Uppgjörið vegna Icesave

Bretar og Hollendingar fengu 53,5 milljörðum meira frá LBI og TIFF en þeir greiddu innistæðueigendum

Slitastjórn þrotabús gamla Landsbankans (LBI) lauk uppgjöri við forgangskröfuhafa með greiðslu 11. janúar 2016. Forgangskröfur voru nær eingöngu vegna svokallaðra Icesave sparireikninga sem LBI bauð fólki á Bretlandseyjum og í Hollandi til ávöxtunar á fjármunum sínum. Hluti fjár á þeim reikningum, þ.e. fjárhæðir allt að 20.877 evrur á hverjum reikningi, var andlag svokallaðrar Icesave deilu og viðfangsefni samningstilrauna til að leysa hana. Tilraunir til að leysa málið með samningum eins og ákveðið var á Alþingi þegar haustið 2008 reyndust ófærar vegna andstöðu sem var mögnuð upp með vafasömum fullyrðingum um efni og afleiðingar samninga og lýðskrumi.

Tilraunir til að semja um málið, að frátalinni hinni fyrstu sem gerð var í október 2008, byggðust á því að þrotabú LBI stæði að greiðslum á tryggðu Icesave innistæðunum eins og öðrum forgangskröfum í þrotabú LBI. Uppgjör á forgangskröfum er lokið og hefur þrotabú LBI borgað tryggðu Icesave innistæðurnar að fullu andstætt því sem margir trúa eftir tvær þjóðaratkvæðagreiðslur.

I Samandregnar niðurstöður

Greiðslur frá Íslandi í gjaldeyri vegna tryggðra innistæðna í útibúum LBI í Bretlandi og Hollandi voru um 53,5 milljarðar íslenskra króna umfram þann höfuðstól sem Bretar og Hollendingar yfirtóku.

Forgangskröfur voru að mestu leyti innistæður á sparireikningum útibúanna í Bretlandi og Hollandi í erlendum gjaldeyri. Alls voru þær 1.328 milljarðar krónur á gengi slitadags 22. apríl 2009. Búið greiddi kröfuhöfum þá fjárhæð af eignum sínum í erlendum gjaldeyri á hverjum tíma. Vegna hærra gengis íslensku krónunnar á greiðsludögum en á kröfudegi urðu greiðslur til kröfuhafa hærri en samþykktar kröfur þeirra í gjaldeyri höfðu verið og nam gengishagnaður þeirra og gengistap þrotabúsins um 55 milljörðum króna.

Hluti uppgjörsins voru þær innistæður á Icesave sparireikningum á fjórða hundruð þúsunda einstaklinga í Bretlandi og Hollandi, sem voru undir hámarki innistæðutrygginga á EES svæðinu og voru viðfangsefni Icesave deilunnar. Bretar leystu til sín tryggðar innistæður að fjárhæð 2.340 milljónir sterlingspunda og Hollendingar leystu til sín tryggðar innistæður fyrir 1.322 milljónir evra.

Slitabú LBI greiddi Bretum allar tryggðar innistæður sem þeir leystu til sín og 63 milljónir punda umfram höfuðstól þeirra. Hollendingum greiddi slitabúið allar tryggðar innistæður sem þeir leystu til sín og 156 milljón evrur umfram höfuðstól þeirra. Á gengi lokagreiðsludags voru greiðslur slitabúsins til Breta og Hollendinga samtals um 33 milljarðar króna umfram höfuðstólinn.

TIFF, íslenski innistæðutryggingasjóðurinn, greiddi Bretum um 68 milljón punda til viðbótar við greiðslur slitabúsins. Að greiðslum frá TIFF meðtöldum urðu greiðslur til Breta vegna tryggðu Icesave reikninganna 131 milljónum punda eða 24,7 milljörðum íslenskra króna hærri en höfuðstóll slíkra innistæðna sem þeir yfirtóku.

TIFF, íslenski innistæðutryggingasjóðurinn, greiddi Hollendingum um 46 milljón evra til viðbótar við greiðslur slitabúsins. Að greiðslum frá TIFF urðu greiðslur til Hollendinga vegna tryggðu Icesave reikninganna 203 milljónum evra eða 28,8 milljörðum íslenskra króna hærri en höfuðstóll slíkra innistæðna sem þeir yfirtóku.

II. Greiðslur úr þrotabúi LBI

Heildarfjárhæð forgangskrafna í þrotabú LBI var 1.328 milljarðar króna á gengi slitadagsins, sem var 22. apríl 2009. Er hér miðað við það gengi nema annað sé tekið fram. Af þessari fjárhæð voru 1.167 milljarðar króna eða 88% vegna innistæðureikninga einstaklinga. Þar af var 671 milljarður króna vegna fjárhæða sem voru lægri en hámark innistæðutrygginga á Evrópska efnahagssvæðinu þ.á m. á Íslandi en þetta hámark er 20.877 evrur. Um þá fjárhæð snerist svokölluð Icesave – deila.
Slitastjórn LBI greiddi forgangskröfur í búið með sex greiðslum frá 2. desember 2011 til 11. janúar 2016. Greiðslurnar voru sem hér segir:

2. desember 2011 29,616% forgangskrafna 409,9 milljarðar króna
24. maí 2012 12,981% forgangskrafna 172,3 milljarða króna
5. október 2012 8,029% forgangskrafna 80,0 milljarða króna
12. september 2013 5,062% forgangskrafna 67,2 milljarðar króna
14. desember 2014 30,310% forgangskrafna 402,7 milljarða króna
11. janúar 2016 16,002% forgangskrafna 210,6 milljarðar króna

Samtals eru þetta 1.342,7 milljarða króna. Í þessari tölu eru meðtaldir um 14,5 milljarðar króna sem greiddar voru inn á biðreikningi vegna umdeildra krafna sem síðar voru endurgreiddar búinu.
Dagsetning fyrstu greiðslu réðst af því hvenær greitt hafði verið úr ágreiningsmálum um forgangskröfur og önnur álitamál. Að öðru leyti réðist geta búsins til greiðslu af handbæru fé þess eftir því sem það innheimti eignir sínar.

Tregða stjórnvalda tafði greiðslur úr þrotabúinu

icesave.001Þrotabú bankanna voru felld undir ákvæði gjaldeyrislaganna og gjaldeyrishöft í mars 2012, ekki löngu eftir fyrstu greiðslu úr búinu. Eftir það þurftu slitastjórnirnar að fá heimild stjórnvalda til að greiða út fé í erlendum gjaldeyri. Breytti þetta miklu þar sem ákvörðun um greiðslur var orðin að stjórnvaldsákvörðun sem réðist af öðru en getu búsins til greiðslu. Reyndin varð líka sú að stjórnvöld drógu mjög lappirnar og þrotabú LBI sat langtímum saman uppi með mikið handbært fé. Ávöxtun þess hjá búinu kom forgangskröfuhöfum ekki að gagni en skilaði sér í hærri greiðslum til almennra kröfuhafa. Myndin sýnir að laust fé þrotabúsins frá 2010 til 2015 var lengst af 100 til 400 milljarðar króna og þar af voru einungis um 25 milljarðar í íslenskum krónum.

Ekki er ljóst af hverju tregða stjórnvalda til að heimila úrgreiðslur úr þrotabúinu stafaði. Eignir búsins voru að langmestu í erlendum gjaldeyri, sem varðveittar var erlendis og greiðslur úr því höfðu engin áhrif á gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins. Sem ástæða fyrir tregðunni hefur verið nefnt að tilgangurinn hafi verið að skapa þrýsting á kröfuhafa að ganga að skilmálum um stöðugleikaframlag. Það getur þó tæpast átt við um forgangskröfuhafa í LBI, sem ekki urðu fyrir né gátu orðið fyrir neinni eignaskerðingu af þeim ástæðum og ætla má að almennir kröfuhafar í LBI, þ.e. handhafar skuldabréfa bankans og aðrir sem höfðu lánað honum fé, hafi fremur hagnast af töfunum þar sem þeir einir nutu ávöxtunar af öllum eignum búsins í töfum sem urðu á útborgunum.

III Uppgjör LBI við forgangskröfuhafa

Forgangskröfur í þrotabúið voru mikið til innistæður á sparireikningum í LBI. Með neyðarlögunum voru innistæður á sparireikningum LBI á Íslandi fluttar í hinn nýja Landsbanka. Þær innistæður voru tryggðar með því að eignir að sama verðmæti voru færðar úr gamla bankanum í hinn nýja. Sparireikningar sem boðnir höfðu voru á netinu við útibú bankans í Bretlandi og Hollandi, svokallaðir Icesave reikningar, voru áfram í þrotabúi LBI og tryggðir með eignum þess en sú breyting hafði einnig verið gerð með neyðarlögunum að innistæður á sparireikningum voru gerðir að forgangskröfum við búskipti. Að auki átti Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta (TIFF) að tryggja hverjum og einum innistæðueiganda endurgreiðslu allt að jafnvirði 20.887 evra.

Gengishagnaður og vaxtaávinningur Breta og Hollendinga

Með gildistöku laga nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, hófst slitameðferð LBI og miðast kröfur í þrotabúið við þann dag og verðmæti krafna í erlendum gjaldeyri við gengi íslensku krónunnar á þeim degi. Það að kröfur í þrotabúið voru bundnar við tiltekið gengi krónunnar hafði þau áhrif að endurgreiðslur til kröfuhafa fóru í reynd eftir gengi krónunnar á hverjum greiðsludegi gagnvart þeim myntum sem kröfurnar voru í. Gengi krónunnar styrktist á tímabilinu og fengu kröfuhafar því meira í sinn hlut en sem nam fjárhæð krafna sinna í erlendri mynt. Kostnaður LBI varð að sama skapi meiri en verið hefði ef krafan hefði miðast við gengi hinnar erlendu mynta á hverjum tíma. Gengishagnaður kröfuhafa og gengistap þrotabúsins af þessum ástæðum varð alls um 55 milljarðar íslenskra króna eða nálægt 4% af heildarfjárhæð forgangskrafnanna.
Dagsetning slitadagsins hafði einnig aðrar afleiðingar. Bankinn hafði verið í greiðslustöðvun frá 6. október 2008. Kröfur á bankann frá þeim tíma og þar til slitameðferð hófst 22. apríl 2009 héldu gildi sínu eftir því sem lög og samningar sögðu til um. Það þýddi m.a. að innistæður, meginhluti forgangskrafnanna, báru fulla samningsvexti allt til þess tíma. Icesave reikningar LBI báru háa vexti sem bættust við höfuðstólinn eins og hann hafði verið við greiðslufall bankans 6. október 2008 þegar endanleg krafa í þrotabúið var reiknuð og samþykkt.
Í samningstilraununum sem gerðar voru var gert ráð fyrir að íslenski tryggingasjóðurinn (TIFF) yfirtæki kröfur á þrotabúið vegna tryggðra innistæðna og þar með rétt til vaxta fram að slitadegi. Framangreindir þættir, sem komu Bretum og Hollendingum mjög til góða, hefðu á sama hátt gagnast TIFF og gert honum auðveldara en ella að halda á kröfunum.

Tryggðar innistæður yfir 300 þúsund einstaklinga

Samþykktar kröfur í þrotabú LBI voru samtals rúmlega 3 þúsund milljarðar króna á gengi íslensku krónunnar 22. apríl 2009 og skiptust þannig:

Tryggðar kröfu o.fl. um 82 milljarðar króna
Forgangskröfur um 1.328 milljarðar króna
Almennar kröfur um 1.640 milljarður króna
Samtals um 3.051 milljarður króna

Forgangskröfurnar, 1.328 milljarðar króna, voru að langmestu leyti innistæður á sparireikningum einstaklinga og félagasamtaka, svokallaðir smásölureikningar með um 1.167 milljarðar króna innistæður. Heildsölureikningar og lán frá fjármálastofnunum voru tæpir 160 milljarðar króna. Á sparireikningum þessum var það fé sem bankinn hafði safnað í Bretlandi og í Hollandi með Icesave-reikningunum þar sem lofað var háum vöxtum eða 5 til yfir 6% og baktryggingu íslenska ríkisins. Létu margir tilleiðast því eigendur reikninganna voru milli 300 og 400 þúsund og heildarinnistæðurnar margfalt það fé sem var á sparireikningum Íslendinga í bankanum. Ekki var alltaf um háar fjárhæðir að ræða því innan við helmingur fjárhæðarinnar var yfir 20.887 evrum sem var lágmarksfjárhæð innistæðutrygginga á EES svæðinu.

IV Uppgjör LBI vegna tryggðra innistæðna (Icesave skuldin)

Við fall Landsbankans 6. október 2008 gripu stjórnvöld í Bretlandi og í Hollandi til þess ráðs að lýsa því yfir að þau myndu sjá til þess að innistæðurnar yrðu greiddar út. Af hálfu Breta var það gert án þess að setja á hámark á endurgreiðslu en í Hollandi var miðað við að hámarki 100.000 evrur. Á sama tíma tóku þeir upp viðræður við íslenska tryggingasjóðinn (TIFF) og stjórnvöld um að sjóðurinn myndi greiða þann hluta sem kveðið er á um í lögum um hann, þ.e. allt að 20.887 evrur til hvers reikningshafa. Með því að sjóðurinn var ekki fær um greiðslur þessar var það að ráði að breski tryggingasjóðurinn og hollenski seðlabankinn sem fer með innistæðutryggingar þar í landi sæju um útgreiðslu í samráði við TIFF. Með því yfirtóku þessir aðilar kröfur innistæðueigenda á LBI og þau réttindi sem þeim fylgdu.

Höfuðstóll tryggðra innistæðna og vextir til Breta og Hollendinga

Breski tryggingasjóðurinn og hollenski seðlabankinn höfðu einnig tekið að sér að greiða út innistæður umfram lágmarkstrygginguna en kröfur á TIFF voru einumgis fyrir þær fjárhæðir sem voru undir 20.887 evrum. Þegar upp var staðið reyndist sá hluti innistæðnanna vera 2.340 milljónir sterlingspunda í Bretlandi og 1.322 milljón evra í Hollandi. Á gengi krónunnar á slitadegi – 22. apríl 2009 – voru það samtals um 671 milljarður íslenskar krónur.
Með því að greiða reikningshöfum innistæðurnar og yfirtaka þar með kröfurnar á þrotabúið öðluðust Bretar og Hollendingar rétt til samningsbundinna vaxta á innistæðurnar frá yfirtökunni til slitadags. Vextir á Icesave reikningunum voru mjög háir eins og áður segir eða um 6% í Bretlandi og milli 5 og 6% í Hollandi. Með vöxtum frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 má því áætla að kröfur Breta hafi þannig hækkað úr 2.340 sterlingspundum í 2.416 sterlingspund og kröfur Hollendinga úr 1.322 evrum í 1.359 evrum. Hér er reiknað með 6% vöxtum í Bretlandi og 5,25% vöxtum í Hollandi. Kröfur Breta og Hollendinga á þrotabúið voru þannig orðnar um 692 milljarðar króna eða 21 milljarði króna hærri en það sem þeir höfðu greitt reikninghöfunum vegna þessara innistæðna.

Greiðslur tryggðra innistæðna

icesave.002Greiðslur þrotabúsins til breska tryggingasjóðsins og hollenska seðlabankans vegna þessara krafna voru hluti af heildargreiðslunum til forgangskröfuhafa sem greint er frá í upphafi greinarinnar. Upplýsingar um þær eru byggðar á opinberum gögnum frá slitastjórninni þar sem fram kemur hversu stór hluti forgangskrafna var greiddur hverju sinni. Ennfremur kemur fram að greiðsla þrotabúsins, sem er ákveðin í íslenskum krónum í samræmi við gengið á slitadegi er greidd kröfuhöfum í gjaldeyri miðað við gengi greiðsludags. Eins og áður hefur komið fram hafði var gengi krónunnar yfirleitt hærra á greiðslutímanum en það hafði verið á slitadegi og leiddi sá munur til gengistaps hjá þrotabúinu en gengishagnaðar hjá kröfuhöfunum það er Bretum og Hollendingum.
Í töflunni hér á eftir er gerð grein fyrir því hvernig greiðslum til Breta og Hollendinga vegna tryggðra innistæðna var háttað. Þar sem hver greiðsla úr þrotabúinu er miðuð við tiltekinn hundraðshluta hverrar kröfu og sú fjárhæð sem svarar til tryggðra innistæðna er þekkt er auðvelt að reikna þann greiðsluferil.

Taflan sýnir að heildargreiðslur til Breta voru um 462 miljarðar króna og til Hollendinga um 230 milljarðar króna eða samtals þeir 692 milljarðar króna sem tryggðar innistæður með vöxtum til 22. apríl 2009 voru á gengi þess dags. Greiðslum til kröfuhafanna voru í gjaldeyri á gengi greiðsludags og réði það gengi því hve mikil raunveruleg endurgreiðsla kröfunnar varð. Gengishagnaðurinn af þessum hluta krafnanna féll kröfuhöfunum í skaut og þrotabúið tapaði að sama skapi.
Þessi gengishagnaður ásamt því að Bretar og Hollendingar fengu vexti frá 6/10/2008 til 22/4/2009 sem hluta kröfu sinnar leiddi til þess að þeir fengu meira greitt úr þrotabúinu en nam fjárhæð þeirra innistæðna sem þeir höfðu yfirtekið. Bretar höfðu yfirtekið innistæður að fjárhæð 2.340 milljónir punda en fengu 2.403 milljónir punda greiddar eða 63 milljónu pundum meira sem samsvarar um 14 milljörðum íslenskra króna. Þrotabúið greiddi Hollendingum 1.479 milljónir evra eða um 157 milljónum evra umfram yfirteknar kröfur en það jafngildir rúmlega 6 milljörðum íslenskra króna.

V TIFF greiðir 20 milljarðar króna í viðbót

Í september 2015 sömdu TIFF og íslensk stjórnvöld við Breta og Hollendinga um að tryggingasjóðurinn greiddi þeim 20 milljarða íslenskra króna til viðbótar við það sem þrotabúið greiddi. Á þeim tíma var orðið ljóst að þrotabúið myndi greiða hinar tryggðu innistæðurnar að fullu og vel það en eins og kemur fram hér að framan urðu greiðslur þrotabúsins í gjaldeyri meira en 20 milljörðum hærri en innistæður þær sem yfirteknar voru auk þess sem kröfuhafanir höfðu notið mikils gengishagnaðar. Engar aðgengilegar heimildir eru til um efni þessa samnings nema fréttir fjölmiðla sem ekki greina frá efni hans né forsendum. Samningurinn hefur ekki verið birtur opinberlega og engar skýringar hafa verið gefnar á því af hverju svo er.
Greiðslur TIFF munu hafa numið 20 milljörðum króna. Ekki er vitað hvenig þessi greiðsla skiptist mill Breta og Hollendinga en hér er ætlað að sú skipting hafi verið í hlutfalli við kröfur þeirra á þrotabúið. Þannig má áætla endanlegt uppgjör á tryggðu Icesave innistæðunum. Við þær fjárhæðir, sem LBI greiddi Bretum og Hollendingum sem að framan greinir, bætast þá 20 milljarðar íslenskra króna sem skiptast þannig að í hlut Breta koma 68 milljón punda og í hlut Hollendinga koma 46 milljón evrur. Heildarmynd af uppgjörinu verður þá það sem sýnt er í eftirfarandi töflu.
Niðurstaða fyrir Breta og Hollendinga

icesave.003Breski tryggingasjóðurinn yfirtók tryggðar innistæður að fjárhæð 2.340 milljónir sterlingspunda. Hann fékk 2.403 milljónir punda greiddar úr þrotabúi LBI og því til viðbótar 68 milljónir punda frá TIFF, samtals 2.471 milljón punda. Hann fékk þannig 131 milljón pund eða 24,7 milljarða króna umfram það sem hann greiddi innistæðueigendum sem er 5,6% ávöxtun á það fé á tímabilinu.
Hollenski seðlabankinn yfirtók tryggðar innistæður að fjárhæð 1.322 milljónir evra. Hann fékk 1.479 milljónir evra greiddar úr þrotabúi LBI og því til viðbótar 46 milljónir evra frá TIFF, samtals 1.525 milljónir evra. Hann fékk þannig 203 milljónir evra eða 28,8 milljarða króna umfram það sem hann greiddi innistæðueigendum og er það 15,3% ávöxtun á það fé á tímabilinu.
Eins og fram hefur komið er skýringar á þessum af þrennum toga. Í fyrsta lagi fengu Bretar og Hollendingar háa samningsvexti á innistæðurnar frá greiðslufalli LBI til slitadags. Í öðru lagi greiddi TIFF þeim háa fjárhæð án tillits til þess að innistæðurnar voru þegar endurgreiddar að fullu. Í þriðja lagi áskotnaðist þeim gengishagnaður vegna styrkingar krónunnar á greiðslutímanum.
Niðurstaðan er sú að Bretar og Hollendingar fengu frá þrotabúi LBI og TIFF um 53,5 milljarða króna meira en nam þeim tryggðu Icesave innistæðum sem þeir tóku yfir.

Hafa þarf í huga að gengishagnaður Breta og Hollendinga kemur einungis fram í erlendu myntunum og umreikningi þeirra í íslenskar krónur.