Frítekjumörk fyrir hverja?

Frumvarp um hækkun fritekjumarks fjármagnstekna og fjölgun þeirra tekjuflokka sem undir það geta fallið hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og var opnið til athugasemda í heila fjóra daga. Minnir það á fyrri tíð þegar það tíðkaðist að kasta illa undirbúnum skattabreytingum þing korter fyrir jól og samþykkja þær á Þorláksmessu. Þótt hér sé ekki um stórbreytingar að ræða eru þær tilefni til umhugsunar. Til þess er greinargerð frumvarpsdraganna lítt hjálpleg. Frumvarpið er sagt „að mestu leyti“ byggt á skýrslu starfshóps, sem ekki var birt með drögunum og ekki tókst að finna á vef stjórnarráðsins. Má vera að í henni finnist sú greining og sá rökstuðningur sem í greinargerðina vantar.

Það er ekki að ófyrirsynju að spurningar vakni um ágæti þessara breytinga. Forseti ASÍ lét í ljós þá skoðun í sjónvarpsviðtali í gær að þær myndu lítt gagnast hinum vinnandi almenningi og lækkun skatta falla öðrum og betur settum í skaut á sama tíma og útgjaldaþörf ríkissjóðs vex vegna aðsteðjandi sóttfaraldurs. Orð forseta ASÍ hafa orðið tilefni til andmæla. Virðast sumir líta svo á að hækkun frítekjumarka sé ætíð leið til jöfnuðar. En svo er ekki. Mismunandi túlkun og mat á breytingunum kann að eiga sér rætur í ófullnægjandi greinargerð með frumvarpsdrögunum, m.a. algerum skorti á greiningu á áhrifum þeirra á tekjudreifingu.

Fjármagnstekjuskattur var tekinn upp 1997 þegar nokkrum innbyrðis ólíkum tekjuflokkum var skipað í sérstakt skattkerfi með 10% skatti á sama tíma og meðalskattur á launatekjur var um 20%, jaðarskattur á háar launatekjur var yfir 40% en hluti þessara tekna, arður og söluhagnaður, hafði áður sætt almennri skattlagningu. Með þessari breytingu var dregið úr jöfnunaráhrifum skattlagningar og ójöfnuður i tekudreifingu aukinn.

Hlutfall fjármagnsterkjuskatts var óbreytt til áranna 2009 til 2011 að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG hækkaði það í 20%. Jafnframt var tekið upp frítekjumark fyrir vaxtatekjur (ekki arð og söluhagnað) að fjárhæð 100 þús. kr. á einstakling, sem síðar var hækkaður og er nú 150 þús. kr. Þessi breyting fól það í sér að fjármagnstekjuskattur þurrkaðist út eða lækkaði hjá 60 – 70% gjaldenda en hækkaði hjá 30 – 40%, þ.e. þeim sem voru með mjög háar vaxtatekjur eða verulegan arð eða tekjur af söluhagnaði hlutabréfa. Þrátt fyrir brottfall skattsins hjá stórum hluta gjaldenda hækkuðu tekjur af skattinum sem sýnir að breytingarnar fólu í sér jöfnun á ráðstöfunartekjum. 

Þótt tölur séu ekki handbærar má ætla að megindrættir í dreifingu skatts á fjármagnstekjur séu óbreyttir. Vaxtalækkanir síðustu missera hafa líklega valdið því að enn stærri hluti gjaldenda sé nú undanþegin skatti á vaxtatekjur en áður og arð og söluhagnað er nær eingöngu að finna hjá þeim 10 -15% eignamestu og tekjuhæstu í samfélaginu.

Fyrirhugaðar breytingar á fjármagnstekjuskatti er tvíþættar. Annars vegar hækkun á frítekjumarkinu og hins vegar að láta það einnig taka til arðs og söluhagnaðar. Áhrif þessara breytinga á skattbyrði eru nokkuð augljós. Í greinargerð frumvarpsdraganna kemur fram að áætlað er að skattur af vaxtatekjum muni lækka um 770 millj. kr. en skattur af arði og söluhagnaði um 150 millj. kr., samtals um 920 millj. kr. En hjá hverjum lækka skattarnir?

Augljóst er að þeir gjaldendur, líklega 70% þeirra eða meira, sem eru með undir 150.000 í vaxtatekjur fá ekki frekari lækkun. Þeir sem eru 150.000 til 300.000 kr. í vaxtatekjur munu fá skattalækkun sem nemur frá 0 til 33.000 kr. á ári. Þeir sem eru með vaxtatekjur yfir 300.000 kr. fá 33.000 krónu lækkun. Stærsti hluti vaxtatekna „almennings“ eru bankavextir af reikningum launþega og lífeyrisþega og sparireikningum þeirra. Eins og vaxtakjör hafa verið á þessu ári og haldast væntanlega um hríð þarf sá sem lækkunar á að njóta að eiga að jafnaði 7,5 til 15 millj. kr. á reikningum sínum.

Áhrif þeirra breytinga sem snúa að arði og söluhagnaði eru einnig næsta augljós. Þessar tekjur eru eins og kemur fram í skattframtölum að langmestu leyti að finna hjá innan við 15% tekju-  og eignahæstu framteljenda. Hafi þeir vegna “lágra” vaxtatekna ekki náð að fá 33.000 kr. skattalækkun tryggir þessi ráðstöfun að þeir missi ekki af henni. 

Tekjudreifingaráhrif hinna boðuðu breytinga eru augljós. Skattalækkun mun aðeins í undantekningartilvikum ná til almenns launafólks, lífeyrisþega og fólks með litlar eignir. Mikill meirihluti gjaldenda, væntanlega um þrír fjórðungar þeirra, verða breytinganna ekki varir. Um fjórðungur þeirra, þ.e. þeir sem best eru staddir, fá velflestir 33.000 kr. lækkun skatta. Tekjutap ríkissjóðs, tæpur milljarður króna, lendir svo á almenningi í hærri sköttum síðar eða lélegari þjónustu.

Það er ekki aðeins að greiningu á áhrifum breytinganna á tekjudreifingu skorti. Það vantar allan efnislegan rökstuðning fyrir breytingunum sem þessum. Hver er þörfin á breyttu frítekjumarki vaxtatekna, breytinga sem draga úr jöfnunaráhrifum skattsins? Ekki væri síður fróðlegt að sjá rökin fyrir láta frítekjumarkið ná til arðs og söluhagnaðar. Helstu rökin fyrir frítekjumarki fyrir vaxtatekjur eru að með þeim er dregið úr áhrifum verðbólgu sem rýri undirliggjandi eign þ.e. peninga á bankareikningum. Arður og söluhagnaður er hins vegar tekjur af hlutafé eða eignarhlutum í félögum, þ.e. eignum sem ekki verða fyrir verðrýrnun í verðbólgu þótt þær geti breyst til hækkunar eða lækkunar af öðrum ástæðum. Sú staðhæfing í greinargerðinni að verið sé að jafna skattalega meðferð vaxtatekna og arðs er ekki á rökum reist. 

 

Ein athugasemd á “Frítekjumörk fyrir hverja?

  1. Hverjir eru í þessum starfshópi? Gæti það skipt einhverju máli?Mér finnst þessar rástafanir svo undarlegar í ljósi þess að alltaf er verið að boða aðhald í heilbrigðiskerfinu okkar sem fer stöðugt versnandi.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s