Í einhverjum fjölmiðli sást að ég hefði yfirgefið Vinstri græna og kom mér það á óvart. Tilefni fréttarinnar mun vera pistill á heimasíðu minni Hvern á að kjósa? á kosningadag þar sem ég greindi frá þeirri ákvörðun að kjósa að þessu sinni Samfylkinguna. Rökstuddi ég hana með því að ég mæti það svo að stefna þess flokks samsvaraði best áherslumálum mínum.
Nokkrum vikum fyrr hafði ég í grein spurt Um hvað á að kjósa? Gerði ég þar grein fyrir þeim málum sem ég taldi að ættu að ráð hvaða flokkur yrði fyrir valinu. Viðbrögð bárust frá mörgum kunningjum o.fl. Þegar flokkarnir höfðu lagt spilin á borðið fannst mér sanngjarnt gagnvart þeim að ég svaraði fyrir mína hönd þeirri spurningu sem ég hafði lagt fyrir þá.
Ég gekk í Félag Vinstri grænna í Reykjavík nokkrum árum eftir að ég lét af opinberum störfum því ég taldi stefnu þeirra falla að þeim pólitísku áherslum sem ég hafði og fjallaði um í greininni og þótti þá líklegast að þær næðust með þeirra atbeina. Nokkrum árum áður gafði ég gengið í Samfylkingarfélagið í Reykjavík þá til að styðja þann flokk og forystu hans í málenum borgarinnar auk þess sem að áherslur hans í landsmálum og öðrum málum svo sem Evrópumálum voru mér að skapi. Ég hef því átt aðild að þessum tveimur flokkum um nokkra hríð og kosið þá á víxl eftir því sem mér líst best hverju sinni.
Þetta voru fyrstu félagslegu tengsl mín við pólitíska flokka í hálfum sjöunda áratug frá því að ég gekk í Félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri sem ég þó yfirgaf eftir stutta viðdvöl þegar það sýndi sig að fundir þess voru aðallega útdeiling á spakmælum FUS og Heimdallar og minntu mig helst á sunnudagaskóla KFUM sem trúuð og flokkstrygg frænka mín hafði látið mig sækja með mér yngri börnum og mér leiddust svo ógurlega að prestneminn sem sá um hann, leigjandi hjá frænku minni, leyfði mér að hlaupa á meðan niður á Laugaveg og stakk svo biflíumynd sunnudagsins að mér á heimleiðinni.
Ég uni mér ágætlega í félagslegum tengslum við báða þessa flokka samtímis, styrki þá báða og styð til góðra verka og kýs þá á víxl eftir því sem mér hugnast áherslur þeirra, mannval og trúverðugleiki hverju sinni. Ég á von á því að þeir séu skilningsríkir ekki síður en prestlingurinn hjá frænku minni og fyrirgefi þetta pólitíska lauslæti.
Stuðningur við báða þessa flokka fer vel saman því kjarninn í stefnu þeirra, félagsleg velferð, er hinn sami þótt einstök önnur mál séu mismunandi. Sameiginlega er þingstyrkur þeirra nú annar hinn mesti á Alþingi. Með samstarfi þeirra við Framsóknarflokkinn sem eftir innanhreinun síðustu ára hefur náð fyrri stöðu hafa félagshyggjuflokkur þann styrk að stjórnarmyndun án þeirra er nánast ómöguleg. Þeir ættu að geta náð samstarfi við Pirata, Viðreisn og eða Flokk fólksins um stjórn á grundvelli þeirra mörgu mála sem þeir eiga samleið í og sammælst um að lausn annarra stærri ágreiningsmála verði sett í feril sem endað gæti í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu