Vinarkveðja

Vinur minn og baráttufélagi til margra ára, Þröstur Ólafsson, hefur líklega farið öfugu megin fram úr rúmi sínu daginn sem hann skrifaði pistil á facebook um innrás þjóðernisafla til Íslands. (https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=495248837508711&id=100010707974213&pnref=story) Ég er sammála honum um þá óheillaþróun sem víða er að merkja í Evrópu með uppgangi slíkra flokka. Þeim hluta greiningar hans sem snýr að Íslandi verður að hafna sem röngum og órökstuddum. Að finna samsvörun þessara rasísku hreyfinga í Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum er í undarleg hugarsmíði. Þótt jaðarhópar í Sjálfstæðisflokknum og einstaka forystumenn hans daðri á stundum við rasíska kjósendur er fráleitt að finna flokknum stað í hópi rasískra flokka þegar litið er til sögu hans og meginstrauma í stefnu hans. Innanmein hans nú er af allt öðrum toga, þ.e. efnahagsleg og félagsleg öfgafrjálshyggja, sem kemur í veg fyrir að hann fóti sig í breyttri veröld.
Sú staðhæfing að Vinstri grænir séu í félagsskap þjóðernishyggju er enn fráleitari og ekki svaraverð nema af því að hún er sett fram af málsmetandi manni þótt í fljótfærni sé. Í afstöðu íslenskra stjórnmálaflokka til mannréttindamála finnst enginn flokkur sem hefur jafn afdráttarlaust og Vg (ásamt Pirötum og Samfylkingu) hafnað þjóðernisfordómum í hvaða mynd sem er og barist fyrir því að allir þeir sem koma vilja hingað til lands njóti þeirra mannréttinda sem samfélagið býður þegnum sínum óháð húðlit, trú osfr.
Það að gera meinta afstöðu flokkanna til afmarkaðra mála eins og landbúnaðar og sjávarútvegs að vitnisburði um sameiginlega þjóðernishyggju er langsótt speki. Í fyrsta lagi hefur afstaða í þeim málum ekkert með þjóðernishyggju að gera (Guðni Ágústssonar er ekki er enn genginn til liðs við Vg) og í öðru lagi er meint afstaða Vg í þessum málum afflutt. Sérstaða landbúnaðar í ESB er viðurkennd með ýmsum hætti þótt ekki sé þar allt eins og best væri á kosið. Hér eigum við enn ógert að skilgreina hana. Staðan í landbúnaðarmálum og matvælaframleiðslu er óviðunandi en jafnframt er ljóst að hún verður ekki leyst nema með því að taka tillit til áhrifa á byggðamál, umhverfismál og margt fleira. Patentlausnir eru ekki í boði.
Að spyrða saman afstöðu þessara tveggja flokka í sjávarútvegsmálum hlýtur að vera afleiðing ónógs nætursvefns. Í stefnu Vg segir: “Allar  auðlindir, hvort sem er til lands eða sjávar, eiga að vera ævarandi og óframseljanlegar eignir íslensku þjóðarinnar. Þjóðinni ber að njóta arðs af allri auðlindanýtingu.” Að Vg vilji ekki gjaldtöku fyrir nýtingu fiskveiðiauðlindarinnart er ekk bara í mótsögn við þessa stefnu heldur stangast á við þá staðreynd að ef einhver á heiður af því að hafa komið á veiðigjöldum, sem voru meira en orðin tóm, eru það Vinstri grænir. Sú gjaldtaka hefur skilað þjóðinni nokkrum tugum milljarða þrátt fyrir niðurrif síðustu ríkisstjórna og er það eini marktæki auðlindaarður þjóðarinnar.
Hryllingssögur um væntanlegt stjórnarsamstarf D og Vg eftir kosningar eru dapurleg lesning. Vegna ólíkra stefnumála og starfshátta er ekkert stjórnarsamstarf Vg ólíklegra annað en samstarf við hin raunverulegu þjóðerninsöfl sem Þröstur nefnir ekki á nafn. Það væri þarft verk hverjum sem vill leggja jafnaðarstefnu lið að draga fram og ræða sameiginleg verkefni þeirra sem fara vilja í þá vegferð í stað þess að efna til ýfinga þeirra á meðal.

Ein athugasemd á “Vinarkveðja

  1. Þessi skrif þín skilja meira eftir en svo að ég geti komið með einhverja gáfulega athugasemd. Ég þarf að fara í sjálfskoðun og spyrja mig spurninga.

    Ég er alltaf að býsnast yfir því að félagshyggjufólk skuli alltaf standa í stríði, ekki geta látið sér koma saman og unnið að því sem mestu skiptir.

    Eftir að hafa lesið pistil Þrastar, sem er vissulega málsmetandi, ekki síður en þú, þá skynja ég að það eru að koma kosningar og ég ekki síður en aðrar „sleggjur“ læði inn neikvæðni um áherslur félaga minna. sem ekki kjósa sama flokk og ég.

    Mér líður pínu lítið eins og Tumi Engispretta hafi sagt mér til syndanna.

    Hafðu þökk fyrir góðan pistil.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s