Vildarkaup

Birt í Fréttablaðinu, 15. júlí 2022

Gordon Tullock, amerískur stjórnmála- og hagfræðingur, var einna fyrstur til að greina áhrif rentusóknar á efnahagslíf. Rentusókn skv. skilgreiningu Tullock er það þegar fé er varið í að hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir fremur en til viðskipta á markaði. Almennari en efnislega samsvarandi skilgreining rentusóknar er að hún sé fjárfestingu í starfsemi sem skapar fjárfestinum auknar tekjur án þess að verðmætasköpun hafi aukist.

Dæmi um þetta raungerist nú fyrir augum landsmanna. Stærsta sjávarútvegsblokk landsins er að kaupa auknar veiðiheimildir fyrir tugi milljarða króna. Engin verðmætaaukning mun hljótast af þessari fjárfestingu. Heildaraflamagn er óbreytt og markaðsverðmæti sjávarafurða mun ekki aukast við þetta. Meint samlegðaráhrif, ef þau eru einhver, munu koma fram í lægri kostnaði t.d. lægri launum vegna fækkunar starfsfólks. Þau auka ekki verðmæti framleiðslunnar en skila e.t.v. meiri hagnaði í vasa eigenda útgerðrinnar.

Þetta væri verðugt umræðuefni en athyglisvert er hvernig á þessum kaupum er tekið af stjórnmálamönnum og fjölmiðlum. Allri athygli er beint að samþjöppun veiðiheimilda sem vissulega er ekki æskileg eins og síðar er vikið að en hefur ekkert að gera með almannahagsmuni af sjávarútvegi. Aukin samþjöppun hefur raunar þau áhrif ein að auðlindarentan, 40 til 60 milljarðar króna á ári, mun renna í vasa færri sægreifa en áður. Það að draga úr henni með einhverjum hætti, t.d. því að lækka hámark aflahlutdeildar um helming, þ.e. úr 12% í 6% hefði bara þau áhrif að í stað þess að 6 -7 eigendablokkir skipti með sér obbanum af auðlindarentunni yrðu þær 12 – 14. Almenningur, eigandi auðlindarinnar, er engu betur settur en áður.

Sé samþjöppun aflaheimilda gerð að aðalatriði leiðir það til þess, eins og þegar má sjá af viðbrögðum á stjórnmálasviðinu, að athygli og aðgerðum stjórnvalda verður beint að henni þótt hún sé afleiðing vandans en ekki orsök hans. Orsökin er að stjórnvöld hafa búið til kerfi sem býr til mikla auðlindarentu í sjávarútvegi sem þau hafa afhent hópi útvaldra með gjafakvótum og nýtingarheimildum án endurgjalds. Það pólitíska leikrit sem færi af stað í kringum breytingar á hámarki aflaheimilda eða öðru af þeim toga mun engu skila en yrði skálkaskjól fyrir aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart hinum undirliggjandi vanda, þ.e. ráninu á auðlindarentu þjóðarinnar og auðsöfnun af þess völdum.

Sjávarútvegsfyrirtækin selja afurðir sína í lítlum mæli hér á landi og starfa ekki á samkeppnismarkað hér og samþjöppun á eignarhaldi í sjávarútvegi verður ekki stöðvuð af samkeppnisyfirvöldum á grundvelli samkeppnislaga. Áhrif hennar koma hins vegar fram á fjármála- og eignamarkaði þar sem sjá má hvernig að hagnaður stórútgerðarinnar, þ.m.t. auðlindarenta þjóðarinnar, rennur beint eða óbeint í gegnum eignarhaldsfélög útgerðaeigenda til fjárfestinga í öðrum rekstri, tryggingarfélögum, skipafélögum, fjármálafyrirtækjum, fasteignafélögum o.s.frv. Ef svo heldur fram sem horfir safnast eignarhald í öllum atvinnurekstri á landinu hröðum skrefum saman á þær fáu hendur sem stjórnvöld hafa þegar afhent fiskveiðiauðlind þjóðarinnar með enn vaxandi söfnun auðs og valds. 

Það er ekki heldur á valdsviði einstakra ráðherra eins og matvælaráðherra eða á verksviði starfshópa hans að gera það sem til þarf. Stjórnvöld landsins í heild sinni bera ábyrgð á lýðræði, stjórnsýslu, jafnrétti, almannahagsmunum og efnahagsmálum. Þau verða að taki sér tak og sýna að þau séu hlutverki sínu vaxin og hafi kjark og getu til þess að endurheimta fyrir þjóðina þann auð og völd sem þau hafa framselt í hendur fárra útgerðaeigenda.

P.S.  Sama dag og Síldarvinnslan keypti aukna hlutdeild í auðlindarentu þjóðarinnar fyrir 31 milljarð króna – án þess að þjóðin fengi króna í sinn hlut – birtist líka sú frétt að Síldarvinnslan hefði fengið 18,5 milljón króna styrk úr opinberum sjóði til að bæta orkunýtingu í verksmiðju. Hljómar eins og súrrealískur brandari.