Frumvarpið um breytingu á lögum um veiðigjald er markvert en hógvært skref að því markmiði nýrrar ríkisstjórnar að tryggja þjóðinni “réttlát auðlindagjöld.” Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að veiðigjöld hækki úr um 10 mrd. kr. árið 2024 í um 17 mrd kr. árið 2026.
Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands um afkomu veiða og vinnslu hefur hagnaður af þeirri starfsemi verið 90 – 100 mrd. kr. á ári síðustu árin. Þar af hefur hagnaður umfram rekstrarkostnað og eðlilegt leigugjald fyrir skip og tæki verið 50 – 60 mrd. kr. Veiðigjöldin voru því tæp 20% auðlindarentunnar 2024 en myndu skv. frumvarpinu hækka í um 30% hennar. Um 11 mrd. kr. fara í kostnað, sem sjávarútvegur ætti að bera, er hækkun raunverulegra veiðigjalda því úr 0% í um 16%. Þannig næst að hluta markmið 4. gr. laga nr. 145/2018 um veiðigjöld.
Hækkun veiðigjalda í 17% er ekki mikil í sögulegu samhengi. Frá 2012 hefur fjárhæð þeirra sveiflast verulega milli ára. Að hluta til vegna þess að auðlindagjöld eru næm fyrir afkomubreytingum en einnig vegna þess að frá 2013 til 2017 var þeim breytt af handahófi og eftir 2018 hafði möguleiki útgerðarfyrirtækja til að nota milliverðlagningu mikil áhrif. Sé fjárhæð veiðigjalda staðvirt til ársins 2024 með vísitölu framleiðslukostnaðar sést að hæst veiðigjöld eins árs voru 17,4 mrd. kr. eða nokkru hærri en þau eiga að verða eftir boðaða hækkun. Einnig sést að veiðigjöldin á fyrsta ári kerfisins 2012 samsvara 12,4 mrd. kr. Því má segja má að frumvarpið sé fyrst og fremst lagfæring á vanhugsuðu breytingum sem gerða voru á kerfinu eftir 2013.
Eigna- og hagsmunatengsl eru mikil í sjávarútvegi á Ísland milli og löngu vitað að verðlagning á sölu eða mat á verðmæti afla til vinnslu hjá tengdum aðila var ekki eins og í viðskiptum ótengdra aðila heldur notað verð sem sjómenn og útgerðir hafa samið um sín á milli. Fölsk milliverðlagningu eins og þetta er kallað flytur í bókhaldi hagnað og þar með rentu af veiðum til vinnslu. Í lögum um veiðigjald frá 2012 var þessu mætt með því að láta stofn veiðigjaldsins taka til hvort tveggja veiða og vinnslu og fanga þannig heildarrentuna í sjávarútvegi hvar svo sem hún kæmi fram í bókhaldi.
Með lögum um veiðigjald á árinu 2018 voru lagfærðar ýmsar afbakanir sem áður höfðu verið gerðar á lögunum frá 2012 en einnig voru stigið skref til baka m.a. það að fölsk milliverðlagning var látin hafa áhrif á útreikning á stofn veiðigjalda. Þótt fölsk milliverðlagning þurfi sjálf ekki að vera lögbrot getur hún haft áhrif sem ekki samrýmast lögum t.d. í skattamálum og samkeppnismálum. Algengt er að í lögum um þá málaflokka séu ákvæði þess efnis að í viðskiptum tengdra aðila skuli falskri milliverðlagningu vikið til hliðar og í stað hennar miðað við markaðsverð. Engin slík ákvæði eru í lögunum frá 2018. Í fyrirliggjandi frumvarpi er bætt úr því og kveðið á um að miða skuli við tiltekið markaðsverð. Er það eina efnislega breyting frá gildandi lögum sem lögð er til.
Afla er unnt að selja frá útgerð beint til erlendra aðila sem geta verið tengdir seljanda. Ekki er ótvírætt hvort ákvæði frumvarpsins um markaðsverð nái til þeirra viðskipta. Þarf að gæta þess við endanlega gerð frumvarpsins að svo verði og að eigi einnig við um sölu til erlendra aðila þótt eignatengsl liggi ekki fyrir. Má gera það með sértæku ákvæði um þessi tilvik eða almennu ákvæði um að allt verðmat á afla skv. lögunum skuli byggjast á verði í viðskiptum ótengdra aðila
Af greinargerð með frumvarpinu má ráða að það að miða verðmæti afla við samninga útgerðar við samtök sjómanna í stað markaðsverðs hafa árleg verið hafðir um 7 mrd. kr. af ríkissjóði í 8 ár eða 50 til 60 mrd. kr. alls og er megintilgangur frumvarpsins að stoppa í það gat og nota markaðsverð en það er grundvallaratriði í mati á auðlindarentu og gjaldtöku af henni.
Í frumvarpinu er tekið á einu af þremur stórum tæknilegum atriðum í núgildandi lög sem víkja frá réttum útreikningi auðlindarentu. Eitt þeirra er að víkja frá markaðsverði við verðmat á afla, sem hér er tekið á. Hin varða ákvörðun fjármagnsliða, þ.e. afskrifta og fjármagnskostnaðar. Núverandi ákvæði um þessa liði eru rökleysur sem ekki er vansalaust að hafa í lögum. Skattalegar afskriftir eru slæmur mælikvarði á verðrýrnun rekstrarfjármuna vegna ívilnandi fyrningareglna o.fl. Sem dæmi má nefna að unnt er afskrifa fiskiskip á átta árum, það er 12,5% á ári. Enn fráleitara er að ákveða að sama fjárhæð og fer í afskriftir skuli einnig dragast frá sem vextir og þar með önnur 12,5% vegna kaupa á nýjum togara. Tvöfalt kaupverð á nýjum togara kemur til frádráttar frá veiðigjaldastofni á átta árum.
Lagt til að þessu verði breytt þannig að í stað þessara tveggja frádráttarliða komi árgreiðslan í uppgjöri Hagstofu Íslands á afkomu veiða en hún er mat á árlegri greiðslu (annuiteti) af stofnverði allra fastafjármuna með hliðsjón af endingartíma þeirra og markaðsvöxtum. Með þeirri breytingu gæfu veiðigjaldalögin viðunandi lýsingu af auðlindarentu í sjávarútvegi.
Þrátt fyrir þá leiðréttingu og auknar tekjur hennar vegna verða veiðigjöldin fjarri því að vera réttlátur hluti þjóðarinnar af auðlind í hennar eigu og eðlilegt getur talist. Auðlindarenta á sjávarútvegi er talin vera um 20% af söluverðmæti sjávarafurða (sjá m.a. Indriði H. Þorláksson Fiskveiðiauðlindin og þjóðin og Stefán B. Gunnlaugsson, Hörður Sævaldsson, Daði M. Kristófersson. 2020. „Resource Rent and its Distribution in Iceland’s Fisheries.) eða milli 50 og 60 mrd. kr. miðað við síðustu ár. Í lögum um veiðigjald sem samþykkt voru á Alþingi 2012 var gert ráð fyrir að veiðigjöldin skyldu ná 65% rentunnar (fyrir jöfnunaraðgerðir) á nokkrum árum. Sú fjárhæð væri nú 32 – 39 mrd kr. Í Noregi virðist miðað við að “Grunnrenteskat” í fiskeldi og raforku skili ríkinu 75 – 80% rentunnar. Svipað eða hærra hlutfall á við um greiðslur af olíuvinnslu í olíusjóð Norðmanna. Sú viðmiðun hér væri 37 – 48 mrd.kr.
Verður því að líta á þetta frumvarp sem fyrsta skref í átt að því sem boðað er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Með hliðsjón af aðstæðum, skömmum tíma til stefnu og skorti á mótaðri samræmdri auðlindastefnu er varlegt skref skiljanlegt sem fyrsti áfangi en hefði mátt vera myndugra.