Trump og Samherji

Trump

Um miðjan janúar greindu fjölmiðlar frá tveimur skattamálum hvort sínu megin Atlantsála. Í New York var fasteignafélag Trump-samsteypunnar dæmt til að greiða 1,61 milljón dollara, um 234 m.kr., sekt vegna skattsvika. Var það hámark sektar. Fjárhagslega var sektin smáræði fyrir Trump en að mati New York Times (Trump’s Company Gets Maximum Punishment for Evading Taxes) var hún alvarleg áminning. Dómurinn brennimerki fyrirtækið sem lögbrjót og hafi svipt hulunni af ólöglegum starfsháttum þess árum saman. Saksóknarar á Manhattan segjast muni því þrýsta á að rannsókn verði hafin á Trump sjálfum vegna lagabrota.

Félagið hafði umbunað lykilstarfsmönnum með vildargjörningum í gegnum tengdan aðila, leigulausum íbúðum, ókeypis Mercedes-Benz bílum og skólagjöldum í einkaskóla fyrir barrnabörnin í stað launa. Lögfræðingar Trumps kröfðust lægri sektar þar sem endurskoðendur félagsins hefðu átt að stöðva athæfið og að starfsmaður félagsins, sem gengið hafði til samstarfs við yfirvöld, hefði stýrt hinum ólöglega athæfi án þess að ætla félaginu hag af því.

Í fréttatilkynningu Trump-samsteypunnar sagði að félögin tvö væru fórnarlömbin og að starfsmanninum hefði verið ógnað. “Við gerðum ekkert rangt og munu áfrýja þessum dómi.” Saksóknarinn kallaði hins vegar eftir breytingu á lögunum þannig að hægt væri að beita félög sem fremdu glæpi í New York sektum og viðurlögum sem eitthvað kvæði að. 

Samherji

Hérna megin Atlantsála var kunngert að rannsókn Skattsins á nokkurra ára skattskilum Samherja væri lokið með endurálagningu og viðurlögum. Skv. lögum beinast rannsóknir skattyfirvalda eingöngu að meintum brotum á skattalögum. Sé tilefni til að ætla að önnur refsiverð brot hafi átt sér stað er þeim þætti vísað til lögreglurannsóknar sem getur leitt til ákæru til dómstóla. Sama á við um mál teljist skattundanskotin stórfelld. Leiði rannsókn lögreglu ekki til þess að mál fara til dómstóla verða málalyktir ekki gerðar opinberar þar sem skattyfirvöld eru bundin þagnarskyldu um málefni einstakra gjaldenda.

Í máli Samherja brá svo við að sakborningurinn ákvað að opinbera málið að hluta með tilkynningu á heimasíðu sinni og í viðtali við Morgunblaðið hvort tveggja með óljósri lýsingu málsatvika og túlkun á niðurstöðum. Reynt er að láta líta svo út að með ‘sátt’ við Skattinn hafi verið gefið út hreint sakavottorð fyrir Samherja og lítið er gert úr málinu og efnislegum niðurstöðum þess. Degi síðar er fjallar Heimildin nokkuð ítarlegar um málið.

Sátt eða játning? 

Í tilkynningu Samherja er fullyrt að gerð hafi verið sátt í málinu en óljóst er hvað sátt merkir og með hvaða lagaheimild hún er gerð. Í lögum um tekjuskatt er fjallað um skattrannsóknir án þess að orðið sátt komi fyrir og fráleitt er að ætla að sátt sé gerð í skattamálum nema um hana gildi lagareglur og slíkar sáttagerðir birtar sbr. t.d. Reglur ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það væri óeðlilegt að skattyfirvöld geti lokið rannsókn á viðurkenndum brotum á skattalögum með leynilegri sátt. Ætla verður að á ferðinni sé misskilningur eða ónákvæmni. Líklegt er að Samherji hafi ákveðið að una skattákvörðunum og viðurlögum Skattrannsóknarstjóra eins og kemur fram í tilkynningu hans en kjósi að kynna það sem sátt og syndaaflausn.

Spyrja má hvers vegna skattrannsóknarstjóri hefði átt að ganga til sáttagerðar væru slíkar málalyktir heimilar. Viðurkenning á brotunum lá fyrir og heimildir til ákvörðunar á viðurlögum eru skýrar. Það eru ekki hagsmunir skattsyfirvalda að það fari leynt fremur en að rétt túlkun skattalaga nái fram að ganga  með dómi sem gefur fordæmi. Staðhæfingin um að sátt um málalok ‘í viðskiptum þar sem ágreiningur getur komið upp á milli fyrirtækja og skattyfirvalda um skattskil’ séu alvanalegar er tilbúningur og tal um sátt í þessu máli jaðrar við það að væna skattyfirvöld um að bregðast skyldum sínum. 

Orðsporið.

Við ákvörðun Skattrannsóknastjóra hefur það legið fyrir að málinu yrði ekki vísað til lögreglu. Með því að fallast á niðurstöðu Skattrannsóknastjóra og greiða vangoldna skatta með viðurlögum og vöxtum í stað þess að láta reyna á málið fyrir dómi gat skattaðila lokið málinu án þess að málavextir yrði opinberir. Ekki er óalgengt að sú leið sé valin í trausti þess að málið verði ekki á vitorði annarra en skattyfirvalda og viðkomandi. Hafi Samherji valið þessa leið stingur það í stúf að félagið hafði sjálft forgöngu að því að upplýsa um málið með tilkynningu á heimasíðu sinni 12. janúar sl. Etv. kann það að hafa að spurst út að frétt um málið yrði í Heimildinni daginn eftir og tilkynningin og fréttaskýring Mbl. hafi verið skaðaminnkandi aðgerð.

Eru brot á skattalögum ekki saknæm og ekki refsiverð?

Í tilkynningu Samherja er því haldið fram að auk sáttar við Skattrannsóknastjóra hafi embætti héraðssaksóknara fellt niður sakamál á hendur Samherjafélögunum og starfsfólki þeirra og “staðfest að hvorki stjórnendur né starfsmenn hafi gerst sekir um refsiverð brot vegna þess.” Í fréttaskýringu Morgunblaðsins er svo bætt um betur og orð forstjóra Samherja höfð fyrir því “að Skatturinn hafi staðfest að ekkert saknæmt hafi átt sér stað í við skattskil félaga innan samsteypunnar á umræddu tímabil.”

Þetta samræmist ekki því að í tilkynningunni er greint frá því að Skattrannsóknastjóri hafi ákveðið Samherja viðbótarskatt, álög á skattstofna og sektir að fjárhæð samtals um 400 m. kr. Endurálagning skatta með álögum og sektum er staðfesting á því að skattalög hafa verið brotin og eru þær refsingar sem skattyfirvöld geta beitt við brotum á skattalögum. Með þeim liggur fyrir að skattaskil Samherja voru saknæm og þeir sem ábyrgir voru fyrir þeim höfðu gerst sekir um refsiverð brot. Það að ekki kom til lögreglurannsóknar og dómsmáls fríar skattaðila ekki af því að hafa brotið skattalög.

Skýring Samherja og blaðamanns Morgunblaðsins á því hvað er refsivert eða saknæmt samkvæmt skattalögum er nokkuð sérkennileg. Samkvæmt henni eru brot á skattalögum ekki refsiverð og ekki sé saknæmt að telja ekki fram tekjur og skila ekki inn þeim upplýsingum sem þau gera kröfu um þótt lögin kveði á um refsingar við slíkum brotum í formi álaga og sekta sem skattyfirvöld ákveða og aðrar refsingar sem sem dómarar ákveða ef málið fer í lögreglurannsókn og er kært til dómstóla. Talsmenn Samherja reyna að telja lesendum trú um að brot á skattalögum séu ekki saknæm og ekki refsiverð nema til sakfellingar í dómsmáli komi. Staðreyndin er hins vegar að langflest brot á skattalögum eru afgreidd af skattyfirvöldum. Aðeins lítill hluti þeirra kemur til kasta dómstóla.

Staðhæfingar Samherja um hreinleikavottorð frá héraðssaksóknara og Skattinum er ekki síður skáldlegar. Þessar stofnana gefa ekki út slík vottorð og ástunda ekki aflátssölu. Skattrannsóknarstjóri ákveður í samræmi við reglur Ríkissaksóknara um Meðferð skattalagabrota hvort staðfest brot á skattalögum er sent lögreglu til rannsóknar. Lögreglurannsókn getur leitt til ákæru en Héraðssaksóknari getur ákveðið að höfða ekki sakamál telji hann ekki tilefni til þess. Í því tilviki stendur óhögguð niðurstaða Skattrannsóknarstjóra sem sýnir að lögbrot hefur verið framið.

Ekki verður ráðið af því sem upplýst var hvers vegna ekki kom til lögreglurannsóknar og saksóknar þar sem vangoldnir skattar og gjöld eru yfir þeim mörkum sem tilgreind eru í reglum Ríkissaksóknara til að vanskilin teljist stórfelld. Samkvæmt tilkynningu Samherja hefur málsvörn hans byggst á því að halda fram annarri túlkun á skattalögum en þeirri sem skattyfirvöld hafa. Slíkum ágreiningi er ósjaldan borið við í málum einkum þegar ekki liggur fyrir dómaframkvæmd í algerlega hliðstæðum málum. Vanþekking er ekki refsiverð og trúgirni talin afsakanleg einkum ef verknaðurinn byggir áliti sérfróðra ráðgjafa. Sakborningur er látinn njóta vafans og talinn hafa verið í góðri trú.

Smáræðis skattsvik

Álög og sektir Samherja eru eins og hjá Trump smáræði í samanburði við umsvifin. Það er skiljanlega ánægjuefni fyrir eigendurna að hundruð milljón króna endurálagning skatta og viðurlög hræri lítið við félagi þeirra. Skattasniðgangan kann einnig að hafa borgað sig eftir allt sama ef hið vangoldna fé hefur verið ávaxtað vel meðan það var í sjóðum félagsins í allt að 10 ár. 

Samkvæmt tilkynningu Samherja og fréttaskýringu Morgunblaðsins voru vangoldnir skattar og viðurlög við brotum af tvennum toga. Í fyrsta lagi vanskil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi af launum skipverja í gerviverktöku. Vangoldnar voru 60 m.kr. og sekt vegna vanskila á tryggingagjaldi var 15. m.kr. Fram var tekið að þetta séu fjárhæðir ‘eftir að búið er að taka tillit til leiðréttingar á tekjuskattsálagningu’ sem væntanlega á að merkja að leiðrétting á vantöldum tekjum viðkomandi sjómanna sé ekki talin með í fjárhæðunum. Með hliðsjón af vangreiddu tryggingagjaldi má ætla að vanreiknuð laun sjómannanna hafi verið nálægt 1 milljarður króna og leiðrétting á tekjuskatti þeirra verið um 200 m.kr.

Í öðru lagi er um að ræða endurálagningu vegna vanframtalinna tekna skattaskjólsfélags Samherja að fjárhæð 122 m.kr. auk 30,5 m.kr. álags. Vanframtaldar tekjur má því ætla að hafi verið um 600 m.kr.

Úrskurður Skattsins nú tók ekki til færeyska dótturfélags Samherja, Spf Tindholm, en skv. Heimildinni fengu íslensk skattyfirvöld greiddar 260 m.kr. skatta vegna vanframtalinna laun sjómanna Samherja við Namibíustrendur sem fyrir ‘mistök’ voru skráðir á farskip í Færeyjum og leiðrétt höfðu verið eftir að upp komust. Ætla má að vanframtalin laun af þeim ástæðum hafi numið um 1 milljarði króna.

Endurákvarðaðir skattar, gjöld og viðurlög í þessum málum eru því líklega samtals um 900 m.kr. hjá félaginu og starfsmönnum þess. Tekjur sem skjóta átti undan skatti voru líklega um 3 milljarðar króna samtals hjá félaginu og starfsmönnum þess.

Samhengi talnanna

Í tilkynningu Samherja er reynt að gera lítið úr árangri Skattsins. Til að smætta undanskotin setur félagið þau ‘í samhengi’ við meintar skattgreiðslur sínar. Þar sem þær eru í reynd fremur litlar grípur félagið til gamalþekktra ráða og eignar sér skatta sem aðrir hafa greitt svo sem staðgreiðslu af launum starfsmanna og tryggingagjald af launum þeirra en þau eru hluti af launakostnaði félagsins og hafa verið dregin frá skattskyldum tekjum þess. Með þeim kúnstum og því að sleppa mistökunum í Færeyjum tekst félaginu að láta líta svo út að endurálagning Skattsins með tilheyrandi álögum hafi aðeins hækkað skattgreiðslur þess um innan við 1%, sem á væntanlega að gefa þá mynd að skattundanskotin hafi verið lítil.

Þær fjárhæðir sem um er að ræða má setja í raunhæfara samhengi. Um er að ræða vanskil á beinum sköttum, aðallega tekjuskatti sem borinn er af einstaklingum annað hvort beint eða í gegnum félög sem þeir eiga. Tekjuskattur félaga lækkar þær tekjur sem eigandinn fær til ráðstöfunar í neyslu eða fjárfestingu þ.m.t. eignaaukningu félags síns. Lækkun beinna skatta félags með skattundanskotum hækkar tekjur eigenda félagsins. En hver voru skattundanskotin sett í samhengi við tekjur eigendanna og almennings í landinu? 

Samkvæmt ársreikningum Samherja Ísland efh var hagnaður félagsins fyrir tekjuskatt á árunum 2012 til 2018 samtals 247,1 milljón evra eða um 38 milljarðar króna miðað við gengi evrunnar 23. janúar sl. Reiknaður tekjuskattur félagsins á sama tímabili voru 50,3 milljón evrur eða um 7,8 mrd króna á sama gengi.  Þær tekjur sem gengu til eigenda félagsins á þessum árum hafa því verið um 30 milljarðar króna eða að jafnaði nærri 4,3 mrd króna á ári. Reiknaðir tekjuskattar félagsins voru að jafnaði um 1,1 mrd kr. á ári en raunverulega greiddir skattar hafa líklega verið nokkru lægri vegna ívilnandi skattareglna.

Tekjur Samherja og starfsmanna hans voru vanframtaldar um 3 milljarðar króna á árunum 2012 til 2018 sbr. framangreint. Er það um 10% af skattskyldum tekjum þess á tímabilinu. Nokkuð stór hluti vanframtalinna tekna tilheyrði starfsmönnum félagsins en félagið var gerandinn í þeim málum sem að sjómönnunum snúa og olli því tekjutapi sem af hlaust fyrir ríkið og sveitarfélög og eins er líklegt að hin skattalegu hlunnindi sem áttu að falla starfsmönnunum í skaut hafi komið fram í lægri launakostnaði félagsins og það notið þeirra með þeim hætti. Það skattalega tap sem leiðrétt var með úrskurði Skattrannsóknarstjóra og ‘leiðréttingu’ á skráningu skipverja má ætla alls um 900 m.kr. og svarar það til um 11,5 % af reiknuðum tekjuskatti Samherja á tímabilinu. Að slepptum hluta Spf Spindholm er hlutfallið um 8,5%.

Þetta sýnir hve villandi framsetning Samherja var á umfangi skattundanskotanna en þau má einnig sýna á auðskiljanlegan hátt með því að setja tölurnar í samhengi við launatekjur einstaklinga og tekjuskatta þeirra. Vanframtaldar tekjur félagsins nýtast fyrst og fremst eigendur þess og hækka tekjur þeirra um hina vangreiddu skatt. Vanframtaldar tekjur að fjárhæð 3 milljarðar króna samsvara gróft reiknað launatekjum um 300 meðalmanna. Endurákvarðaðir skattar og gjöld að fjárhæð 900 m.kr. svara til tekjuskatts og útsvars um 360 meðalmanna. 

Fjórir einstaklingar munu hafa átt nær allt hlutafé Samherja á þessum tíma. Tekjur hvers þeirra af starfsemi félagsins er fjórðungur af hagnaðinum og hafa því að jafnaði verið rúmlega einn milljarður króna á ári. Hagnaður hvers þeirra af skattasniðgöngunni hefði aðeins verið lítið brot af þeim tekjum eða aðeins 10 m.kr. á ári til viðbótar við hagnaðinn. Þótt það séu um árslaun meðalmanns í landinu eru áhrifin á tekjur hluthafanna lítil, aðeins um 1% af tekjum þeirra. Það vekur þá spurningu hvers vegna stórfyrirtæki setja upp net aflandsfélaga og noti almenna starfsmenn sína til skattasniðgöngu ef árangurinn er ekki meiri.

Það skiptir máli að setja tölurnar í rétt samhengi.

Ekki bara Samherji 

Þótt hér hafi að gefnu tilefni verið fjallað um eitt tiltekið skattamál hér á landi er ekki þar með sagt það sé einstakt, umfangsmeira eða alvarlegra en önnur. Í því tölublaði Heimildarinnar sem fjallaði um mál Samherja er einnig greitt frá öðru stórfyrirtæki sem virðist árum saman hafa stundað skattasniðgöngu með skipulegum hætti og fleiri mætti tína til þótt flest slíkra mála fari leynt. Panama skjölin sýndu glöggt hve útbreidd skipulögð skattasniðganga var og þótt sett hefði verið undir nokkra leka með CFC löggjöfinni 2010 hefur lítið annað áunnist. Frá þeim tíma virðist innlend skattasniðganga einkum hafa aukist vegna ófullnægjandi skattareglna um einkahlutafélög, eignarhaldsfélög og fjármálastarfsemi einstaklinga. 

Glæpahagfræði 

Hvers vegna sumir ástunda skattsvik eða skattasniðgöngu en aðrir ekki hefur lengi verið óljóst og flestar hugsanlegar skýringar umdeildar. Rannsóknir sýna að mikill meirihluti manna í vestrænum ríkjum eru skilvísir skattborgarar annað hvort af því að þeir líta á greiðslu skatta sem borgaralega skyldu eða að þeir afla tekna við þær aðstæður að ekki sé kostur á öðru. Í könnunum játa þó flestir því að þeir hafi eða myndu taka við skattfrjálsri greiðslu ef því fylgir engin áhætta. Í greiningum á skattsvikum hefur einnig komið fram að tiltölulega lítill hluti skattborgar er alfarið á móti því að borga skatta og enn minni hluti er tilbúinn til að beita öllum ráðum til að komast hjá því.

Viðhorf og hvati til skattsvika er mismunandi eftir aðstæðum. Þannig býr líklega allt annað að baki hjá einhverjum sem stundar lágt launaða svarta vinnu, bílskúrskallinum sem tekjufærir ekki greiðslu fyrir smáviðgerð og torgsölukonunni sem selur fataleppa eða blóm án skattskila en hjá þeim sem skipuleggja skattsvik sín með tvöföldu bókhaldi, félagafléttum og sýndarviðskiptum.

Viðhorf til auðs og tekna virðist hafi áhrif á vilja til skattsvika í samræmið við máltækið mikið vill meira. Viðskiptasiðferðið sem birtist í slagorðinu ‘græðgi er góð’ sem varð stofutækt á síðustu áratugum síðustu aldar og blómstraði hér í aðdraganda hrunsins getur etv. að einhverju leyti að skýrt vöxt skattasniðgöngu á þessum tíma og það að hún virðist orðinn viðtekinn liður í viðskiptalíkani fyrirtækja víða um heim sem og hér á landi

Í greininni “Crime and Punishment: An economic Approach” sem bandaríski hagfræðingurinn Gary S. Becker birti 1968 er hagfræðileg greining á glæpum m.a. skattsvikum. Í henni er gengið út frá því  líkani að glæpur sé framinn ef væntar tekjur af honum eru hærri en kostnaður við hann. (sjá lítið eitt nánar: Skattrannsóknir, grið og glæpahagfræði). Kostnaðurinn ræðst að miklu af tvennu, annars vegar af líkunum á því að upp komist um glæpinn og hins vegar af fjárhæð sekta og annarra refsinga þ.m.t. fjárhagslegu mati á hugsanlegri frelsissviptingu og mannorðsskaða.

Þessi mál sem nefnd hafa verið falla vel að greiningu glæpahagfræðinnar en vekja einnig þá spurningu hvort þau úrræði sem löggjafinn og stjórnvöld hafa til að draga úr skattalagabrotum séu nýtt sem skyldi svo sem fjárhæð sekta og viðurlaga sem og það að auka líkur á sakfellingu með styrkingu skatteftirlits og skattrannsókna. Sú spurning vaknar einnig hvort eðlilegt sé að komast megi hjá orðsporsmissi vegna stórfelldra lagabrota gegn greiðslu smávægilegra sekta svo og það hvort ekki væri rétt að stjórnendur og eigendur fyrirtækja sem uppvís verða að stórfelldum skipulegum skattalagabrotum sæti persónulega ábyrgð.