Ýmsum var brugðið þegar framkvæmdastjóri SA, í drottningarviðtali í Silfrinu, romsar upp athugasemdalaust staðleysum sem hann hafði áður birt í Morgunblaðinu og étur upp ýmsar þær bábiljur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið á borð í kosningabaráttunni. Þessi viðbrögð manna við þættinum koma ekki á óvart. En rétt er að hafa í huga að sú ritstjórnarstefna Silfursins að vera vettvangur mismunandi skoðana og viðhorfa er virðingarverð og nauðsynleg fyrir þjóðmálaþátt. Sú spurning vaknar þó hvort það flokkist undir umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra eða hlutleysi að leyfa pólitískum erindreka í dulargerfi flytja áróðursræðu án þess að vera spurður gagnrýninna spurninga sem augljóslega var full þörf á, einkum vegna þess að tími hefði gefist til að undirbúa þær. Umræðuefnið var jöfnuður á Íslandi og til einræðu um það var af öllum mönnum valinn talsmaður samtaka þar sem auðmenn landsins ráða ríkjum og berjast á pólitískum vettvangi fyrir sérhagsmunum sínum.
……………
Grýla hans um væntanlegan flótta auðmanna úr landi er gamalkunn og ástæðulaust að óttast hana. Tekjusköpun fer ekki fram með höndum þeirra sem sitja einhvers staðar með sín hlutabréf og hirða arðinn heldur í fyrirtækjunum sem starfa hér á landi og þau eru ekkert á förum hvort sem um er að ræða sjávarútveg, fjármálastarfsemi eða skúringar. Það gildir litlu hvar eigendurnir kjósa að skrá heimili sitt og hafa þeir ýmsir hvort sem er þegar flutt það til annarra landa til að forðast skattlagningu eða fela raunverulegt eignarhald. Það væri kannske bara hreinsun að losna við þá aðila sem hvorki vilja borga hér skatt né taka þátt í atvinnustarfsemi með opnum hætti en krefjast hér réttinda og áhrifa.