Húsbóndahollusta Framsóknar

Framsóknarflokkurinn var þægur þjónn í skattamálum mestan hluta 10. áratugs síðustu aldar og fram að hruni og hélt því hlutverki áfram eftir stjórnarmyndun 2013 þótt að heita ætti að hann leiddi stjórnarsamstarfið. Á þessum tímabilum studdi hann skattastefnu sem leiddi til þess að tekjuskattsbyrði lágtekjufólks hækkaði að jafnaði um 1% á ári, eitthvað minni hækkun en þó veruleg varð hjá meðalaltekjufólki en skattar lækkuðu stórlega hjá þeim allra tekjuhæstu. Um þetta má lesa í grein minni Skattapólitík 1993 til 2015

Korteri fyrir kosningar vaknar Framsóknarflokkurinn til vitundar um að þörf sé á breytingum. Ekki er þó lagt til atlögu við þau fjölmörgu atriði skattalaga sem auðvelda Tortólungum og öðrum stóreignamönnum lífið. Í staðinn eru gripnar illa grundaðar hugmyndir “Sjálfstæðrar verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld” (sjá “Úttekt á íslensku skattkerfi” – tillögur verkefnisstjórnar um skatta –) en þær hugmyndir eru fallnar til að styrkja þann hóp enn frekar með aukinni misskiptingu tekna og ívilnunum fyrir fjármagnseigendur.

Í áróðri fyrir stefnu sína upplýsir flokkurinn lítið og segir fátt annað en að stefnt sé að því að tekjuskattur á meðallaun verði 25%. Hann tekur m.a. ekki fram að tekjuskattur á meðallaun hjóna árið 2015 án bóta var um 25% og var reyndar 1-2 prósentustigum lægri en það þegar flokkurinn hóf stjórnarsamstarfið 2013. Enn síður er gerð grein fyrir áhrifum þessara breyttu skattlagningar á skattbyrði eftir tekjum gjaldenda.

Lausleg athugun mín, sjá einnig Finn Birgisson, (http://www.visir.is/skattatillaga-framsoknar—kanina-upp-ur-hatti/article/2016161029474?fb_action_ids=10202291064154295&fb_action_types=og.comments), bendir til afgerandi ójöfnuðar af þessari tilhögun. Sé tekið mið af sama hópi og í grein minni, þ.e. samsköttuðum, og tekjum á árinu 2015 reiknast mér til að á tekjuskattar án bótaliða myndu samkvæmt þessari hugmynd lækka um nálægt 13 milljarða króna. Tekjuskattar hjá tæpum helmingi hópsins, tekjulægstu 45 prósentum samskattaðra, myndu hækka um 6 milljarða króna eða nærri 3 prósentustig. Hjá þeim sem eru þar fyrir ofan myndu skattar hins vegar lækka um 19 milljarða króna eða hátt í 4 prósentustig. Hér er reiknað með jafnri skiptingu tekna milli hjóna og fullri nýtingu persónufrádráttar sem kann að valda því að lækkun skatta sé eitthvað ofreiknuð og hækkun vanreiknuð en breytir ekki niðurstöðunum í megindráttum. Ekki er heldur tekið mið af hugmyndum um útborganlegan persónuafslátt, sem kann eftir atvikum að hafa einhver áhrifi hjá 7 til 10 lægstu prósentunum.

Tekjuhæstu hóparninr hafa notið sérstaks velvilja hjá ríkjandi flokkum. Þótt vafalaus megi deila um nákvæma útkomu framangreindra útreikninga fyrir lægri tekjur einkum vegna óljósra tillagna eru áhrifin fyrir efstu tekjuhópana tvímælalaus og auðreiknuð. Skattur á hæstu tekjur er nú rúmlega 46% og í tillögum AGS, sem tillögur Framsóknar eru sagðar byggjast á, er gert ráð fyrir að sá skattur haldist nær óbreyttur en hann er af Framsókn lækkaður í 43% auk sem þessi hópur nýtur lækkunar af tekjum í neðri hluta skalans. Hann fengi 4,5 til 5,5 prósentustiga lækkun skatta. Hvað sem vangaveltum um útborganlegan persónuafslátt og millifæranleika hans líður er ljóst að 20 % tekjuhæstu samskattaðir framteljendur myndu með tillögunum fá skattalækkun að fjárhæð um 12 milljarðar króna. Sú lækkun kæmi til viðbótar við um 8 milljarða króna skattalækkun sem sami hópur fékk á því tímabili sem er að ljúka.

Það má ljóst vera að svona lækkun tekna ríkissjóðs ein út af fyrir sig hefur áhrif til ójöfnuðar. Tekjuskatturinn er eina skatttegundin, að frátöldum auðlegðarskatti, sem felur í sér stígandi skattlagningu. Sé ætlunin að bæta þetta tekjutap upp mun það lenda sköttum sem íþyngja tekjulágum meira en tekjuháum – nema Framsókn hafi í huga að taka upp auðlegðarskatt og/eða hækka veiðigjöld. Þetta tekjutap er í reynd en meira en hér kemur fram kemur því hugmyndirnar byggjast á því að fella niður vaxtabætur, sem hafa verið fjármagnaðar af tekjuskattinum.

Verði ekki gripið til tekjuöflunar til jafns við tekjutapið hlýtur það að leiða til niðurskurðar þvert á boðskap um aukin útgjöld til allra góðra mála. Sá niðurskurður mun að mestu bitna á þeim sem minnst mega sín með lélegri og dýrri heilbrigðisþjónustu og minna fé verður til að bæta hag aldraðra og öryrkja, til félaglagslegra aðgerða í húsnæðismálum o.s.frv. Etv. má kaupa gálgafrest með því að þvælast fyrir framvæmdum við nýjan Landsspítala í nokkur ár.