- “Ich bin ein Berliner”
- Jólabögglar á Checkpoint Charlie
- Checkpoint Charlie og Þjóðviljinn
- Árni Björnsson Minningar frá Berlínardvöl
Frá vorinu 1963 til vorsins 1970 átti ég heima í V-Berlín. Ég stundaði þar nám við Freie Universität í þjóðhagfræði. Ég lauk því námi haustið 1969 og var þá ráðinn aðstoðarkennari (Assistent) hjá Pr. Kurt Elsner en hjá honum hafði ég skrifað diplom ritgerð mína. Með ráðningunni gafst mér kostur á að hefja doktorsnám undir leiðsögn hans og var aðstoðarkennarastarfið liður í því ferli eins og algengt var á þessum tíma.
Eins og flestir íslenskir stúdentar erlendis á þeim tíma og síðar átti ég fjárhagslega allt undir Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) eða öðrum styrktaraðilum. Ég hafði kvænst árið 1964 og kona mín og 3ja mánaða dóttir okkar komu til dvalar í Berlín á vormánuðum 1965. Vegna gengis íslensku krónunnar var tiltölulega auðvelt að lifa á lánum frá LÍN á tíma mínum í Berlín allt til gengisfellinganna 1867/68. Ég hafði þá verið svo lánsamur að fá styrk til náms í Berlín frá Deutscher Akademischer Austauchdienst (DAAD) sem fleytti mér yfir síðustu árin auk þess sem ég vann nokkuð með náminu bæði sem „tutor“ fyrir erlenda stúdenta í hagfræðideildinni og hjá Max Planck Institut für Bildungsforschung fyrir tilstilli Wolfgangs Edelstein sem var einn af forstöðumönnum þeirrar stofnunar og tveggja ungra hagfræðinga sem ég hafði kynnst í námi mínu, Klaus Hüfner og Jens Naumann, sem séhæfðu sig hagfræði menntunar og unnu einnig hjá þeirri stofnun.
Við námslokin breyttust fjárhagslegar aðstæður verulega með brottfalli styrksins frá DAAD sem verið hafði til tveggja ára. Ferill þeirra sem voru aðstoðarmenn prófessora í doktorsnámi sínu var á þeim tíma yfirleitt langur, oft 3 til 5 ár eða meira og starfið ekki vel launað. Var það ekki mjög aðlaðandi fyrir mann með konu og barn og annað á leiðinni. Í árslok 1969 var mér boðið að koma til starfa hjá menntamálaráðuneytinu en á fyrri hluta náms míns hafði ég unnið nokkuð í tengslum við það m.a. safnað gögnum um alla barna og gagnfræðaskóla landsins í þeim tilgangi að skrá nemendur og námsferil þeirra, lengd skólagöngu o.fl. Var það unnið í samvinnu við Wolfgang Edelstein sem þá var ráðgjafi hjá ráðuneytinu og nýttist þessi vinna við undirbúning fyrstu grunnskólalaganna. Ég ákvað að taka þessu boði og fluttum við til Íslands í apríl 1970.
Á þessum síðum „Berlínarárin“ birtast frásagnir sem ég hef tekið saman eða fengið hjá öðrum sem voru mér samtíða í Berlín á sjöunda áratug síðustu aldar. Sá hópur var ekki fjölmennur í upphafi tímabilsins en fór vaxandi. Það var etv. vegna fámennisins að þeir sem þarna voru héldu vel hópinn, hittust mikið og milli þeirra mynduðust vinarbönd sem haldist hafa allar götur síðan. Ekk spillti það fyrir að í hópnum voru frjóir og skapandi einstaklingar sem fundu víða tilefni til fagnaðar.
Síðum þessum er ekki ætlað að vera sagnfræði eða annálar. Áhersla er á frásagnir af minnisstæðum atburðum, fólki, aðstæðum o.s.frv. sem lýsandi eru fyrir líf okkar í Berlín, séstakt ástand Berlínar, sem var eins konar eyland inn á svæði auðsturveldanna, og umbrotin í samfélaginum á þessum tíma.