Veiran og viðbrögðin – ríkisstyrktur rekstur?

Sagt hefur verið að “óvænt” kreppa komi á 10 ára fresti. Hrunið er ekki enn gleymt almenningi en margt bendir til þess að hagaðilar í atvinnulífinu hafi verið fljótari að gleyma. Kreppuna nú er ekki að rekja beint til fjármálaheimsins heldur til lífrænna þátta bendir margt til þess að dýpt hennar megi að einhverju marki rekja til áhættusækni og fyrirhyggjuleysis sem jafnan einkennir bólur í hagkerfinu, að þessu sinni einkum í ferðaþjónustunni, offjárfestingar og skorts á vörnum til að mæta hugsanlegum áföllum.

Efnahagslegar afleiðingar kreppunnar hafa verið mikið ræddar og aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Almennt er talið að hingað til hafi hún haldið nokkuð vel á spöðunum en ástæða er til að horfa lengra fram á veginn og velta framhaldinu fyrir sér og að hverju  þurfi að stefna og hvað eigi að varast.

Áður en lengra er haldið er gott að áætla hugsanlegt umfang kreppunnar og gera sér grein fyrir eðli hennar. Byrja má á samanburði við hrunið 2008 sem teygði teygði halann sinn allt til 2014. Lauslega má ætla að tekjutap þjóðarbúsins á þeim árum hafi verið um 40% af vergri landsframleiðslu eins árs. Er þá gengið út frá því að ofþensla VLF á árinu 2008 hafi verið um 10% og að verg landsframleiðsla án hruns hefði vaxið frá þeim grunni með jöfnum hraða til ársins 2015 að hún hefði náð vergri landsframleiðslu þess árs eins og hún varð. Sá ferill er í samræmi við þróun  atvinnuleysis á þessum tíma. Sé þessi áætlun nærri lagi varð tekjumissir í þjóðarbúinu eftir Hrunið um 1.200 milljarðar króna miðað við árið 2019 eða um 700 milljarðar króna miðað við árið 2009.

Erfitt er á þessari stundu að segja fyrir um efnahagsáhrif COVID -19 niðursveiflunnar, sem eru um margt öðru vísi en þau voru í fjármálahruninu 2008. Sameiginlegt er þó að bein áhrif í raunhagkerfinu voru að mestu á einu atvinnusviði, byggingariðnaði þá en ferðaþjónustu nú en þá hrundi fjármálageirinn einnig. Það tók byggingariðnaðinn langan tíma að rísa upp en óvíst er um ferðaþjónustuna nú einkum vegna þess að vöxtur hennar á ný er að mestu háður ástandinu utan Íslands.

Í öðrum löndum og hjá alþjóðastofnunum hefur verið reynt að áætla efnahagsþróunina. Ný spá þýskra stjórnvald gerir ráð fyrir 6,3 % samdrætti landsframleiðslu þar á þessu ári og um 5,2% vexti á því næsta. Spá AGS um áhrif veirukreppunnar almennt er ekki fjarri þessu en gera ráð fyrir nokkuð dýpri lægð fyrir lönd sem eiga mikið undir ferðaþjónustu eins og Ísland. Má því gera ráð fyrir að niðursveiflan hér verði meiri og að vegna ferðatakmarkana og minni ferðavilja til að byrja með verði batinn hægari en víða annars staðar. Sé gert ráð fyrir um 8% niðursveiflu hér á landi í ár og að lægðin verði afstaðin 2023 má áætla að tekjutap þjóðarbúsins verði samanlagt um 25% af vergri landsframleiðslu eins árs, þ.e. um 750 milljarðar króna. Gróflega má áætla að um 500 milljarðar séu í lækkun atvinnutekna heimilanna en 250 milljarðar hagnaður fyrirtækja og fjármagnstekjur og að áhrif á tekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga verði um 300 milljarðar króna. Þessi áætlun um tekjutap þjóðarbúsins og hins opinbera er þó ekki mælikvarði á endanleg áhrif kreppunnar á ríkissjóð sem mun ráðast af mörgum öðrum þáttum.

Þetta tekjutap þjóðarbúsins verður aldrei bætt. Það er verðmæti þeirra vöru sem ekki var framleidd og þeirrar þjónustu sem ekki var veitt vegna kreppunnar. Kröfur um að einstaklingum, fyrirtækjum eða sveitarfélögum verði bætt tjónið eru órökréttar og óraunhæfar. Ríkið er ekki vátryggingarfélag en þar með er ekki sagt að ríkið eigi að vera óvirkt. Ráðstafanir ríkisvaldsins á krepputímum á ekki að miða við að bæta áorðið tjón heldur að því að jafna áhrifunum af tekjutapinu milli borgaranna og milli tímabila um leið og sköpuð eru skilyrði fyrir nýjum vexti. Með réttum viðbrögðum ríkisvaldsins má draga úr skaðanum og flýta fyrir bata.

Ríkið er samfélag um almannaheill og á að hafa hana að leiðarljósi en ekki hagsmuni einstakra aðila eða hópa. Í kreppuástandi hefur ríkið tvö meginverkefni. Annars vegar að tryggja velferð borgaranna í lengd og í bráð og hins vegar að stuðla að enduruppbyggingu efnahagslífs og atvinnu til lengri tíma. Ef vel er á haldið fara þessi verkefni saman því stór þáttur þess að varðveita velferð borgaranna er að halda uppi kaupgetu almennings en hún er jafnframt einn mikilvægasti hlekkur í því að koma í veg fyrir frekara hrun í atvinnulífinu og stuðla að endurreisn þess. Annað verkefni ríkisins er að halda uppi og styrkja stoðir velferðarkerfa ríkisins almennt en styrkur þeirra er nauðsynlegur fyrir endurreisn og vöxt hagkerfisins til lengri tíma.

Þau kerfi sem byggð hafa verið upp til að takast á við efnahagssveiflur og breytingar duga ekki í miklum efnahagskreppum. Á það m.a. við um það að tryggja framfærslu launþega við stöðvun atvinnustarfsemi. Hluti þessara tryggingar er fólgin í lögum um vinnumarkað og samningum um uppsagnarfrest og laun á þeim tíma en að honum loknum taka opinberar atvinnuleysistryggingar við. Nú hefur ríkið gripið ínn í með fé vegna aukins álags á opinbera kerfið og reglum þess hefur verið breytt til að bregðast við sérstökum aðstæðum, fyrst með hlutabótum og síðan styrkjum til fyrirtækja til að greiða laun á uppsagnartíma.

Hlutabætur og framlög til að greiða laun í uppsagnafresti eru í reynd styrkur úr ríkissjóði til þess að greiða lögbundinn og samningsbundinn launakostnað fyrirtækja. Fyrir utan lögmæti ríkisstyrkja almennt vekur þetta spurrningar um réttmæti þess að greiða slíka styrki. Laun í upsagnarfresti er lögbundin skuldbinding fyrirtækis sem hefur starfsmann á launum og verður að ætla að fyrirtæki sýni almennt þá fyrirhyggju að eiga fé til að mæta fyrirsjánlegum útgjöldum einhvern tíma þótt reksturinn verði fyrir utanaðkomandi áföllum eins og þekkjast í atvinnurekstri, aflabresti, verðfalli á mörkuðum o.fl. Líka spyrja hvort lánastofnanir sem fjármagnað hafa uppbyggingu fyrirtækja hafi sýnt fyrirhyggju og varúð í þessu tillit eða látið sé nægja að tryggja sinn hag með háum vöxtum og veði í eignum. 

Hvernig sem þessu er háttað er næsta víst að enginn hefur reiknað með eða verið búinn undir jafn víðtækt hrun og nú hefur orðið í ferðaþjónustu sem sér fram á tekjumissi langt umfram uppsagnafrest starfsmanna. Aðstaða fyrirtækjanna til að bregðast við þessum tekjumissi er misjöfn. Sum, einkum þau smærri, hafa verið byggð upp á miklu vinnuframlagi eigenda á síðustu árum, litlu eigin fé og lánum og hafa líklega ekki mikið eigið fé eða varasjóði. Önnur hafa í krafti stærðar og í sumum tilvikum í skjóli einokunar eða fákeppni komist ágætlega af, eiga mikið eigið fé og hafa greitt eigendum mikinn arð og lánadrottnum háa vexti. 

Ríkistyrkur til fyrirtækja er tilfærsla á eignum frá almenningi til eigenda fyrirtækja og þeirra sem hafa fjármagnað þau. Það kemur því er ekki alveg óvænt að frá þeim komi fram kröfur um að ríkið leggi fyrirtækjunum til fé án kvaða eða skuldbindinga um endurgreiðslur því. Víst er brýnt að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og atvinnuleysi og forsvaranlegt að verja fé til þess að afstýra eða draga úr slíkri vá en það getur ekki réttlætt stórfellda tilfærslu eigna almennings til fyrirtækja og eigenda þeirra sem ekki þurfa á aðstoð að halda til að standa við skuldbindingar sínar og eðlilegt er að taki á sig eitthvað til að bjarga eignum sínum. Fyrirtæki með góða eiginfjárstöðu eiga að taka á sig tap og lækkun eigna og eigendur þeirra sem fengið hafa ríflegar arðgreiðslur eiga ef þörf krefur að leggja þeim til aukið fé auk þess sem að lánveitendur slíkra fyrirtækja ættu að leggja sitt að mörkum til að tryggja framtíðartekjur sínar.

Með óskilyrtum  hlutabótum var farið út á þá braut að styrkja fyrirtæki með almannafé án tillit til stöðu þeirra. Hefur það eðlilega sætt gagnrýni að stöndug fyrirtæki, sem greitt hafa eigendum sínum mikinn arð, fái milljónatugi úr ríkissjóði án þess að eigendur þess leggi þeim til aukið fé eða taki á sig ábyrgðir. Með ákvörðunum um greiðslu launa á uppsagnafresti virðist eiga að halda lengra á þeirri braut þótt í kynningu á aðgerðunum se óljóst minnst á hugsanlegan endurkröfurétt og skilyrði um rekstrarhæfi.  

Styrkur til fyrirtækja af almannafé ætti því að vera skilyrtur með tilliti til stöðu þeirra og afkomu og þegar hann er veittur ætti honum að fylgja skuldbinding um endurgreiðslu með einhverjum hætti með tryggingu í fyrirtækinu, eignum þess eða framtíðarafkomu.