Jólabögglar á Checkpoint Charlie

Við upphaf dvalar minnar í V-Berlín árið 1963 voru einungis fjórir íslenskir stúdentar við Freie Universität (FU) svo og íslenskur lektor. Berlín var inn í miðju A-Þýskalandi og vesturhluti hennar umluktur múr og víggirðingu frá 1961. Berlínarborgarar gátu almennt ekki farið á milli borgarhlutanna en útlendingum, þ.m.t. V-Þjóðverjum, var það hins vegar heimilt sem og stúdentum frá Vesturlöndum sem voru við nám í A-Þýskalandi. Á bíl eða fótgangandi var jafnan farið um Checkpoint Charlie en um Bahnhof Friedrichstraße ef farið var með lest. Á “grensunni” varð að sýna allt sem haft var meðferðis. Var það haft til samanburðar þegar snúið var til baka. Átti það einnig við um lausafé.

“Das Akademische Außenamt” var sú skrifstofa FU sem sá um málefni erlendra stúdenta, ráðlagði þeim og aðstoðaði m.a. við leit að herbergjum. Þrátt fyrir góðan undirbúning í íslenskum menntaskóla var þýskt tungtak í fyrstu framandi og stundum lítt skiljanlegt og eins gat skrifaður texti misskilist m.a. vegna mismunandi merkinga orða af sama stofni. Ólafur Ragnars nam tannlækningar við FU og hafði farið í Außenamt til að fá aðstoð. Á skilti yfir dyrum einum stóð “Rechtsberatung”. Taldi hann augljóst að þar fengist upplýst hvernig maður bæri sig að í hvívetna og gekk inn. Ungur maður tók á móti honum og spurði um erindið. Óli tjáði honum á menntaskólaþýsku að hann þyrfti herbergi “ein Zimmer mieten”. Sá þýski skildi strax hvernig í pottinn var búið og sagði Óla að hann veitti erlendum stúdentum lögfræðilega ráðgjöf þegar tilefni væri til en leiguaðstoð væri annars staðar að finna. 

Þeir tóku þó tal saman og fór vel á með þeim. Lögfræðingurinn hafði búið í foreldrahúsum í A-Berlín og ætlað í háskólanám eftir stúdentspróf en fékk ekki inni í háskóla í A-Þýskalandi. Eldri systir hans var þegar í háskóla og það féll ekki að reglum að tvö börn sömu fjölskyldu stundaði nám í háskóla. Var honum því boðið að nema þarflega iðn sem aukið gæti framleiðslugetu hins sósíalistíska ríkis. Leist honum það ekki allskostar en skráði sig í FU í V-Berlín og flutti í þann borgarhluta til að vera nær skólanum og forðast áreiti. Þegar múrinn var reistur var hann aðskilinn frá fjölskyldu sinni og tók ekki þá áhættu að stíga fæti austur fyrir.

Upp úr þessum þróaðist vinátta milli þeirra. Óli tók m.a. að sér að flytja pakka fyrir vin sinn til foreldrum hans í A-Berlín. A-þýsk stjórnvöld höfðu nákvæmar reglur um vörusendingar milli borgarhlutanna. Senda mátti ákveðinn fjölda af vindlingum og vindlum, svo og svo mikið af súkkulaði, svínafleski og annarri matvöru, tiltekna lengd af lérefti eða öðrum klæðadúk og fleira og fleira. Lögfræðingurinn hélt sig ætíð innan settra marka.  

Óli átti á þessum tíma appelsínugula VW bjöllu, hinn mesta kostagrip, sem notaður var til ferðanna. Ég fór með honum í margar þessar ferða og aðrar. Urðum við fljótlega vel þekktir á Checkpoint Charlie en ekki auðfúsugestir þegar bögglar voru með í för. Vorum við grunaðir um að selja varninginn eða afhenda hann einhverjum í sölutilgangi. Vorum við oft inntir eftir því hvort þeir væru ætlaðir löndum okkar í A-Berlín sem þeir sáu í skýrslum sínum að við heimsóttum oft. 

Kona ein, nokkuð við aldur, í blágráum einkennisklæðnaði a-þýska tollsins virtist stjórna skoðun á pappírum og farartækjum. Lét hún okkur einatt bíða eftir afgreiðslu, hnýstist mjög í bögglana og las oft yfir okkur að bögglaburður væri verkefni póstsins en ekki einhverra stúdenta sem ekki væri vitað hvort kæmu sendingunni til meintra viðtakenda eða seldu vörurnar og svölluðu fyrir andvirðið. Þegar á leið hótaði hún því að bögglarnir yrðu gerðir upptækir ef við létum ekki segjast sem við gerðum ekki.

Leið svo að jólum 1964. Í tilefni þeirra höfðu vöruheimildir verið auknar og lögfræðingurinn hafði efnt í tvo stóra böggla sem biðu flutnings í byrjun desember. Foreldrar hans bjuggu í suðurhluta A-Berlínar um 20 mínútna akstur frá Checkpoint Charlie. Faðirinn, fyrrverandi starfsmaður kaffibrennslu ríkisins, duldi lítt andúð sína á stjórnvöldum fyrir okkur. Lagði hann þá nokkuð að jöfnu Walter Ulbricht æðsta ráðamann A-Þýskalands og Adolf Hitler. Báðir ofbeldisseggir sem stjórnuðu með “Terror”. Ræddi hann þetta stundum háum rómi á “Stammkneipe” sinni þótt kona hans reyndi að þagga niður í honum. Tók hann því ekki vel en klappaði á makka stóra Schäferhundsins, sem ætíð fylgdi honum, hugsanlegum uppljóstrurum til viðvörunar.

Á Checkpoint Charlie var tollfrúin úfin í skapi og allmargir Ameríkanar í skoðunarferð til A-Berlínar komu um sama leyti og við. Tók hún þá fram fyrir okkur til afgreiðslu. Til að gjalda fyrir það fórum við að tala saman á ensku og ræddum hátt við þá amerísku um lélega þjónustu á landamærunum. Hafði það þau áhrif að farið var með okkur út í bíl. Fór þar fram nákvæm leit í bílnum án árangur en okkur fyrirlagt að bíða þar þannig að við gátum ekki ergt tollfrúna frekar.

Eftir nærri tveggja stunda birtist offiseri landamærahersins í fullum skrúða. Stuttu síðar vorum við, hvor um sig, leiddir inn í herbergi þar sem hann yfirheyrði hann okkur ítarlega en ekki bar á milli í frásögn okkar þar eð við sögðum í öllu satt frá um flutninga þessa. Eftir enn nokkra bið vorum við kallaðir inn í herbergið á ný og boðið sæti andspænis honum. Strangur á svip hóf hann tölu sína. Sagðist hann hafa fyrir því heimildir að við hefðum ítrekað óhlýðnast ábendingum tollvarða hins Þýska alþýðulýðveldis. Dró hann upp úr skrifborðsskúffunni nokkrar pappísarkir og las upp skýrslu um komur okkar á Checkpoint Charlie á nærri tveimur tugum ferðum okkar á síðusta hálfu öðrum ári með böggla með nánar tilgreindu innihaldi til fólks í ríkinu. Sendingar þessar væru að vísu ekki ólöglegar en það væri hlutverk póstsins að annast svona flutninga eins og okkur hefði margoft verið bent á. Hefðum við ítrekað verið varaðir við því að bögglarnir kynnu að verða gerðir upptækir ef ekki yrði lát á. Nú væri þolinmæðin á þrotum. Ættum við tvo kosti. Þann að halda för okkar áfram og bögglarnir þá gerðir upptækir eða þann kost að snúa til baka með þá.

Við tókum síðari kostinn. Hinn góði sonur var vanur að boða foreldrum sínum komu okkar með símskeyti. Þóttumst við vita að þau yrðu óróleg ef við kæmum ekki. Fengum við því bögglana geymda á lögreglustöð vestan múrsins og fórum svo lausklyfjaðir til gömlu hjónanna þar sem við höfðum stutta viðdvöl. Á bakaleiðinni tókum við bögglana og keyrðum vestur að Nicolassee þar sem ég leigði þá herbergi hjá Árna Björnssyni lektor við FU og konu hans Vilborgu Harðardóttir. 

Hjá þeim hjónum var þá stödd Guðrún Hallgrímsdóttir sem lagði stund á matvælaverkfræði í A-Berlín. Naut hún ferðafrelsis og þeirra forréttinda að ekki var gramsað ítarlega í fórum hennar við ferðir milli borgarhlutanna. Tók Guðrún af skarið. Sagðist hún stinga pinklum þessum í skjóðu væna sem hún hafði meðferðis og hefði dugað vel til að flytja til austurs ýmislegt sem ekki væri heimilt. Óli ók henni að lestarstöð næst vestan við Bahnhof Friedrickstraße þar sem hún tók lestina austur yfir en Óli fór um Checkpoint Charlie og sótti Guðrúnu og bögglana á brautarstöðina. Skilaði hann Guðrúnu á  stúdentaheimili hennar í Köpenick ekki fjarri heimili gömlu hjónanna og fór síðan með bögglana til þeirra.

Þessi frásögn sýnir hvernig fólk í Berlín reyndi og lifa lífinu og að aðlagast aðstæðum sem það átti enga möguleika til að hreyfa við. Hún segir líka þá sígildu sögu að allt er lagt undir til að halda völdum, m.a. það að skrá niður og halda skýrslu um ferðir tveggja stúdentaræfla með gjafapakka milli sonar og foreldra hans. Þetta var fyrir tíma tölvunnar. Allt var skráð með penna og varðveitt á pappír í skjalasafni þannig að eftir nærri tvö ár tók það aðeins stuttan tíma að draga það fram. Það skoplega en jafnframt hið sorglega er að í hinum frjálsa heimi hafa alþjóðleg netfyrirtæki nú tekið við því hlutverki að safna og varðveita upplýsingar um athafnir borgaranna.