Óvinurinn

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Að ábendingu góðs manns, las ég það í grein á Pressunni eftir alþingismanninn Karl Garðarsson að ég væri “yfirlýst(ur)” andstæðingur Sigmundar Davíðs. Því fylgdi hann eftir með því að kalla mig og fleiri “bullandi hlutdrægt fólk” Engar vísbendingar voru þó um hvar meinta yfirlýsta andstöðu væri að finna eða vitnisburð um bullandi hlutdrægni.

Tilefni þessarar atlögu þingmannsins eru viðræður sem ég átti við dagskrárgerðarmann á rás 1 að morgni mánudagsins 21. mars um skattaskjól. Tilgangurinn virðist ekki að koma höggi á mig heldur verð ég fórnarlamb við smíði hans á kenningu um ofsóknaráráttuhegðun RUV gegn forsætisráðherra og Framsóknarflokknum. Glöggir hlustendur geta sannfært sig um það að í þessum viðræðum tók ég aldrei í munn mér nafn forsætisráðherra eða flokks hans og vék ekki orði að þeim atburðum sem hafa verið tilefni til mikillrar umræðu á síðustu dögum. Um viðmælanda minn Óðinn Jónsson er sama að segja. Hann beindi aldrei spurningum sínum eða tali að þeim atburðum, flokknum eða forsætisráðherra.

Nú má vel vera að þingmaðurinn trúi sjálfur á eigin ofsóknarkenningu. En hvernig hann getur tekið þetta viðtal sem dæmi til að sanna hana er óskiljanlegt. Enn síður fæ ég skilið þau rök hans að ég sé andstæðingur Sigmundar Davíðs. Sú fullyrðing er byggð á atriðum, sem sýna það eitt að pennanum var ekki stýrt af vitrænni hugsun skrifarans. Ég hef ekki lagt það í vana minn að draga menn í dilka og merkja einhverja þeirra sem andstæðinga eða óvini. Það á líka við um Sigmund Davíð. Ég hef aldrei litið á hann sem andstæðing sem þýðir þó ekki að ég sé honum ætíð sammála og enn síður að ég hafi gert hann að leiðtoga lífs míns. Áskil ég mér allan rétt til að gagnrýna eða styðja hans mál eftir atvikum hverju sinni.

Enn síður er vitrænt samhengið í því að bendla mig við óvináttu við Framsóknarflokkinn. Reyndar er það svo að ég get ekki þrætt fyrir að hafa einhvern tíma kosið þann flokk og móðir mín sáluga kaus Framsókn svo lengi sem ég veit. Gott fylgi Framsóknar meðal kvenna í minni sveit var stundum skýrt með því að frambjóðendur þess flokks hefðu haft meiri þokka til að bera en frambjóðendur Íhaldsins, sem faðir minn, tvímenningur við fyrsta formann Sjálfstæðisflokksins, taldi sér skylt að styðja. Hvað hann gerði allt til 1980 þegar hann, kominn á tíræðisaldur en vel ern og víðsýnni með aldrinum, lét heillast af Vigdísi Finnbogadóttur. Ég á sem sé rætur að jöfnu í Framsókn og Íhaldi og hef enga ástæðu til að líta á þá flokka sem óvini mína jafnvel þótt þeir hafi breyst frá þeim góðu gömlu tímum.

Ég verð að álíta að alþingismaðurinn hafi í einhverju ójafnvægi og athugunarleysi sett á blað þau orð um mig, sem fram koma í grein hans. Þar sem þau eru hvorki særandi né ærumeiðandi hirði ég ekki um að krefjast leiðréttingar eða afsökunar frá honum. Ef hann skyldi lesa þessi orð mín vil ég þó beina til hans þeim kurteislegu tilmælum að láta það vera í framtíðinni að gera mér upp skoðanir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s