HS Orka og lífeyrissjóðirnir (síðari hluti)

Birtist í Vísbendingu 17. október 2025

Ákvarðanir og ábyrgð

Þótt þau lánaviðskipti sem hér um ræðir séu viðskipti félaga eru þau í raun ákvarðanir einstaklinga og á ábyrgð þeirra. Í þeirri félagaflækju sem að framan er lýst getur verið erfitt að greina hverjir það eru sem ákvarðanir taka og hverjir geta talist ábyrgir fyrir þeim. Á það sérstaklega við um ákvarðanir sem teknar eru af þeim félögum sem margir eigendur standa að eins og HS Orka Holding og Jarðvarmi slhf. Þær ákvarðanir sem þessi félög taka eru teknar af þeim einstaklingum sem félögunum stjórna fyrir hönd og á ábyrgð raunverulegra eigenda þessara félaga. Er því óhjákvæmilegt að spyrja hvort þær samræmist hagsmunum og vilja eigendanna og hvort þær hafi verið teknar með vitund þeirra og fullu umboði.

Óljóst er hvaðan tillaga um lánveitingu til HS Orku er komin og einnig hvernig samþykki hennar fyrir hönd raunverulegra eigenda var háttað. Vegna takmarkaðra upplýsinga um það efni í ársreikningum eða öðrum gögnum verður aðeins ályktað um það í ljósi stöðu og umboðs þeirra sem að málinu komu á hverju stigi.

Þörf rekstrarfélagsins, HS Orku hf, á láni er vægast sagt óljós og enn síður er hægt að styðja lán með nærri 11% vöxtum til 12 ára skynsamlegum rökum. Tillögu um lántökuna er því vart að leita hjá stjórn rekstrarfélagsins þar semval stjórnarmanna virðist hafa ráðist af rekstrarlegum forsendum ,en líklegt að hana megi rekja til HS Orka Holding semer samstarfsvettvangur eigendanna. 

Hæpið er að fulltrúar Jarðvarma í stjórn HS Orka Holding hafi lagt tillöguna fram og benda líkur til þess að hún hafi komið frá erlendu eigendunum, sem hagnast munu á skattasniðgöngunni. Þó er óhjákvæmilegt að spyrja um hlut forstjóra HS Orku Holding hf. og hvort eigendur félagsins hafi við ráðningu hans horft til þess að í forstjóratíð hans hjá Fjarðaráli var tekið upp lántökuskema sem leiddi til þess að það fyrirtæki hefur aldrei greitt teljandi tekjuskatt en fært Alcoa milljarða viðbótarhagnað á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Hvernig svo sem tillagan um lánaviðskiptin er fram komin hefur Stjórn HS Orka Holding orðið að taka afstöðu til hennar og samþykkja hana, þar á meðal þeir stjórnarmenn sem tilnefndir voru af Jarðvarma slhf og eru fulltrúar lífeyrissjóðanna. Hvort skattaleg áhrif hennar hafi verið rædd og hver rök þeirra voru fyrir að samþykkja hana liggur ekki fyrir. Þeir hljóta hins vegar að hafa kynnt stjórn Jarðvarma tillöguna áður en hún var samþykkt, þar sem það félag leggur fram hluta lánsfjárins f.h. sjóðanna.

Lífeyrissjóðirnir 14 sem eiga Jarðvarma leggja fram lánsféð. Þess vegna og einnig vegna þess hve lánveitingin er stór og óvenjuleg verður að ætla að stjórn Jarðvarma hafi borið hana undir stjórnir lífeyrisjóðanna og þeir því ábyrgir fyrir henni. Hvort ábyrgðin liggur hjá framkvæmdastjórum sjóðanna og starfsfólki þeirra eða stjórnum lífeyrissjóðanna er þó óljóst en hafi lánveitingin verið samþykkt án aðkomu stjórna sjóðanna virðist sem starfsfólk sjóðanna hafi brotið þær starfsreglur sem því eru settar og koma m.a. fram í starfsháttayfirlýsingunum hér að framan og því farið út fyrir umboð sitt með því að fjárfesta í starfsemi sem ekki uppfyllir þær kröfur sem sjóðirnir gera.

Með tilliti til eðlis umræddrar lánveitingar vekur sérstaka athygli að meðal eigenda Jarðvarma slhf er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Í stjórn hans sitja 4 einstaklingar tilnefndir af bandalögum opinberra starfsmanna og 4 fulltrúar tilnefndir af fjármálaráðherra. Það sætir ólíkindum að fulltrúar þessara aðila hafi fallist á ráðstafanir sem fyrst og fremst hafa þann tilgang að rýra tekjur ríkissjóðs. 

Lánveiting Jarðvarma slhf til HS Orku er dæmi um gjörning sem bæði gengur gegn fjárhagslegum hagsmunum samfélagsins og er í hrópandi ósamræmi við tilgang lífeyrissjóðanna. Hún brýtur gegn öllu sem nefna má samfélagslega ábyrga stjórnunarhætti og er andstæð þeim markmiðum sem lýst er í starfsháttayfirlýsingum lífeyrissjóðanna.

Mannval og vönduð vinnubrögð

Rekstur sjóða sem varðveita og ávaxta lífeyri landsmanna krefst þekkingar á fjármálum og efnahagsmálum svo og skilnings á þeim sérstöku kröfum sem gerðar eru til lífeyrissjóða sem félagslega mikilvægra stofnana og koma m.a fram í lögum um starfsemi þeirra. Miklar kröfur þarf því að gera til stjórna og starfsfólks sjóðanna.

Eins og rakið hefur verið hafa margir komið að lánveitingunni, forstjóri HS Orku Holding ásamt fjórum stjórnarmönnum þess félags, þar af tveimur tilnefndum af Jarðvarma, fimm manna stjórn Jarðvarma ogframkvæmdastjórar 14 lífeyrissjóða. Ferilskrár þeirra flestra bera vott um góða menntun og víðtæka reynslu, m.a. hjá landsþekktum fjármálafyrirtækjum. Færni og reynslu til að taka á erfiðum málum ætti því ekki að skorta. Það vekur því furðu að velþekkt og augljós aðferð til að hafa fé af ríkissjóði skuli hafa staðist skoðun allra þessara aðila með fjölda sérfræðinga sér við hlið og hlotið samþykki þeirra og síðan stjórna lífeyrissjóðanna með um 100 fulltrúa stéttarfélaga og vinnuveitenda. 

Skorti á tíma eða aðbúnaði verður vart kennt um það sem vanta kann á í vinnubrögðum. Laun stjórnarmann Jarðvarma, með það hlutverk eitt að sjá um eignarhald á hlutum í HS Orku, voru 1.176 þús kr. á mann árið 2024 og tvöföld sú fjárhæð fyrir formann, alls 7.056.000 kr. Félagið hefur einnig framkvæmdastjóra og voru laun og launatengd gjöld hans og stjórnar samtals tæpar 19 m.kr. á árinu. Auk þess greiddi sjóðurinn um 45 m.kr. í ráðgjöf og viðskiptakostnað.

Stjórnarlaun lífeyrissjóðanna mega og teljast bærileg. Framkvæmdastjórar þeirra eru með allt að 3 m. kr. á mánuði og fyrir stjórnarsetu er greitt allt að 3 – 4 m.kr. á ári þannig að reikna má með að hjá þessum 14 lífeyrissjóðum sé framkvæmdastjórum og stjórnarmönnum greiddar ekki minna en 800 milljónir króna á ári.

Afleiðingar aðgerðaleysis

Tekjutap ríkissjóðs af þessum eina lánasamningi gæti numið á þriðja milljarð króna á 12 ára tímabili. Það er ekki há fjárhæð í samanburði við það tap sem orðið hefur af svipuðum aðgeerðum ísl. stóriðjuveranna sem hafa verið látnar viðgangast. Aðgerðaleysi gagnvart gjörningum HS Orku og stóriðjunni setur fordæmi fyrir annan rekstur erlendra aðila hér á landinu hvort sem er á þeirra eigin vegum eða í samstarfi við innlenda aðila. Verkefni sem þessir aðilar sækja í eru flest tengd auðlindanýtingu svo sem fiskeldi, orkufrekur iðnaður og rekstur gagnavera en einnig rekstur vatnsorkuvera og vindorkuvera víða um land og jarðefnanám. Víst má telja að nýir rekstraraðilar, innlendir sem erlendir, munu krefjist þeirra sömu “skattfríðinda” og þeir sem fyrir erunjóta. Áhrif þessa kunna og að ná til ferðaþjónustu þar sem erlend eignaraðild er þegar veruleg. Verði það niðurstaðan munum við innan fárra ára hafa afsalað stórum hluta af auðlindaarði okkar til erlendra og innlendra fjárplógsafla.

Önnur mál

Hér hefur fyrst og fremst verið fjallað um skattahlið þessa máls og það að lífeyrissjóðir taki þátt í gjörningi sem kostar ríkissjóð stórfé. Því er hins vegar ekki að neita að þessi athugun vekur einnig aðrar áleitnar spurningar. Tvennt skal nefnt, hagsmunatengsl og freistnivandi í samskiptum lífeyrissjóða og fjárfestaannars vegar og óskilvirkt stjórnkerfi lífeyrissjóðahins vegar.

Fyrra atriðið birtist í samstarfi lífeyrissjóðanna 14 og annarra eigenda HS Orku. Lífeyrissjóðirnir fjárfesta í HS Orku með því að stofna til félagslegra tengsla við HS Orku sem geta leitt til þess að störf og kjör nokkurra starfsmanna eða fulltrúa þeirra séu háð þessum samskiptum. Komi ágreinings- eða álitamál milli eigendanna til ákvörðunar geta persónulegir hagsmunir hafi áhrif á afstöðu þeirra sem að henni koma.

Með hinu atriðinu er átt við að stjórnir lífeyrissjóðanna eru skipaðar fulltrúum stéttarfélaga annars vegar og samtaka vinnuveitenda eða opinberra vinnuveitenda hins vegar oft 6 eða fleiri hjá hverjum sjóði. Yfirleitt veljast framámenn í hvorum hópi eða starfsmenn viðkomandi samtaka til að gegna stjórnarstörfum í lífeyrissjóðunum án tillits til þekkingar á verkefnum sjóðanna og enn síður þekkingar eða reynslu af fjármálastarfsemi sem er orðin snar þáttur í starfi þeirra. Vegna fjölda sjóðanna og stjórnarmanna og góðra starfskjara er þessi stjórnarkostnaður verulegur og ekki hægt að útiloka að með þessu fyrirkomulagi sé launakostnaði stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda að einhverju marki velt yfir á lífeyrissjóðina.

Höfundur er hagfræðingur, fyrrv. ríkisskattstjóri og félagi í Reykjavíkur Akademíunni

1 Ekki er ljóst hvort það séu aðeins álverin sem komist hafa hjá skattgreiðslum eða hvort það eigi einnig við um gagnaver, fiskeldi og önnur fyrirtæki erlendra aðila t.d. í ferðaþjónustu.

2 HS Orka er meirihlutaeigand í Vesturverki sem er með Hvalárvirkjun og fleiri virkjanir í undirbúningi.