HS Orka og lífeyrissjóðirnir

Upphaflega birt í Vísbendingu 10. 10. 2025

Í Heimildinni 29. apríl sl. (Einkavæðing, ábyrgð og skattasiðferði) fjallaði ég um varnargarða sem reistir hafa verið við Svartsengi án þess að fyrirtæki sem njóta þeirra fjárhagslega, HS Orka hf og Bláa lónið ehf, taki þátt í kostnaði við gerð þeirra. Ég benti einnig á að á sama tíma stæði HS Orka hf í lánaviðskiptum við eigendur sína með þeim afleiðingum að ríkissjóður verður af miklum skatttekjum.

Skattasniðganga erlendra félaga er alþjóðlegt vandamál og hefur kallað á samræmdar aðgerðir ríkja sem hún bitnar á. ESB setti reglugerð árið 2016 um aðgerðir til varna gegn skattasniðgöngu. Meðal þeirra eru takmarkanir á lántökum í skattalegum tilgangi. Í stjórnarsáttmálum ríkisstjórnanna 2017 og 2021 eru fyrirheit um ráðstafanir í þessu efni sem sjö ára valdatími dugði ekki til að efna. Í stað virkra aðgerða horfa stjórnvöld aðgerðalaus á að erlend stórfyrirtæki greiði engan tekjuskatt áratugum saman þrátt fyrir blómlegan rekstur og líða það að skattasniðganga þeirra verði að fordæmi fyrir félög sem lúta stjórn íslenskra aðila eins og HS Orka hf og eigendur hennar.

Lántaka HS Orku hf

Á árinu 2022 ákváðu eigendur HS Orku hf., fjárfestingasjóðir Ancala Partners og Jarðvarmi slhf, að veita félagi í sameign þeirra, HS Orka Holding hf, 38 milljón dollara lán til 7 ára með 10,9% vöxtum. HS Orka Holding hf lánaði dótturfélagi sínu, HS Orku hf, fé þetta með sömu skilmálum. Á miðju ári 2024 var ákveðið að framlengja lánstímann til ágúst 2034 þ.e alls til 12 ára.

Lánið jafngildir um 5,5 mrd. íslenskra króna. Vextir eru ekki greiddir árlega en færðir til hækkunar á höfuðstóli lánsins. Þeir voru um 600 m.kr. fyrsta árið en fara vaxandi í um 1,8 mrd.kr. síðasta árið. Í lok lánstímans verður höfuðstóll lánsins orðinn um 18,3 mrd.kr. Vextir og vaxtavextir á tímabilinu, 13 mrd.kr., munu lækka tekjuskattstofn HS Orku hf um þá fjárhæð og lækka tekjuskatt félagsins um 2,6 mrd. kr. Reiknaður tekjuskattur félagsins 2023 og 2024 hefur þegar lækkað um 240 m.kr. vegna þessa.

Ekkert kemur fram í ársreikningum HS Orku hf um tilgang þessarar lántöku, þörf á henni eða rök fyrir því að vextir á þessu láni í erlendri mynt eru tvöfalt hærri en á öðrum lánum félagsins. Ekki verður annað séð en að um sé að ræða lántöku hjá tengdum aðila í þeim tilgangi einum að lækka tekjuskatt félagsins.

Etv. er skattasniðganga erlendra aðila orðin svo útbreidd að ekki taki því að fárast um þótt eitt fyrirtækið enn bætist í hópinn. Fernt gefur þó tilefni til að staldra við. Í fyrsta lagi eru eigendur að HS Orku hf að hálfu íslenskir aðilar og hafa komið að ákvörðun um lánið sem slíkir en ekki sem leppar erlendra eigenda eins og jafnan hefur verið um fyrirtæki að fullu í eigu erlendra aðila. Í öðru lagi hefur HS Orka hf rétt til nýtingar á náttúruauðlind í sameign þjóðarinnar og sýnir það við hverju má búast þegar orkuvirkjanir eða önnur nýting auðlinda eru í höndum erlendra aðila. Gjörningur HS Orku hf setur fordæmi fyrir aðra verði hann látinn standa. Í þriðja lagi eru hinir íslensku meðeigendur að HS Orku hf lífeyrissjóðir sem starfa skv. íslenskum lögum og njóta sérstakra hlunninda á grundvelli þeirra en taka engu að síður þátt í því að hafa tekjur af ríkinu. Í fjórða lagi að stjórnir lífeyrissjóða, skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaga annars vegar og Samtaka atvinnulífsins eða fjármálaráðherra hins vegar, samþykkja skattasniðgöngu sem kosta mun ríkissjóð á þriðja milljarð í töpuðum skatttekjum.

Félögin

Þótt aðeins sé um eitt orkuver að ræða er fjölþætt félagaflækja sett upp um verkefnið í þeim tilgangi að auðvelda flutning fjármuna, draga úr gagnsæi og hylja ákvarðanaferilinn. Það gerir ábyrgð einstakra aðila óljósa og tengir marga einstaklinga HS Orku fjárhagslega. 

Rekstrarfélagið HS Orka hf, sem starfrækir raforkuverið í Svartsengi og formlegur eigandi þess, HS Orka Holding hf., eru bæði íslensk félög en eigendur þeirra eru að jöfnu annars vegar sjóðir í stýringu Ancala Partners og hins vegar Jarðvarmi í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða. Stjórn rekstrarfélagsins er valin af stjórn HS Orka Holding sem aftur á móti er tilnefnd af eigendunum.

Ancala Partners LLP er sjóðstýringafélag (Fund manager) skráð í London. Það var stofnað 2010 og er með 4,3 milljarða evra í sjóðum sínum sem fjárfestir eru í um 20 fyrirtækjum, aðallega í innviðastarfsemi í 16 löndum, eftir því sem fram kemur á heimasíðu þess. Hinn eigandi að HS Orka Holding erJarðvarmi, samlagshlutafélag 14 íslenskra lífeyrissjóða. Samlagshlutafélag er sjálft ekki skattskylt en tekjur þess færast á einstaka eigendur. Lífeyrissjóðirnir eru ekki skattskyldir af tekjum sínum en þeir hagnast af háum vöxtum á láninu og því að skattasniðganga rekstrarfélagsins hækkar tekjur þess eftir skatt og eignamyndun Jarðvarma.

Í stjórn Jarðvarma slhf eru fjórir menn tilnefndir af stjórnum lífeyrissjóðanna auk formanns sem tilnefndur er af svokölluðum ábyrgðaraðila, sem einn ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Ábyrgðaraðili þessi er Jarðvarmi GP hlutafélagí eigu sömu lífeyrissjóða en það félag á ekki hlut í Jarðvarma slhf, og hefur ekki aðrar tekjur en þóknun fyrir að vera ábyrgðaraðili. Stjórnarformaður og þrír annarra stjórnarmanna eru starfsmenn einhverra af lífeyrissjóðunum. Eina starfsemi Jarðvarma slhf felst í utanumhaldi um fjárfestinguna í HS Orku. Haldnir voru 14 stjórnarfundir á árinu. Ekki er að sjá að teknar hafi verið neinar ákvarðanir af félaginu um fjárfestingar aðrar en lánveitingin til HS Orku árið 2022. Ætla verður að þessarar einu eignar Jarðvarma, hlutarins í HS Orka hf, sé vel gætt af 5 manna stjórn, framkvæmdastjóra og ráðgjöfum og að ítarlega hafi verið fjallað um lánveitinguna til HS Orku þó að í ársskýrslu séu litlar upplýsingar um hana og ekkert skráð um samskipti við eigendur um hana, þ.e. lífeyrissjóðina, þótt í starfsháttalýsingu stjórnarinnar segi: “Við upplýsingagjöf til hluthafa leggur stjórn áherslu á gagnsæi og jafnræði.”

Eigendur Jarðvarma

Jarðvarmi slhf er eins og áður segir í eigu 14 lífeyrissjóða, þ.á m. eru nokkrir stærstu lífeyrissjóðir landsins. Stærstu hluthafarnir eru Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Birta lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Festa lífeyrissjóður og Almenni lífeyrissjóðurinn sem hver um sig á 2 – 7,5 milljarða króna í eigin fé Jarðvarma. Sex aðrir sjóðir eiga minni hluti. Stjórnir flestra lífeyrissjóðanna, oft 6 – 8 manns, eru yfirleitt skipaðar af þeim stéttarfélögum sem að sjóðunum standa og Samtökum atvinnulífsins eða opinberum vinnuveitanda. Koma því á annað hundrað fulltúar stéttarfélaga, atvinnurekenda og hins opinbera að stjórn þessara 14 lífeyrissjóða.

Stjórnir lífeyrissjóðanna stýra starfsemi þeirra, setja þeim fjárfestingastefnu og leggja línurnar um hvernig fé þeirra skuli ávaxtað. Um fjárfestingastefnur sjóðanna má lesa í gögnum þeirra m.a. svokölluðum sjálfbærniskýrslum sem fylgja ársreikningum þeirra. Svo dæmi séu tekin af nokkrum stórum aðilum að Jarðvarma slhf. :

Í skýrslu Gildis segir m.a:

 “Stefna sjóðsins um sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar byggir á þeirri afstöðu að fjárfestingarákvarðanir, sem taka mið af umhverfislegum, félagslegum og stjórnunarlegum þáttum, ……… stuðlar sjóðurinn að því að eignasafn hans taki mið af sjálfbærri þróun og samfélagslegri ábyrgð, ….. mikilvægt að sjálfbærniáhætta sé tekin með í heildarmat á fjárfestingum

Í sjálfbærniskýrslu LSR má lesa þetta:

Sjóðurinn gerir jafnframt kröfu til þess að félög sem hann fjárfestir í sýni ábyrgð gagnvart félagslegum þáttum, umhverfislegum þáttum og að starfað sé í samræmi við góða stjórnarhætti. ….. Mikilvægt er ….. að huga að áhrifum fjárfestinga sinna á samfélagið. …… stuðli að ábyrgri og sjálfbærri fjárfestingarstefnu. Með því að greina samfélagsleg áhrif, áhættu og tækifæri getur sjóðurinn ……dregið úr neikvæðum afleiðingum…… LSR leitast við að vera ábyrgur fjárfestir sem stuðlar að góðum stjórnarháttum og leggur áherslu á samfélagsleg gæði, ….. er mikilvægt að þau félög sem fjárfest er í ……. stuðli að bæði eigin ábata og samfélagsins …..Við mat á fjárfestingum eru greind möguleg neikvæð áhrif sem fjárfestingin kann að hafa á samfélög,… Sjóðurinn gerir kröfu til þess að fyrirtæki sem hann fjárfestir í starfi í samræmi við samfélagsleg gildi,…”

Í starfsháttayfirlýsingu stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir:

Viðmið um ábyrgar fjárfestingar eru hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins og ber sjóðnum að líta til og stuðla að samfélagslegri ábyrgð þeirra félaga sem hann fjárfestir í. LV gerir kröfu um að þau fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir ….. horfi til leiðbeininga um góða stjórnarhætti og viðmiða sem lúta að samfélagslegri ábyrgð.

LV er aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna (e Principles for Responsible Investment, UN PRI) um ábyrgar fjárfestingar. … Í reglunum er fjallað um hvernig áhersla á umhverfisleg og samfélagsleg málefni styður við stjórnarhætti fyrirtækja …. Þannig fari saman hagsmunir fjárfesta og markmið þjóðfélagsins í víðara samhengi.

Gera verður ráð fyrir að stjórnir sjóðanna gangi ríkt eftir að þessum markmiðum sé fylgt eftir og að allar meiri háttar fjárfestingar þeirra, amk. í óskráðum félögum svo og stórar og óvenjulegar lánveitingar, séu lagðar fyrir stjórnir sjóðanna og komi til ákvörðunar hjá þeim.

Í þessum fyrri hluta greinarinnar hvefur lántöku HS Orku verið lýst og þau félög sem að málinu koma verið nafngreind. Í síðari hluta greinarinnar verða fjallað um ákvarðanir og ábyrgðir í málinu o.fl.