Auðmannagæska

Ekki er ástæða til að vanþakka vilja Mosfellinga til að lina þjáningar auðugra útlendinga. Líklegt er að bláeygð bæjarstjórn þeirra hafi verið blinduð af því glópagulli sem erlend fjárfesting hefur jafnan verið húðuð og talið að hún væri í leiðinni að efla íslenskt efnahagslíf. En ætli hinum erlendu fjárfestum hafi með staðarvalinu gengið það helst til að líkna þjáðum og efla íslenskan hag?

Efnahagsleg áhrif af atvinnustarfsemi ráðast af þeim virðisauka sem hún skapar og hvert hann fer, ekki síst hvort hann verður eftir í landinu eða fer í vasa erlendra aðila. Virðisaukinn eru allar tekjur af starfseminni, laun, fjármagnstekjur svo sem vextir og og hagnaður og eftir atvikum renta. Skattar af þessum tekjum eru sá þáttur virðisaukans sem rennur til samfélagsins. Í tilviki því sem um ræðir er þessi mynd fremur einföld. Innlend aðföng, önnur en vinnnuafl að hluta, eru óveruleg og rekstrarkostnaður að mestu laun og fjármagnskostnaður vegna húsnæðis og tæjabúnaðar. En hvert renna tekjurnar.

Fjármagnstekjur. Sjúkrahúsið á að byggja fyrir erlent lánsfé og hefur fjárfestum verið lofað góðri ávöxtun. Fjárfestarnir munu vera hollenskir og enginn skattur er lagður á vaxtagreiðslur þangað. Hvorki vaxtatekjur né skattur af þeim verða eftir í landinu.

Hagnaður. Verði hagnaður af starfseminni hér á landi ætti að leggja á hann með 20% skatt, sem er einn lægsti skattur á fyrirtæki, sem fyrirfinnst á Vesturlöndum. Líklegt er þó að skattalegum hagnaði verði eytt á pappírunum með yfirskuldsetningu gagnvart tengdum aðilum en af örlæti leyfum við slíkt fárra þjóða og er m.a. notað ótæpilega af álverum, sem fengu tryggingu fyrir því með samningunum um Reyðarál 2005. Óvarlegt er að reikna með að nokkur tekjuskattur af rekstri heilsuspítalans verði eftir í landinu.

Arður. Þrátt fyrir skattalegt tap á pappírunum kunna forsendur vera til að greiða hluthöfum arð. Arðurinn rennur til hinna erlendu hluthafa og ekki verður tekinn skattur af honum vegna ákvæða í tvísköttunarsamningi við Holland. Hvorki arður né skattur af honum verður eftir í landinu.

Laun innlends starfsfólks. Gera má ráð fyrir að nokkur hluti starfsfólks einkum í lægra launuðum þjónustustörfum og að einhverju leyti í hjúkrunarstörfum verði fólk með fasta búsetu hér á landi. Laun og tekjuskattur af fyrrnefnda hópnum skilar sér að vísu í vasa íslenskra aðila en vafasamt er hvort þar sé um að ræða viðbót við landsframleiðslu. Við hátt atvinnustig eins og nú er og verið hefur lengst af hér á landi hefur ný starfsemi ruðningsáhrif, þ.e. tekur fólk úr öðrum störfum og er þá um óverulega aukningu heildartekna að ræða.

Laun erlends starfsfólks. Líklegt er að læknar og aðrir sérfræðingar og hluti starfsfólks í séhæfðum verkefnum verði erlendir borgarar sem koma til styttri dvalar hér á landi. Hluti þeirra mun líklega dvelja hér minna en 183 daga á ári, hafa takmörkuð efnahagsleg umsvif og ekki greiða skatt hér á landi. Fyrir hinn hlutann myndi frumvarp sem fjármálaráðherra lagði fram á vorþingi 2016 koma að gagni og leiða til þess að að útsvar þeirra og tekjuskattur yrði 30 til 35% lægri en ella. Hætt er við að lítið yrði eftir af tekjum þessum í landinu auk þess ójafnræðis sem þessi reglu felur í sér.

Jákvæð efnahagsleg áhrif af rekstri heilsuspítala með þeim hætti sem lagt er upp með í Mossfellssveit yrðu óveruleg fyrir Ísland. Að vísu myndi sveitarfélagið fá í sinn hluta fasteignagjöld og ríkið fengi tryggingargjald en hafa þarf í huga að fyrirtækið og starfsmenn þess ættu rétt á opinberri þjónustu í sama mæli og aðrir sem hér búa og að komið hefur fram að gert sé ráð fyrir enn frekari ívilnunum sem skerða myndi þær tekjur. Tekjur opinberra aðila yrðu því litlar.

Kann það að vera að auðmannagæskan hafi ekki ein ráðið staðarvalinu heldur hafi Ísland haft betur í samkeppni við Tortóla?

Verharmlosung

Greinarstúfur um orðræðuna og sakleysið. Birtist í Kjarnanum 12. 4. 2016.

Kannske veldur kunnáttuskortur því að ég finn ekki gott íslenskt orð yfir þýska orðið “Verharmlosung” eða sagnorðið “verharmlosen”, sem það er dregið af. Merkingin er að láta eitthvað líta sakleysislega út þótt það sé það ekki í reynd. Það er gert á margvíslegan hátt t.d. með því að kalla hlutina sakleysislegum nöfnum, nota orð með óljósri merkingu, nota merkingarlausa orðaleppa, snúa út úr merkingu orða eða með öðrum orðhengilshætti. Í orrahríð síðustu daga má sjá margar tilraunir í þessa veru.

Algengasta dæmið er líklega orðskrípið “utanumhald” og orðasambandið “að halda utan um eiithvað.” Þannig lesum við að félög hafi verið stofnuð til að “halda utan um” peninga, sjóði, íbúðir eða fasteignir o.fl. Það kveikir mynd af góðlegri konu á sólríkri strönd með nokkra dollara í hendinni eða af húskarli að dytta að kofa eigandans. …………  frh.  Verharmlosung

Heiðursborgarar á Tortóla

Meinsemd skattaskjóla er alþekkt og ætti að vera flestum kunn eftir afhjúpun Panama-skjalanna. Skattaskjólin eru:

 • Vettvangur skattsvika af stærðargráðu sem er óskiljanleg fyrir venjulegt fólk.
 • Vettvangur þeirra sem fría sig frá skyldum við það samfélag sem hefur fóstrað þá og alið.
 • Vettvangur þar sem ágóði af hvers kyns glæpastarfsemi og öðru illa fengnu fé er blandað í leynisjóði stórfyrirtækja og auðkýfinga og hvítþvegið.
 • Vettvangur sem alþjóðafyrirtæki nota til að færa hagnað sinn út úr þeim löndum þar sem hann varð til og ætti að skattleggjast.
 • Vettvangur  þar sem leynd verndar þau viðskipti sem ekki þola dagsins ljós.
 • Vettvangur sem gerir sumum mögulegt að losna undan þeim lögum sem gilda fyrir aðra í heimalandinu og flestum siðuðum ríkjum.

Reynslan af alþjóðlegum fjármálabólum og hruni hefur sýnt að skattaskjólin eru óheillavaldar. Þau eru meinvarp í alþjóðahagkerfinu, ógnun við fjárhag einstakra ríkja og gróðrarstía spillingar. Hrunið til viðbótar við fyrri reynslu leiddi til þess að fjölþjóðasamtök settu stóreflda baráttu gegn skattaskjólum á stefnuskrá sína með það að markmiði að útrýma þeim. Afhjúpun Panama-skjalanna hefur gefið þeirri baráttu aukin byr í seglin. Krafa almennings í flestum ríkjum og yfirlýsingar ráðamanna í þeim er skýr stuðningur við þessa stefnu.

Ísland er aðili að sumum þessara stofnana t.d. OECD, sem staðið hefur framalega í baráttunni. Það kemur því verulega á óvart að fyrstu yfirlýsingar endurnýttra ráðamanna eftir að fyrri leiðtogi þeirra verður að víkja vegna starfsemi í skattaskjóli skuli vera þess efnis að það sé í lagi að eiga fé í skattaskjóli. Forystumenn flestra ríkja krefjast þess nú að nákvæm rannsókn fari fram á þeim sem uppvísir hafa orðið að leynibraski. Íslenskir valdhafar telja að kattarþvottur með óljósum og ósönnuðum yfirlýsingum sé nægilegur til að áfram verði haldið að blekkja almenning og skaða þjóðina.

Það er ekki ónýtt fyrir skattaskjólin og viðskiptafélaga þeirra að fá þannig siðferðisvottorð frá ríki sem státar sig (með réttu eða röngu) af því að vera elsta lýðræðisríki heims og (líka með réttu eða röngu) að vera meðal þeirra ríkja þar sem mannréttindi, jafnrétti og velferð allra þegna samfélagsins eru grundvallarmál. Þetta siðferðisvottorð ráðmanna er enn furðulegra í ljósi þess:

 • Að Ísland verður fyrir tilstuðlan skattaskjóla árlega af skatttekjum sem að lágmarki eru 30 – 50 milljarðar króna.
 • Að tugum milljarða af hagnaði af nýtingu á orkuauðlindum landsins er komið undan skattlagningu með atbeina skattaskjóla.
 • Að verulegur hluti arðs af fiskveiðiauðlindinni kann einnig að vera vistaður í skattaskjólum.
 • Að í aðdraganda hrunsins voru hundruðir milljarða króna sogaðir út úr íslenska hagkerfinu inn í einkahlutafélög Íslendinga í skattaskjólum.
 • Að hluti Íslendinga, sem hefur til þess aðstöðu, getu og geð, segir sig undan íslenskum lögum og athafnar sig utan þess réttarkerfis sem vestræn samfélög hafa sett atvinnurekstri.
 • Að hluti Íslendinga hefur með því að vista eigur sínar í skattaskjólum komið sér undan afleiðingum hrunsins og jafnvel hagnast á óförum annarra.

Það undarlegasta er þó að þeir sem svona tala eru valdir til æðstu metorða á Íslandi í stað þess að vera gerðir að heiðursborgurum á Tortóla.

Óvinurinn

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Að ábendingu góðs manns, las ég það í grein á Pressunni eftir alþingismanninn Karl Garðarsson að ég væri “yfirlýst(ur)” andstæðingur Sigmundar Davíðs. Því fylgdi hann eftir með því að kalla mig og fleiri “bullandi hlutdrægt fólk” Engar vísbendingar voru þó um hvar meinta yfirlýsta andstöðu væri að finna eða vitnisburð um bullandi hlutdrægni.

Tilefni þessarar atlögu þingmannsins eru viðræður sem ég átti við dagskrárgerðarmann á rás 1 að morgni mánudagsins 21. mars um skattaskjól. Tilgangurinn virðist ekki að koma höggi á mig heldur verð ég fórnarlamb við smíði hans á kenningu um ofsóknaráráttuhegðun RUV gegn forsætisráðherra og Framsóknarflokknum. Glöggir hlustendur geta sannfært sig um það að í þessum viðræðum tók ég aldrei í munn mér nafn forsætisráðherra eða flokks hans og vék ekki orði að þeim atburðum sem hafa verið tilefni til mikillrar umræðu á síðustu dögum. Um viðmælanda minn Óðinn Jónsson er sama að segja. Hann beindi aldrei spurningum sínum eða tali að þeim atburðum, flokknum eða forsætisráðherra.

Nú má vel vera að þingmaðurinn trúi sjálfur á eigin ofsóknarkenningu. En hvernig hann getur tekið þetta viðtal sem dæmi til að sanna hana er óskiljanlegt. Enn síður fæ ég skilið þau rök hans að ég sé andstæðingur Sigmundar Davíðs. Sú fullyrðing er byggð á atriðum, sem sýna það eitt að pennanum var ekki stýrt af vitrænni hugsun skrifarans. Ég hef ekki lagt það í vana minn að draga menn í dilka og merkja einhverja þeirra sem andstæðinga eða óvini. Það á líka við um Sigmund Davíð. Ég hef aldrei litið á hann sem andstæðing sem þýðir þó ekki að ég sé honum ætíð sammála og enn síður að ég hafi gert hann að leiðtoga lífs míns. Áskil ég mér allan rétt til að gagnrýna eða styðja hans mál eftir atvikum hverju sinni.

Enn síður er vitrænt samhengið í því að bendla mig við óvináttu við Framsóknarflokkinn. Reyndar er það svo að ég get ekki þrætt fyrir að hafa einhvern tíma kosið þann flokk og móðir mín sáluga kaus Framsókn svo lengi sem ég veit. Gott fylgi Framsóknar meðal kvenna í minni sveit var stundum skýrt með því að frambjóðendur þess flokks hefðu haft meiri þokka til að bera en frambjóðendur Íhaldsins, sem faðir minn, tvímenningur við fyrsta formann Sjálfstæðisflokksins, taldi sér skylt að styðja. Hvað hann gerði allt til 1980 þegar hann, kominn á tíræðisaldur en vel ern og víðsýnni með aldrinum, lét heillast af Vigdísi Finnbogadóttur. Ég á sem sé rætur að jöfnu í Framsókn og Íhaldi og hef enga ástæðu til að líta á þá flokka sem óvini mína jafnvel þótt þeir hafi breyst frá þeim góðu gömlu tímum.

Ég verð að álíta að alþingismaðurinn hafi í einhverju ójafnvægi og athugunarleysi sett á blað þau orð um mig, sem fram koma í grein hans. Þar sem þau eru hvorki særandi né ærumeiðandi hirði ég ekki um að krefjast leiðréttingar eða afsökunar frá honum. Ef hann skyldi lesa þessi orð mín vil ég þó beina til hans þeim kurteislegu tilmælum að láta það vera í framtíðinni að gera mér upp skoðanir.

Dyrhólaey og Gísli B. Björnsson

Dyrhólaey, móbergsstapi með dröngum úti fyrir, er glæsilegur útvörður landsins í suðri. Eyjan er vinsælt viðfang ljósmyndara hvort sem myndað er úr austri eða vestri og hefur verið fyrirsæta myndlistamanna. Mynd sem ég tók af Dyrhólaey úr Reynisfjöru á miðnætti 30 júní 2011 hef ég í nokkur ár notað sem kennimynd á vefsíðu minni sem og á fésbók minni https://www.facebook.com/inhauth.

Fyrir nokkrum vikum leit ég við á vinnustofu Gísla B. Björnssonar og sá þar lítið málverk sem hann hafði gert fyrir nokkrum árum af Dyrhólaey séðri úr Reynisfjöru. Ég get ekki neitað því að ég fylltist nokkru stolti yfir að hafa fest á filmu sömu sýn og mikill meistari forms og lita hafði hrifist af og túlkað á myndfleti sínum.

Hér að neðan má sjá ljósmynd mína og mynd af málverki Gísla B. og er ég ábyrgur fyrir ófullnægjandi litgæðum.

IMG_0335

p63012002.jpg