ÚLFUR, ÚLFUR á Grundartanga

Birt í Heimildin 27. októ

GRÍÐARLEGT HÖGG stóð á forsíðu Morgunblaðsins fimmtudaginn í vikunni sem leið. Í viðtölum fjölmiðla fluttu sveitarstjórnarmenn, verkalýðsforingjar og foringi iðnrekenda svartnættisboðskap og á Alþingi tóku aðdáendur álvera undir fullum hálsi. Krafist var tafarlausra aðgerða af ríkinu. Helst var að heyra að atvinnulíf á landinu væri að hruni komið, þjóðarbúið stórskaðað, gjaldeyrir senn á þrotum, ríkisfjármálin í rústi og fjárlagafrumvarpið ónýtt.

Lítið heyrðist um orsakir þessara hörmunga utan það að spennar hefðu sprungið í álveri Norðuráls sem malað hefur gull fyrir eigenduna síðasta aldarfjórðung og að hluti framleiðslunnar myndi falla niður um tíma. Enginn greining á afleiðingum og engin rök fyrir meintum þrengingum. Kröfur um aðgerðir voru í engum tengslum við ætlaðan skaða. Lækka átti veiðigjald, þótt Norðurál greiða ekki slíkt og lækka átti skatta þó Norðurál greiðir ekki skatta.

Spennarnir sprungu á miðvikudegi og stór hluti lesenda Mbl. fékk því strax fréttirnar. “(S)kamma stund verður hönd höggi fegin” segir í Njáls sögu og svo varð einnig nú því brátt kom í ljós að vindhögg hafði verið slegið. Rantið hélt að vísu áfram fram eftir degi án þess þó að rantendur væru spurðir raka. Um miðjan fimmtudag birti Þórólfur Matthíasson prófessor emeritus í hagfræði færslu á Fésbókinni þar sem hann kippti umræðunni niður til jarðar amk. fyrir þá sem taka rökum og skilja þau einföldu sannindi sem hann dró fram og gerði síðar nánari skil í grein í veftímaritinu ff7, 25.okt. Áhrif framleiðsluhlés hjá Norðuráli á landsframleiðslu og þjóðarframleiðslu

Niðurstaða Þórólfs er skýr og vel rökstudd. Lækkun þjóðartekna af þriggja mánaða framleiðsluhléi gæti orðið 2,5 til 10 mrd.kr. sem er 0,1-0,2% árlegrar þjóðarframleiðslu. Ástæðan fyrir svo litlum áhrifum er einföld. Aðeins lítill hluti virðisauka í starfsemi Norðuráls skilar sér til íslenskra aðila. Sá hluti er eingöngu laun starfsmanna álversins og hagnaður af aðfangakaupum hér á landi, raforku o.fl. Hagnaður Norðuráls rennur til eigenda þess sem að auki hafa komið því svo fyrir að það greiðir aldrei tekjuskatt þrátt fyrir að lesa mátti í ársskýrslu eignarhaldsfélagsins að Norðurál sé gullmoli sem skilari hagnaði við allar aðstæður.

Þessi dapurlega mynd af efnahagslegu gagnleysi Norðuráls á einnig við um önnur álver á landinu og etv. fleiri fyrirtæki í erlendu eignarhaldi. Í grein í Heimildin í maí 2024, Ál eða glópagull, gerði ég athugun á efnahagslegum áhrifum málmframleiðslu, aðallega álframleiðslu, árið 2019 á grundvelli þjóðhagsreikninga Hagstofu Íslands. Þar sýndi sig að málmframleiðslan; 

  • notaði um 71% allrar raforkuframleiðslu í landinu
  • að hjá henni starfaði 0,9% mannafla í landinu
  • að hún greiddi 1,65% af launum og tengdum gjöldum í landinu
  • að hlutdeild hennar í vergri landsframleiðslu var 3,4 %
  • að hlutdeild hennar í þjóðarframleiðslu var 0,9-1,2%

Niðurstaða Þórólfs kemur heim og saman við tölur þessar.

Öll fyrirtækin á þessu sviði eiga það sammerkt að vera í eigu erlendra aðila, kaupa orku á lágu verði og nota fjármálaflækjur til að komast hjá skattgreiðslum hér á landi. Líklegt er að hið sama eigi við um aðra starfsemi í eigu erlendra fjármagnseigenda svo sem gagnaver, sem nota um 5% orkuframleiðslu, og fiskeldi í fjörðum landsins. Opinberar upplýsingar um það liggja ekki fyrir en væru auðunnar hefðu stjórnvöld áhuga á að kanna nýtingu íslenskra náttúruauðlinda. Eina stóra orkufyrirtækið, að hálfu í einkaeign erlendra aðila, hefur þegar róið á sömu mið í skattamálum og álverin hafa gert með góðum árangri og líklegt er að komandi vindorkuver hugsi sér einnig gott til glóðarinnar. Um það má lesa í nýlegum greinum eftir mig sem birtust í Vísbendingu fyrr í mánuðinum. Sjá: HS Orka og lífeyrissjóðirnir og HS Orka og lífeyrssjóðirnir síðari hluti.