Barátta SFS gegn leiðréttingu á veiðigjöldum hefur skilað litlum árangri meðal almennings. Etv. er það vegna þess að sá málflutningur að stefna stjórnvalda sé árás á útgerð í landinu fær lítinn hljómgrunn. Ágreiningurinn snýst ekki um útgerðina. Almenningur er meðvitaður um mikilvægi sjávarútvegs og telur hann vel rekinn en er ekki sáttur við að arður af fiskveiðiauðlindinni renni nær allur til fárra útvalinna en lítið til eigenda hennar og samfélagsins sem lagði grundvöll að arðsemi hennar.
Veiðigjöld og gjaldþrot
Það er ekki aðeins að gjaldbyrði af veiðigjöldum í auglýsingu SFS sé röng. Staðhæfingar þeirra um yfirvofandi þrot fyrirtækja vegna veiðigjalda eru byggðar á sömu röngu forsendunum, óleiðréttum tekjum og hagnaði. Afkoma fyrirtækja er eðlilega misjöfn og víkur frá meðaltalinu til hækkunar eða lækkunar. Það verður hins vegar að teljast með ólíkindum að í atvinnugrein sem einkennist af því að hagnaður, hvort sem er á mælikvarða ávöxtunar á eigin fé, EBITDA eða sem hlutfall af tekjum, er um tvöfalt á við það sem almennt er í atvinnurekstri hér á landi geti svolítil leiðrétting á veiðigjaldi sett einhver fyrirtæki á hausinn. Sé svo hlýtur ástæðan að liggja í rekstri þeirra en ekki í almennum rekstrarforsendum þ.m.t. gjaldtöku sem er hin sama hjá öllum sambærilegum aðilum. Samkvæmt fræðum um markaðsbúskap og samkeppni er það óhjákvæmilegt og í þágu hagvaxtar að óarðbær fyrirtæki leggi upp laupana en hin arðbærari taki starfsemina yfir. Breyting almennra gjalda eða aðrar ráðstafanir til að halda óarðbærum fyrirtækjunum í rekstri leiðir til óhagkvæmni og tekjutaps fyrir þjóðarbúið í heild.