Samtök atvinnulífsins telja það ekki vera fyrirtækjanna að greiða starfsmönnum laun fyrir að sitja í sóttkví. Spurð um samfélagsábyrgð var henni vísað á almenning í landinu.
Samfélagsábyrgð fyrirtækja er skrítin skepna. Eftir að hún fannst fyrir fáum áratugum hefur henni vaxið fiskur um hrygg og hefur alið af sér ómælt sjálfslofs í ársskýrslum og auglýsingum fyrirtækja, átaksverkefni og ráðstefnur. Á einni slíkri sem haldin var hér fyrir nokkrum árum rómaði forstjóri alþjóðafyrirtækis, sem á stóran hluta allrar gosdrykkja- og sælgætisframleiðslu í heiminum, ábyrgð þess gagnvart samfélaginu, hvort sem er í vanþróuðum ríkjum sem leggja því til hrávöru á spottprís eða ofneysluríkjum vesturlanda þar sem framleiðslan er lifibrauð offeitra barna.
Íslenskar matvöruverslanir sýna samfélagábyrgð með því að ota vörum alþjóðarisans framan í neytendur, ekki síst börn. Hillumetrar fyrir gos og sælgæti eru sumstaðar fleiri en fyrir alla aðra matvöru samtals og kúnnarnir eru eltir fram að að afgreiðslukössunum í von um að pirrað foreldri í biðröðinni þaggi niður í afkvæminu með kaupum á nammi á síðustu stund.
Þessi samfélagsábyrgð birtist einnig í baráttu sprúttsala fyrir því að fá að lofsyngja vínandann opinberlega og öðlast “frelsi” til fylla landann (og eigin buddu) aðeins meira en unnt er með því velvirka og ábyrga sölukerfi sem áfengi er í.
Þegar kemur að Covid-19 er ábyrgðarmælirinn hins vegar fullur og alls konar hliðar á málinu koma í ljós. Þeirra á meðal er ekki sú að fólkið í sóttkvínni er ekki þar til að forða sér frá smiti heldur til að koma í veg fyrir að smita aðra þar á meðal fólk á vinnustað sínum. Góður starfsmaður vill ekki valda vinnuveitanda sínum tjóni og verður að axla sína ábyrgð og sitja launalaus heima. Laun í tvær vikur er nú ekki nema um 4% af árslaunum hans.
Að axla samfélagsábyrgð vegna Covid-19 yrði fyrirtækjunum of dýrkeypt. Fjöldi sóttkvíaðra er nú um 300 og má áætla að um 200 þeirra séu vinnandi fólk. Það eru um 0,1% vinnumarkaðarins. Sé reiknað með því að sú tala haldist þá tvo mánuði, sem áætlað er að fárið standi, myndu laun í sóttkví verða um 0,017% af árslaunasummu í landinu. Sú fjárhæð er miðuð við meðallaun og kann að vera vanáætluð því líklega eru félagsmenn í Eflingu ekki að skíðlysta sig í Lombardí á meðan allt er á kafi í snjó á landinu bláa.