Torræðar tölur og gjafmild þjóð

Í kjarninn.is og á heimasíðu minni, birtust nýlega greinar, Fiskveiðiauðlindin og þjóðin, með talnalegum upplýsingum um íslenskan sjávarútveg á síðustu árum. Tölurnar voru að mestu sóttar í skýrslur Hagstofu Íslands. Meðal þess sem fram koma var að auðlindarentan, þ.e. umframhagnaður í sjávarútvegi, á árunum 2010 til 2020 var að jafnaði um 47 mrd. kr. á ári hverju. Sú tala er í samræmi við niðurstöður fræðimanna við innlenda og erlenda háskóla, sem rannsakað hafa málið.

Tölur eru góðar til að mæla stærðir og magn náttúrulegra hluta og huglægra fyrirbæra að því gefnu að til sé almennt viðtekin mælieining. En túlkun mælinga og vitund um hvað þær sýna er háð reynsluheimi hvers og eins. Átta ára vinur minn hann Orri veit að stór líkönin af Jurassic Park risaeðlunum kosta 20 til 25 þúsund kr. og að það er um tvöfalt meira en fótboltaskór. Flestir skilja tölur upp á hundruðir þúsunda eins og mánaðarlaun og hundrað milljónir hafa skírskotun til verðs á íbúðarhúsnæði. Þegar hærra er farið verður myndin óskýr fyrir flesta.

Hundrað milljónir eru einn með 8 núllum. Fjörutíuogsjömilljarðar eru 47 með 9 núllum, þ.e. 470 sinnum meira. Árleg auðlindarenta 2010 til 2020 jafngildir 940 íbúðum hver að verðgildi 50 m.kr. eða alls 10.340 íbúðum í þessi 11 ár. Önnur mynd af stærð rentunnar fæst með samanburði við nýja byggingu Landsspítalans. Tveggja ára arður af fiskveiðiauðlindinni hefði dugað til að ljúka þeirri byggngu en þó væru eftir rúmir 400 milljarðar í jarðgöng og önnur verkefni.

Litlar tölur geta einnig verið torræðar. Í Stundinni, 11. 11. – 24. 11. 2022, er greint frá því að sex börn fyrrum aðaleigenda eins stærsta útgerðarfélags landsins hafi eignast 96% í félaginu og að það fari með 11,79% allra aflahlutdeilda í fiskveiðum. Tveir þeirra hafa 2,98% aflahlutdeildanna hvor um sig og hver hinna fjögurra hefur 1,38%. Hann Orri vinur minn er líka býsna slyngur í prósentum og fylgist vel með afslætti af risaeðlum eða fótboltavörum. Honum þætti lítið koma til 2,89 prósenta og hvað þá 1,38 prósenta en færi í verðskanna til að sjá það í krónum. Það gerum við líka.

Aflahlutdeild er ávísun á hluta af þeim aflaheimildum sem úthlutað er við upphaf fiskveiðiárs. Á þessu fiskveiðiári hafa því tveir betur settu afkomendurnir hvor um sig fengið heimild til að veiða um 14.500 tonn af þorski og þorskígildum annarra fiskitegunda. Samtals er þeir með nokkuð meiri veiðiheimildir en allt það sem fer til strandveiða, byggðakvóta og annarra sérverkefna. Verr settu afkomendurnir fjórir láta sér nægja um 7.000 tonn af þorskígildum hver.

Fyrirtækið sem um ræðir mun vera vel rekið og skilar væntanlega meðalhagnaði útgerðarfélaga hið minnsta. Sé svo er aflahlutdeild eigenda þess ávísun á jafnstóran hlut í auðlindarentunni. Líklegt er að á næstunni verði hún svipuð og hún hefur verið á undanförnum árum, um 47 mrd. kr., eða jafnvel hærri eins og fiskverðsþróun bendir til. Handhafi 2,89% aflahlutdeilda fengi þá í sinn hlut 2,89% hennar eða 1,36 mrd. kr. ár hvert en handhafi 1,38% aflahlutdeildar fengi aðeins tæpar 650 m.kr. árlega. Gjafakvótinn var á sínum tíma réttlættur með því að verið væri að vernda atvinnurétt manna. “Verður er verkamaðurinn launa sinna” segir í helgri bók. (Um skatta og skattfrelsi þessara tekna er einnig fjallað í tilvitnuðum greinum.)

Veiðiheimildum er úthlutað til árs í senn og geta þær verið breytilegar milli ára m.a. vegna breytingar á heildarkvóta og eins geta fylgt þeim nýir skilmálar eða breyttar forsendur svo sem veiðigjöld eða annað. En að öllu óbreyttu munu þeir einstaklingar, sem að framan er getið, vakna við það einn morgun við upphaf hvers fiskveiðiárs að sá ráðherra, sem til þess er valinn, færir þeim að gjöf fyrir hönd þjóðarinnar ávísun á 1.360.000.000 kr. eða eftir atvikum 650.000.000 kr.

Sælla er að gefa en þiggja. Sá ráherra sem gjöfina afhendir fer að lögum sem eru ekki í samræmi við rétt almennings og vilja þjóðarinnar. Samrýmist þau ekki heldur skoðun hans á réttlæti og sanngirni á hann tvo kosti – að hlíta vondum lögum eða að fá þeim breytt.