Innanlandsflug og ferðaþjónusta

Í umræðu um ferðamál og ferðaþjónustu fer lítið fyrir tali um fólksflutninga innanlands og í umræðum um flugsamgöngur hefur mest verið horft á flutning opinberra starfsmanna og sjúklinga milli höfuðborgarinnar og hluta landsbyggðarinnar. Rætt er um þörf á átaki til að tengja landsbyggðina við útlönd án þess að minnst sé á þátt innanlandsflugs í því sambandi. Í öllum þessum efnum virðist skipulag innanlandsflugs vera eitthvað sem ekki skiptir máli.

Flugvöllurinn og landsbyggðin.

Flugvöllur í Reykjavík er gjarnan sagður svo mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina að ekki megi hrófla við honum. En hver er þessi landsbyggð, sem hefur svo mikla hagsmuni af því að flugvöllurinn sé í Reykjavík?

Vegna legu byggða mun aðeins hluti landsbyggðarfólks kjósa að fljúga til höfuðborgarinna í stað þess að aka þangað. Fyrir fólk á sunnanverðum Vestfjörðum er lítið hagræð í því að fljúga suður og sjálfgefið er að Vesturland hefur engan hag af flugsamgöngum við Reykjavík. Frá Ströndum austur um Húnavatnssýslur og jafnvel Skagafjarðar er bílferð til Reykjavíkur styttri og útlátaminni en að að fara til Akureyrar og fljúga þaðan. Fjallabyggð, Eyjafjörður, Norðausturland og Austfirðir hafa þá legu að flugsamgöngur við Suðvesturhornið hafa hvað ferðatíma og kostnað yfirburði umfram akstur í bifreiðum en um allt Suðurland er því á annan veg farið.

Þegar litið er á skiptingu á búsetu fólks eftir landssvæðum sést að um 64% landsmanna búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu en um 36% utan þess, þ.e. á því svæði sem jafnan er kallað landsbyggð. Á þeim svæðum, sem ekki liggja vel við flugsamgöngum við Suðvesturhornið eru u.þ.b. 60% landsbyggðarbúa en fyrir hin 40% þeirra getur flugið verið hagfelldara. Flugsamgöngur við höfuðborgina eru þannig beint hagsmunamál fyrir um 15% þjóðarinnar og samskipti annarra við þá. Ekki skal dregið úr mikilvægi þess að þessum hagsmunum sé sinnt en vel má draga í efa að þeir einir skipti máli einkum m.t.t. þess að þessir hagsmunir eru ekki bundnir því að miðstöð innanlandsflugs sé í Reykjavík.

Innanlandsflug og ferðamennska

Innanlandsflug er nú ekki mikilvægur þáttur í skipulagðri ferðaþjónustu hér á landi sem byggist á fremur einföldu líkani. Ferðamenn koma með milllandaflugi til Keflavíkur og er síðan ekið til Reykjavíkur þar sem þeir gista flestir eina eða fleiri nætur. Sumir fara í dagsferðir út frá Reykjavík en aðrir fara í legri eða skemmri hringferðir í hópbílum eða í bílaleigubílum umhverfis landið eða um hluta þess. Að hringferðum loknum koma þeir aftur til Reykjavíkur og er ekið til Keflavíkur þaðan sem þeir fljúga til síns heima.

Áfangastaðir ferðamanna eru dreifðir um landið en þeir fjölsóttustu eru flestir á tveimur landsvæðum, Suðurlandi og austanverðu Norðurlandi. Skipulag ferðanna ræðst af þessu og hringferðir um landið í ýmsum afbrigðum eru algengar hvort sem um er að ræða hópferðir eða ferðir á bílaleigubílum. Galli á þessu fyrirkomulagi er það að hringferð um landið er of löng fyrir 5 til 10 daga ferðir sem er algeng lengd ferða m.a. vegna þess langa tíma og aksturs sem fer í að komast á milli landshluta. Í svo stuttri ferð gefst ekki tími til skoðunar á athyglisverðum landsvæðum og til upplifunar á náttúru landsins. Þetta einhæfa ferðaskipulag helgast fyrst og fremst af því að upphaf og endi ferðar er í Keflavík/Reykjavík.

Skipulag innanlandsflugs á Íslandi

Flest flugfélög skipuleggja ferðanet sitt með þeim hætti að þau safna farþegum í mörgum borgum, flytja þá til heimahafnar og dreifa þeim síðan til mismunandi áfangastaða. Þetta skipulag sést glöggt í starfi Flugleiða sem tengir fjölda borga í Evrópu við fjölda borga í N-Ameríku án þess að bjóða upp á beint flug milli þeirra.

Þetta árangursríka ferðaskipulag nær ekki til Ísland. Hér á landi eru engin tengsl á  milli ferða til landsins og áfangastaða á landinu annarra en Keflavíkur. Ferðanet Flugleiða endar þar og ef farþegar vilja fljúga eitthvert innanlands þurfa þeir að fara til Reykjavíkur og oft eyða þar nótt áður en kostur er á framhaldsflugi.

Þeirra sem eru á leið frá stöðum á landsbyggðinni til áfangastaða erlendis bíður sami ferill. Þeir verða að fljúga eða aka til Reykjavíkur og eftir atvikum að gista þar eða í Keflavík áður en flugið hefst. Það er skiljanlegt að þeir séu ekki sáttir við þetta og kemur það m.a. fram í tilraunum til að koma á beinu flugi frá stöðum eins og Akureyri og Egilsstöðum til erlendra borga. Hefur það gengið brösulega og er satt að segja ekki líklegt að slíkar tilraunir beri árangri. Eftirspurn eftir flugi milli tiltölulega fámenns svæðis hér á landi til eins og sama áfangastaðar erlendis er of lítil til að standa undir reglulegum samgöngum.

Skipulag ferða innan lands

Ferðaskrifstofur og aðrir sem skipuleggja og selja ferðir innan lands eru háðir því samköngukerfi sem er við lýði og miða ferðaframboð sitt við það. Af þeim ástæðum sem að framan greinir er eðlilegt að flestar ferðir sem eru í boði fyrir erlenda ferðamenn eru lengri eða skemmri hringferðir sem hefjast og enda í Reykjavík, allt frá dagsferðum um Suðurland og Vesturland upp í eins til tveggja vikna hringferða um landið eða vissan hluta þess. Sameiginlegt er með þessum ferðum er að  þær krefjast tveggja rútuferða milli Reykjavíkur og Keflavíkur og í flestum tilvikum gistingar í Reykjavík eina nótt umfram það sem þörf væri á vegna heimsóknar til borgarinnar. Ennfremur fela þær oft í sér ferð fram og til baka sama veginn t.d. yfir Hellisheiði.

Ókostir við þetta fyrirkomulag eru augljósir. Mikill tími fer í ferðir til og frá flugvelli, óþörf gisting er á Reykjavíkursvæðinu, akstur í hringferðum óþarflega mikill og knappur tími til skoðunar og upplifunar á landinu. Fyrir ferðaskipuleggjendur er fyrirkomulagið ekki hentugt. Ferðaframboð verður einsleitt og einkennist af of löngum ferðum á of skömmum tíma. Ferðaskrifstofur og skipuleggjendur utan höfuðborgasvæðisins eiga erfitt uppdráttar. Ferðir sem beinast að einstökum svæðum utan suðvesturhornsins verða tímafrekar og dýrar. Þjóðhagslegur kostnaður mikill vegna aukaálags á vegi. Eftirspurn eftir gistirými á höfuðborgarsvæðinu á aðalferðamannatímanum meiri en ella væri og fleira mætti telja til.

Innanlandsflug og dreifing ferðamanna um landið

Í heldur árangurslítilli umræðu um ferðamál og eflingu ferðaþjónustu er það markmið að dreifa ferðamönnum betur um landið oft nefnt. Er þá í senn haft í huga að hlífa ofsóttum stöðum við álagi og að veita fleiri landsvæðum hlutdeild í þeirri atvinnustarfsemi sem ferðamennskunni fylgir. Nú er það svo að ferðamönnum verður ekki nema að litlu leyti stýrt að ofan. Þeir velja sér áfangastaði eftir eigin áhuga og því framboði af ferðum, gistingu osfr. sem til boða stendur. Framboðið ræðst svo aftur af þeim innviðum sem fyrir eru, ekki síst samgöngum sem eins og að framan segir eru mjög takmarkandi fyrir skipulag ferða.

Það má með góðum rökum halda því fram að það markmið að dreifa ferðamönnum betur um landið og draga úr þeim ókostum sem nú einkenna skipulag ferðamennsku náist ekki nema með miklum breytingum á samgöngum innan lands. Sem betur fer örlar í seinni tíð á slíkum breytingum t.d. áætlunaferðum frá Keflavík út á land og strætóferðum. En meira þarf til. Meginforsenda þess að rjúfa þá fjötra, sem ferðaskipulagið er í, er að tengja millilandaflug og innanlandsflug. Það verður ekki gert með góðum móti nema að þungamiðja innanlandsflugs og millilandaflugs sé á sama stað.

Með slíkri samtengingu fengist margt. Með því opnaðist sá möguleiki að skapa ferðamönnum einfalda tengingu við staði út á landi eins og Akureyri, Egilsstaði, Hornafjörð og Ísafjörð þar sem innanlandsferð gæti hafist eða henni lokið. Það myndi spara þeim tíma og kostnað og gefa þeim aukið tækifæri til að skoða landið. Það myndi létta álagi af vegum ekki síst hinum fjölfarnari á suðvesturhorninu. Það myndi draga úr eftirspurn eftir gistihúsnæði á höfuðborgarsvæðinu en auka hana út á landi.

Breyting sem þessi myndi hafa mikil áhrif á starfsemi ferðaþjónustunnar, ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda, bílaútgerða og þeirra sem bjóða staðbundna ferðaþjónustu. Skipulag ferða þyrftir ekki lengur að miðast við upphaf og enda í Reykjavík, ferðir gætu nýst betur og verið beint að svæðum sem ekki er unnt að sinna í dag. Þetta myndi einnig skapa aðilum út um land aukin tækifæri til að byggja upp staðbundna ferðaþjónustu og markaðssetja hana.

Innanlandsflugið og Vatnsmýrin

Ísland er stórt land. Samgöngur innan lands og við umheiminn eru mikilvægar fyrir okkur sem hér búum, eru hluti af lífsgæðum okkar, öryggismálum og í vaxandi mæli í efnahags- og atvinnumálum. Íslendingar eru ekki stórþjóð. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Þurfum við marga flugvelli á suðvesturhorninu?,  hvernig sinnum við margvíslegum þörfum best? eru meðal spurninga sem við þurfum að leita svara við.

Vitræn umræða um flugvelli er sokkin í Vatnsmýrina þar sem þröngsýni og rétttrúnaður ræður ríkjum. Tími er til kominn að við tökum okkur Barón Münchhausen til fyrirmyndar og rífum okkur á hárinu upp úr þeim forarpytti. Tímann þangað til ættum við að nota til að byggja upp innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli. Það yrði öllum til hagsbóta, ekki síst landsbyggðinni.