Birt í Heimildin 22. nóv. 2024
Fjármálaráðuneytið birti árið 2008 skýrslu, Íslenska skattkerfið: Samkeppnishæfni og skilvirkni þar sem fram kemur skattbyrði tekjuskatta á árunum 1993 til 2007. Meðalskatthlutfallið hafði á þessu tímabili vaxið úr rúmum 17% í um 22%. Á árunum 2016, 2017 og 2021 birti ég í Stundinni greinar um breytingar á skattbyrði tekjuskatta frá 2007 til 2019. Sú síðasta náði ekki til þeirra breytinga sem stjórnvöld gerðu í tengslum við Lífskjarasamningana það ár.
Nú liggja fyrir upplýsingar um álagningu skatta til ársins 2021 sem lýsa afleiðingum skattalegra aðgerða og aðgerðaleysi stjórnvalda frá Hruni til þessa dags. Að frátöldum stuttum hléum eru þetta tímabil þriggja samsteypustjórna, Samfylkingar og Vinstri grænna (S/V) 2009 til 2013, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (D/B) 2013 til 2017 og Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna (D/B/V) 2017 til 2021. Talnaefnið gerir kleift að skoða þá skattapólitík sem framfylgt var á þessum tímabilum og meta afleiðingar hennar.