Erfið fæðing

Fyrir þá sem hafa haft nasasjón af átökum um kjaramál er deila ljósmæðra og ríkisins ráðgáta. Sagt er að himinn og haf beri á á milli aðila, kostaboð ganga á milli en að lokum er rauða spjaldið alltaf dregið upp og leikmenn settir á byrjunarreit. Mikið er sagt í húfi. Velferð nýbura og mæðra og sjálfur stöðugleikinn. En sáttasemjari er sáttur við sig og boðar til funda á lögboðnum hámarksfresti. Öðru vísi mér áður brá þegar samningamenn voru skikkaðir og jafnvel sóttir óviljugir um skipsborð til að sitja sáttafundi.

Ljósmæður í starfi munu vera um 150 – 200 talsins. Það mun vera 3-4% af mannafla við heilbrigðisþjónustu í landinu, um 0,3% af starfsmönnum hins opinbera og um 0,1%,  eitt promill, af öllum störfum í landinu. Lítil þúfa getur velt stóru hlassi en til þess þarf klaufalegan akstur.

Ágreiningur af svipuðu tilefni og nú þegar kröfur um menntun eða aðrar forsendur starfa breytaast og raska viðmiðunum innan starfstétta eða milli þeirra er ekki nýmæli. Má nefna þróun í starfs- og menntunarkröfum kennara, leikskólakennara, hjúkrunarfræðinga og fleiri stétta og starfshópa opinberra starfsmanna. Þær breytingar tóku á við gerð kjarasamninga en jafnan tókst að finna lausn og brúa bilið með góðum vilja og vinnu þeirra sem áttu hlut að máli. Lausnin gat verið fólgin í því að sameinast um byrjun á samræmingarferli og fela síðan starfshópi aðila etv með faglegri aðkomu vinnustaðar og/eða stéttabandalaga að vinna sig að raunhæfri lausn til lengri tíma.

Kannske hefur svona nálgun verið reynd. Kannske eru samninganefndirnar ekki jafnforpokaðar og staðnaðar í frösum eins og ætla má af fréttaflutningi. Getur það þá verið ásetningur ljósmæðra að setja allt á hausinn eða eru þær vantrúaðar á þá speki að þeirra sé mátturinn og dýrðin? Getur það verið að samningaanefnd ríkisins og fjármálaráðherra trúi því sem þeir boða eða er þeim bara í mun að hnykla vöðvana og þóknast þeim sem anda ofan í hálsmál þeirra og þykjast jafnan best fallnir til að ráða ferðinni?

Vonandi fæst svar við þessum spurningum á næstunni. Allavega heyrði ég í þessu að sáttasemjari hefði frétt af alvarlegu ástandi í málunum og hefði boðað til sáttafundar. Vonandi átta menn sig á því að lítil þúfa er ekki fjall.

3 athugasemdir á “Erfið fæðing

  1. Sæll Indriði.

    Flott innlegg frá reynslubolta af hliðarlínunni… Þegar maður horfir til baka er gaman að hugsa til samningafundanna, þó manni hafi ekki fundist þeir neitt sérstaklega skemmtilegir á sínum tíma og menn handan við borðið stundum ansi fastir fyrir. Ég notaði tækifærið þegar Ólafur Karvel fór á sjó að leggja til breytingar á starfsheitum náttúrufræðinga, en Ólafi geðjaðist ekki vel að „yfirnáttúrufræðingi“, sem ég sá sem leið til að bæta laun góðra vísindamanna sem ekkert erindi áttu í stjórunarstörf.

    Ég er ekki frá því að setan á samningafundunum hafi verið góður skóli fyrir mig þegar mér var hent út á ráðgjafamarkaðinn, því þarna lærði maður að þó hart væri stundum deilt um málefni, þá þurftu menn ekkert endilega að vera óvinir. Þú átt nokkurn þátt í því….

    Bestu kveðjur,

    Ómar Bjarki

    Líkar við

  2. Er ekki vandinn þarna sá að ríkið óttast að verði samið um að auka á ný það launabil milli ljósmæðra og viðmiðunarhópa sem samið var um fyrir nokkrum árum, en hefur nú nær horfið, muni aðrir hópar krefjast svipaðra hækkana? Og eru ekki skilaboð forystumanna þeirra einmitt á þann veg?

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s