Árni Björnsson II. hluti

Berlínardvöl 1963 til 1965

Í öðrum hluta frásagnar Árna segir frá dvöl hans og fjölskyldunnar í Berlín og samskiptum við aðra Íslendinga sem bjuggu í borginni eða áttu leið þar um en heimili þeirra hjóna var nokkurs konar félagsmiðstöð fyrir okkur stúdentana Í V-Berlín, sem voru einungis fjórir á þessum árum. Heimili þeirra varð einnig áfangastaður landa okkar sem voru við nám austan múrsins eða annars staðar í A-Þýskalandi og voru tíðir gestir á heimilinu. Spratt af því kunningskapur og margvísleg samskipti yfir múrinn. Þau hjón voru gestgjafar góðir, frjálslynd  í skoðunum og öfgalaus og var oft glatt á hjalla þegar stórmál þessa tíma voru rædd af hreinskilni á heimili þeirra eða yfir bjór á krá sem hvergi voru langt undan í Berlín.