Þunn eiginfjármögnun – eða þagað þunnu hljóði í 12 ár-

Tilflutningur hagnaðar innan fjölþjóðlegra fyrirtækja með bókhaldsæfingum er ekki nýtt fyrirbæri en hefur á síðustu áratugum aukist að umfangi og notkun skattaskjóla í þeim tilgangi að komast undan skattlagningu hefur orðið æ augljósari. Á vettvangi OECD og fleiri fjölþjóðasamtaka hefur lengi verið vakin athygli á þessari þróun og hvatt til aðgerða gegn henni. Ein þeirra leiða sem OECD gerði tillögur um var að aðildarríkin settu í skattalög sín ákvæði um þunna eiginfjármögnun. Tilgangur slíkra ákvæða er að setja skorður við því að með lánveitingum milli skyldra aðila sé unnt að flytja hagnað með vaxtagreiðslum frá félagi í einu landi til félags erlendis og losna þannig undan skattlagningu þar sem hagnaðurinn verður til.

Flest aðildarríki OECD hafa komið á slíkum reglum en það á ekki við um Ísland. Tillögum um það hefur ekki verið sinnt fyrr en að nú virðist örla á viðleitni til að láta undan þrýstingi í þessum efnum þótt enn sé óljóst hvernig að því verður staðið og reyndar virðast sumir telja málið snúist aðeins um vaxtakjör, sem eru þó aðeins lítill hluti vandans. Tillögur um að setja reglur um þunna eiginfjármögnun hafa legið fyrir lengi og ábendingar hafa komið fram um stórfellda skattasniðgöngu vegna skorts á þeim.

Síðla árs 2004 skilaði nefnd sem falið hafði verið að rannsaka umfang skattsvika hér á landi skýrslu þar sem greindar voru leiðir til skattundanskota og gerðar tillögur um úrbætur.

Úr: Skýrsla starfshóps um umfang skattsvika á Íslandi. Alþingi 2004

http://www.althingi.is/altext/131/s/0664.html

“Yf­ir­færsla hagnaðar til er­lends dótt­urfélags.

Alþekkt og algengt afbrigði skattsvika felst í að stofna dótturfyrirtæki (CFC) erlendis sem ekki hefur starfsemi með höndum en þjónar þeim tilgangi að flytja hagnað af innlendri starfsemi í annað land, oftast skattaparadís eða annað lágskattasvæði. Er það gert með ýmsum hætti, t.d. þegar fé er að formi til lagt í dótturfélagið sem lánar það móðurfélaginu sem gjaldfærir háa vexti. Eins kann að vera um að ræða þóknanir fyrir einkaleyfi, tækniþjónustu, vörumerki o.s.frv. Er dótturfélagið þá skráð eigandi réttindanna og móðurfélagið látið greiða fyrir afnotin. Skattsvik af þessum toga ganga þó ekki nema greiðslum fyrir réttindin sé skotið undan afdráttarskatti eða þær undanþegnar samkvæmt tvísköttunarsamningum.

Hliðstæðir eru þeir gjörningar að erlendu tengdu félagi er greitt fyrir einhvers konar þjónustu eða ráðgjöf sem er þó til málamynda. Dæmi um slíkt eru söluþóknanir, þóknun fyrir tækniaðstoð o.s.frv. sem ekki byggist á raunverulegu framlagi þess félags sem greiðsluna fær. Greiðslan er hins vegar gjaldfærð og lækkar skattstofn greiðandans. Sé hið erlenda félag staðsett í skattaparadís eða öðru skattaskjóli er tekjum þessum að fullu komið undan skatti.

Loks má nefna að verðlagningu í viðskiptum á milli tengdra aðila er oft beitt í þeim tilgangi að færa hagnað á milli landa og eins það tilvik að milli kaupanda hér og seljanda erlendis er skotið millilið, skúffufyrirtæki í eigu kaupandans sem skráð er í skattaskjóli og að formi til kaupir vöruna og endurselur hinu innlenda félagi hana með miklum hagnaði.”

14.5.2 Ákvæði um lága eig­in­fjármögn­un. 

Nokkuð algengt er að í skattalögum séu ákvæði sem takmarki heimild til að draga vaxtagjöld frá tekjum þegar skattstofn er ákveðinn eða litið svo á að um sé að ræða arðgreiðslu ef lánveitandinn er jafnframt hluthafi í rekstrinum. Tilgangur ákvæðis af þessu tagi er að koma í veg fyrir skattundanskot þegar sami aðili á fjármálafyrirtæki í einu landi og fyrirtæki í virkri starfsemi í öðru landi og stýrir því með lánveitingum milli fyrirtækjanna hvar hagnaðurinn kemur fram. Sé fjármögnunarfyrirtækið í skattaparadís eða á skattavildarsvæði er þetta vís leið til að koma tekjum undan skattlagningu, einkum þegar ekki er lagður afdráttarskattur á vexti sem greiddir eru úr landi eins og hér er. Athuga þarf hvort einhvers konar takmarkanir af þessum toga gætu hentað hér á landi.”

Þessum ábendingum í skýrslunni var ekki sinnt fremur en öðrum sem þar var að finna og öllum fyrirspurnum um aðgerðir var árum saman svarað með þeim hætti að málið væri í skoðun hjá nefndum eða starfshópum svo ætla má að það sé vandlega undirbúið. Það var ekki fyrr en á árinu 2009 að hluta af tillögum skýrslunnar var hrint í framkvæmd með stuttum fyrirvara svo sem CFC reglum, skatti á vexti til erlendra aðila og hertum kröfum um skil fjármálastofnana á upplýsingum. Reglur um þunna eiginfjármögnun voru ekki á meðal þessara breytinga m.a. af því að ekki þótti sýnt að slíkar reglur myndu skila þeim árangri sem til var ætlast af þeim ástæðum sem greint er frá hér á eftir.

Á þeim tíma sem unnið var að undirbúning að stofnun álbræðslu á Reyðarfirði voru miklar umræður um skattasniðgöngu og á fjölþjóðavettvangi unnið að ráðstöfunum til að draga úr henni. Sú umræða hefur líklega orðið hvati til þess að hinir erlendu eigendur fyrirhugaðs álvers gerðu kröfu um að ekki yrði girt fyrir að þeir gætu flutt hagnað af starfsemi álversins úr landi með því að greiða eigendunum ótæpilega vexti. Þá þegar hefur því ásetningur þess efnis verið fyrir hendi og útreikningar um hagnað og væntanlegar skattgreiðslur félagsins hafa því verið marklausir. Orðið var við kröfum þeirra með því að setja inn í fjárfestingasamninginn fordæmalaust ákvæði sem fer hér á eftir:

Lög um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, 2003 nr. 12 11. mars.

http://www.althingi.is/lagas/134/2003012.html

“6. gr. …. 11. tl.

Ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt um frádrátt vaxtakostnaðar, svo sem þau eru við undirritun samninganna, skulu haldast óbreytt á upphaflegum gildistíma samningsins.“

 Ásetningur hina erlendu eigenda er augljós en afstaða íslenskra viðsemjendur þeirra er óskiljanleg. Eitt er það að fella inn í samninginn ákvæði sem í reynd tekur lagasetningarvald af Alþingi og nauðsynlegt er að reynt verði á hvort það fær staðist. Hitt er óljóst hvað vakti fyrir þeim með því að samþykkja þetta ákvæði því tæplega verður þeim ætlað að hafa ekki gert sér grein fyrir hvaða þýðingu það hefur þótt slíkt megi lesa út úr þeirri skýringu sem gefin eru á ákvæðinu í greinargerð með frumvarpinu þar sem meiningarlaust orðalagið smættar og felur raunverulegan tilgang ákvæðisins:

„Í 11. tölul. 1. mgr. er félaginu og eigendunum heimilaður frádráttur vaxtakostnaðar í samræmi við 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, eins og sú grein hljóðar á samningsdegi, á upphafstímabili samningsins.”

Margoft hefur verið vakin athygli á að íslenska þjóðin hafi orðið af milljarðatuga tekjum vegna skattaumhverfis stóriðjunnar og hvernig hún notfærir sér það. Dæmi um ábendingar eru m.a. þessar:

Í greininni Efnahagsleg áhrif erlendra stóriðju á Íslandi (https://indridith.files.wordpress.com/2015/03/200902-efnahagsleg-c3a1hrif-erlendrar-stc3b3ric3b0ju.pdf)  sem birtist fyrst á blog.is í febrúar 2009 segir:

“Um skattlagning vaxta hefur þegar verið fjallað svo og að auðvelt er að koma hagnaði undan skatti með því að móðurfélagið láni dótturfélaginu og fái greidda vexti af lánsfénu. Mörg lönd hafa brugðist við misnotkun í þessum efnum með reglum um lágmarkseiginfjármögnun (thin capitalisation) sem takmarka frádráttarbærni vaxta ef hlutfall eiginfjár og lánsfjár verður óeðlilegt. Þar sem vextir úr landi eru skattfrjálsir hér á landi er þessi hætta meiri hér en víðast annars staðar. Tillögum um úrbætur hefur ekki verið sinnt en í þess stað má sjá í samningnum um Fjarðarál að ákvæði um frádráttur vaxtakostnaðar skuli haldast óbreytt á samningstímanum. Ekki verður annað séð en að með þessum hafi stjórnvöld einnig framselt vald og skuldbundið sig til að halda þessari skattasniðgönguleið opinni fyrir félagið og þá væntanlega aðra.”

…………….

  • Skattabreytingar síðustu ára og samningar við erlendu fyrirtækin hafa skert tekjur landsins af stóriðju mikið. Lækkun skatthlutfall félaga hefur lækkað tekjur landsins af erlendri stóriðju um a.m.k. helming eða 1,2 millj. kr. á ári á hvert álver og þær verða um langt árabil lægri en þær voru áður en verksmiðja Fjarðaáls var reist.
  • Ákvæði skattalaga um skattlagningu arðs, vaxta og þóknana geta (leiðr.) ekki tryggt að landið njóti eðlilegs hluta þeirra tekna sem verða til í landinu og duga ekki til að hindra skattasniðgöngu,
  • Með skattasamningum við stóriðjufélögin hafa íslensk stjórnvöld samið af sér í mörgum atriðum og framselt skattlagningarvald í hendur alþjóðafyrirtækja.”

Í greininni Arður af náttúruauðlindum, hver nýtur hans? (https://indridih.com/audlindir/ardur-af-natturuaudlindum-hver-nytur-hans-unnid-eftir-erindi-a-malthingi-um-audlindir-islands-11-april-2015/) sem byggð er á erindi sem flutt var á mállþingi um auðlindir Íslands er einnig fjallað um þetta:

“Af hverju skilar rentan sér ekki?

Enginn vafi er á því að mikil renta er af orku- og fiskveiðiauðlindum en af hverju skilar hún sér ekki til þjóðarinnar. Sú hugmyndafræði sem stýrt hefur för er stór hluti skýringarinnar en að auki hafa stjórnvöld gert ráðstafanir eða ekki aðhafst í tilteknum málum með þeim afleiðingum að hagur fyrir þjóðina af þeirri starfssemi sem byggir á nýtingu auðlindanna hefur orðið enn minni en ella hefði verið. Þannig hefur til viðbótar við framsal auðlindarentunnar verið gengið þannig frá hnútum að skatttekjur hafa einnig horfið að mestu leyti. Í eftirfarandi upptalningu er reynt að telja upp þau atriði sem telja má að séu þess valdandi að hlutur þjóðarinnar í arðinum af orkusölu til stóriðju er lítill sem enginn og í fiskveiðum minni en efni standa til.

Hvað orkuauðlindina varðar má benda á eftirfarandi atriði:

• Með orkusölu til stóriðju var öll auðlindarentan framseld iðjuverunum með of lágu verði í upphafi. Tenging orkuverðsins við álverð færði stóran hluta af rekstraáhættu iðjuveranna á orkusalann og gerði það líka að verkum að landið hefur ekki notið hækkunar á orkuverði á heimsmarkaði. Langir orkusölusamningar tryggja fjárfestingu orkukaupandans og binda hendur seljandans við verðákvörðun að samningstímanum loknum.

• Ívilnandi skattareglur, hraðar afskriftir o.fl. gerir það að verkum að enginn skattalegur hagnaður myndaðist fyrr en eigandinn hafði fengið fjárfestingu sína til baka og skatttekjur landsins eru engar á meðan.

• Enginn skattur var lagður á nýtingu orkunnar í upphafi og síðari tilraun til þess hefur verið dregin til baka.

• Við stofnun iðjuveranna var tekjuskattshlutfall félaga yfir 30- 50% en var lækkað allt niður í 15% sem hefur helmingað hugsanlegar skatttekjur.

• Engar hömlur eru á fjárhagsleg samskipti innan þeirra samstæðna sem eiga iðjuverin. Sá hagnaður sem við eðlilegar aðstæður ætti að koma til skattlagningar er lækkaður með greiðslum til tengdra aðila fyrir tækniaðstoð, söluþjónustu o.fl. Vaxtagreiðslur til tengdra aðila, sem oft eru í skattaskjólum, eru án takmarkana og með samningunum við Reyðarál var lokað fyrir þann möguleika að gera breytingu þar á. Ekkert eftirlit virðist vera með verðlagningu í viðskiptum við tengda aðila.”

Þá hefur einnig oftlega verið fjallað um þessi mál í sjónvarpi á undanförnum árum sbr. t.d. eftirfarandi hlekki á Kastljós 20. og 21. mars 2013 og 28. maí 2014. https://www.youtube.com/watch?v=4wd9K91i84k og https://www.youtube.com/watch?v=LbJ8Z2YFdrY

Með framangreint í huga er ekki undarlegt að stjórnvöld, sem virðast hafa haft þá afstöðu að skattasniðganga sé hluti eðlilegra viðskipthátta og stuðlað að henni, hafi þagað þunnu hljóði í þau 12 ár sem liðin eru síðan tillögur skattsvikanefndarinnar komu fram. Það væri fróðlegt að sjá hvað sú þögn hefur kostað?