar með er hringnum lokað og greiðslubyrði lána hefur því hækkað hvort sem um var að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán. 

Hækkun Seðlabankans á stýrivöxtum kom ekki á óvart enda í takt við peningastefnu hans hvort sem hún á vel við eða ekki í þeim óvenjulegu ástæðum sem til staðar eru. En verið má að síðbúið innsæi bankans í að ákvarðanir hans um lækkun vaxta hafi verið misráðnar eigi einnig hlut að máli eins og ráða má af orðum peningastefnunefndarmanns í Vísbendingu og Kjarnanum 17. þ.m. Spurningin er hvort það að ætla “að stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum” með lækkun stýrivaxta til að hafa áhrif á fasteignamarkað hafi verið greiðvikni byggð á óskhyggja og því mistök sem komast hefði mátt hjá með raunhæfu matið á eðli þess markaðar og stöðu á honum. Það lá ljóst fyrir að framboðsskortur hrjáði markaðinn og að staða fyrstu kaupenda, einkum ungs fólks, verður ekki leyst nema með auknu framboði húsnæðis á félagslegum grundvelli.

En nú, eftir hækkun vaxta í fyrra horf, er þá ekki allt komið í lag og geta aðilar vinnumarkaðarins ekki bara farið að ráðum Seðlabankans og fleiri og samið um óbreytt laun og ríkisstjórnin unnið bug á COVID-19 hallanum með niðurskurði eins og boðað er í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar? Bíður okkar ekki betri tíð með blóm í haga? Er nokkur ástæða til að gera rellu út af því að vaxtahringekja Seðlabankans hafi haft mikla eignatilfærslu í för með sér? Seljendur húseigna, sem ekki höfðu lengur þörf fyrir þær, byggingaraðilar og fjármagnseigendur fengu nokkra auka milljarða í sinn hlut og nýir íbúðakaupendur greiða þá með glöðu geði með hækkuðu kaupverði íbúða sinna og auknum vaxtagreiðslum um ókomin ár. Lækkun vaxtanna var nefnilega gerð fyrir þá.

Ráð Njáls hindruðu hvorki Skarphéðinn í því að reka öxi sína í haus Þráni né komu í veg fyrir að Bergþórshvoll yrði báli að bráð. Hversu vel munu ráð Seðlabankans duga ungu fólki í íbúðarkaupum og þjóðinni í baráttu við verðbólgubálið?