Samfélagsábyrgð og Covid-19

Samtök atvinnulífsins telja það ekki vera fyrirtækjanna að greiða starfsmönnum laun fyrir að sitja í sóttkví. Spurð um samfélagsábyrgð var henni vísað á almenning í landinu.

Samfélagsábyrgð fyrirtækja er skrítin skepna. Eftir að hún fannst fyrir fáum áratugum hefur henni vaxið fiskur um hrygg og hefur alið af sér ómælt sjálfslofs í ársskýrslum og auglýsingum fyrirtækja, átaksverkefni og ráðstefnur. Á einni slíkri sem haldin var hér fyrir nokkrum árum rómaði forstjóri alþjóðafyrirtækis, sem á stóran hluta allrar gosdrykkja- og sælgætisframleiðslu í heiminum, ábyrgð þess gagnvart samfélaginu, hvort sem er í vanþróuðum ríkjum sem leggja því til hrávöru á spottprís eða ofneysluríkjum vesturlanda þar sem framleiðslan er lifibrauð offeitra barna.

Íslenskar matvöruverslanir sýna samfélagábyrgð með því að ota vörum alþjóðarisans framan í neytendur, ekki síst börn. Hillumetrar fyrir gos og sælgæti eru sumstaðar fleiri en fyrir alla aðra matvöru samtals og kúnnarnir eru eltir fram að að afgreiðslukössunum í von um að pirrað foreldri í biðröðinni þaggi niður í afkvæminu með kaupum á nammi á síðustu stund.

Þessi samfélagsábyrgð birtist einnig í baráttu sprúttsala fyrir því að fá að lofsyngja vínandann opinberlega og öðlast “frelsi” til fylla landann (og eigin buddu) aðeins meira en unnt er með því velvirka og ábyrga sölukerfi sem áfengi er í.

Þegar kemur að Covid-19 er ábyrgðarmælirinn hins vegar fullur og alls konar hliðar á málinu koma í ljós. Þeirra á meðal er ekki sú að fólkið í sóttkvínni er ekki þar til að forða sér frá smiti heldur til að koma í veg fyrir að smita aðra þar á meðal fólk á vinnustað sínum. Góður starfsmaður vill ekki valda vinnuveitanda sínum tjóni og verður að axla sína ábyrgð og sitja launalaus heima. Laun í tvær vikur er nú ekki nema um 4% af árslaunum hans.

Að axla samfélagsábyrgð vegna Covid-19 yrði fyrirtækjunum of dýrkeypt. Fjöldi sóttkvíaðra er nú um 300 og má áætla að um 200 þeirra séu vinnandi fólk. Það eru um 0,1% vinnumarkaðarins. Sé reiknað með því að sú tala haldist þá tvo mánuði, sem áætlað er að fárið standi, myndu laun í sóttkví verða um 0,017% af árslaunasummu í landinu. Sú fjárhæð er miðuð við meðallaun og kann að vera vanáætluð því líklega eru félagsmenn í Eflingu ekki að skíðlysta sig í Lombardí á meðan allt er á kafi í snjó á landinu bláa.

Orðuskaup

Ef skrif leiðarahöfundar Fréttablaðsins 3. jan. 2020 um orðuveitingu ársins væru úr öðrum penna runnin hefði mátt ætla að þau væru kurteisleg ábending um að rökstuðningur orðunefndar með einni orðuveitingunni væri framlag hennar til áramótaskaupsins. Í honum virðist byggt á sögu orðuþegans í tímaritinu Þjóðmál um framgöngu sína sem liðsmanns svokallaðs Indefense hóps þar sem hann þakkar sér flest þau gæfuspor sem stigin hafa verið frá hruni til endurreisnar, lausn Icesave-málsins, skuldaúrlausn heimilanna, viðsnúning efnahagslífsins og að lokum stórgróða af hruninu. Sá eini sem eitthvað lagði að mörkum auk hans sjálfs hafi verið seðlabankastjóri kreppunnar, sem þvertekið hafi fyrir það, sem engum hafði reyndar hugkvæmst, að greiða skuldir óreiðumanna enda ljóst að þjóðin hafði nóg að gera með þær óreiðuskuldir sem gjaldþrota seðlabanki sat uppi með eftir aðgerðir og aðgerðaleysi hans. Reyndar sótti þessi orðuþegi það fast að verða einnig Seðlabankastjóri.

Í afrekaskránni er hins vegar litið fram hjá ýmsum atriðum, staðreyndum hnikað eða snúið við og nýr sannleikur búinn til. Ekki er minnst á að Icesave skuldin greiddist að fullu af þrotabúin rétt eins og allir samningar ráðgerðu og að Bretar og Hollendingar fengu um 54 milljarða í sinn hlut umfram það sem þeir höfðu lagt út og þar af 20 milljarða króna samkvæmt sérstökum samningi sem leiðtogi hans, Sigmundur Davíð, undirritaði. Þess er heldur ekki getið að “gróðinn” af stöðugleikaframlögum gömlu bankanna var einungis greiðsla á hluta af því tapi ríkissjóðs og samfélagsins sem þeir höfðu valdið og ekki fékkst bætt af þrotabúum þeirra. Leiðréttingin mikla var hvorki greidd af slitabúunum né olli þeim straumhvörfum í efnahagslífinuu sem fram er haldið. Hún var greidd af ríkissjóði, þ.e. skattgreiðendum, en rann fyrst og fremst til þeirra sem betur voru settir og fengu einnig sína “leiðréttingu” með hækkun fasteignaverðs. Viðsnúningur í efnahagslífinu hófst þegar á árinu 2010 en ekki eftir 2013 eins og látið er að liggja og þakkað dáðum orðuþegans. Fleiri villur af þessum toga mætti tiltaka.

Orðuþeginn er vel að upphefð sinni kominn og orðan hefði vart talist ámælisverð þótt hún hefði verið án þeirra fölsku fjaðra sem orðunefnd hengdi á hana. Hann gegnir trúnaðarstörfum fyrir sérhagsmunasamtök, sem jafnan hefur þótt lofsvert, og er að auki vel ættaður og hefur eflaust hlotið kristilegt uppeldi sem að öðru jöfnu er talin trygging fyrir sannleiksást og hógværð.

Erfið fæðing

Fyrir þá sem hafa haft nasasjón af átökum um kjaramál er deila ljósmæðra og ríkisins ráðgáta. Sagt er að himinn og haf beri á á milli aðila, kostaboð ganga á milli en að lokum er rauða spjaldið alltaf dregið upp og leikmenn settir á byrjunarreit. Mikið er sagt í húfi. Velferð nýbura og mæðra og sjálfur stöðugleikinn. En sáttasemjari er sáttur við sig og boðar til funda á lögboðnum hámarksfresti. Öðru vísi mér áður brá þegar samningamenn voru skikkaðir og jafnvel sóttir óviljugir um skipsborð til að sitja sáttafundi.

Ljósmæður í starfi munu vera um 150 – 200 talsins. Það mun vera 3-4% af mannafla við heilbrigðisþjónustu í landinu, um 0,3% af starfsmönnum hins opinbera og um 0,1%,  eitt promill, af öllum störfum í landinu. Lítil þúfa getur velt stóru hlassi en til þess þarf klaufalegan akstur.

Ágreiningur af svipuðu tilefni og nú þegar kröfur um menntun eða aðrar forsendur starfa breytaast og raska viðmiðunum innan starfstétta eða milli þeirra er ekki nýmæli. Má nefna þróun í starfs- og menntunarkröfum kennara, leikskólakennara, hjúkrunarfræðinga og fleiri stétta og starfshópa opinberra starfsmanna. Þær breytingar tóku á við gerð kjarasamninga en jafnan tókst að finna lausn og brúa bilið með góðum vilja og vinnu þeirra sem áttu hlut að máli. Lausnin gat verið fólgin í því að sameinast um byrjun á samræmingarferli og fela síðan starfshópi aðila etv með faglegri aðkomu vinnustaðar og/eða stéttabandalaga að vinna sig að raunhæfri lausn til lengri tíma.

Kannske hefur svona nálgun verið reynd. Kannske eru samninganefndirnar ekki jafnforpokaðar og staðnaðar í frösum eins og ætla má af fréttaflutningi. Getur það þá verið ásetningur ljósmæðra að setja allt á hausinn eða eru þær vantrúaðar á þá speki að þeirra sé mátturinn og dýrðin? Getur það verið að samningaanefnd ríkisins og fjármálaráðherra trúi því sem þeir boða eða er þeim bara í mun að hnykla vöðvana og þóknast þeim sem anda ofan í hálsmál þeirra og þykjast jafnan best fallnir til að ráða ferðinni?

Vonandi fæst svar við þessum spurningum á næstunni. Allavega heyrði ég í þessu að sáttasemjari hefði frétt af alvarlegu ástandi í málunum og hefði boðað til sáttafundar. Vonandi átta menn sig á því að lítil þúfa er ekki fjall.

Frá Panama til Paradísar

Á eftir Panama kom Paradís. Enn er dregið fram hvernig fjölþjóðafyrirtæki og einstaklingar, sem til þess hafa efni og geð, láta stjórnast af græðgi. Hlutur Íslands er nú annar en þeir yfirburðir sem sáust í Panamaskjölunum. Því miður er það ekki vottur um bót og betrun en ræðst af því hverjir sáu um myrkraverkin þessu sinni.

Í Panamaskjölunum náðist sá einstæði árangur á alþjóðamælikvarða að þrír ráðherrar og tveir borgarfulltrúar örríkis í norðurhöfum urðu samtímis uppvísir að því að hafa sniðgengið landslög í eiginhagsmunaskyni. Enginn gekkst þó við því að hafa gert eitthvað rangt hvað þá að beðist væri afsökunar. Að einum frátöldum hefur enginn þeirra lýst því yfir að hann hafi, áður en upp komst, staðið skattyfirvöldum skil á lögbundnum upplýsingum. Sá kokhrausti varð uppvís að því að fara með rangt mál.

Bylgja andúðar á þessu framferði reis hátt og stjórnmálamenn víða um heim hétu því að beita sér af alefli gegn hvers kyns skattasniðgöngu og fjölþjóðasamtök hvetja til samstarfs um að útrýma aflandssvæðum. Hér á landi var lítið aðhafst annað en að skattyfirvöld unnu úr þeim gögnum sem særð voru úr leynihólfum þeirra sem hulunni hafði verið svipt af. Nokkar tæknilegar breytingar voru gerðar á skattalögum en málið að öðru leyti sett í nefnd án efnda.

Ekkert siðferðilegt uppgjör fór fram. Engin úttekt var gerð eða skýrsla unnin um það hvort stjórnmálamenn hafi sniðgengið reglur og eftir atvikum brotið lög til að komast hjá því að greiða í sameiginlega sjóði þess ríkis, sem hefur þá á launaskrá. Þeir birtast því nú vængjaðir á hvítum hesti og veifa fölsuðum sakavottorðum. Ekkert pólitískt uppgjör fór fram. Eftir fjölmenn mótmæli steig Panamafólkið til hliðar og hafði hægt um sig á meðan algleymið skall á en gerir nú tilkall til fyrri metorða.

Paradísarskjölin afhjúpa fátt nýtt annað en umfangið. Þau sýna hins vegar enn betur en áður að það sem skilur á milli almennings og þeirra sem sagt hafa sig úr lögum við samfélagið og hreiðra um sig skattaskjólum er auður, græðgi og aðstaða. Þeir nærast þó áfram á því samfélagi sem ól þá og er uppspretta auðs þeirra. Það hafa þeir nú yfirgefið nema að nafninu til. Þurfum við virkilega lengur á þeim að halda? Eru þeir að annarra en eigin áliti best allra fallnir til að stýra því samfélagi sem þeir hafa í raun sagt skilið við?

Vinarkveðja

Vinur minn og baráttufélagi til margra ára, Þröstur Ólafsson, hefur líklega farið öfugu megin fram úr rúmi sínu daginn sem hann skrifaði pistil á facebook um innrás þjóðernisafla til Íslands. (https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=495248837508711&id=100010707974213&pnref=story) Ég er sammála honum um þá óheillaþróun sem víða er að merkja í Evrópu með uppgangi slíkra flokka. Þeim hluta greiningar hans sem snýr að Íslandi verður að hafna sem röngum og órökstuddum. Að finna samsvörun þessara rasísku hreyfinga í Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum er í undarleg hugarsmíði. Þótt jaðarhópar í Sjálfstæðisflokknum og einstaka forystumenn hans daðri á stundum við rasíska kjósendur er fráleitt að finna flokknum stað í hópi rasískra flokka þegar litið er til sögu hans og meginstrauma í stefnu hans. Innanmein hans nú er af allt öðrum toga, þ.e. efnahagsleg og félagsleg öfgafrjálshyggja, sem kemur í veg fyrir að hann fóti sig í breyttri veröld.
Sú staðhæfing að Vinstri grænir séu í félagsskap þjóðernishyggju er enn fráleitari og ekki svaraverð nema af því að hún er sett fram af málsmetandi manni þótt í fljótfærni sé. Í afstöðu íslenskra stjórnmálaflokka til mannréttindamála finnst enginn flokkur sem hefur jafn afdráttarlaust og Vg (ásamt Pirötum og Samfylkingu) hafnað þjóðernisfordómum í hvaða mynd sem er og barist fyrir því að allir þeir sem koma vilja hingað til lands njóti þeirra mannréttinda sem samfélagið býður þegnum sínum óháð húðlit, trú osfr.
Það að gera meinta afstöðu flokkanna til afmarkaðra mála eins og landbúnaðar og sjávarútvegs að vitnisburði um sameiginlega þjóðernishyggju er langsótt speki. Í fyrsta lagi hefur afstaða í þeim málum ekkert með þjóðernishyggju að gera (Guðni Ágústssonar er ekki er enn genginn til liðs við Vg) og í öðru lagi er meint afstaða Vg í þessum málum afflutt. Sérstaða landbúnaðar í ESB er viðurkennd með ýmsum hætti þótt ekki sé þar allt eins og best væri á kosið. Hér eigum við enn ógert að skilgreina hana. Staðan í landbúnaðarmálum og matvælaframleiðslu er óviðunandi en jafnframt er ljóst að hún verður ekki leyst nema með því að taka tillit til áhrifa á byggðamál, umhverfismál og margt fleira. Patentlausnir eru ekki í boði.
Að spyrða saman afstöðu þessara tveggja flokka í sjávarútvegsmálum hlýtur að vera afleiðing ónógs nætursvefns. Í stefnu Vg segir: “Allar  auðlindir, hvort sem er til lands eða sjávar, eiga að vera ævarandi og óframseljanlegar eignir íslensku þjóðarinnar. Þjóðinni ber að njóta arðs af allri auðlindanýtingu.” Að Vg vilji ekki gjaldtöku fyrir nýtingu fiskveiðiauðlindarinnart er ekk bara í mótsögn við þessa stefnu heldur stangast á við þá staðreynd að ef einhver á heiður af því að hafa komið á veiðigjöldum, sem voru meira en orðin tóm, eru það Vinstri grænir. Sú gjaldtaka hefur skilað þjóðinni nokkrum tugum milljarða þrátt fyrir niðurrif síðustu ríkisstjórna og er það eini marktæki auðlindaarður þjóðarinnar.
Hryllingssögur um væntanlegt stjórnarsamstarf D og Vg eftir kosningar eru dapurleg lesning. Vegna ólíkra stefnumála og starfshátta er ekkert stjórnarsamstarf Vg ólíklegra annað en samstarf við hin raunverulegu þjóðerninsöfl sem Þröstur nefnir ekki á nafn. Það væri þarft verk hverjum sem vill leggja jafnaðarstefnu lið að draga fram og ræða sameiginleg verkefni þeirra sem fara vilja í þá vegferð í stað þess að efna til ýfinga þeirra á meðal.

Blaðurspói og bullustelkur

Setti á heimasíðuna stuttan pistil um blaðurspóa og bullustelki: Blaðurspói og bullustelkur

„Oft er reynt að ljá röngum staðhæfingum trúverðugleika með því að bera þær fram undir virtu nafni. Dæmi þess má finna í dálki í Viðskiptablaðinu 19. sept. sl. þar sem reynt er að koma höggi á formann Samfylkingarinnar með fölskum staðhæfingum, sem settar eru fram undir dulnefni……………..

Hrafnarnir fornu, Huginn og Muninn, eru einkennisfuglar Menntaskólans á Akureyri, nafngjafar skólafélagsins og skólablaðsins. Flugu þeir um heim allan og upplýstu Óðinn um hvaðeina, sem gerðist. Mun Óðinn trauðla hafa sætt sig við bull og blaður úr goggi þeirra. Sem fyrrum nemandi MA misbýður mér notkun Viðskiptablaðsins á nöfnum þessara heiðursfugla fyrir feluskrif og falsfréttir og leyfi mér að benda blaðinu á að nota í staðinn fuglanöfn við hæfi svo sem blaðurspói og bullustelkur.

PS. Sjánlega ofbýður fleirum en mér meðferð fugla þessara á staðreyndum, sbr. grein Gamalíels Sveinssonar í Viðskiptablaðinu 28. 9. 2017.“  http://www.vb.is/skodun/er-landsframleidslan-oll-tom-vitleysa/141678/

 

 

Metnaðarleysi ferðamálayfirvalda

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Birti grein á heimasíðu minni um viðhorf stjórnvalda til leiðsagnar ferðamanna á Íslandi

Metnaðarleysi ferðamálayfirvalda

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birti nýverið skýrslu um Ísland sem að hluta til var helguð ferðamálum vegna áhrifa þeirra á endurreisn landsins eftir hrunið. Í skýrslunni eru misgóðar ábendingar um áherslur á þessum vettvangi. Sumar eru gamlar, heimabakaðar lummur svo sem um handstýringu ……..

Fram kom á Alþingi skömmu fyrir þinglok fyrirspurn til ráðherra ferðamála um viðhorf hans til lögverndunar á starfsheiti leiðsögumanna. Í fyrirspurninni kemur fram að um sé að ræða starfsheiti leiðsögumanna með starfsundirbúning sem uppfyllir staðlinn IST EN 15565:2008, sem gilt hefur hér á landi síðan á árinu 2008. ………

Það er vonandi að orðin „á þessu stigi” hafi bara verið gamall handhægur orðaleppur sem ráðherra hefur gripið til í vandræðum en sé ekki vísbending um að hann telji þetta ástand í lagi eða að æskilegt sé að bíða með aðgerðir eftir því að ástandið versni enn og fagleg leiðsögn ferðamanna á Íslandi heyri sögunni til.

Ríkisstjórnin og Panamaskjölin

Meginástæða til kosninga og myndunar nýrrar stjórnar nú var afhjúpun Panamaskjalanna sem sýndi að hundruð Íslandinga nýttu skattaskjól til að fela starfsemi sína, tekjur og eignir. Þar á meðal eru stjórnmálamenn, ráðherrar og borgarfulltrúar. Nýlegar fréttir frá skattyfirvöldum sýna að stór hluti þessara aðila nýtti sér skattaskjólin til að komast hjá því að greiða skatta til samfélagsins. Þeir gerðust brotlegir gagnvart skattalögum og fjöldi þeirra er grunaður um refsiverðar athafnir sem eru til skoðunar hjá saksóknara. Skattalagabrotin munu ekki verða opinber nema í þeim tilvikum að þau sæti refsimeðferð hjá dómstólum. Aðilar að öðrum skattundanskotsmálum eru verndaðir af trúnaðarskyldu skattyfirvalda.

 
Þeir sem nú sæta rannsókn skattyfirvalda hafa vafalítið haldið fram sakleysi sínu á einhverju stigi málsins og fullyrt að þeir hafi gert skattyfirvöldum grein fyrir öllu sem skiptir máli. Það er samt ekki þeirra heldur skattyfirvalda að leggja mat á hvort svo sé. Það á líka við um þá opinberu persónur sem uppvísar hafa orðið að skattaskjólsstarfsemi. Engin þeirra hefur sagt eða getað sýnt fram á að skattyfirvöldum hafi í reynd verið staðin skil á lögskyldum upplýsingum svo sem ársreikningum félaga sinna fyrir árin eftir 2010. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið hafa sýnt einkennilega linkind í þessum málum. Fyrir utan ábendingar og spurningar einstakra þingmanna hefur lítið gerst, enginni rannsókn á vegum þessara aðila hefur verið komið á og þær lagabætur sem gripið var til eru máttlitlar, bæta núverandi framkvæmd en nýtast á engan hátt til að stemma stigu við þessari starfsemi eða upplýsa um hana eins og hún er nú.

 
Það væru einkennileg skilaboð til kjósenda, m.a. þeirra þúsunda sem risu upp og mótmæltu veru Tortólaliðs í ríkisstjórn landsins, að sjá það leitt á ný til hásætis fyrir tilstilli þeirra sem kynna sig sem fulltrúa nýrra stjórnmála.

Óharmonísk kjaradeila

Félag stjórnenda og kennara í tónlistarskólum á í deilu við sveitarfélögin vegna kröfu félagsins um njóta sömu kjara og kennarar með samnbærilega menntun við grunnskóla eins og þeir höfðu þar til hrunið raskaði því samræmi. Verði SALEK samkomulagið að veruleika verða tónlistarskólakennarar að búa við þetta misræmi á gildistíma þess. Í Kjarnanum og á heimasíðu minni er grein um málið.

Óharmonísk kjaradeila

Innanlandsflug og ferðaþjónusta

Á vormánuðum þegar ég var að undirbúa leiðsöguferð sumarsins, sem vel að merkja er ein best skipulagða ferð sem völ er á, gerði ég drög að grein um ferðamál og innanlandsflug, sem byggðist á ýmsu sem komið hafði upp í samtölum við kollega mín á þeim vettvangi. Á síðustu dögum hefur þau sjónarmið sem ég hafði í huga komið fram hjá nokkrum þeirra sem tjáð sig hafa um innanlandsflug í fjölmiðlum á síðustu dögum. Sjáandi að ég var ekki einn á báti lét ég verða af því að fullskrifa greinina og birta hana á heimasíðu minni indridih.com undir nafninu: Innanlandsflug og ferðaþjónusta