Skattaskjól og aflandssvæði

I.   Saga og þróun.
Skattaskjól í einhverri mynd eiga sér langa sögu og má sjá forvera þeirra aftur í aldir. Þessi svæði voru yfirleitt tengd verslun og framleiðslu og höfðu fyrst og fremst staðbundin áhrif. Saga fjármálalegra skattaskjóla byrjar á 3. og 4. tug tuttugustu aldar í Sviss og Lichtenstein og síðan á Bermuda. Þessi skattaskjól þjónuðu aðallega auðugum einstaklingum sem gátu falið fé sitt fyrir skattlagningu heimalandsins. Eftir 1950 færðist vöxtur í starfsemi skattaskjóla þegar þau urðu vinsæl hjá fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem notuðu þau til að færa tekjur milli landa eftir því hvað hagkvæmt var m.t.t. skatta og með aukinni þýðingu fjármálastarfsemi í heiminum óx þýðing skattaskjóla jafnt og þétt.

Skattaskjól eru mismunandi innbyrðis en einkum er litið er til þriggja atriða þegar landsvæði eða sérreglur innan ríkja eru nefnd skattaskjól. Í fyrsta lagi að skattlagning tekna einstaklinga eða félaga sé engin eða óveruleg. Í öðru lagi að leynd sé tryggð. Í þriðja lagi að viðskiptaumhverfið sé ógagnsætt. Auk þessara atriða er oft einnig litið til þess hvort það sé takmörkunum háð hverjir geti tekið þátt í starfsemi félagsins. Þannig er algengt að þau taki eingöngu til tekna sem aflað er utan svæðisins og heimaaðilar þannig útilokaðir frá þátttöku.

Greint er á milli skattaskjóla eftir því hvort um að ræða smáríki, sem bjóða erlendum aðilum heimilisfesti fyrir félög sem njóta skattaskjóls eða hvort stærri ríki bjóði upp á sérreglur með skattalegum ívilnunum fyrir einstaklinga og félög sem uppfylla ákveðin skilyrði. Dæmi um það fyrra eru hin þekktu skattaskjól á eyjum í Karibahafinu með Bresku Jómfrúeyjarnar í broddi fylkingar en þessi fyrirbæri er einning að finna í öðrum heimshlutum, eyjum í Kyrrahafi, Ermasundseyjunum, Kýpur og víðar. Sammerkt með þessum löndum að þeim frátöldum sem eru í Evrópu er að þetta eru fátæk, vanþróuð ríki og augljóst að því fé sem komið er undan skatti í öðrum ríkjum kemur ekki íbúum þessara landa til góða.

Skattaskjól í þróuðum ríkjum eru yfirleitt þess eðlis að sérstakar reglur gilda um erlenda aðila sem flytja fé sitt þangað til vörslu og njóta ívilnana í sköttum og eru í sumum tilvikum verndaðir með leynd. Þessu fylgir jafnan að innlendir aðilar njóta ekki ívilnana með sama hætti. Þekktust þessara ríkja eru líklega Luxemborg og Sviss en ennfremur má nefna Írland, Holland og einstök ríki í BNA. Það sem skilur skattaskjól í þessum löndum frá hinum er einkum að reglur um ársreikninga, aðgengi að upplýsingum o.fl. fer eftir landslög viðkomandi lands og eftir atvikum eftir þeim reglum sem gilda á EES svæðinu.

II.   Fyrir hverja eru skattaskjólin.
Skattaskjólin hafa frá upphafi þjónað tveimur hópum aðallega. Fjölþjóðafyrirtæki nota þau til að koma hagnaði undan skattlagningu í því landi þar sem tekjurnar verða til annað hvort með því að flytja þær til heimalands fyrirtækisins eða það sem algengara er að losna undan skattlagningu að öllu leyti með því að koma þeim í skattaskjól. Til þess eru ýmsar leiðir svo sem með vaxtagreiðslum af lánum innan fyrirtækjasamstæðu, greiðslum fyrir meinta tækni- eða stjórnunarþjónustu, greiðslum fyrir einkaleyfi o.fl. Dæmi um þetta má sjá í málum sem í umræðu hafa verið á síðustu árum Starbuck, Google, Apple í Englandi og eins hjá álfyrirtækjum sem eiga verksmiðjur hér á landi.

Sterkríkir einstaklingar eru aðrir stórnotendur skattaskjóla. Með því að færa eignir sínar þangað geta þeir gengið svo frá hnútum að þeir komast hjá því að greiða skatta af tekjum af þessum eignum og viðskipti með þær eru huldar leynd. Þrátt fyrir skráninguna fer engin eiginleg starfsemi fram í þessum skattaskjólum. Féð er ekki fjárfest þar heldur í öðrum löndum þar sem meiri feng er að fá. Fjármálastofnanir og svokallaðir umsýslumenn eru ráðnir til að sýsla með fé að fyrirmælum eigenda þess.

Fyrirtæki, stór og smá, nota einnig félög í skattaskjólum til að búa til falska milliverðlagningu. Vara er á pappírunum flutt inn í gegnum skattaskjólsfélagið sem selur hana til tengds fyrirtækis í innflutningslandinu á háu verði. Sama getur átt við um útflutning sem er þá færður á of lágu verði hjá útflytjanda vörunnar. Í báðum tilvikum verður hagnaðurinn af viðskiptunum eftir hjá skúffufyrirtæki. Þetta getur einnig átt við um sölu á þjónustu, ráðgjöf o.fl. jafnvel þótt þjónustuveitandinn sé í sama landi og kaupandi þjónustunnar.

III. Hagræði af skattaskjólum.
Stofnun félags í skattaskjóli hefur í för með sér fyrirhöfn og kostnað. Ákveðna pappírsvinnu þarf að inna af hendi til að stofna félag eða þá að kaupa það einns og einnig tíðkast. Þá þarf að fá þjónustu fjárvörsluaðila sem jafna er banki eða fjármálastofnun í einhverju alvöruríki og ráða umsýsluaðila, sem formlega sér um stjórn félagsins þótt eigandi sé hinn raunverulegi stjórnandi sem ekki er talið æskilegt að komi fram. Allt kostar þetta fé og vandséð af hverju verið er að stofna félagið nema því fylgi eitthvað það hagræði sem metið er meira en hann.

Hagræði af skattaskjólsfélagi felst í því sem aðgreinir það frá félögum utan aflandssvæða en það er eins og áður segir einkum þrennt. Skattleysi, leynd og ógagnsæi. Þar að auki má nefna það hagræði sem felst í því að vera laus undan ýmsum reglum sem gilda myndu um félagið og starfsemi þess væri það í heimalandi eigandans. Eitthvert þessara atriða eða þau öll saman eru eina rökræna skýringin á því að einhver velur það að stofna félag í skattaskjóli. Því fylgja engir aðrir viðskiptalegir kostir enda fer starfsemi félagsins og stjórn þess ekki fram í skattaskjólinu og það hefur í reynd engin raunveruleg tengsl við það.

IV.  Skattalegt hagræði.
Skattalegt hagræði felst í því að skattaskjólin leggja ekki á neinn eða mjög lágan tekjuskatt. Næsta auðvelt er að beina tekjum sem myndast í öðrum löndum í skattaskjólsfélag. Félagið getur verið eigandi hlutabréfa í fyrirtækjum í öðrum löndum og fengið frá þeim arð eða söluhagnað við sölu bréfanna, það getur lánað fyrirtækjum í öðrum löndum fé og fengið af því vexti, það getur að nafninu til verið eigandi einkaleyfa eða réttinda og fengið fyrir það greiðslur og fleira getur komið til. Til þes að forðast skattlagningu hagnaðarins á leiðinni t.d. að komast hjá afdráttarskatti í upprunalandi teknanna er oft sett upp keðja af félögum sem nýtir sér glufur í skattarétti viðkomandi landa og í tvísköttunarsamningum. Gott dæmi um þetta er að eignahald á íslensku bönkunum fyrir hrun var að meiri hluta og allt upp í 3/4 beint eða óbeint í höndum félaga í skattaskjólum. Arðgreiðslur banakanna á þessum árum í miljörðum á ári hverju enduðu að sama skapi hjá þessum aflandsfélögum.

Það að stofna félag í skattaskjóli og vista í því mikla fjármuni felur í sér skattalegt hagræði eitt út af fyrir sig nema eitthvað afar sérstakt komi til. Það er nær útilokað að nokkur stofni slíkt félag, að ekki sé talað um að leggja í það mikla fjármuni án þess að gera ráð fyrir tekjum af því, enda er svo að jafnvel þótt fjárfestingar og önnur umsvif séu ekki til staðar liggur féð ekki óvirkt einhvers staðar en er væntanlega á bankareikningi og ber þar vexti, sem væru skattskyldar tekjur hjá félagi hér á landi. Sé ekki gert ráð fyrir vöxtum eða annarri tekjuöflun hefði verið ólíkt gáfulegra að geyma féð á bankareikningi í heimalandinu, eftir atvikum gjaldeyrisreikningi, eða í versta falli að geyma það undir kodda eigandans.

Fram til ársins 2009 hélst skattleysi íslenskra félaga í skattaskjólum svo lengi sem tekjunum var er haldið inn i félaginu. Við þessu var ekkert að gera frá lagalegu sjónarmiði og engin skattalög voru brotin ef rétt var staðið að öllu. En það er varla tilgangur eigandans að geyma fé sitt ósnert í skattaskjóli til eilífðar og endurheimta teknanna kann að leiða til skattlagningar. Í versta falli fyrir eigandann greiðir hann sér hagnað félagsins sem arð sem skattlagður yrði hjá honum sem slíkur. Þar sem félagið hefur verið skattlaust felst jafnvel í þessu verulegt skattahagræði þar sem skattur á arð er aðeins 20% að ekki sé talað um þá gullnu tíma þegar hann var einungis 10%. Ekki er ólíklegt að eigendurnir leiti einnig annarra leiða til að heimta féð án skattgreiðslu og er úr ýmsu að moða í þeim efnum.

Breyting á tekjuskattslögum sem gildir frá 1. janúar 2010 felur í sér að í skattalegu tillit er litið fram hjá tilvist félagsins sem slíks og tekjur þess og eignir færðar eigandanum til tekna og eigna og skattlagðar eins og þeirra væri aflað hér á landi. Með þessu er dregið úr skattalegu hagræði eða það gert erfiðara ná því með löglegum hætti. Því er þó fjarri að með því hafi það verið útilokað. Hafa þarf m.a. í huga að stór hluti tekna af fjármunum felst í verðhækkun eigna sem ekki kemur fram í bókfærðu verði þeirra og tekjufærslu hjá félaginu. Hlutabréf hækka í verði, eru seld með hagnaði og hann endurfjárfestur o.sfr. Hafa þarf í huga að kröfur til bókhalds og ársreikninga eru allt aðrar eða engar á þessum svæðum. Því má gera ráð fyrir að stór hluti af raunverulegum tekjum þessara félaga safnist upp í því og komi ekki til skattlagningar fyrr en félagið er leyst upp og jafnvel þá vafasamt um hvort hún nái fram að ganga eins og áður er sagt.

Að lokum má nefna að eigendur félaga hafa ýmsar leiðir til að ná til sín tekjum úr þeim og ekki alltaf víst að tilgreint sé eða rétt farið með í skattalegu tillliti. Auk þess að greiða eiganda arð er algengt að honum sé greitt fyrir störf eða þjónustu við félagið. Um getur verið að ræða greiðslur fyrir stjórnunarstörf, ráðgjöf og skýrslugerð o.fl. Allur háttur er á hvaða leið slíkar greiðslur fara og hvort þær eru rekjanlegar til eigandans. Ein úttektarleið er að eigandinn hefur kreditkort á félagið undir höndum og notar það til að greiða persónulega neyslu, kaupir með því farmiða, gistingu og veitingar á ferðalögum, notar það til að greiða fyrir stórinnkaup og jafnvel til að greiða með í matvöruversluninni. Fyrir fáum árum komust sænsk skattyfirvöld yfir upplýsingar af þessum toga sem m.a. teygðu sig hingað til lands og sýndu að þetta er útbreitt.

Með framangreindri skattalagabreytingu varð einnig mikil breyting á þeim kröfum sem gerðar eru um upplýsingar. Með því að tekjur og eignir félaga í skattaskjólum eru skattskyldar hjá eigendum félaganna eru þeir jafnframt skyldugir til að leggja fram allar upplýsingar um þær. Er í reglugerð kveðið á um að með framtali eigenda félags í skattaskjóli skuli fylgja upplýsingar um eignarhald á félaginu, ársreikningar þess og ítarleg greinargerð um tekjur þess og eignir. Kröfur þessar eru hliðstæðar því sem krafist er vegna innlendra félaga og nauðsynlegar til að skattyfirvöld geti gengið úr skugga um að framtalið sé rétt. Samhliða þessu var skerpt á upplýsingaskyldu fjármálastofnana og þeim svo og endurskoðendum og öðrum sem veita faglega aðstoð við starfsemi erlendra félaga gert skylt að halda lista yfir þá sem slíka þjónustu fá og afhenda þá skattyfirvöldum ef eftir því er leitað. Erfitt er að fullyrða um hvort skattlagning er með réttum hætti nema þessi gögn liggi fyrir.

V.  Leynd og ógagnsæi.
Leynd og ógagnsæi er mikilvægt einkenni skattaskjóla. Leyndin felst í því að skráning félaga er ófullkomin, engar eða litlar kröfur eru gerðar um upplýsingar um eigendur og upplýsingar eru ekki veittar. Hlutabréf eru gefin út á handhafa en ekki nafn og nafnlausir reikningar leyfðir. Litlar eða engar kröfur eru gerðar um ársreikninga og skil á þeim. Afleiðingin er að erfitt eða ómögulegt er fá upplýsingar um eignarhald á félögum og hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra, sjá umsvif þeirra og viðskiptatengsl og leggja mat á það sem fram kemur um þau í heimalandi eigandans t.d. ef hann lætur þeirra getið á framtali eða félagið kemir fram fyrir hans hönd í bankaviðskiptum o.fl.

Gerð ársreikninga skil á þeim og opinbert aðgengi að þeim er lögbundin í öllum þróuðum löndum. Hér eins og annars staðar innan EES svæðisins eru reglur um ársreikninga byggðir á tilskipun Evrópusambandsins og verða þeir að fylgja ákveðnum bókhaldsstaðli, vera skoðaðir af óháðum fagaðila og birtir almenningi með tilteknum hætti. Þessu fylgir kostnaður en þetta er talið nauðsynlegt til að tryggja samkeppni og heilbrigða starfsemi fyrirtækja og er skilyrði þess að viðskiptamenn fyrirtækja geti fengið þær upplýsingar sem þeir eiga rétt á og þarfnast. Engar slíkar reglur gilda um aflandsfélög sem staðsett eru í löndum utan EES svæðisins eða hafa sambærilegar reglur.

Leynd og ógsagnsæi er þannig “hagræði” fyrir eigandann umfram það eitt að “vernda” skattalegt hagræði.

VI.  Aflandslögsaga.
Að lokum skal getið eins atriðis, sem er þýðingarmikið en hefur ekki verið mikið rætt. Það lagaleg staða aflandsfélaga. Aflandsfélögin eru skráð í einhverju tilteknu erlendu ríki og eru “borgarar” þess ríkis. Þau eru ekki íslensk í lagalegum skilningi hvorki almennt né skattalega. Þau heyra ekki undir íslensk lög og eru ekki bundin af þeim ákvæðum, skyldum og kröfum sem gerðar eru með heimild í íslenskum lögum. Þau eru erlendir borgarar og þeir sem kjósa að fela slíkum félögum umsjón með hagsmunum sínum kjósa að koma fram sem erlendur aðili en ekki íslenskur.

Skattalega hefur þetta þá þýðingu að þessi félög eru ekki íslenskir skattborgarar eins og einstaklingar með búsetu hér og félög skráð hér og eru með ótakmarkaða skattskyldu hér af öllum tekjum sínum og eignum hvar sem þeirra er aflað. Erlend félög eru með það sem kallað er takmörkuð skattakylda þ.e. greiða eingöngu skatt af tilteknum tekjum, sem þeir hafa hér á landi. Allt tal um að þau séu skattlögð að fullu hér á landi er rangt. Þau eru ekki á skattskrá hér og fá ekki álagningu eins og önnur félög en verða að sæta afdráttarskatti af arði, vöxtum, þóknunum o.fl., sem þau fá greidd frá íslenskum aðilum.

Það er ekki bara í skattalegu tillliti sem erlend lögsaga hefur áhrif. Sama á við um gagnvart öðrum lögum. Þegar hefur verið minnst á lög um ársreikninga og á það einnig við um öll önnur lög sem lúta að eða snerta starfsemi félaga hér á landi. Þau lög eiga sér flest samsvörun í löggjöf annarra þróaðra ríkja. Því má segja að aflandsfélögin hafi haslað sér völl utan hins sameiginlega réttarfars sem þróast hefur og er við lýði á Vesturlöndum.

Auk þess að vera þannig utan hins almenna lagaramma sem gildir um félög eru aflandsfélög undanskilin þeim ráðstöfunum, kvöðum og skyldum sem lögð eru eða kunna að verða lögð á íslensk félög á grundvelli íslenskra laga. Nærtækasta dæmið um þetta eru gjaldeyrislögin, sem skerpt voru verulega fyrir fáum árum og gjaldeyrishöftum komið á. Gildissvið þeirra laga takmarkast við þá sem falla undir íslenska lögsögu. Ráðstöfun á eignum Íslendinga eru samkvæmt þessum lögum takmörkuð, háð skilyrðum og leyfum. Tekur það til viðskipta með verðbréf, kaupa á gjaldeyri, fjárfestinga í verðbréfum, fjármagnsflutninga og skila á gjaldeyri svo eitthvað sé nefnt. Það sama á við ef eigur þessar eru í umsjón félags sem skráð er hér á landi. Séu þær hins vegar í umsjón erlends félags, sama hvort um er að ræða aflandsfélag eða félag í “venjulegu” ríki eru eignirnar ekki háðar þessum reglum.

Hagræði af aflandsfélögum er augljóslega ekki bundið við skattalegt hagræði eitt saman. Það kemur líka fram í margskonar hagræði af aflandsskráningu og undanskilnaði frá kvöðum og skyldum af ýmsum toga sem hvíla á félögum í heimalandi eigandans.