Að selja banka eða ekki – það er efinn.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 29. janúar 2021

Enn er bankasala á dagskrá og enn snýst umræðan um trúarsetningar fremur en tilgang og áhrif bankastarfsemi í nútímasamfélagi. Staðhæft er að ríkið eigi ekki að sinna því sem “markaðurinn” geti annast. Það er kennisetning úr fornum hentifræðum á einstaklega illa við um banka sem hvergi starfa án stýringar og aðhalds hins opinbera og mörg dæmi eru um hrapalegar afleiðingar af taumleysi einkarekinna banka. Einfeldningslegt er að heyra bankastarfsemi líkt við rekstur mjólkurbúðar. Hlutverki banka er lýst í Hvítbók um framtíðarsýn fjármálakerfisins(1), sem ríkisstjórnin lét vinna, en þar segir: “Fjármálakerfið er mikilvægur samfélagslegur innviður rétt eins og rafmagns-, vatns-, og hitaveitur. Eins og veitur tryggja hagkvæmt flæði raforku, vatns, gagna og annarra gæða tryggir fjármálakerfið að fjármagn flæði þangað sem það nýtist best, frá eigendum sparnaðar til lánataka og miðlar greiðslum á milli þeirra sem eiga í viðskiptum. Almenningur og atvinnulífið eiga mikið undir því fjármálakerfið mæti þessum þörfum samfélagsins sem allra best”. Það er fráleitt að þessum verkefnum verði best sinnt af einhverjum með eigin hagnað að markmiði. Á þetta hefur Ragnar Önundarson fyrrverandi bankastjóri og fleiri bent á en þau sjónarmið virðast ekki hafa náð inn á hinn pólitíska vettvang.

Ein staðhæfing þeirra sem vilja falbjóða ríkisbanka er hið meinta “náttúrulögmál” að einkarekstur sé hagkvæmari en ríkisrekstur en með hagkvæmni er jafnan vísað til þess að hagnaður af rekstri sé í hámarki. Hagnaður er hins vegar lélegur mælikvarði á gæði rekstrar einkanlega á markaði þar sem fyrir er einokun eða fákeppni vegna smæðar og þeirrar verndar sem örgjaldmiðli veitir eins og er á fjármálamarkaði hér á landi. Hagnaður banka við þær aðstæður getur orðið mikill en þessi hagnaður er það sem almenningur og atvinnulífið greiða eigendum bankanna fyrir að nota þá mikilvægu samfélagslegu innviði sem fjármálakerfið er. Að hámarka hagnað bankanna er því jafnframt að hámarka þann kostnað sem almenningur og atvinnulífið greiða fyrir þessa þjónustu. 

Sala Íslandsbanka hefur einnig verið studd þeim rökum að með henni verði að afla fjár í mikilsverð verkefni ríkisins, byggingu innviða og greiða niður ríkisskuldir. Þessi rök er byggð á misskilningi því sala á eignum skapar engar tekjur. Við hana kunna að koma í ljós áður óbókfærðar tekjur (eða tap) en salan er eingöngu breyting á eignaformi eins og þegar húaeign er keypt eða seld fyrir reiðufé eða önnur verðmæti. Heildareign kaupanda eða seljanda breytist ekki, engar tekjur verða til við söluna eða kaupin og engin rökleg tengsl eru milli sölu eigna ríkisins og getu þess eða möguleika þess til að verja fé til reksturs eða fjárfestinga. Notkun á söluandvirði eigna til skuldagreiðslna lækkar ekki nettóskuldir ríkisins og geta þess til að standa við skuldbindingar sínar breytist ekki. Sé vilji til að líta til fjárhagslegra þátta við sölu banka verður að bera söluna saman við aðra kosti sem í boði eru, t.d. að bera vaxtagreiðslur af lánum til framkvæmda eða vexti af áhvílandi skuldum saman við væntanlegar tekjur eða not af þeirri eign sem selja á. Með þessu er ekki verið að segja að skuldir ríkisins skipti ekki máli eða að þröng fjárhagsleg sjónarmið eigi að ráða um rekstur á vegum ríkisins því margt annað skiptir máli. Eingöngu er verið að benda á haldleysi þeirra staðhæfinga að með sölu sé verið að afla tekna til góðra verka.

Á þessu stigi hef ég ekki mótaða skoðun á því hvort selja eigi Íslandsbanka eða ekki. Umræða um það með tillliti til almannahagsmuna hefur ekki farið fram og því sérkennilegt er að heyra málið afgreitt með vísun í stjórnarsáttmálann.(2) Í honum er að vísu setning um að ríkisstjórnin vilji leita leiða til “að draga úr eignarhaldi ríkisins” á fjármálastofnunum en hann segir ekkert um hvernig það skuli gert m.a. ekki hvernig því skuli hagað með hliðsjón af því ákvæði í sáttmálanum að fjármálastofnanirnar skuli “þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt.” Ekki þarf að ímynda sér að við stjórnarmyndunina hafi djúpar umræður farið fram um einkavæðingu Íslandsbanka og í Hvítbókríkisstjórnarinnar “um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið” er ekkert rætt um það hvernig þessum markmiðum stjórnarsáttmálans verði náð heldur gengið út frá því sem forsendu að Íslandsbanki verði seldur og er hvítbókin að mestu endurtekning á viðtekinni hentifræði um áhættu og ábyrgð af ríkisreknu bönkum og tæknilegar vangaveltur um hvernig megi koma í veg fyrir að eignarhald einkaaðila á bönkum valdi almenningi skaða.

Aðalhlutverk einkabanka í Hruninu hefur eðlilega gert almenning í landinu mótfallinn einkavæðingu banka þótt sumir talsmenn sölu taki fall bankanna sem dæmi um þá áhættu sem ríkið taki á sig með eigin bankareksti en líta fram hjá því að fall bankanna varð ekki vegna eðlilegrar bankastarfsemi heldur vegna gróðafíknar og ábyrgðarleysis eigenda bankanna og tjón ríkisins varð vegna stuðnings ríkisvaldsins við þá með afreglun, meðvirkni og fjáraustri úr Seðlabankanum og ríkissjóði. Í kreppunni um 2008 urðu mörg lönd fyrir áföllum vegna einkabanka en ekki vegna ríkisbanka og hafa flest ríki, m.a. Ísland, lært af því og lagfært regluverk um fjármálafyrirtæki með það fyrir augum að draga úr líkum á því að þau kollsteypi sjálfum sér og öðrum. Forsendur fyrir einkavæðingu nú eru vissulega mjög frábrugðnar því sem var á fyrsta áratug aldarinnar og hæpið að byggja alfarið á slæmri reynslu af henni. Í gerðum breytingum felst einnig viðurkenning á hlutdeild hins opinbera í aðdraganda hrunsins og áminning um að þrátt fyrir breyttar reglur má ekki vanmeta mögulegar tilslakanir síðar af hálfu yfirvalda í þágu gróðahyggju. Áköll um þær eru þegar merkjanlegar og reynslan sýnir að gullkálfar eiga greiða leið að hjörtum ráðamanna.

Ofvöxtur fjármálakerfisins var ein helsta ástæða bankahrunsins. Eftir fall þess og stofnun nýrra banka 2008 voru margir þeirrar skoðunar að æskilegt væri að minnka þá fekar með sameiningu. Með því mætti auka skilvirkni þeirra og lækka tilkostnað. Í umræðum um framtíð bankastarfsemi í landinu á síðustu misserum hefur slíkra sjónarmiða lítið gætt en þó verið hreyft af þingmanni eins stjórnarflokksins(3) og ábendingar hafi komið innan úr bönkunum um hagkvæmni af sameiningum.(4) Þetta hefur verið þaggað niður með tilvísun til samkeppnisraka, sem hafa lítið gildi á fákeppnismarkaði. 

Í umræðum um sölu Íslandsbanka hefur hlutverk fjármálakerfisins eins og það er skilgreint í Hvítbók stjórnvalda lítið verið rætt og því ekki svarað hvernig ná má því markmiði þess skv. stjórnarssáttmálanum “að þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt.” Eru líkur eru á að það takist án aðkomu ríkisvaldsins? Í umhverfi bankastarfsemi hér á landi, með örgjaldmiðil og fákeppni, er líkur á að óheft starfsemi banka verði mjög ábatasöm. Ekkert mun hindra þá í því að hámarka hagnað sinn á kostnað þeirrra viðskiptavina sem geta ekki brotist úr markaðsböndunum eins og hluti atvinnulífsins hefur gert, einkum sjávarútvegur og aðrar útflutningsgreinar, og fjármagnar sig að verulegu leyti með viðskiptum við erlenda banka þar sem þeir njóta eðlilega góðra kjara hafandi tekjur í erlendri mynt og lögverndaðan gjaldfrjálsan aðgang að gjöfulum náttúruauðlindum eða hafa aðra einokunaraðstöðu.(5) Sama á við um fjársterka einstaklinga sem kosið hafa að vista fé sitt erlendis. Þessir sömu aðilar eru einnig handhafar stórs hluta allra fjármálalegra eigna í landinu og eru því líklegir til að verða eigendur að einkavæddum bönkum.

Ávöxtunarkrafa bankanna, sett undir yfirstjórn Bankasýslunnar, er nú allt að 10% ávöxtun eigin fjár á ári(6), þ.e. tvöföldun á raunvirði þess á 8 til 9 árum. Ekki er líklegt að af verði slegið með bankarnir í einkaeign. Til samanburðar má taka að raunvöxtur hagkerfisins, þ.e. vöxtur VLF verður líklega einungis þriðjungur af vexti bankakerfisins gangi þetta eftir. Eigi ekki að koma til ofþennslu bankanna verður að greiða eigendunum þeirra stórum hluta hagnaðarins út. Hagnaði ná bankarnir með a) miklum vaxtamun, þ.e. háum útlánsvöxtum og lágum innlánsvöxtum, og b) háum þjónustugjöldum. Almenningur og aðrir, sem ekki geta sótt á erlend mið, munu því greiða háa vexti, fá lítið fyrir sparnað sinn og greiða há þjónustugjöld. Ekki hefur verið boðið upp á aðra sviðsmyndir í undirbúningi málsins. 

Fellur það að selja Íslandsbanka nú og 65% í Landsbankans síðar með framangreindum afleiðingum að því markmiði að “að þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt”. Þessi sviðsmynd er ekki framandi eða ókunnugleg heldur endurspeglar það sem hefur verið viðvarandi á bankamarkaði árum saman og ekki bara þar heldur á þeim fákeppnismörkuðum í, tryggingum, olíuverslun, skipaflutningum, sjávarútvegi o.fl. sem staðið hafa undir auðsöfnun á fáar hendur hér á landi, auðsöfnun sem er samfélagsmein og meinsemd í efnahagslífi heimsins og einstakra landa. Samþjöppun peningalegra eigna á fárra hendur leiðir m.a. til þess að þessar sömu hendur eignast bankana og stýra fjármálakerfinu. Einkarekið og hagnaðardrifið bankakerfi verður þannig sjálfvirk auðgunarmaskína sem dælir fjármunum frá almenningi í þá vasa sem fullir eru fyrir en taka ætíð við meiru. Fákeppni á markaði og skattalög vilhöll fjármagni eins og hér landi magna upp þessa samþjöppum eigna og tekna.

Tvennt getur leitt til róttækra breytinga á fjármálamarkaði. Annars vegar að gefa örmyntina upp á bátinn og opna þannig fyrir samkeppni erlendis frá og hins vegar að ríkið verði virkt í verðmyndun á bankamarkaði með því að beita sér fyrir hagkvæmni og stefnu í bankarekstri sem byggi á sanngirni en ekki ótaminni hagnaðarhyggju. Skref í þá átt gæti verið að selja Landsbankanum Íslandsbanka og gera sameinuðum banka að grenna sig, þ.e. að draga úr umsvifum sínum einkum á sviði fjárfestingabanka, og setja honum stefnu með afkomumarkmiði sem feli í sér eðlilega áhættulitla ávöxtun eigin fjár í stað hámarksávöxtunar. Með þessu gæti ríkissjóður dregið úr fjárbindingu sinni í bankakerfinu, aukið hagkvæmni þess og lagt grundvöll að lægra vaxtastigi til lengri tíma. Áhugamönnum um bankarekstur gæfist kostur á að stíga inn í bankarekstur án forgjafar og meðgjafar frá ríkinu með því að stofna nýjan banka eða leggja fé í núverandi einkabanka eftir því sem fýsilegt þykir. Meintir yfirburðir einkarekstrar myndu svo skila sér í meiri ávöxtun eigin fjár hjá þeim en hjá ríkisbankanum. 

Stjórnvöld hafa með Hvítbókinni og áformum um sölu á ríkisbönkunum dregið upp framtíðarsýn fyrir bankana, eigendur þeirra og vonbiðla en enga framtíðarrsýn fyrir almenning í landinu sem leysi hann undan því að greiða 2-4% meira í bankakostnað en fólk í nágrannalöndum okkar. Við það verður hann að una svo lengi sem fjármálamarkaðurinn er leikvöllur fákeppni og verndaður með örmynt. Skilvirkni og hagkvæmni bankakerfisins hefur ekki verið tekin á dagskrá og engin umræða hefur farið fram um leiðir til hagkvæmnar og sanngjarnar bankaþjónustu. Stjórnvöld hafa ekki unnið heimavinnu sína, hvorki leyst að fullu þau verkefni sem komu upp á borðið við fall bankanna fyrir rúmum áratug né þau verkefni sem þau settu sér sjálf fyrir í stjórnarsáttmálanum. Við svo búið eru efni ekki til þess að taka nú ákvörðun um sölu Íslandsbanka frá ríkinu.

1 Reykjavík 2018: Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið

2 Stjórnarráð Íslands, nóvember 2017: Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingi 

3 Vísir 11. 1. 2019: Vill láta kanna sameiningu Íslandsbanka og Landsbankans 

4 Vísir 22. 8. 2019: Margir milljarða geti sparast með sameiningu banka 

5 Upplýsingar um þetta má sjá í ársreikningum þessara fyrirtækja.

6 Samkvæmt upplýsingum í Fréttablaðinum 13. janúar 2021 er langtímamarkmið íslensku bankanna að arðsemi eigin fjár þeirra verði ekki lægra en 10%. Eigið fé í reglulegri starfsemi Íslandsbanka var um 160 milljarðar kr. (2019) og hagnaðarmarkmiðið því um 16 milljarðar á ári sem renna eiga til eigenda bankans fyrir þjónustuhlutverk hans.