Heiðursborgarar á Tortóla

Meinsemd skattaskjóla er alþekkt og ætti að vera flestum kunn eftir afhjúpun Panama-skjalanna. Skattaskjólin eru:

 • Vettvangur skattsvika af stærðargráðu sem er óskiljanleg fyrir venjulegt fólk.
 • Vettvangur þeirra sem fría sig frá skyldum við það samfélag sem hefur fóstrað þá og alið.
 • Vettvangur þar sem ágóði af hvers kyns glæpastarfsemi og öðru illa fengnu fé er blandað í leynisjóði stórfyrirtækja og auðkýfinga og hvítþvegið.
 • Vettvangur sem alþjóðafyrirtæki nota til að færa hagnað sinn út úr þeim löndum þar sem hann varð til og ætti að skattleggjast.
 • Vettvangur  þar sem leynd verndar þau viðskipti sem ekki þola dagsins ljós.
 • Vettvangur sem gerir sumum mögulegt að losna undan þeim lögum sem gilda fyrir aðra í heimalandinu og flestum siðuðum ríkjum.

Reynslan af alþjóðlegum fjármálabólum og hruni hefur sýnt að skattaskjólin eru óheillavaldar. Þau eru meinvarp í alþjóðahagkerfinu, ógnun við fjárhag einstakra ríkja og gróðrarstía spillingar. Hrunið til viðbótar við fyrri reynslu leiddi til þess að fjölþjóðasamtök settu stóreflda baráttu gegn skattaskjólum á stefnuskrá sína með það að markmiði að útrýma þeim. Afhjúpun Panama-skjalanna hefur gefið þeirri baráttu aukin byr í seglin. Krafa almennings í flestum ríkjum og yfirlýsingar ráðamanna í þeim er skýr stuðningur við þessa stefnu.

Ísland er aðili að sumum þessara stofnana t.d. OECD, sem staðið hefur framalega í baráttunni. Það kemur því verulega á óvart að fyrstu yfirlýsingar endurnýttra ráðamanna eftir að fyrri leiðtogi þeirra verður að víkja vegna starfsemi í skattaskjóli skuli vera þess efnis að það sé í lagi að eiga fé í skattaskjóli. Forystumenn flestra ríkja krefjast þess nú að nákvæm rannsókn fari fram á þeim sem uppvísir hafa orðið að leynibraski. Íslenskir valdhafar telja að kattarþvottur með óljósum og ósönnuðum yfirlýsingum sé nægilegur til að áfram verði haldið að blekkja almenning og skaða þjóðina.

Það er ekki ónýtt fyrir skattaskjólin og viðskiptafélaga þeirra að fá þannig siðferðisvottorð frá ríki sem státar sig (með réttu eða röngu) af því að vera elsta lýðræðisríki heims og (líka með réttu eða röngu) að vera meðal þeirra ríkja þar sem mannréttindi, jafnrétti og velferð allra þegna samfélagsins eru grundvallarmál. Þetta siðferðisvottorð ráðmanna er enn furðulegra í ljósi þess:

 • Að Ísland verður fyrir tilstuðlan skattaskjóla árlega af skatttekjum sem að lágmarki eru 30 – 50 milljarðar króna.
 • Að tugum milljarða af hagnaði af nýtingu á orkuauðlindum landsins er komið undan skattlagningu með atbeina skattaskjóla.
 • Að verulegur hluti arðs af fiskveiðiauðlindinni kann einnig að vera vistaður í skattaskjólum.
 • Að í aðdraganda hrunsins voru hundruðir milljarða króna sogaðir út úr íslenska hagkerfinu inn í einkahlutafélög Íslendinga í skattaskjólum.
 • Að hluti Íslendinga, sem hefur til þess aðstöðu, getu og geð, segir sig undan íslenskum lögum og athafnar sig utan þess réttarkerfis sem vestræn samfélög hafa sett atvinnurekstri.
 • Að hluti Íslendinga hefur með því að vista eigur sínar í skattaskjólum komið sér undan afleiðingum hrunsins og jafnvel hagnast á óförum annarra.

Það undarlegasta er þó að þeir sem svona tala eru valdir til æðstu metorða á Íslandi í stað þess að vera gerðir að heiðursborgurum á Tortóla.

4 athugasemdir á “Heiðursborgarar á Tortóla

  1. Sænska sjónvarpið um Panamaskjölin, þýska sjónvarpið ZDF og Süddeutsche Zeitung um það sama, áætlun EU um tap aðildarríkjanna vegna skattsvika, skrif OECD um skattaskjól og skattsvik, greinar hér á síðunni um álfyrirtækin og umfjöllun í Kastljósi um þau á síðustu árum svo eitthvað sé nefnt.

   Líkar við

   1. takk fyrir svarið. Best væri fyrir mig að fá heimildir í leitanlegu (þ.e. stafrænu formi), en ég get amk skoðað síðuna þína (sem ég tók ekki eftir áður).

    En já, það eru líka lögmætar ástæður fyrir því að nota fyrirtæki í „skattaskjóla“-löndum sbr. http://imgur.com/bmKKBwr
    Satt best að segja sé ég samt ekki neitt þarna geta átt við okkar ráðherra.

    sem leiðir okkur að því að ef þetta er allt rétt hér, HVERNIG Í ANDSKOTANUM VIÐGENGST ÞETTA hér á landi og annars staðar?

    Líkar við

 1. Sæll Indriði.
  Hvaða heimild hefur þú fyrir: „Að Ísland verður fyrir tilstuðlan skattaskjóla árlega af skatttekjum sem að lágmarki eru 30 – 50 milljarðar króna.“?
  Kv. Gunnar

  Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s