“Úttekt á íslensku skattkerfi” – tillögur verkefnisstjórnar um skatta –

Út er komin skýrsla að nafni “Úttekt á íslensku skattkerfi”, rúmlega 100 litríkar blaðsíður, en spör á orð, upplýsingar og rök. Með hagsýni hefði líklega mátt koma efninu fyrir á 3 – 5 blaðsíðum. Í reynd er ekki heldur um neina úttekt að ræða heldur samansafn misnothæfra tillagna. Skýrslan er sögð rituð af hópi sérfræðingum í skattamálum. Í honum er að vísu einn sem fjallað hefur fræðilega um skatta og annar með langa reynslu í starfi hjá skattyfirvöldum en sérfræði annarra í hópum og starfsmanna hans er fremur fengin við að þjóna sérhagsmunum en að stuðla að sanngjörnu og réttlátu skattkerfi. Í aðra röndina er látið í veðri vaka að tillögurnar séu byggðar á tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en þó viðurkennt að þær víki frá þeim í veigamiklum atriðum.

Nálgun hópsins að verkefninu er einhæf. Hlutverk skattlagningar er þrengt frá því sem nú er og hún gerð að verkfæri hrárrar markaðshyggja þar sem skattkerfið á að vera skilvirkt og samkeppnishæft án þess að þau hugtök séu skýrð. Félagslegri skattapólitík er ýtt til hliðar og sjónarmið sem einkennt hafa umræðu um góða skattlagningar allt frá dögum Adam Smith á miðri 18. öld finnast ekki lengur. Þannig er ekki pláss fyrir hugtök eins og jafnræði og sanngirni á þessum ríflega 100 blaðsíðum sem eru þó ekki ofhlaðnar orðum eða hugsunum.

Tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins er rýrt verulega fyrir meintan einfaldleika, sem ekki sést í hverju er fólginn, og alveg er horft fram hjá þeim viðhorfum sem komið hafa fram á síðustu árum þess að vaxandi ójöfnuður eigna og þar með tekna sé efnahagsleg meinsemd sem lami hagvöxt sem vinna mætti gegn með auknum stíganda í skattlagningu. Þvert á móti er boðuð lækkun á skattlagningu fjármagnstekna sem verið hafa meginþáttur í ójöfnuði tekjudreifingar á síðustu áratugum.

Félagslegu hlutverki skattkerfisins er að miklu leyti fórnað með hugmyndum um að stórir félagslegir þættir eins og barnabætur séu skertar og vaxtabætur lagðar af en þeir hafa verið virkustu tekjujöfnunarþættir þess. Hugmyndir um að færa þessa þætti út úr skattkerfinu, sem hugsanlega gæti verið til bóta, eru ómótaðar og ekki rökstuddar t.d. ekki fjármögnun þeirra og ekki kostir þess að færa verkefnið frá þeim aðila sem safnar og hefur í höndum allar upplýsingar sem þessi kerfi byggja á.

Umfjöllunin um fjármagnstekjur ber sömuleiðis einkenni aukins ójöfnuðar. Röksemd um lágsköttun „kvikra“ skattstofna er dæmigert daður við ívilnandi meðferð þessara tekna og í blóra við jafnræðissjónarmið og tekjujöfnun auk þess sem að það talnaefni og samanburður sem fram kemur er villandi. Fjármagnstekjur hafa ekki allar verðbótaþátt og 5,8% ársverðbólga sem miðað er við getur ekki talist dæmigerð. Þá er ekkert tekið tillit til þess að fjármagnstekjur njóta þegar ívilnandi meðferðar vegna frestunar á skattlagningu o.fl.

Kaflinn um auðlindaskattlagning er óskiljanlegur og flokkun ferðaþjónustu sem auðlindanýtingar í skattalegu tilliti er einkennileg. Enginn greinarmunur virðist gerður á því hvort nýting auðlindanna sé byggð á einokun í skjóli einkaleyfa, úthlutaðra kvóta eða leyfa með tilheyrandi rentu eða er í samkeppni sem er öllum opin. Óljóst orðalag um afkomutengd veiðigjöld leggur blessun sína yfir endurgjaldslitla afhendingu veiðiheimilda enda eru ráðgjafar stórútgerðar ekki fjarri skýrsluskrifunum. Einnig er að sjá að arð af orkuauðlindinni eigi að sækja til Landsvirkjunnar og Orkuveitu Reykjavíkur sem látin hafa vera semja um sölu á henni á vildarkjörum en hlífa þeim sem kaupa orkuna langt undir markaðsverði.

Í heild séð er þessi skýrsla heldur hroðvirknislega unnin, mótast af þröngri markaðshyggju og leitast við að útrýma félagslegum viðhorfum úr skattkerfinu. Hún er ekki boðberi jafnréttis og sanngirni í skattamálum. Hún skilur eftir marga lausa enda og ósvaraðar spurningar t.d. hvað varðar tekjuöflun og hvernig eigi að fjármagna þá þætti sem varpað er fyrir borð svo sem húsnæðismálin. Eins er litið fram hjá tengslum og víxlverkan útborganlegs persónuafsláttar og almannatrygginga og þess t.d ekki getið að raunverulegur jaðarskattur á lágar tekjur yrði 54% en ekki 25% eins og ætla mætti af framsetningunni. Gallar skýrslunnar að efni og framsetningu munu þó ekki koma í veg fyrir að pólitískir lukkuriddarar finni þar efni í snöggsoðna stefnumótun.