Uppblásnar afskriftir og ofurvextir lækka veiðigjöld um milljarða króna á ári 

Í greinunum Veiðigjöld, á árinu 2013 gerði ég grein fyrir veiðigjöldum og gagnrýndi fyrirhugaðar breytingar á lögum um þau. Eftir basl með breytt lög var tekin ákvörðun um að snúa til baka til auðlindagjalda en víkja þó frá reglum þeirra í veigamiklum atriðum, sbr greinina Veiðigjöld 2018 í kjarnanum.is. Umræða um veiðgjöld nú er tilefni til að undirstrika eðli auðlindagjalda og benda á ákvæði núverandi laga sem standa í vegi þess að þjóðin sem eigandi auðlindarinnar njóti réttar síns.

Renta, auðlindagjöld og veiðigjöld.

Sé aðgengi að auðlind takmarkað með einhverjum hætti verður til renta. Útreikningur hennar er ekki flókinn. Renta er það sem eftir stendur af söluverði afurðar auðlindar þegar frá hefur verið dreginn kostnaður við framleiðsluna, aðföng, laun svo og kostnaður af rekstrarfjármunum þ.m.t. eðlileg ávöxtun á því fé sem eigendur starfseminnar hafa lagt fram.

Upplýsingar til að reikna út auðlindarentu liggja fyrir í bókhaldi þeirra fyrirtækja sem nýta auðlindina en með þeim galla að upplýsingar um fjármagnskostnað eru brenglaðar. Bókhalds- og skattareglur gera þær upplýsingar marklausar um raunverulegan fjármagnskostnað. Til að vinna bug á þeim galla má líta fram hjá fjárhagslegu færslum, afskriftum og vöxtum. Í staðinn er stofnverð rekstrarfjármuna fundið út og reiknaður kostnaður við að viðhalda verðmæti þeirra og greiða eðlilega vexti af því fé sem bundið er í starfseminni. Kemur sú fjárhæð í stað afskrifta, vaxta og annarra fjárhagslegra færslan í bókhaldi. Í raun er hér um einfalt reikingsdæmi að ræða hliðstætt því að reikna út greiðslur af jafngreiðsluláni. Upplýsingarnar sem til þarf liggja fyrir hjá skattyfirvöldum marga áratugi aftur í tímann.

Auðlindarenta reiknuð með þessum hætti er ekki komin til vegna fjárfestinga þess sem nýtir auðlindina heldur vegna auðlindarinnar sem hann hefur fengið leyfi til að nýta, leyfi til að virkja orkulind, nýta efni úr námu, rækta eldisfisk í firði eða stunda veiði á fiski í lögsögu landsins. Auðlindarentan er ekki hans heldur eiganda auðlindarinnar, þ.e. þjóðarinnar þegar um er að ræða náttúruauðlindir landsins.

Saga veiðigjalda

Veiðigjöldin frá árinu 2012 eru auðlindagjöld. Rentan var skilgreind, kveðið var á um að veiðigjöldin skyldu verða 65% hennar eftir fjögurra ára aðlögunartíma og gerð grein fyrir hvernig þeim skyldi jafnað niður á fiskitegundir. Einföld löggjöf en með þeim veikleika að framkvæmd hennar var ekki sett í hendur skattyfirvalda sem höfðu allar upplýsingar sem til þurfti og getu og stöðu til að sjá um hnökralausa framkvæmd án afskipta sérhagsmunaaðila.

Eftir kosningar 2013 hóf stjórn hliðholl sérhagsmunum útgerðarmanna að rífa veiðigjöldin niður með því að innleiða á ný frádrátt bókhaldslegra afskrifta og vaxtagjalda. Þegar í ljós kom að gengisbreytingar leiddu til hækkunar á veiðigjöldum voru lögin endurskoðuð á árinu 2018 og snúið til baka til þeirrar skilgreiningar á auðlindarentu sem lögin frá 2012 byggði en með veigamiklum frávikum til að halda veiðigjöldunum eins lágum og unnt var með bókhaldstækni. Helstu frávikin voru a) aðgreining veiða og vinnslu, b) að láta afskriftir og jafnháa vexti koma í stað reiknaðs fjármagnskostnaðar og c) að ákveða fjárhæð veiðigjalda án röklegra tengsla við eignarrétt eiganda auðlindarinnar.

Aðgreining veiða og vinnslu, milliverðlagning og fákeppni

Í lögunum frá 2012 var litið á sjávarútveg, veiðar, vinnslu og sölu sem eina heild. Samþjöppun aflaheimilda og eignatengsla útgerða, fiskvinnslu og sölu eru slík að aðgreining þeirra er eingöngu bókhaldslegs eðlis og breytanleg að vild. Flytja má hagnað og kostnaða eins og kaup og sölu á hráefni á milli veiða, vinnslu og sölu með milliverðlagningu í viðskiptum tengdra aðila.

Talið hefur verið að við sölu á fiski frá útgerð til tengdrar fiskvinnslu sé aflaverð um 20% undir eðlilegu markaðsverði og benda tölur Hagstofu um afkomu veiða og vinnslu til þess að svo geti verið. Sala á afla til vinnslu um 100 milljarðar króna á ári. Sé framangreind tilgáta nærri lagi gæti tilflutningur á tekjum verið um 20 milljarðar króna á ári og verulegum hluta af rentu í sjávarútvegi því haldið utan mats á rentunni.

Fákeppni í fiskvinnslu er ein sér nægjanleg rök fyrir að hún myndi stofn fyrir útreikning veiðigjalda ásamt veiðunum. Fiskvinnsla í einhverjum teljandi mæli er illmöguleg án aðkomu þeirra sem ráða yfir afla. Úthlutun meginhluta veiðiheimilda til þröngs hóps útgerðarfyrirtækja veldur einokun eða fákeppni í fiskvinnslu sem leiðir til auðlindarentu einnig í þeim hluta sjávarútvegs.

Afskriftir og reiknaðir vextir sem fjármagnskostnaður

Í lögunum frá 2018 er fjármagnskostnaður ákveðinn sem afskriftir að viðbættri sömu fjárhæð sem ígildi vaxta. Frádráttur afskrifta er ekki út loftið ef þær endurspegla raunverulega verðrýrnun rekstrarfjármuna. Því er þó ekki svo farið því skattalög heimila hraðari fyrningu einkum vegna stórra fjárfestinga. Hraðar afskriftir eru áberandi í útgerð. Fiskiskip með 25 til 40 ára líftíma, má afskrifa á 8 árum að vali og sú fjárhæð lækkar tekjuskattstofn á hverju ári sem hún varir.

Samkvæmt lögum um veiðigjald er þessi fjárhæð einnig dregin frá aflaverðmæti þegar veiðigjaldið er ákveðið. Nýr skuttogari mun kosta minnst 4 milljarða króna. Ef miðað er við 25 áraendingartíma ætti afskrift hans vegna að vera160 milljónir króna á ári. Viðhald er gjaldfært og kemur þannig til frádráttar og eignfærðar endurbætur leggjast við afskriftagrunninn. Afskrift á 8 árum verður 500 milljónir króna á ári. Kaup á nýjum togara lækkar því tekjur af veiðigjöldin um 340 milljónir króna umfram það sem eðlilegt væri á hverju ári í átta ár eftir kaupin. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru togarar í árslok 2020 alls 46, þar af eru16 togarar á aldrinum 0 – 4 ára og verða afskrifaðir í næstu 4 til 8 ár. Árlegar afskriftir af þeim miðað við 4 milljarðar meðalverð á skip eru þá 5,44 milljarðar umfram það sem eðlilegt gæti talist og lækkar árlegar tekjur af veiðigjöldin um þá fjárhæð.

En þetta hefur ekki þótt nóg. Lögin kveða einnig á um að reikna skuli til frádráttar vexti að sömu fjárhæð og afskriftirnar þ.e. 500 milljónir á ári vegna kaupa á 4 milljarða togara. Það samsvarar 12,5% vöxtum á ári. Ársreikningar stórútgerða benda til þess að þær fjármagni kaup á skipum með erlendum lánum á lágum vöxtum. Sé miðað við 2,5% vexti ætti vaxtagreiðsla fyrstu árin að vera um 100 milljónir króna. Frádregin vaxtagreiðsla er því 400 milljónum króna hærri en hin raunverulega eða alls um 6,4 milljarðar á ári vegna 16 skuttogara.

Fjármagnskostnaðar til frádráttar frá veiðigjöldum vegna16 togara nýrra togara er samkvæmt þessu um 12 milljörðum króna hærri á ári en eðlilegt getur talist. Þetta varir fyrstu 8 árin eftir kaup á skipi en þá falli afskriftir og vaxtagreiðslur niður. Það breytir því þó ekki að verðgildi frádráttarins, núvirði hans, er langtum meira séu hann gerður á 8 árum í stað 25 ára auk þess sem ýmsar leiðir eru til að mæta lækkuðum afskriftastofni. Af þeim 30 togurum sem eftir standa eru 21 eldri en 30 ára og verða þeir líklega endurnýjaðir á næstu árum og skapa nýjan frádrátt frá veiðigjöldum. 

Þessar reglur rjúfa tengsl veiðigjalda við raunverulegu afkomu sjávarútvegs og auðlindarentu og bjóða upp á misnotkun. Þær eru í reynd svo arfavitlausar að spyrja verður hvað valdi, kunnáttuskortur, vildarvilji eða fúsk?

Fjárhæð veiðgjaldsins

Ákvörðun veiðigjalds, leigu fyrir aðgang að takmörkuðum náttúrugæðum á að byggjast á því að þjóðin á fiskveiðiauðlindina. Alþingi skipað fulltrúum þjóðarinnar getur ákveðið hversu hátt gjaldið á að vera, hvort það er öll rentan eða hvort frá því er vikið. Þau frávik verða að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum svo sem byggðastefnu, eflingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja eða vera til að skapa rúm fyrir eðlilega mismunarrentu innan atvinnugreinarinnar. Þau mega ekki ganga gegn því að þjóðin á allt tilkall til auðlindarentunnar og að henni má ekki ráðstafa nema með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Á árinu 2012 var lagt upp með það að veiðigjöldin yrðu 65% rentunnar eftir nokkurn aðlögunartíma auk þess sem minni útgerðum voru veittar ívilnanir. Þessi niðurstaða var málamiðlun mismunandi sjónarmiða en engu að síður málefnaleg ákvörðun um hversu stór hluti rentunnar skyldi renna í ríkissjóð og að hvaða leyti henni yrði varið til að þjóna öðrum markmiðum og ráðgert að hún kæmi til endurskoðunar að fenginni reynslu. Í lögunum frá 2018 er engin tenging við auðlindarentu og ekkert mat á því hver hluti þjóðarinnar í rentunni á að vera en gjaldið ákveðið með því að líta til fortíðar sem var á engan hátt leiðbeinandi um hvað væri við hæfi. Sú ákvörðun stóð þó ekki lengi og var breytt stuttu síðar til að verða við kröfum útgerðarinnar. Geðþóttaákvarðanir komu í stað málefnalegar ákvörðunar.

Samandregið

Núgildandi lög um veiðigjöld byggja á hugmyndafræði auðlindagjalda en víkja frá rökréttri ákvörðun veiðigjalda með því að taka ekki til sjávarútvegs í heild, með röngu mati á fjármagnskostnaði og með ómálefnalegri ákvörðun veiðigjaldsins. 

Þessum ákvæðum laganna er auðvelt að breyta og framkvæma þau með því að fela Skattinum, sem þegar býr yfir þeim upplýsingu sem til þarf, að sjá um framkvæmd laganna að öllu leyti. Með litlum fyrirvara er unnt að koma álagningu og innheimtu veiðigjalda í viðunandi horf og fá tími til að leggja mat á mismunandi leiðir svo sem uppboð tímabundinna veiðiheimilda í stað veiðigjalda eða blandaða leið þ.e. uppboð á veiðiheimildum með kvöðum um veiðigjald.